05. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Doktorsvörn frá Háskóla Íslands, Sindri Aron Viktorsson

Sindri Aron Viktorsson varði doktorsritgerð sína í læknavísindum við læknadeild Háskóla Íslands 29. nóvember 2019. Ritgerðin heitir: Ósæðarlokuskipti vegna lokuþrengsla á ÍslandiÁbendingar, fylgikvillar og árangur 

Andmælendur voru Anders Albåge, yfirlæknir og lektor við Uppsalaháskóla, og Gunnar Þór Gunnarsson, lektor við læknadeild Háskóla Íslands. Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Tómas Guðbjartsson prófessor við læknadeild. Auk hans sátu í doktorsnefnd Arnar Geirsson dósent við læknadeild Yale-háskóla, Karl Andersen prófessor við læknadeild, Martin Ingi Sigurðsson prófessor við læknadeild og Thor Aspelund prófessor við Miðstöð í lýðheilsuvísindum.  

  

Ágrip af rannsókn  

Ósæðarlokuskipti eru önnur algengasta opna hjartaaðgerðin í hinum vestræna heimi, enda talin árangursrík meðferð við ósæðarlokuþrengslum. Aðgerðin er umfangsmikil og fylgikvillar gera oft vart við sig. Þar má nefna nýtilkomið gáttatif, bráðan nýrnaskaða (BNS), enduraðgerð vegna mikillar blæðingar, sýkingar og hjartsláttaróreglu sem síðan krefst ígræðslu varanlegs gangráðs. Fyrir nokkrum árum kom ósæðarlokuísetning (TAVI) til sögunnar en þá er lífrænni ósæðarloku komið fyrir með þræðingartækni, oftast í gegnum náraslagæð. Þessi nýja tækni eykur mikilvægi þess að þekkja betur árangur hefðbundinna opinna ósæðarlokuskipta sem enn er helsta meðferðin við ósæðarlokuþrengslum. 

Rannsóknirnar fjórar sem doktorsritgerðin byggist á sýna að lokuskipti eru árangursrík meðferð við ósæðarlokuþrengslum. Auk þess er ljóst að árangur af skurðaðgerðum fer batnandi, sem sést á lægri tíðni ýmissa alvarlegra fylgikvilla. Hluti sjúklinga greinist þó enn með alvarlega fylgikvilla sem geta dregið úr lífsgæðum og jafnvel orðið þeim að aldurtila. Mikilvægt er að átta sig betur á því hvaða sjúklingar það eru sem farnast miður eftir ósæðarlokuskipti því þar gæti TAVI-aðgerð verið heppilegri og áhættuminni valkostur.  

Doktorsefnið  

Sindri Aron Viktorsson lauk cand. med.- prófi frá Háskóla Íslands árið 2013 og hefur samhliða doktorsnáminu sinnt klínísku starfi við skurðdeild Landspítala og verið við sérnám í almennum skurðlækningum við Dartmouth-Hitchcock-háskólasjúkrahúsið í New Hampshire, Bandaríkjunum.  

 

Hvað segir doktorsefnið? 

Hvað ertu að lesa og/eða horfa á? 
Er að hlusta á bókina Homo Deus, framhald hinnar frábæru Sapiens eftir Yuval Noah Harari. Hef svo nýverið að verið að horfa á The Last Kingdom á Netflix, ný sería er væntanleg og ég er nokkuð spenntur. 

Hversu erfitt er að verða doktor, á skalanum 1-10? 
Fer eðli málsins samkvæmt eftir því við hvað maður miðar og hvernig öðrum hlutum er háttað, en tvímælalaust 10 á stundum þegar mest var í gangi en heilt yfir 6 þegar allt er tekið til alls. 

Hvað er framundan í starfi/námi? 
Ég hef verið í sérnámi í almennum skurðlækningum við Dartmouth í New Hamp­shire síðastliðin tvö ár, en einungis með tímabundna stöðu. Mér var hins vegar nýverið boðin staða til að klára síðustu þrjú árin við University of Virginia í Charlottesville. Ég er því að flytja þangað í sumar. Eftir það stefni ég á frekara sérnám í hjarta- og lungnaskurðlækningum sem almennt tekur tvö ár eftir þessi 5 ár í almennum skurðlækningum. 

Hvað yrði þitt fyrsta verk sem forstjóri Landspítala? 
Mitt fyrsta verk yrði að skapa betri starfsskilyrði fyrir hjúkrunarfræðinga, bæði með hærri launum sem og öðrum fríðindum, þannig að það verði eftirsótt að vinna á Landspítala. 

Hvenær fórstu síðast til læknis? 
Vegna takmarkana hér fór ég nýverið í símaviðtal við lækni í stað hefðbundinnar heimsóknar. 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica