03. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

MÁNUDAGUR Í LÍFI LÆKNIS. Ásgeir Böðvarsson

                                   

06:25 Vakna og mæti í sund kl. 6:45, hef ekki verið nógu duglegur að mæta með „sundlaugareigendunum“ sem mæta fyrstir á morgnana, þéttur hópur sem hefur mætt í áratugi og ræðir málin af innileik og ekki alltaf talað guðsbarnamál.

08:00 Morgunfundur lækna HSN Húsavík. Var sjálfur á bakvakt en mér duglegri og yngri læknir á forvakt og inflúensa gengur ljósum logum, við erum búin að staðfesta nokkur tilfelli af Inflúensu A. Þetta höfðu Húsvíkingar upp úr því að þjófstarta þorrablótinu.

09:00 Stofugangur átti að byrja en seinkar vegna Skype-fundar um Corona 2019 veiruna, sem nú heitir COVID-19. Fundur um samræmdar aðgerðir á Norðurlandi. Í síðustu viku voru Skype- fundir nær daglega með sóttvarnarlækni.

10:00 Stofugangur á sjúkradeild. Flestir þeirra 16 einstaklinga sem liggja inni tilheyra almennum lyflækningum eða endurhæfingu eftir aðgerðir á Akureyri. Endurhæfingar/hvíldarinnlagnir aldraðra eiga sína fulltrúa líka. Þrír útskrifast heim, tveir innlagðir, annar með lungnabólgu en hinn með alvarlega streituröskun, en við höfum byggt upp sérhæfða endurhæfingu fyrir þessa einstaklinga í samvinnu við Ólaf Þór Ævarsson geðlækni. Þessir einstaklingar eiga ekki heima á bráðageðdeildum né heldur möguleika á bráðum endurhæfingarinnlögnum, en eru þó í algerri örvæntingu.

12:00 Hádegismatur. Afbragðs fiskmáltíð hjá Frímanni kokki og hans liði að venju en Helgi hjúkrunarfræðingur nær að kveikja heita umræðu með athugasemdum hvort ekki sé hægt að hafa siginn fisk og hamsatólg einstaka sinnum.

12:20 Nokkur símtöl við apótek vegna lyfja sem ýmist eru ekki til núna eða þarf að skrifa undanþágulyfseðil. Það fara 15 mínútur daglega í þessi tilgangslausu störf og virðist ástandið versna fremur en hitt.

12:35 Viðtöl: Einstaklingur sem er að búa sig undir líffæraígræðslu fær niðurstöður blóðprufa og við förum yfir væntanlegt ferli. Annar kemur í Infliximab-meðferð vegna Crohns sjúkdóms. Einnig símtöl við vakthafandi og gigtlækni í Reykjavík og ég hringi líka í Þorstein heimilislækni á Sauðárkróki vegna einstaklings sem var í ristilspeglun í síðustu viku. Til útskýringar: ég er lyflæknir á HSN og starfa 25% á Sauðárkróki og 75% á Húsavík með meltingalækningar sem aðalfag og reyni svo eftir veikum mætti að hjálpa heimilislæknum á Heilsugæslunni á Húsavík með vaktir og móttöku einstaka sinnum.

13:30 Fundur með Almannavarnarnefnd í héraði. Farið yfir stöðu mála og fundurinn stendur í klukkutíma og ég hefði átt að mæta kl. 14:00 á stofugang á hjúkrunardeild og er þetta nú í annað skiptið í dag sem COVID-19 tefur mig – eða skyldi óstundvísi liggja hjá mér sjálfum?

14:30 Stofugangur á hjúkrunardeild: Hér hafa flestir sloppið við flensu, þó var tveimur einstaklingum nokkuð siginn larður í seinustu viku en eru nú að ná sér.

16:00 Meltingarteymið án ritara, þ.e.a.s. Ingunn hjúkrunarfræðingur og ég förum yfir niðurstöður rannsókna ásamt tilvísunum og innhringingum. Ingunn sér um stóran hluta af símsvörun sem þýðir að tíminn nýtist miklu betur bæði hér og á Sauðárkróki en þar er einnig meltingarteymi með Steinunni hjúkrunarfræðingi.

17:30 Fer heim. Ólöf á ráðstefnu erlendis. Snarl í kvöldmat. Áhugamálin þurfa sinn tíma, það horfir ekki vel með tónleika Kammerkórs Norðurlands um næstu helgi fyrir sunnan, snarbrjálað veður í uppsiglingu og trúlega verður að hætta við ferðina. Símafundur kórstjórnar vegna þess og við áfrýjum málinu til æðri máttarvalda og Elínar veðurfræðings – þó ekki mjög vongóð um hagstæðan dóm.

20:00 Mættur á söngæfingu með Karlakórnum Hreimi. Samsafn glaðlyndra og málglaðra karla sem geta átt það til að syngja eins og englar ef þeir horfa á stjórnandann en það gerist reyndar ekki oft. Hins vegar er svona iðja holl fyrir sálina og raunar hef ég notað tónlist allt mitt líf til að hvíla mig og safna orku og gefist ótrúlega vel.

22:00 Á leið af æfingu hringi ég (handfrjálst!) í fjölskylduna sem er dreifð um landið og víðar um Evrópu eins og gengur. Allt gott að frétta.

22:40 Kominn heim. Hnýt um bréf frá Eiríki Jónssyni, blessuðum drengnum. Hann er eins og flestir vita þvagfæraskurðlæknir góður en þó enn betri fornleifafræðingur og við höfum átt nokkra samleið í því áhugamáli. Auk þess er hann skáld og nú sendir hann mér glimrandi smásögu til yfirlestrar fyrir svefninn – þetta er öðlingur.

23:00 Spila fréttir RÚV – er haldinn fréttafíkn og viðurkenni það.

00:10 Farinn að sofa.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica