03. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Liprir pennar. The six hundred. Einar Thoroddsen

                     

Þegar skyndilega vantaði um það bil 600 orð í Læknablaðið, skrifuð af liprum penna, og það nú, datt mér í hug gamli góði Tennyson og árásin inn í dal dauðans.

        Into the Valley of Death rode the six hundred.
        Theirs not to reason why.
       
Theirs but to do and die.

Á sama hátt eru til hlutir sem maður getur ekki, ekki einu sinni til að bjarga lífi sínu. Eitt er að skrifa skattaskýrslu (fá mann í það), annað að læra á tölvu (fá mann í það) og þannig koll af kolli (fá mann í það). Þetta er ekki ósvipað, samt dugar ekki annað en að setja undir sig hausinn og draga fram fjaðrapennann (ég meina auðvitað tölvu og mús).

Tölvan mín segir mér (svo mikið veit ég um tölvur) að nú ´séu komin 132, nei 134, segjum 137 orð (ef tölur reiknast sem orð). Þetta fer að minna á danska orðtækið „ikke nu, men nu“.

Þá er að einbeita sér að millikaflanum sem ætti ekki að skipta miklu máli, en við bíðum spennt eftir lokahnykknum.

Til að eyða tímanum og þrengja plássið mætti kom með tips.

Ég held því fram að það megi minnka rifbrot um um það bil 60 (segjum 63) pró sent (prósent er hér skrifað í 2 orðum til að helga meðalið). Rif brotna oftast, eins og þið vitið, með því að maður dettur með hliðina á baðkarið þegar maður er að fara í nærbuxurnar. Trixið er að fara fyrst í sokkana. Þá festist ekki litla táin í nærbuxnaskálminni og rifbrotum fækkar sem því nemur. Það verður þó að segjast að ég hef enga kontrólgrúppu. Friðrik Guðbrandsson segir að það bezta við rifbrot sé að hnerra almennilega þegar það er gróið. Ég get tekið undir það á sama hátt og frændi minn einn, sem átti að sanna eitthvað í stærðfræðinni, gat það ekki en sór það við drengskap sinn. Þess mætti geta að kennarinn léði þessu ekki hlutleysi sitt.

Annað mætti nefna sem er öllu alvarlegra. Það ætti sennilega að taka upp 2 punkta yfir e-i eða a-i til að „hljóðrita“ íslenzkuna. Ungt fólk (heyrist mest hjá stelpum, jafnvel upp í 30-40 ára því að tíminn líður) segja ekki sem ähhkki og tala málið svo hratt og með svo miklum samhljóðum að Figaro sjálfur hefði getað verið stoltur af. Þessu verður því miður ekki snúið við frekar en öðru og sennilega er þetta mesta breytingin á íslenzkunni allar götur frá hljóðdvalarbyltingunni miklu þar sem margur góður drengurinn féll. Þið munið að Bergþóra var talin drengur góður ef netheimar skyldu nú fara að loga. Hvenær byrjar þetta? Ekki heyrist það hjá 6-7 ára krökkum. Mér finnst líka örla á þessu í Svíþjóð. Er þetta Netflix eða eitthvað þaðan af verra? Þetta er heldur ekki notendavænn framburður fyrir söngvara. Þeir verða að syngja á gamla mátann (minnir á Austfirðinginn sem skrollaði og gat ekki vanið sig af því, en svo kom hann til Frakklands og þá kom baaara íslenzka tungubroddserrið). Vel á minnzt, Svíþjóð. Hvenær byrja sérhljóðarnir að verpast og fjölga sér á Skáni?

Nú fer að glytta í endann á pistlinum sbr. Siggi Ha sem orti:

        Hillir undir Húsafell,
        Þar býr ríkur bóndi;
        Þorsteinn heitir Magnússon.

        Hann á margar rollur.

Pabbi minn var læknir og hét Skúli. Hann var kannske ekki skáldmæltur en sumu velti hann þó fyrir sér. Hann persónugerði til dæmis hið góða og vonda og vildi meina að hið vonda sigraði alltaf en að hið góða væri samt alltaf á næstu grösum.

Hann „kvað“ enn fremur og var lengi með í vinnslu:

         Ef „vondur“ er eins vondur
         og „góður“ vill vera láta,
         Getur þá „góður“ verið eins góður

         og hann er af að státa?

        Og þar með lýkur þessum „bijou“.
        „I wrote the six hundred.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica