Umræða fréttir

Samskipti lækna og lyfjafyrirtækja Samningur milli Læknafélags Íslands og Samtaka verslunarinnar

Læknafélag Íslands og Samtök verslunarinnar f.h. lyfjafyrirtækja, gera með sér svofelldan samning um samstarf lækna og fyrirtækja, sem framleiða og flytja inn lyf:



Markmið

1. gr.

Samskipti lækna og lyfjafyrirtækja eru nauðsynlegur þáttur í þróun sífellt betri lyfjameðferðar við sjúkdómum og í fræðslu lækna á meðferð með lyfjum. Læknar og lyfjafyrirtæki hafa gagnkvæma hagsmuni af samskiptum sín á milli að því markmiði að bæta meðferð sjúkdóma og líðan sjúklinga. Læknafélag Íslands og Samtök verslunarinnar f.h. lyfjafyrirtækja eru sammála um, að samskiptum lækna og lyfjafyrirtækja skuli þannig háttað hverju sinni, að hvor aðili sé hinum óháður í einu og öllu.

Hafa Læknafélag Íslands og Samtök verslunarinnar, f.h. lyfjafyrirtækja samið eftirfarandi reglur til að stuðla að sjálfstæði lækna og lyfjafyrirtækja í samskiptum sín á milli.



Fræðsla og kynningar

2. gr.

Markmið lyfjakynninga lyfjafyrirtækja er að fræða lækna um ný lyf og notkun lyfja. Lyfjakynningar skulu að jafnaði fara fram á vinnustað lækna. Fræðslan skal vera samkvæmt fyrirfram skipulagðri dagskrá. Hún skal vera hlutlæg, nákvæm og sönn og í samræmi við lög og almennt siðferði. Þar skal veitingum mjög stillt í hóf.

3. gr.

Fræðslufundir fyrir lækna, sem haldnir eru á vegum lyfjafyrirtækja, skulu skipulagðir fyrirfram í samráði við lækni(a). Læknar ákveða sjálfir form og efni fyrirlestra, sem þeir flytja á þeim fundum. Í dagskrá þeirra funda skal greinilega skilja hinn faglega þátt lækna frá þætti auglýsinga og kynninga lyfjafyrirtækja á lyfjum.

Eðlilegt er, að læknar, sem flytja erindi á fundum á vegum lyfjafyrirtækja, fái greitt sanngjarnt endurgjald fyrir vinnuframlag sitt og útlagðan kostnað. Efni frá fundum skal gefið út í samráði lækna og lyfjafyrirtækja, svo tryggja megi, að það gefi rétta mynd af framsettu efni.

Styrki lyfjafyrirtæki fundi, námskeið eða málþing, sem haldin eru á vegum lækna eða fundi, námskeið og málþing, sem læknar taka þátt í, skal þess getið í fundarboði og í upphafi viðkomandi fundar.

Á fundum, námskeiðum og málþingum, sem læknar halda fyrir lækna, er heimilt að gefa lyfjafyrirtækjum kost á að auglýsa framleiðslu sína og þjónustu með samningi gegn gjaldi.

4. gr.

Læknir(ar) getur þegið styrki frá lyfjafyrirtækjum til að sækja fræðslufundi erlendis sem þjóna eðlilegum markmiðum viðhalds- og endurmenntunar lækna um lyf og notkun lyfja. Eðlilegt er að útlagður kostnaður læknis sé greiddur vegna ferða og gistingar. Sá kostnaður skal almennt vera hóflegur. Ekki er við hæfi að bjóða eða þiggja ferðir, sem hafa að höfuðmarkmiði að koma framleiðslu lyfjafyrirtækjanna á framfæri. Ekki er við hæfi að greiddur sé kostnaður maka eða annarra ferðafélaga lækna í slíkum ferðum.



Rannsóknarsamstarf

5. gr.

Eðlilegt er að læknar og lyfjafyrirtæki hafi með sér rannsóknarsamstarf við lyfjarannsóknir. Í því samstarfi ber að virða gildandi lög og reglur, Helsinkiyfirlýsinguna frá 1964 með síðari breytingum og reglur um "Good Clinical Practice". Þá skulu aðilar í byrjun gera skriflegan samning, sem kveður á um hlutverk læknisins í rannsókninni og vinnuframlag hans. Í rannsóknarsamstarfi er lækni(um) heimilt að gera samning við lyfjafyrirtæki um sanngjarna þóknun fyrir vinnuframlag og útlagðan kostnað. Einnig skal í samningi um rannsóknarsamstarf kveðið á um hvernig nota eigi niðurstöður viðkomandi rannsóknar(a).



Önnur samskipti

6.gr.

Læknar geta tekið þátt í eða séð um að útbúa fræðsluefni fyrir lyfjafyrirtæki enda sé höfundar getið á útgáfunni.

Læknar geta tekið að sér ráðgjafarstörf með samningi við lyfjafyrirtæki.



7. gr.

Ávallt skal getið um störf og ráðgjöf lækna í þágu lyfjafyrirtækja er þeir fjalla í máli eða á prenti um málefni er tengjast lyfjafyrirtækjum.

8.gr.

Lyfjakynnar mega ekki bjóða læknum fé eða gjafir gegn viðtali og læknar mega ekki fara fram á slíkt.

9. gr.

Samningur þessi tekur gildi þegar hann hefur verið samþykktur á aðalfundi Læknafélags Íslands og af Lyfjahópi Samtaka verslunarinnar og tilkynning þar um hefur borist samningsaðila skriflega. Hann skal endurskoðaður fyrir 1. janúar 2003.

Samningur þessi var samþykktur á aðalfundi Læknafélags Íslands á Ísafirði 26. ágúst 2000 og á félagsfundi í lyfjahópi Samtaka verslunarinnar hinn 14. september 2000.



Kópavogi 19. október 2000

F.h. Læknafélags Íslands

Sigurbjörn Sveinsson (sign)

F.h. Lyfjahóps Samtaka verslunarinnar

Guðbjörg Alferðsdóttir (sign)

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica