Umræða fréttir

Fjarlækningabúnaður fyrir sjófarendur

Um mitt þetta ár gætu fyrstu töskurnar með fjarlækningabúnaðinum Mobile Medic verið komnar um borð í íslensk skip. Búnaðurinn er gott dæmi um tækni sem sprettur upp úr starfi og þekkinga læknaFjarlækningabúnaður TeleMedIce - Mobile Medic - var kynntur á sjávarútvegssýningunni sem haldin var í Kópavogi á liðnu hausti og það er óhætt að slá því föstu að hann er skilgetið afkvæmi samvinnu lækna og sjómanna. Og ef við höldum líkingunni áfram þá er ljósmóðirin Jón Bragi Björgvinsson rafeindaverkfræðingur og eigandi fyrirtækisins Skyn ehf. Ef allt fer að óskum verða fyrstu töskurnar með fjarlækningabúnaði komnar um borð í skip um eða upp úr miðju þessu ári.

En eins og allir góðir hlutir á þessi búnaður sér alllanga sögu. Sigurður Ásgeir rekur hana allt aftur til þess að hann fór sem læknir í Smuguna norður í Barentshafi haustið 1994. Það var raunar fyrir tilviljun því hann var nýkominn til landsins úr framhaldsnámi og eiginlega á leiðinni út aftur þegar hringt var í hann þar sem hann var að störfum á slysadeildinni og spurt hvort hann væri til á fara með varðskipi norður í Smugu til að þjóna íslenskum sjómönnum sem þar voru að veiðum. Það leið varla sólarhringur þar til Sigurður var kominn um borð í Óðin.Slys á sjómönnum eru dýr

"Þarna kynntist ég fyrst heilbrigðismálum sjómanna og hversu lélegum farvegi þau voru í," segir Sigurður og bætir því við að eftir þessa Smuguferð hafi hlutirnir undið upp á sig. Heim kominn úr Smugunni fór hann að kenna sjómönnum, bæði í Stýrimannaskólanum og um borð í Sæbjörgu, skipi Björgunarskóla sjómanna. Árið 1995 gekk hann til liðs við þyrlusveit lækna og sama ár fór hann fyrir greiningarsveit Sjúkrahúss Reykjavíkur vegna snjóflóðanna mannskæðu á Vestfjörðum. "Þessi reynsla kenndi mér hversu viðkvæmt sambandið við umheiminn er í svona björgunarstörfum og hversu einn maður er í heiminum ef það rofnar," segir hann.

Á einu námskeiðinu fyrir sjómenn kviknaði sú hugmynd að gera myndband sem sýndi undirstöðuatriði algengustu aðgerða sem sjómenn geta þurft að sinna ef slys ber að höndum. Út úr því komu tvö hálftíma myndbönd sem nú eru komin um borð í hartnær eitthundrað skip.

"Í framhaldi af þessu fór ég að forvitnast um það hvernig heilbrigðismálum sjómanna væri háttað annars staðar í heiminum. Það fyrsta sem ég rak mig á var að þau eru alls staðar alveg rosalega dýr. Við fengum Hagfræðistofnun Háskóla Íslands til að gera könnun á þessu árið 1997 og niðurstaða hennar var sú að slys á sjómönnum kosta samfélagið 3,7 milljarða króna á ári, þar af er um það bil helmingur eignatap en tæpir tveir milljarðar eru persónulegur og samfélagslegur kostnaður. Og þess ber að gæta að veikindi eru ekki inni í þessum tölum nema að litlu leyti. Þessar tölur eru mjög svipaðar því sem gerist hjá öðrum þjóðum.

Þegar ég fór að bera okkur saman við aðrar þjóðir komst ég að raun um að þótt við hefðum tekið seint við okkur væri heilbrigðisþjónusta við sjómenn komin á svipað stig og jafnvel lengra en gerist og gengur hjá nágrannaþjóðum okkar. Það segir okkur að það þarf ekki svo mikið til að bæta þjónustuna verulega. Sjómenn eru langt í burtu og þeir munu aldrei fá eins góða þjónustu og fólkið í landi en það er engin ástæða til þess að þeir hljóti ekki eins góða þjónustu og auðið er. Þetta eru menn sem leggja mikið af mörkum til samfélagsins en njóta ekki mikillar þjónustu frá því."Evrópskt og norrænt samstarf

Þessar athuganir Sigurðar leiddu hann á vit evrópskra starfsbræðra sinna sem hafa verið að rannsaka svipaða hluti. Árið 1997 hófu Sjúkrahús Reykjavíkur og Landspítalinn þátttöku í evrópsku fjarlækningaverkefni með Grikkjum, Spánverjum og Ítölum en það snerist einkum um það hvernig má samþætta upplýsingagjöf og þjónustu við þá sem stunda fjarlækningar eða björgunarstörf. Þar sá Sigurður að nauðsynlegt væri að koma upp fjarlækningamiðstöð en hún var ekki til hér á landi. Nú er hún að komast á laggirnar á Sjúkrahúsi Reykjavíkur en það gerðist í kjölfar kjarasamninga þyrlusveitar lækna árið 1998. Miðstöðin er starfrækt af slysa- og bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur.

Nú er að hefjast nýtt verkefni innan vébanda Vest-norræna samstarfsins sem nefnist North Atlantic Telemedicine Services, skammstafað NATS. Þar eru þátttakendur frá Grænlandi og Færeyjum, auk Sjúkrahúss Reykjavíkur og Landspítalans. Hugmyndin er sú að koma á fót fjarlækninganeti á Norður-Atlantshafi sem gæti þjónað sjómönnum frá löndunum þremur. Draumurinn er sá að útvíkka þetta net með tímanum og láta það einnig ná til Kanada, Noregs og Bretlandseyja þannig að skipaumferðin milli Norður-Ameríku og Evrópu njóti góðs af því.

En það er lítið gagn að símstöð ef enginn á síma svo framhaldið hlýtur að felast í því að þróa búnað sem hægt er að hafa um borð í skipum. Þess vegna komst á samstarf Sigurðar við Jón Braga í Skyni um að þróa slíkan búnað. Þeir komust brátt að því að svona verkefni kostar peninga og þess vegna væri nauðsynlegt að fá fleiri til liðs við þá.

"Í sumar gerðum við samning við tvö tölvufyrirtæki um samstarf að þessu verkefni. Annars vegar er það Gagnalind ehf. sem hefur unnið mikið að hugbúnaðargerð fyrir heilbrigðiskerfið. Okkur þótti það eðlilegur samstarfsaðili vegna þess að við viljum tengja upplýsingakerfi búnaðarins við hið almenna sjúkraskráningarkerfi landsins. Hins vegar fengum við Margmiðlun ehf. til liðs við okkur en það er eitt stærsta fyrirtæki landsins á sviði tölvusamskipta, net- og margmiðlunar. Okkur er ljóst að þróunin verður áreiðanlega sú að mest af þessum samskiptum mun fara fram um netið. Þetta samstarf leiddi svo til stofnunar framleiðslufyrirtækisins TeleMedIce."Beint samband við lækni

- Hvernig er svo hugmyndin að þessi búnaður virki?

"Hugmyndin er sú að ef slys eða veikindi gera vart við sig um borð geti stýrimaður flett upp í áhafnarskrá upplýsingum um heilsufar þess sem á í hlut. Að sjálfsögðu er það á valdi hvers og eins hvaða upplýsingar hann lætur í té en það kæmi sér vel að þekkja sjúkdómasögu hans og vita hvort hann er haldin ofnæmi eða tekur inn lyf að staðaldri. En svo opnar stýrimaður einkennalista sem hann fer í gegnum og svarar með nei eða já. Þennan lista erum við að setja saman en hann má ekki verða of langur en þarf þó að geta gefið nægjanlegar upplýsingar. Leiðbeiningarnar til stýrimannsins ráðast svo af því hvernig hann hefur svarað spurningunum. Niðurstöðuna getur hann svo sent til fjarlækningamiðstöðvarinnar þar sem sérfræðingur er á vakt allan sólarhringinn."

Vaktlæknirinn getur ráðlagt stýrimanni um framhaldið, hvort sem er um netið eða í talsambandi með gervihnattasíma. Hann getur beðið hann að mæla hita, blóðþrýsting eða annað og einnig að taka mynd. Þetta sendir stýrimaðurinn yfir netið og læknirinn getur skoðað það og hagað ráðgjöfinni eftir því. Hann getur stækkað myndina og teiknað eða skrifað inn á hana leiðbeiningar eða spurningar og sent hana aftur út á sjó. Lífsmörkin má senda í land í myndrænu formi, til dæmis sem útkeyrslu úr 12 leiðslu hjartalínuriti. Þannig getur læknirinn aðstoðað stýrimanninn í gegnum aðgerðina. Að henni lokinni og ef ekki er þörf á frekari aðgerðum í bili getur vaktlæknirinn skrifað skýrslu um atvikið og sent heimilislækni sjúklingsins eða heilsugæslustöð í heimahöfn skipsins.Fjarskiptatæknin þróast ört

Í mörgum tilvikum er slík ráðgjöf og aðstoð nægjanleg og Sigurður segir að þetta geti sparað umtalsverðar fjárhæðir því það sé dýrt að senda þyrlu út á sjó eða snúa skipi til heimahafnar. Þess séu dæmi að komið hafi í ljós eftir að þyrla er búin að ná í mann út á sjó að hann sé ekki eins illa haldinn og talið var í fyrstu. Ráðgjöf og samtöl læknis og stýrimanns geti leitt slíkt í ljós.

En sé um meiriháttar slys eða veikindi að ræða gerir vaktlæknir ráðstafanir til að senda þyrlu á vettvang en getur jafnframt verið í sambandi við skipið og veitt ráðgjöf um meðferð sjúklings meðan beðið er.

"Draumurinn er að allir geti verið í sambandi, vaktlæknirinn í landi, þyrlulæknirinn og stýrimaðurinn. Það styttist óðum í að hann verði að veruleika því flutningsgeta fjarskiptatækjanna eykst hröðum skrefum. Í upphafi hugsuðum við okkur að stýrimaður gæti sent lifandi myndir en þá kom í ljós að til þess þyrftu skipin að vera með öflugustu tegund af gervihnattasambandi sem mjög fá skip eru með, kannski þrjú skip í öllum flotanum. Auk þess yrði myndin aldrei eins skýr og stafræn ljósmynd.

En þetta beindi okkur inn á þá braut að gera búnaðinn þannig úr garði að hægt væri að nota hann um borð í öllum skipum, óháð því hvers konar gervihnattatengingu skipið væri með. Við ákváðum líka að setja búnaðinn í handhæga tösku svo hægt væri að fara með hann um allt skip og losna við að flytja sjúklinginn ef hann er mikið slasaður."Búnaðurinn nýtist einnig í landi

Sigurður bætir því við að þótt búnaðurinn sé fyrst og fremst hugsaður fyrir flotann sé ekkert því til fyrirstöðu að nota hann á landi. Hann gæti orðið hluti af búnaði björgunarsveita sem sendar eru til leitar á hálendinu og jafnvel öryggistæki ferðamanna sem fara um hálendið. Eins gæti búnaðurinn orðið hluti af vitjanatösku lækna á landsbyggðinni.

"Þróunin stefnir öll í þá átt að fólk notfæri sér rafræn samskipti til að leita sér upplýsinga um hvaðeina þegar á þarf að halda," segir hann.

- En á hvaða stigi er verkefnið núna?

"Nú erum við að leita að fjármagni til að kosta þróun og undirbúning framleiðslunnar. Ef vel gengur að útvega það gætum við sett fyrstu töskurnar um borð í skip um eða eftir mitt ár."

- Áttu von á því að þú munir helga þig þessu verkefni og snúa baki við lækningunum?

"Nei. Raunar finnst mér það dálítið skrítin tilhugsun að ég sem er með snert af tölvufælni og kann varla að ferðast um netið skuli vera kominn í samstarf við tölvufræðinga um þróun svona búnaðar. Starf mitt hér á slysadeildinni hefur alltaf verið númer eitt, tvö og þrjú og það er erfitt að slíta sig burt frá því. Það þyrfti eitthvað mikið að breytast til þess að ég hætti að starfa sem læknir," segir Sigurður Ásgeir Kristinsson.

-ÞH

Fjarlæknabúnaður TeleMedIce

Búnaðinum er komið fyrir í tösku sem er ekki ósvipuð stresstösku í stærra lagi. Þar er að finna eftirtalin vélbúnað:

Fartölvu

Heyrnartól með hljóðnema

Stafræna myndavél

12 leiðslu hjartalínuritsmæli

Súrefnisþéttnimæli

Blóðþrýstingsmæli

Hitamæli

Tengi fyrir gervihnattasímaHugbúnaðurinn skiptist í þrjá hluta:

Fjarlækningar:

- áhafnarskrá

- einkennalisti

- myndvinnslueining

- hjartalínurits- og súrefnismæling

Kensluefni og leiðbeiningar:

- myndskeið á margmiðlunardiski

Önnur not:

- póstforrit

- myndvinnsluforrit

- önnur forrit eftir þörfum.Það síðastnefnda tengist þeirri hugmynd að hægt verði að nota tölvuna til ýmissa annarra fjarskipta milli skips og lands, ekki síst í því skyni að menn séu alltaf í æfingu við að nota búnaðinn.Þetta vefsvæði byggir á Eplica