Umræða fréttir

Um hóptryggingu lækna

Svar við bréfum Guðmundar Helga Þórðarsonar læknisGuðmundur Helgi Þórðarson læknir hefur fjallað um hóptryggingarsamning lækna í tveimur greinum í Læknablaðinu og beint fyrirspurnum til stjórnar af því tilefni.

Um hóptryggingu lækna má almennt segja í byrjun að LÍ hafi í fjölda ára greitt félagsmönnum leið að góðum tryggingum á hagstæðari kjörum en almennt bjóðast á almennum markaði. Markmið félagsins hafa verið að ná öflugri vátryggingavernd fyrir félagsmenn sem eftir því leita og um leið hagstæðum iðgjöldum. Félagið annast innheimtu og greiðslu iðgjaldanna sem leiðir til hagstæðari kjara á iðgjöldum þeirra sem aðild eiga að tryggingunni en ella bjóðast. Var fyrsti samningurinn um hóptryggingu lækna gerður árið 1971 og samið á ný 1986 og aftur 1995. Á hverjum tíma var skoðað hvaða kostir voru í boði um verð og vátryggingavernd á markaðnum og gengið til samninga um þá skilmála sem þóttu hagstæðastir. Í dag eiga 311 læknar aðild að hóptryggingu lækna og 142 makar lækna.

Grunntryggingar í núgildandi samningi eru líftrygging og sjúkra- og slysatrygging. Til viðbótar bjóðast afkomutrygging og líftrygging fyrir maka lækna. Skilmálar eru í öllum aðalatriðum samhljóða skilmálum fyrir sambærilegar einstaklingsbundnar tryggingar á markaðnum meðal annars um áhættuupplýsingar tryggingataka. Þess má þó geta að við endurnýjun hóptryggingarsamningsins 1995 var þeim læknum sem aðild áttu að eldri tryggingu ekki gert að afla nýrra heilsufarsyfirlýsinga vegna nýju tryggingaskilmálanna, sem er almennt skilyrði aðildar að tryggingunni.

Vegna fyrirspurnar Guðmundar Helga um hve mörgum hafi verið meinuð aðild að hóptryggingu lækna leitaði ég svara hjá Samlífi. Samkvæmt upplýsingum tryggingafélagsins hafa mjög fáir læknar fengið neitun um aðild að hóptryggingu lækna, - þeir verða taldir á fingrum annarrar handar. Þeir munu vera jafnfáir sem fengið hafa frestun á tryggingu. Samkvæmt starfsmanni Samlífs eru það niðurstöður úr breskum rannsóknum að um 2% umsókna um tryggingavernd sé hafnað af tryggingafélögum og að á um 5-7% umsækjenda leggist álag á iðgjöld vegna aðstæðna viðkomandi, tímabundið eða fast. Fyrirspurn Guðmundar Helga um það hvaða áhrif það hefur á tryggingamöguleika lækna að vera meinuð aðild að hóptryggingunni verður að svara á þann veg að faglegt mat sem unnið er hjá tryggingafélögum gefi líklega mjög áþekka niðurstöðu hjá öllum tryggingasölum, að minnsta kosti mat á áhættuþáttum sem tengjast sjúkdómum.

Önnur fagfélög munu ekki vera með sambærilegar tryggingar við hóptryggingu lækna. Innan Alþýðusambands Íslands eru örfá félög með hóptryggingar auk trygginga samkvæmt kjarasamningum um slysatryggingu launþega. Tryggingaverndin er mun minni í þeim hóptryggingum en verndin sem felst í hóptryggingarsamningi lækna. Allir félagsmenn viðkomandi félags eru tryggðir og iðgjöldin gjarnan greidd úr sjúkrasjóði félagsins. LÍ á væntanlega kost á því að tryggja alla félagsmenn sína þannig að slaka mætti á kröfum um heilsufarsupplýsingar. Með því yrðu allir læknar í félaginu væntanlega skyldaðir til að greiða iðgjöld fyrir trygginguna og þeir ættu vart neitt val um hvaða tryggingavernd þeir kaupa. Áhætta félagsins í innheimtu iðgjaldanna mundi aukast með tilliti til kostnaðar. Þennan valkost hafa trúnaðarmenn félagsins vafalaust skoðað ítarlega við gerð samninga um tryggingarnar hverju sinni.

Eitt fagfélag vísar félagsmönnum á tiltekið vátryggingafélag vegna frjálsra ábyrgðartrygginga sem félagsmennirnir semja síðan við hver fyrir sig. Má geta þess að samkvæmt samningum sjálfstætt starfandi lækna við Tryggingastofnun ríkisins ber læknum að hafa starfsábyrgðartryggingar sem þeir semja um hver fyrir sig við tryggingafélögin.

Ástæða getur verið til þess að á vegum LÍ starfi að jafnaði nefnd sem hefur tryggingamál lækna til meðferðar því mikilvægt er að um þessi málefni ríki sátt meðal félagsmanna.

Fyrir hönd stjórnar LÍÁsdís J. Rafnar

framkvæmdastjóri
Þetta vefsvæði byggir á Eplica