12. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Eiríkur Jónsson skrifar um Sturlungu geðlæknisins eftir Óttar Guðmundsson

Sturlunga er eins og óbarinn harðfiskur sem lengi þarf að naga eftir bragði. Þurr frásögn og nafnasúpa fælir frá og erfitt að fá yfirsýn yfir atburði, persónur eða tengsl þeirra. Heil mannsævi dugir vart til að botna þá mýri. Verkið er annáll íslenskrar borgarastyrjaldar á 13. öld og að baki hvers nafns raunverulegar persónur, níðingsverk og hetjudáðir í bland við ruglingslega útúrdúra og helga menn. Bókaútgáfan Skrudda gefur bókin út, en hönnun bókarinnar og kápan var í höndum Jóhönnu V. Þórhallsdóttur.

Eiríkur Jónsson þvagfæraskurðlæknir á Landspítala

Þá opnar ein setning allt í einu skjáinn og maður fær að skyggnast í hugskot höfundar: „Var hon mjök þrekuð, barn að aldri“ segir söguritari um dóttur sína sem bjargast hafði naumlega úr eldhafi brúðkaupsveislu sinnar á Flugumýri. Í gegnum tíðina hafa kollegar gaukað að mér ýmsum atriðum þessa annáls og enginn meira en Hrafnkell heitinn Helgason. Þórð kakala sagði hann einn merkasta og geðfelldasta mann sem lifað hefur á Íslandi.

Óttar Guðmundsson hefur nú skrifað bók um helstu persónur og atburði Sturlungu. Bókin gefur í stuttum köflum góða yfirsýn yfir verkið og er hinn besti lykill. Hún er lipurlega skrifuð og eins og annað sem frá Óttari kemur, barmafull af ástríðu og húmor. Þá staldrar hann reglulega við, geðgreinir leikendur og leggur út af atburðum. Saknaði greiningar Strömgren „Abnorme enkelt-reaktioner“ sem hæfir mörgum persónum Sturlungu hafi ég skilið danskinn og söguna rétt. Þá má ég til með að koma á framfæri athugasemd frá Hrafnkatli fóstra mínum að Hvamm--Sturla var grunaður um gæsku!

Óborganlegt er viðhorf unglingsins Óttars til samferðamanns sem saklaus heitir Gissur. Á þeim punkti hafði Óttar þróað með sér blint hatur á Gissuri Þorvaldssyni fyrir morðið á Snorra Sturlusyni. Síðar á ævinni sér Óttar þennan andskota sinn í öðru ljósi. Þetta dásamlega smáatriði sýnir best hvaða tök forn texti hafði á Óttari unga sem síðan á ævinni dýpkar skilning sinn á verkinu. Læsileg bók hans gerir Sturlungu aðgengilegri en ella fyrir gamla sem nýja lesendur. „Láti guð honum nú raun lofi betri.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica