Umræða fréttir

Lyfjamál 82: Notkun sveppalyfja í flokki húðlyfja (ATC-D01A og D01B) 1990-1999

Í meðfylgjandi línuritum er stuðst við rauntölur hvers árs nema 1999, en þar eru tölur framreiknaðar fyrir árið á grundvelli fyrstu níu mánaða ársins. Útvortis sveppalyf á skrá nú eru klótrímazól, míkónazól, ekónazól, ketókónazól, terbínafín og amolfín. Þrjú þau fyrstnefndu komu á markað hér á árunum 1978-1982 og notkun þeirra fer nú minnkandi. Ketókónazól kom á markað 1989 og notkun þess jókst nokkuð hratt til 1995 en hefur svo farið minnkandi enda þótt það sé enn mest notað. Amorolfín og terbínafín komu á markað 1992 og 1993 og notkun terbínafíns vex nú hratt.

Aðeins eitt sveppalyf til inntöku gegn húðsveppum, terbínafín, er nú á skrá hér. Það var skráð 1993 og stendur fyrir hinni miklu kostnaðaraukningu í þessum flokki. Það ruddi úr vegi gríseófúlvíni sem var afskráð 1997 eftir að notkun þess hafði farið jafnt og þétt minnkandi. Notkun terbínafíns vex nú aftur hratt eftir nokkuð hægari vöxt á árunum 1995 til 1998.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica