06. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Öldungar í íðorðavinnu! Jóhann Heiðar Jóhannsson

Eldri læknar hafa svo sannarlega haslað sér völl í íðorðasmíð innan íslenskrar læknisfræði. Orðanefnd Læknafélags Íslands, sem var endurvakin í mars árið 2012, er nú skipuð læknunum Eyjólfi Þ. Haraldssyni (f. 1940), Jóhanni Heiðari Jóhannssyni (f. 1945), Magnúsi H. Jóhannssyni (f. 1942), Reyni Tómasi Geirssyni (f. 1946) og síðan unga manninum Runólfi Pálssyni (f. 1959). Rétt er þó að taka skýrt fram að yngri læknar með áhuga á íðorðavinnu eru velkomnir til samstarfs við nefndina. Ágústa Þorbergsdóttir, málfræðingur og ritstjóri orðabankans, situr fundina og er nefndinni til aðstoðar um öll málfræðileg atriði.

Við upphaf starfs orðanefndarinnar: Magnús H. Jóhannsson, Jóhann Heiðar Jóhannsson, Eyjólfur Þ. Haraldsson og Ágústa Þorbergsdóttir.

Orðanefndin starfar af krafti við yfirferð og endurskoðun á Íðorðasafni lækna sem í mörg ár hefur verið aðgengilegt á rafrænan hátt (https://idordabanki.arnastofnun.is/). Nefndin heldur mánaðarlega fundi frá september til júní ár hvert og fer yfir orðalista með færslum úr safninu sem ákveðið hefur verið að endurskoða. Nýjum heitum og hugtökum er jafnframt bætt við og úreltum eytt.

Íðorðasafn lækna er langstærsta fagorðasafnið í Íðorðabankanum og eru færslur þess nú um 33.500. Grunnurinn er Íðorðasafn lækna sem gefið var út á árunum 1985-1989 í 14 litlum heftum (bláu heftunum A-VWXYZ). Orðanefndin, sem stofnuð var 1983 og stóð að þeirri útgáfu, lagði fram gríðarlega vinnu undir forystu Arnar Bjarnasonar, læknis og fyrrum ritstjóra Læknablaðsins, með þátttöku fjölmargra annarra lækna. Safnið var gert aðgengilegt í Orðabanka Íslenskrar málstöðvar þegar árið 1998 og sá Magnús Snædal, málfræðingur, um skráninguna.

Eftir þetta mikla átak var haldið áfram og fjórar bækur (samtals 1550 blaðsíður) voru gefnar út á vegum nefndarinnar á árunum 1995-1996: Sjúkdómaheitin ICD-10, á ensku og íslensku, Líffæraheitin, Vefjafræðiheitin og Fósturfræðiheitin, með latneskum og íslenskum heitum. Segja má að síðan hafi nefndarstarfið legið niðri þar til formleg orðanefnd var aftur skipuð af LÍ. Íðorðavinnan lá þó ekki niðri því að undirritaður skrifaði reglulega íðorðapistla fyrir lækna, fyrst í Fréttabréf lækna frá 1989, svo í Læknablaðið til ársins 2008 (er blaðinu þóknaðist af óskiljanlegum ástæðum að hætta stuðningi við þetta starf) og loks í Lyfjatíðindi fram fram á árið 2015 er það blað hætti útgáfu. Í pistlunum var fjallað um íslensk og erlend heiti í læknisfræði, svarað fyrirspurnum frá læknum og tekið við ábendingum um ný eða gömul læknisfræðileg heiti. Pistlarnir voru að lokum orðnir um 240 talsins. Þar með lauk gróskumiklu tímabili þar sem íslenskir læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn höfðu reglulega tekið þátt í líflegri umræðu um læknisfræðiheitin og sett fram eigin tillögur, gagnrýni eða aðrar hugmyndir, eftir því sem þeim sýndist þörf á. Draumurinn um skipulega íðorðavinnu rættist svo þegar undirritaður hóf, að eigin frumkvæði og sem sjálfboðaliði, vinnu við endurskoðun á hinu gamla Íðorðasafni lækna árið 2010 og fékk aðstöðu hjá Stofnun Árna Magnússonar. Fljótt varð ljóst að þörf væri á starfandi íðorðanefnd fyrir þessa vinnu og brást stjórn Læknafélags Íslands strax vel við þeirri beiðni að slík nefnd væri skipuð.

Árið 2013 fékk orðanefndin svo sérstaka heimasíðu á vef LÍ og hefur síðan birt þar allar sínar fundargerðir (https://www.lis.is/is/fraedsla/ordanefnd-li/fundargerdir-ordanefndar) og einnig stutta pistla sem lýsa nánar einstökum þáttum í starfinu.

Frá árinu 2013 hefur nefndin verið í samstarfi við Hannes Petersen, prófessor í líffærafræði við Háskóla Íslands, um endurskoðun á líffæraheitunum í Íðorðasafni lækna. Nú hafa fjögur líffærafræðihefti verið gefin út undir samheitinu „Orðasafn í líffærafræði“, öll með enskum, íslenskum og latneskum heitum og einnig skilgreiningum á íslensku. Hvert hefti er 50-70 bls. og inniheldur um 500 færslur úr tilteknu líffærakerfi: I. Stoðkerfið (2013), II. Líffæri mannsins (2016), III. Æðakerfið (2017) og IV. Taugakerfið (2019).

Óhætt er að segja að íðorðastarfið hafi verið fjölbreytt og mjög skemmtilegt þessi síðustu ár. Fyrir hvern fund er útbúinn orðalisti sem nefndarmenn fá sendan í tölvupósti til að geta mætt rækilega undirbúnir. Leitast er við að skoða um leið öll tengd og skyld heiti þannig að innra samhengi í safninu sé varðveitt. Höfð er hliðsjón af stórum, viðurkenndum erlendum læknisfræðiorðabókum og margvíslegu efni sem finna má á netinu. Oft er einnig leitað álits hjá íslenskum sérfræðingum. Á fundunum fara fram frjálsar umræður um heitin og skilgreiningarnar þannig að hver nefndarmaður fær fullt tækifæri til að setja fram sínar eigin skoðanir á öllu því sem er í endurskoðun. Eftir hvern fund er gengið frá rafrænum færslum í Íðorðabankanum og niðurstöðurnar strax birtar til almennrar notkunar. Á þennan hátt munu nú hafa verið endurskoðaðar um 8500 færslur í Íðorðasafni lækna. Þetta eru í sjálfu sér ágæt afköst hjá öldungunum í orðanefndinni, en endurskoðuðu færslurnar eru þó enn ekki nema um það bil fjórðungur safnsins þannig að framundan eru næg verkefni.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica