11. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Minnihluti COVID-19 smitaðra fær hita

Aðeins tæpur helmingur þeirra sem greindust með COVID-19 í vor fékk hita. Sérnámslæknir bendir á að ef farið væri eftir greiningarskilmerki Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar hefðu margir smitaðir ekki uppfyllt skilyrði til skimunar hér á landi

Alls fékk 41% smitaðra hita yfir 38 gráður vegna COVID-19 veikinda á tímabilinu 17. mars til 30. apríl og innan við helmingur, 47%, fékk hita yfirhöfuð. 59% þeirra sem greindust einkennalaus með COVID-19 fundu ekki fyrir því að hafa smitast af veirunni en alls voru 5,3% þeirra 1564 sem greindust á tímabilinu einkennalaus og veiktust 41% þeirra í kjölfarið.

Meirihluti þeirra sem greindust einkennalausir með SARS-CoV-2 veirusmit veiktust ekki. Þetta kom fram á árlegri uppskeruhátíð vísindastarfs Landspítala.

Mynd/Landspítali/Þorkell Þorkelsson

„Þetta gefur ekki rétt hlutfall einkennalausra í samfélaginu því flest þessara höfðu jú ástæðu til að vera skimuð,“ benti Elías S. Eyþórsson, sérnámslæknir í lyflækningum á Landspítala, þegar hann fór yfir klínískar birtingarmyndir COVID-19 á árlegri uppskeruhátíð vísindastarfs hjá Landspítala þann 7. október, Vísindi að hausti, og var gefið út fylgirit með Læknablaðinu sem geymir ágrip af efninu: laeknabladid.is/fylgirit/ . Betur mætti meta hlutfallið þegar slembiþýði Íslenskrar erfðagreiningar væri skoðað en þar hafi 30% þeirra sem greindust verið einkennalaus.

Elías S. Eyþórsson, sérnámslæknir í lyflækningum á Landspítala. Mynd/Landspítali

„Einn áhugaverður flötur á þessu er að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin og Smitsjúkdóma- og forvarnarstofnun Bandaríkjanna (Centers for Disease Control and Prevention), hafa sett greiningarskilmerki sem einstaklingur ætti að uppfylla til þess að ástæða sé til að taka kjarnsýrumögnunarpróf fyrir SARS-CoV-2. Það sem við sjáum í okkar gögnum, þar sem lægri þröskuldur var fyrir prófunum, er að stór hluti þeirra sem sannarlega eru með veiruna og höfðu jafnvel einkenni, uppfyllti ekki þessi skilyrði. Það gefur til kynna að ef þessi skilmerki hefðu verið notuð, hefðu þessir einstaklingar ekki greinst. Þetta á kannski sérstaklega við börn og ungmenni.“

Elías sagði að einstakt tækifæri hafi gefist hér á landi í vor til að lýsa framgangi einkenna hjá fólki með COVID-19. Þessum 1564 manns hafi verið fylgt eftir óháð alvarleika veikindanna í 15 daga að miðgildi, og þeir spurðir um 19 einkenni sjúkdómsins.

„Algengustu einkenni á fyrsta degi veikinda voru vöðva- og beinverkir 55%, höfuðverkur 51% og 49% fékk þurran hósta,“ sagði hann og benti á að flestar erlendar rannsóknir á COVID-19 miði við þá sem leggist inn á spítala. Hins vegar hefðu gögnin sýnt að hefði það einnig verið gert í þessu tilfelli hefðu þau talið 80% einstaklinga þróa með sér hita og mæði og 60% niðurgang. Þess í stað sýndu gögnin að tæpur helmingur fengju hita og mæði og 30% niðurgang miðað við uppsöfnuð einkenni að 21. degi. „Þetta er áhugaverður flötur í samanburði við önnur lönd.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica