10. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Ljósmæður munu taka leghálssýnin á heilsugæslunum, segir Óskar Reykdalsson

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir undirbúninginn fyrir leghálsskimanir á stöðvunum langt kominn. Ljósmæður sem standa að mæðraeftirliti á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins munu taka leghálskrabbameinssýni þegar heilsugæslan tekur við verkefninu af Krabbameinsfélaginu nú um áramótin. Þetta segir Óskar Reykdalsson, forstjóri heilsugæslunnar, sem nú hnýtir lausa enda áður en starfsemin færist til heilsugæslunnar. Gæðaeftirlitið verði tekið föstum tökum af Embætti landlækni. „Við stefnum að því að nýta þjónustu gæðavottaðra rannsóknarstofa.“

Óskar Reykdalsson stýrir Heilsugæslunni og þar er í mörg horn að líta. Mynd/gag.

Óskar segir að nú sé unnið að því að réttur búnaður sé til á öllum stöðvunum. Sett verði upp samhæfingarstöð og starfsfólk ráðið. Hann segir að ekki þurfi að bæta mörgum ljósmæðrum við en þær bæta flestar við sig starfshlutfalli. Tugir þeirra komi að verkinu þegar starfið hefjist. Þær sæki nú þjálfun á næstu vikum. „Þær eru áhugasamar að sinna þessu mikilvæga verkefni.“

Óskar segir flóknast að skipuleggja fyrirkomulag tímapantana og greininguna sjálfa. Þekking sem myndast hafi við landamæraskimunina fyrir COVID-19 verði notuð og Krabbameinsfélagið hafi boðist til að miðla af þekkingu sinni. Enn sé óvíst hvort sýnin verði greind hér á landi eða erlendis. Einnig hvort bæði sýni úr stroki vegna frumubreytinga og sýni úr HPV-mælingunni verði greind á sama stað. Nýtt tæki sýkla- og veirufræðideildar, sem nýtt sé til að greina COVID-19, geti nýst í verkefnið „og kannski einmitt mjög heppilegt að nýta það öfluga tæki í þetta verkefni.“

„Það er í raun pólitísk ákvörðun,“ segir hann. „Við höfum rannsóknarstofu í Skandinavíu sem er tilbúin að vera okkur innan handar ef á þarf að halda. Ódýrast er oftast að senda á stórar stofur með mikla sjálfvirkni en ekki er víst að það verði niðurstaðan ef talið verður mikilvægt að veita þessa þjónustu hér heima,“ segir hann. Það sé ráðherra að taka ákvörðunina.

Óskar segir stefnt að því að hver heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu geti skimað konur. Það auðveldi þeim að koma í skoðun. Þjónustan verði í boði á 19 stöðum á höfuðborgarsvæðinu. „Þótt uppbyggingin verði þannig geta konur farið hvar sem þeim hentar,“ segir hann. Stefnt sé að stuttum biðtíma.

Óskar sér fyrir sér að konur muni sjálfar taka sýni vegna HPV--veira. „Við munum sjá tíðni leghálskrabbameina fækka verulega þegar konur sem hafa verið bólusettar gegn veirunni fara að komast á þann aldur að skimun á þeim hefst“ segir hann.

Mannslífum er bjargað árlega með skimununum. „Það er engin spurning,“ segir Óskar. Heilsu-gæslan á höfuðborgarsvæðinu ryður ekki brautina í þessum efnum. Ljósmæður hringinn í kringum landið hafa skimað konur árum saman.

Leghálsskimanirnar verða nú um áramótin hluti hefðbundinnar forvarnarstarfsemi heilsu-gæsl-unnar, eins og ungbarna- og mæðravernd. Óskar segir allar breytingar af þessari stærð áhyggjuefni. Krabbameinsfélagið ætli að leggja sitt af mörkum svo yfirfærsla þjónustunnar gangi vel.

Heilsugæslan stækkar húsnæði sitt

Húsnæði heilsugæslunnar er komið að þolmörkum. Þetta segir Óskar Reykdalsson forstjóri hennar á höfuðborgarsvæðinu. „Dæmi eru um starfsmenn sem fara með dótið sitt í plastpoka milli herbergja til að komast í gegnum daginn,“ segir hann.

Heilsugæslan er að bregðast við þessu, fjölmörg verkefni eru í gangi. „Við erum að byggja nýja stöð í Mosfellsbæ og útboð fyrir nýja heilsugæslustöð í Hlíðum hefur farið fram,“ segir hann. „Miðbæjarstöðin er helmingi of lítil og þar hefjast brátt úrbætur.“ Unnið er að því að stækka í Garðabæ, nýbúið er að breyta á Sólvangi. Stækka þurfi stöðina í Firði og breyta í Grafarvogi.

„Í Glæsibæ eru vandræði og stöðin of lítil. Við þurfum að breyta þar,“ segir hann. Sex ný geðheilbrigðisteymi þrengi einnig að húsnæðinu. „Þessi teymi eru öll í startholunum. Víða er þröngt en áhugi á að leysa vel úr vandanum.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica