05. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Dagur í lífi kandídats á háls-, nef- og eyrnadeild. Árni Johnsen

6:58 Útvarpið í vekjaraklukkunni fer í gang, vakna við útvarpsfréttirnar. Sinni hefðbundnum morgunverkum: gef kettinum að borða, gef súrnum að borða, gef sjálfum mér að borða og held svo til vinnu. Engin umferð, enda flestir landsmenn heimavinnandi vegna COVID.

7:50 Spritta hendur. Opna innganginn á Landspítala, snertilaust. Spritta hendur. Stimpla mig inn, snertilaust. Spritta hendur. Labba upp á göngudeild B3 og opna innganginn, snertilaust. Spritta hendur. Skipti í vinnuföt. Spritta hendur. Sæki vaktsímann frá næturvaktinni. Spritta símann, spritta svo hendur.

8:15 Stofugangur á HNE. Vegna COVID gengur nú aðeins einn sérfræðingur og einn unglæknir. Í dag er stofugangurinn óvenju langur enda eru tveir sjúklingar inniliggjandi, töluvert yfir meðaltali. Deildarstjórinn á A4 bætir okkur þetta upp með að gefa lítið páskaegg í lok stofugangs. Spritta páskaeggið, spritta svo hendur.

9:00 Göngudeild á HNE. Göngudeildin er fjölbreytt og undir handleiðslu deildarlækna og sérfræðinga næst fljótt færni í að leysa algeng HNE vandamál. Göngudeildin er þéttbókuð fyrir hádegi, blanda af nýjum andlit og góðkunnum andlit í endurkomu. Enginn sér hinsvegar andlitið á mér, enda þakinn í hlífðarbúnaði frá hvirfli og niður á miðja ökkla.

12:00 Hádegismatur. Vínarsnitzel, kartöflur, brún sósa og rauðkál. “Rollsinn” á matseðli Landspítala. Maturinn snæddur á fámennri kaffistofu í 2 m fjarlægð frá sessunautum. Kaffibolli og páskaeggið frá deildarstjóranum í eftirrétt.

13:00 Göngudeildin heldur áfram. Minna bókað eftir hádegi, en nokkur símtöl bókuð. Vegna faraldursins reynum við að fækka endurkomum og fylgja sumum sjúklingum eftir símleiðis, og hitta sjúklinga aftur aðeins ef þörf þykir.

16:00 Vinnudeginum formlega lokið. Stuttur fundur með hinum kandídatinum á HNE þar sem við plönum verkaskiptingu fyrir morgundaginn. Á morgun er síðasti dagurinn okkar á deildinni og ætlum við að þakka fyrir okkur með heimabökuðu bakkelsi. Ræðum hvernig er best að halda eldhúsinu sterílu við bakstur.

16:30 Fjarfundur með Kjartani og Hafsteini. Við þrír rekum lítið sprotafyrirtæki og erum að hanna hugbúnað til að auðvelda rafræn samskipti milli inniliggjandi sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks, sem nánar má lesa um í fyrri útgáfu Læknablaðsins.

17:30 Fjarfundur með Kjartani. Við Kjartan rekum einnig saman síðuna Niðurtröppun.is, þar sem hægt er að búa til niðurtröppunarplön fyrir opioiða. Útgáfa 2 af síðunni er nú í vinnslu í samstarfi við forritunarverktaka í Svíþjóð.

18:30 Hræri í brauðdeig til að baka í fyrramálið fyrir vinnu.

19:00 Kvöldmaturinn í dag er fiskréttur úr Fylgifiskum. Horfi yfir kvöldmatnum á hluta af þætti af Narcos Mexico. Þó maður viti að aðalpersónan Miguel Angel sé hinn versti skúrkur, þá fer maður samt ósjálfrátt að halda með honum. Kannski spilar inn í hvað hann er líkur góðum vini mínum úr læknisfræðinni, þ.e.a.s. útlitslega.

20:15 Göngutúr um hverfið. Ef COVID-faraldurinn hefur kennt mér eitthvað, þá er það að ég bý í frekar ófríðu hverfi. En leigan er viðráðanleg og ég er búinn að vera á námslánum síðustu 7 ár.

21:00 Tek eftir þremur bönunum nær dauða en lífi inni í stofu. Tilvalið að baka úr þeim bananabrauð og taka með í morgunkaffið á morgun. Horfi á restina á Narcos þættinum meðan brauðið bakast.

22:00 Geng frá símanum frammi í stofu og fer upp í rúm að lesa. Svefngæðin hafa batnað mikið eftir að ég fór sjálfur að fylgja þeim ráðum sem ég hafði gefið svefnlausum skjólstæðingum á heilsugæslunni.

23:00 Stilli verkjaraklukkuna allt of snemma og sé eftir því að hafa ofmetnast í brauðbakstri fyrir morgunkaffi. Sofna við vel tímasett sólarlag í boði Philips ljóssins.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica