Umræða fréttir

Framtíðin björt í hjartaflutningum

Þótt Christiaan Barnard í Suður-Afríku hafi orðið fyrstur til að flytja hjarta á milli manna er Norman E. Shumway stundum nefndur faðir hjartaflutninganna. Þekking sú sem fyrir hendi var er Barnard framkvæmdi fyrstu hjartaflutningana árið 1967 byggðist að verulegu leyti á rannsóknum Shumways við Stanfordháskóla og aðeins mánuði eftir að hjartaflutningur Barnards hafði komist í heimspressuna framkvæmdi hann svipaða aðgerð. Shumway er nú 76 ára að aldri og spilar golf af miklum móð en gaf sér þó tíma til að hitta blaðamann Tímarits norsku læknasamtakanna nýverið. Meðal þess sem Shumway var spurður um var hvort hann teldi að önnur tækni myndi leysa hjartaflutninga af hólmi. Hann taldi það ósennilegt og þörfin fyrir slíka tækni yrði áfram til staðar. Með stórbættri tækni og vinnubrögðum taldi hann að vandamál varðandi hjartaflutninga yrðu sífellt minni en vandamálið væri eftir sem áður of fáir hjartagjafar. Hann er vantrúaður á að vélar muni leysa skurðlækna af hólmi í svo vandasömum aðgerðum. Skoðun og mat skurðlæknis á því sem hann sér með eigin augum sem ræður að hans mati alltaf úrslitum um vel heppnaða hjartaflutninga.Heimild

Tidsskrift for Den norske lægeforening 20/200.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica