Umræða fréttir

Gömul læknisráð: "Tönnin græðir, en tungan særir"

Um tönn

Mér er um tönn að gera þetta sögðu menn í gamla daga um eitthvað sem þeim var illa við. Ég fletti upp í svörum við spurningaskrá nr. 29 á þjóðháttadeild, Maðurinn, þættir úr þjóðtrú, til að skoða ráð við tannverk. Þar var sannarlega um auðugan garð að gresja, ekki bara varðandi það sem ég var að leita að heldur einnig um tannfé, orðtök og ýmiss konar seremóníur sem tengdust lausatönnum. Þar fann ég einnig þessa ágætu vísu um baknag:


Mörður týndi tönnum

til bar það af því

hann beit í bak á mönnum

svo beini festi í.


Slæm tannpína er eitt af því kvalafyllsta sem getur hent og ég hef oft hugsað til þess hvað menn hafi tekið til bragðs þegar erfitt eða ómögulegt var að nálgast læknishjálp og deyfilyf. Þegar ég var unglingur var ég einu sinni frávita af tannpínu við þær kringumstæður. Eftir að hafa árangurslaust tuggið brennistein af eldspýtum ofan í tönnina og troðið í hana neftóbaki fannst loks í húsinu séníverlögg á brúsa, henni var blandað út í nýmjólk og svo tók ég fyrir nefið og svelgdi í mig heilt glas. Þetta tók sárasta broddinn úr en síðan hef ég ekki getað fundið lykt af séníver án þess að líða illa - enda óvön bæði tóbaki og áfengi í þá tíð. Sem sagt, ég veit að maður gerir hvað sem er til að losna við slæma tannpínu. Heimildarmaður einn, sem hafði þjáðst af sárri tannpínu, hljóp til læknis um 40 km leið nánast í einum áfanga, því að verkurinn herti svo á honum, en um leið og hann kom inn á læknastofuna hvarf tannpínan og var sagt að slíkt gerðist oftar en ekki þegar að tanndrætti kæmi.

Að setja tóbak í veika tönn virðist vera það ráð við tannpínu sem var best þekkt á fyrri hluta aldarinnar, en auk þess voru notuð efni af ýmsu tagi til dæmis kamfórudropar, kreósót, karbólvatn, joð, kogaraspritt og efni sem kallað var dentín eða tanndropar og fékkst að minnsta kosti til skamms tíma. "Þegar hola var komin í tönn var hún þvegin með bómull á eldspýtuenda úr kogerspritti, tanndropar settir í bómull og troðið í holuna," segir einn heimildarmanna.

Og svo voru mun "óvísindalegri" aðferðir. Vestfirskur heimildarmaður segir:

"Tannpína þótti jafnan mjög hvimleiður sjúkdómur. Ótal ráð voru reynd við að lina þrautir þeirra er hana fengu. Eflaust er elsta ráðið sem lifði í trú fólks, að lækna mætti tannpínu með því að grafa ofan í vígða mold, þ.e. leiði í kirkjugarði, og taka þar mold og láta hana síðan ofan í tannholuna, en all mikið mun sú trú hafa verið farin að dofna í lok 19. aldar. En víst voru ótal ráð reynd svo sem bakstrar, bæði heitir og kaldir, plástrar, tóbak og þótti tóbakssósa stundum hafa svíandi áhrif er hún var látin ofan í tönnina, en það olli ógleði og jafnvel uppsölu. Einnig voru grafnar upp jurtarætur er voru mjög beiskar, soðnar saman í mauk og haft í munni sér, má þar til nefna blóðbergsrætur, njólarætur, hvannarætur er voru mjög súrar og beiskar. Mun þetta sums staðar hafa verið tekið að haustinu og soðið saman á ýmsan hátt og blandað jafnvel tóbakssósu í. Varð þetta þykkur lögur sem varla rann. Var þetta látið í teskeið ofan í tönnina og þótti oft gefa bata eða lina verki."

Fleiri fornleg ráð á borð við kirkjugarðsmoldina voru í minni manna sem svöruðu spurningaskránni. Einn hafði heyrt að dauðs manns bein - annar tiltók sérstaklega kjálka - hefði átt að leggja við kinnina þar sem tönnin var, annar að tönn úr dauðum manni skyldi leggja við veiku tönnina. Þá átti tannpínan að fara í þann dauða sem þá ærðist í gröf sinni. Sót, pipar, hlandsteinn, eyrnamergur, vel súrt skyr og þvottasódi í veika tönn voru einnig nefnd. Menn héldu uppi í sér köldu vatni og létu ísmola bráðna við tönnina. Bakstrar af ýmsu tagi voru lagðir við bólgnar kinnar. Meðal annars bakstrar sem brenndu "áttu að draga út" eins og kallað var. Það voru sinnepsbakstrar, steinolíubakstrar og jafnvel grænsápubakstrar. Heitir saltbakstrar voru gerðir, saltið var þá hitað á pönnu og látið í smápoka eða vettling, volgri kúamykju var skellt á vangann og tveir heimildarmanna nefndu að ánamaðkar væru notaðir þegar mikil bólga hljóp í kjammann: "...þegar þeir fyrstu er settir voru við voru dauðir þá voru sóttir aðrir nýir og líka látnir drepast, og svo þeir þriðju. Allt er þá þrennt er. Ef það dugði ekki var hætt við þá tilraun." Arfabakstrar, kornbakstrar og kaffibaunabakstrar voru einnig nefndir.

Heimildarmaður úr Eyjafirði segir um þetta:

"Mjög algengt var nú að brenna vangann sem tannpínan lá í. Eftir að ég man eftir var oftast notuð til þess steinolía eða spanskfluguplástur, sem hægt var að kaupa. Þá heyrði ég talað um að notaðar hafi verið sóleyjar. Verra var þegar notaður var kúamykjuplástur, tekin volg kúamykja og látin í poka, sem lagður var svo við vangann. En verstur held ég þó að gylliniplásturinn hafi verið, en það var mannaskítur, sem látin var í poka og lagður við þrautir, bæði tannpínu og fleiri þrautir. Eftir að ég man til voru oft notaðir saltbakstrar bæði við tannpínu og innanþrautum. Svo var lagt tóbak við tönnina ýmist rjól, munntóbak eða baðtóbak. En þeim sem óvanir voru tóbaki varð þá vanalega illt og seldu upp, en þá var sagt, að tannpínan batnaði. Þá heyrði ég talað um að þeir sem harðgerastir voru hafi glóhitað bandprjón eða annað grannt járn og rekið ofan í tönnina eða niður með henni."

Þá voru ráð sem höfðu það meðal annars að markmiði að dreifa huga sjúklingsins eða valda honum sterkum kenndum, til dæmis að reykja pípu þangað til mönnum varð óglatt eða féllu í rot, að drekka mikið brennivín eða tyggja munntóbak þangað til menn, einkum þeir sem óvanir voru, fengu uppköst og svima. Urðu menn þá oft örmagna og sofnuðu á eftir.

Í sumum sveitum drógu laghentir menn úr tennur með sérstökum töngum, tanntöngum, þegar mikið lá við og ekki náðist í lækni. Það var nefnt að prestar hefðu stundum haft slíkar tengur til að grípa til í neyð. Og einstaka harðjaxlar fengu sterka menn til að kippa úr sér veikum tönnum með naglbít. Þá var til að menn drægju tennur úr sér sjálfir með bandi. Hér eru að lokum tvær sögur af slíku:

"Það var brugðið seglgarni utan um sjúku tönnina, hinum endanum var vafið um hönd sér, síðan settist maðurinn á rúm og réri fram í gráðið, þá tók hann bakfall, stríkkaði þá snögglega á garninu og gátu sumir þannig losnað við sjúku tönnina, en aðrir sátu með hana eftir sem áður."

"Ég man eftir því að móðir mín dró úr sér tönn. Hún brá lykkju af sterku bindigarni um tönnina, annarri lykkju um rúmstólpann og hviss, hún kippti snöggt í, og búið, hrossaaðferð."Þetta vefsvæði byggir á Eplica