03. tbl. 106. árg. 2020

Fræðigrein

Algengi og áhættuþættir lengdrar dvalar á gjörgæsludeild eftir kransæðahjáveituaðgerð

Incidence and predictors of prolonged intensive care unit stay after coronary artery bypass in Iceland


doi: 10.17992/lbl.2020.03.471

ÁGRIP


INNGANGUR
Til að hámarka nýtingu gjörgæslurýma er mikilvægt að þekkja algengi og áhættuþætti lengdrar dvalar á gjörgæsludeild eftir kransæðahjáveituaðgerð en slík rannsókn hefur ekki verið gerð áður hér á landi.

EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR
Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala á árunum 2001-2018. Skráðar voru upplýsingar um heilsufar sjúklinganna, aðgerðartengda þætti og fylgikvilla eftir aðgerðina. Sjúklingar sem lágu á gjörgæslu í eina nótt voru bornir saman við þá sem lágu þar tvær nætur eða lengur. Lifun var áætluð með aðferð Kaplan-Meiers. Forspárþættir dvalarlengdar á gjörgæslu voru fundnir með lógistískri aðhvarfsgreiningu og niðurstöðurnar notaðar til að útbúa reiknivél sem áætlar líkur á lengri gjörgæsludvöl.

NIÐURSTÖÐUR
Af 2177 sjúklingum þurftu 20% gjörgæsludvöl í tvær nætur eða lengur. Sjúklingar sem lágu tvær eða fleiri nætur á gjörgæslu voru oftar konur (23% á móti 16%, p=0,001). Þessir sjúklingar höfðu einnig oftar áhættuþætti kransæðasjúkdóms og fyrri sögu um aðra hjartasjúkdóma eins og hjartabilun, lokusjúkdóma og skert útstreymisbrot vinstri slegils. Auk þess var EuroSCORE II gildi þeirra hærra (4,7 á móti 1,9, p<0,001) og höfðu þeir oftar skerta nýrnastarfsemi fyrir aðgerð (30% á móti 16%, p<0,001) og þurftu frekar á bráðaaðgerð að halda (18% á móti 2%, p<0,001). Sjúklingar sem dvöldu tvær nætur eða lengur höfðu hærri tíðni skamm- og langtímafylgikvilla og verri langtímalifun en sjúklingar í viðmiðunarhópi (78% á móti 93% lifun 5 árum frá aðgerð, p<0,0001). Sjálfstæðir áhættuþættir lengri gjörgæsludvalar voru aldur, kyn, EuroSCORE II gildi, fyrri saga um aðra hjartasjúkdóma, skert nýrnastarfsemi og bráðaaðgerð.

ÁLYKTANIR
Fimmti hver sjúklingur þarf gjörgæsludvöl í tvær eða fleiri nætur eftir kransæðahjáveitu á Landspítala. Ýmsir áhættuþættir spá fyrir um lengri gjörgæsludvöl eftir kransæðahjáveitu, sérstaklega undirliggjandi ástand sjúklings, EuroSCORE II gildi og hve brátt aðgerðin fer fram. Von okkar er að bætt þekking á áhættu á lengri gjörgæsludvöl nýtist til að bæta skipulagningu kransæðahjáveituaðgerða á Landspítala.

Barst til blaðsins 29. október 2019, samþykkt til birtingar 8. janúar 2020.

 

Inngangur

Á Íslandi eru gerðar 100-150 kransæðahjáveituaðgerðir á ári. Fyrstu nóttina eftir aðgerð hafa allir sjúklingar hingað til dvalist á gjörgæsludeild til eftirlits. Sumir sjúklingar þurfa þó lengri dvöl vegna umfangsmeiri gjörgæslumeðferðar eftir aðgerðina eða fylgikvilla. Á Landspítala eru tvær gjörgæsludeildir sem rúma alls 22 sjúklinga, en undanfarin tvö ár hefur ekki verið unnt að nýta nema 12-13 pláss vegna skorts á hjúkrunarfræðingum. Á sama tíma hefur bæði sjúklingum og legudögum á gjörgæsludeildinni fjölgað, einkum vegna bráðainnlagna, sem getur valdið því að valkvæðum gjörgæsluinnlögnum er frestað.1 Árið 2018 var rúmlega þriðjungi allra hjartaaðgerða frestað vegna plássleysis á gjörgæslu.

Tímalengd gjörgæsludvalar eftir kransæðahjáveitu er mismunandi og fer meðal annars eftir innlagnarástæðu, gangi skurðaðgerðar og hvort fylgikvillar koma upp eftir aðgerð. Í erlendum greinum hafa eftirtaldir áhættuþættir lengdrar gjörgæsludvalar verið nefndir til sögunnar: hár aldur, skert útstreymisbrot (ejection fraction) vinstri slegils og langvinnir lungnasjúkdómar.2,3 Einnig geta fylgikvillar aðgerðar eins og skurðsýkingar, heilaáfall, takttruflanir, lungnabólga, hjartadrep í eða eftir aðgerð og gollurshússbólga lengt gjörgæsludvöl.3,4 Lengri dvöl á gjörgæslu tengist aukinni dánartíðni og verri langtímahorfum,2 en á hinn bóginn getur ótímabær útskrift af gjörgæsludeild aukið líkur á endurinnlögn á gjörgæslu,5 sem aftur tengist aukinni dánartíðni.6

Ýmis reiknilíkön hafa verið þróuð til að greina hvaða sjúklingar eru í aukinni áhættu á að fá fylgikvilla sem krefjast lengri dvalar á gjörgæsludeild eftir hjartaaðgerðir.7 Parsonnet-líkanið (Parson-net Score) og EuroSCORE spá vel fyrir um lengri dvöl eftir opna hjartaaðgerð, jafnvel þótt bæði líkönin hafi upprunalega verið þróuð til að spá fyrir um líkur á dauða eftir hjartaaðgerð.7-9 Skilgreiningar á áhættubreytum og lengdri gjörgæsludvöl eru þó mismunandi og starfsemi gjörgæslu- og legudeilda eftir löndum afar ólík. Því getur verið erfitt að yfirfæra niðurstöður úr einu sjúklingaþýði yfir á annað.

Mikilvægt er að þekkja áhættuþætti lengdrar gjörgæsludvalar eftir kransæðahjáveituaðgerð til að auðvelda skipulagningu á starfsemi á skurðstofu og gjörgæsludeildum. Engin slík spálíkön hafa þó áður verið þróuð sérstaklega fyrir sjúklinga á Íslandi. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna tíðni og áhættuþætti fyrir lengri dvöl á gjörgæsludeild eftir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala og útbúa spálíkan til að meta líkur á lengdri legu á gjörgæsludeild.

 

Efniviður og aðferðir

Rannsóknin var afturskyggn og byggðist á gagnagrunni hjarta- og lungnaskurðdeildar Landspítala sem tók til þeirra sjúklinga sem gengust undir sína fyrstu kransæðahjáveituaðgerð án annarrar hjartaaðgerðar (primary isolated CABG) frá 1. janúar 2001 til 31. desember 2018. Öll tilskilin leyfi lágu fyrir áður en rannsóknin hófst, meðal annars frá Persónuvernd, vísindasiðanefnd (VSN 10-099) og framkvæmdastjóra lækninga á Landspítala.

Sjúklingar voru fundnir með leit að aðgerðarnúmerum fyrir kransæðahjáveituaðgerð (FNSA00, FNSC10, FNSC20, FNSC30) og aðgerðum þar sem hjarta- og lungnavél var notuð (FZSA00, FZSA10).

Skráning í gagnagrunninn hófst árið 2005 en síðan hefur skráning farið fram árlega. Í gagnagrunninum voru samtals 2177 sjúklingar sem var skipt í tvo hópa eftir dvalarlengd á gjörgæsludeild eftir kransæðahjáveituaðgerð. Annars vegar voru sjúklingar sem dvöldu tvær eða fleiri nætur á gjörgæsludeild (n=431) en hins vegar viðmiðunarhópur með sjúklingum sem dvöldu eina nótt á gjörgæsludeild (n=1746).

Í gagnagrunninn voru skráðar grunnupplýsingar um sjúklingana, svo sem aldur, kyn, hæð, þyngd og líkamsþyngdarstuðull (body mass index, BMI), en einnig upplýsingar um helstu áhættuþætti kransæðasjúkdóms og fylgisjúkdóma hans á borð við hjartabilun, hjartadrep, hjartsláttaróreglu og lokusjúkdóma. Skráðar voru upplýsingar um aðra sjúkdóma sem tengjast aukinni áhættu á kransæðasjúkdómi eins og skerta nýrnastarfsemi (skilgreind sem gaukulsíunarhraði <60 mL/mín/1,73 m2 fyrir aðgerð), langvinna lungnateppu og útæðasjúkdóm. Einkenni sjúklinganna voru stiguð með ​flokkun Canadian Cardiovascular Society (CCS) á hjartaöng og New York Heart Association (NYHA) ​sem metur alvarleika hjartabilunar.10,11 European System for Cardiac Operative Risk Evaluation-gildi (EuroSCORE II) var reiknað fyrir hvern sjúkling.12 Upplýsingar um útstreymisbrot í hjartaómun fyrir aðgerð var skráð. Skert útstreymisbrot vinstri slegils var skilgreint sem útstreymisbrot minna eða jafnt og 30%. Þar að auki voru skráð helstu lyf sem sjúklingarnir tóku fyrir aðgerð.

Færðar​ voru í gagnagrunninn upplýsingar um kransæðahjáveituaðgerðina sjálfa, meðal annars hvort aðgerðin var bráðaaðgerð (innan 24 klukkustunda frá innlögn), framkvæmd með flýtingu (í sömu innlögn) eða valaðgerð. Upplýsingar um aðgerðina, eins og tangartími, tími á hjarta- og lungnavél, fjöldi fjaræðatenginga (distal anastomoses) og notkun vinstri innri brjóstholsslagæðar (left internal mammary artery, LIMA) voru skráðar.

Upplýsingar um ástand sjúklinga eftir aðgerð voru skráðar í gagnagrunninn, meðal annars fjöldi daga á gjörgæsludeild og heildarlegutími á Landspítala. Snemmkomnir fylgikvillar eftir aðgerð voru skráðir og var þeim skipt í minniháttar og alvarlega fylgikvilla. Til minniháttar fylgikvilla töldust nýtilkomið gáttatif (atrial fibrillation) eða gáttaflökt (atrial flutter), fleiðruvökvi sem þarfnaðist aftöppunar, yfirborðssýking í skurðsári á ganglim eða yfir bringubeini, lungnabólga og þvagfærasýking. Meðal alvarlegra fylgikvilla voru bringubeinslos (sternal dehiscence), djúp sýking í bringubeinsskurði, bráður nýrnaskaði sem krafðist blóðskilunar, heilablóðfall, blóðþurrð í hjartavöðva (perioperative myocardial infarction), fjöllíffærabilun og enduraðgerð vegna blæðingar. Í gagnagrunninn voru einnig skráðar upplýsingar um blæðingu í brjóstholskera fyrstu 24 klukkustundirnar eftir aðgerð og fjöldi eininga af rauðkornaþykkni, blóðvökva og blóðflögum (platelets) sem voru gefnir í aðgerð eða fyrstu vikuna eftir aðgerð. Skráð var hverjir létust innan 30 daga frá aðgerð og í sjúkrahúslegu. Að lokum voru langtímafylgikvillar sem tengdust hjarta- og æðakerfinu skráðir en meðal þeirra voru hjartaáfall, heilablóðfall, endurkransæðavíkkun (re-PCI), endurkransæðahjáveituaðgerð (re-CABG) og dauði. Þessar breytur voru teknar saman í sameiginlegan endapunkt sem kallast MACCE (major adverse cardiac and cerebrovascular event). Eftirfylgdartími lifunar var til 31. desember 2018 og var miðgildi eftirfylgdartímans 101,1 mánuður (bil: 0-215,9 mánuðir).

Breytur voru skráðar í rafræna Excel-skrá og tölfræðiúrvinnsla unnin í tölfræðiforritinu R, útgáfu 3.5.2, (R foundation for Statistical Computing, Austurríki) með RStudio, útgáfu 1.1.463. Fyrir flokkabreytur var notað kí-kvaðrat-próf en fyrir samfelldar breytur var t-próf notað til að bera saman hópana. Lifun var skoðuð með aðferð Kaplan-Meiers og samanburður milli hópa var gerður með log-rank prófi. Forspárþættir dvalarlengdar á gjörgæsludeild voru metnir með lógistískri aðhvarfsgreiningu. Inn í upphaflega líkanið voru settir þeir þættir sem reyndust marktækir í einþátta greiningu auk áðurnefndra áhættuþátta úr fyrri rannsóknum. Spágeta upphaflega líkansins var könnuð og viðeigandi breytur síðan teknar út með þrepaðri aðhvarfsgreiningu þar til endanlegt spálíkan fékkst fyrir lengdri dvöl á gjörgæsludeild. Tölfræðileg marktækni miðaðist við p-gildi <0,05.

 

Niðurstöður

Af 2177 sjúklingum dvaldi 431 tvær eða fleiri nætur á gjörgæslu, eða 20% hópsins. Mynd 1 sýnir dreifingu dvalartíma meðal sjúklinga sem lágu tvær eða fleiri nætur á gjörgæslu. Langflestir þeirra sem lágu tvær nætur eða lengur lágu þar í tvær nætur (147 sjúklingar, 7%), en 3% lágu í þrjár nætur og 10% í fjórar eða lengur. Fyrir sjúklinga sem lágu tvær eða fleiri nætur var miðgildi legutíma á gjörgæslu þrjár nætur (fjórðungabil: 2 - 6, bil 2 - 42).

Samanburð sjúklingahópanna tveggja má sjá í töflu I. Meðalaldur sjúklinga sem lágu tvær eða fleiri nætur á gjörgæslu var marktækt hærri (68 á móti 66 ár, p<0,001). Konur voru marktækt fleiri meðal þeirra sem lágu þar tvær eða fleiri nætur (23% á móti 16%, p=0,001), og þeir sjúklingar höfðu oftar sögu um hjartaáfall, hjartabilun, takttruflanir, lokusjúkdóma, útæðasjúkdóm, skerta nýrnastarfsemi, langvinna lungnateppu og skert útstreymisbrot vinstri slegils fyrir aðgerð (tafla I). Samanburður á helstu áhættuþáttum kransæðasjúkdóms milli hópa sýndi marktækan mun á tíðni blóðfituröskunar (50% á móti 58%, p=0,004), sykursýki (22% á móti 17%, p=0,015) og fjölskyldusögu um kransæðasjúkdóm (46% á móti 54%, p=0,007). Sjúklingar sem lágu tvær eða fleiri nætur á gjörgæslu höfðu meiri einkenni hjartaangar og alvarlegri einkenni hjartabilunar (tafla I) en höfðu auk þess hærra EuroSCORE II (4,7 á móti 1,9, p<0,001). Þeir voru einnig líklegri til að þurfa bráðaaðgerð (18% á móti 2%, p<0,001).

Samanburður á lyfjanotkun milli hópa fyrir aðgerð er sýndur í töflu II. Mestur munur var á notkun klópídógrels og blóðfitulækkandi statína. Þeir sem lágu tvær eða fleiri nætur á gjörgæslu tóku oftar klópídógrel fyrir aðgerð (11% á móti 4%, p<0,001), en sjaldnar blóðfitulækkandi statín (72% á móti 80%, p<0,001).

Vinstri brjóstholsslagæð (LIMA) var notuð hjá ​færri sjúklingum sem lágu tvær eða fleiri nætur á gjörgæslu (88% á móti 96%, p<0,001) ​og færri aðgerðir voru framkvæmdar á sláandi hjarta hjá ​þeim (12% á móti 17%, p<0,001). Aðgerðartími þeirra var lengri ​(234 mínútur á móti 209 mínútum, p<0,001), ​en einnig vélartími (105 mínútur á móti 89 mínútum, p<0,001), og tangartími (52 mínútur á móti 48 mínútum, p<0,001). ​Loks fengu þeir ​oftar ósæðardælu (​intra aortic balloon pump​, IABP) í tengslum við aðgerðina (20% á móti 0,7%, p<0,001).

Einstaklingar sem dvöldu tvær eða fleiri nætur á gjörgæslu höfðu hærri tíðni minniháttar fylgikvilla (66% á móti 43%, p<0,001) (tafla III). Einnig reyndist marktækur munur á öllum alvarlegum fylgikvillum sem voru bornir saman milli hópanna. Sjúklingar sem þurftu lengri gjörgæsludvöl þurftu oftar á enduraðgerð að halda vegna mikillar blæðingar (15% á móti 3%, p<0,001) og 30-daga dánartíðni þeirra var sjöfalt hærri borið saman við viðmiðunarhópinn (7% á móti 1%, p<0,001).

Langtímalifun og MACCE-frí lifun sjúklinga sem lágu tvær eða fleiri nætur á gjörgæslu var marktækt lakari en þeirra sem lágu skemur á gjörgæslu (mynd 2a og 2b). Þannig var eins árs lifun sjúklinga sem lágu í tvær eða fleiri nætur 90% samanborið við 98% í viðmiðunarhópnum (p<0,0001) en á sömu tímapunktum var MACCE- frí lifun 84% og 95% (p<0,0001). Fimm ára lifun sjúklinga sem lágu tvær eða fleiri nætur var 78% samanborið við 93% í viðmiðunarhópnum (p<0,0001). Á sama tíma var MACCE-frí lifun þessara hópa 68% og 85% (p<0,0001).

Samkvæmt fjölþátta aðhvarfsgreiningu voru helstu sjálfstæðu áhættuþættirnir fyrir lengri dvöl á gjörgæslu sem þekktir voru fyrir aðgerð hærri aldur, kvenkyn, hærra EuroSCORE II gildi, skert nýrnastarfsemi, þörf á bráðaaðgerð og fyrri saga um aðra hjartasjúkdóma eins og hjartabilun og lokusjúkdóma (tafla IV). Eftir fjölbreytuleiðréttingu reyndust aldur, nýlegt hjartaáfall og skert nýrnastarfsemi hins vegar ekki lengur spá fyrir lengri dvöl á gjörgæslu. Því var í lokalíkaninu leiðrétt fyrir kyni, aldri, nýlegu hjartaáfalli, sögu um hjartabilun, lokusjúkdómi, skertri nýrnastarfsemi, vinstra slegils útstreymisbroti 30% eða undir, EuroSCORE II gildi og hvort aðgerðin var bráðaaðgerð (tafla IV). Út frá niðurstöðum fjölþátta aðhvarfsgreiningar var útbúinn áhættureiknir sem hægt er að nota til að áætla líkur á því að sjúklingur liggi tvær eða fleiri nætur á gjörgæsludeild eftir kransæðahjáveitu á Landspítala. Reiknivélina má finna á eftirfarandi vefslóð: https://notendur.hi.is/mingi/calculator.html (mynd 3).

 

Umræður

Tuttugu prósent sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala á árunum 2001-2018 dvöldu tvær eða fleiri nætur á gjörgæslu. Þættir sem spáðu fyrir um lengri dvöl á gjörgæslu tengdust flestir verra heilsufari sjúklings en einnig töku ákveðinna lyfja og háu EuroSCORE II gildi. Í erlendum rannsóknum var hlutfall sjúklinga sem lágu tvær eða fleiri nætur á gjörgæslu eftir hjáveituaðgerð mjög breytilegt.2,13 Samanburður er þó oft erfiður því þar var grunnbreytan, það er lengd gjörgæsludvalar, oft miðuð við aðra tímalengd en í okkar rannsókn. Í rannsókn Azarfarin og félaga lágu til dæmis 34% sjúklinga lengur en 96 klukkustundir á gjörgæslu eftir opna hjartaaðgerð.2 Mögulega hefur legutími á gjörgæslu lengst í einhverjum tilvikum þegar ekki var hægt að taka á móti sjúklingum á legudeild vegna pláss-leysis. Ennfremur er hugsanlegt að útskriftum af gjörgæsludeild hafi verið flýtt vegna bráðveikra eða slasaðra einstaklinga sem þurftu frekar á gjörgæslueftirliti að halda, sem gæti hafa skekkt niðurstöðurnar.

Þeir þættir sem fylgdu lengri dvöl á gjörgæslu voru flestir tengdir verra heilsufari sjúklings. Einnig sást munur á EuroSCORE II áhættuskori og lyfjatöku. Áhugavert er að blóðfitulækkandi statín virðast vera verndandi þáttur fyrir lengri gjörgæsludvöl í okkar rannsókn. Þetta tengist líklega því að sjúklingar sem gangast undir bráðaaðgerð eru síður líklegir til að hafa þekktan kransæðasjúkdóm og taka blóðfitulækkandi lyf, en sjúklingar sem undirgangast bráðaaðgerð eru í aukinni áhættu á að þurfa lengri en tvær nætur á gjörgæsludeild.

Út frá þeim breytum sem þekktar voru fyrir aðgerð var útbúið spálíkan til að reikna líkur á dvalarlengd á gjörgæslu í tvær eða fleiri nætur. Margar af breytunum í spálíkaninu eru sambærilegar erlendum rannsóknum, eins og aldur, kyn og hjartabilunareinkenni.2-4,14 Samkvæmt erlendum rannsóknum er þekkt að áhættuþættir eins og hár aldur, minnkað útstreymisbrot, og lungnasjúkdómar hafa tengsl við lengda gjörgæsludvöl.14 Þó reyndust lungnasjúkdómar ekki hafa jafn mikil áhrif í okkar rannsókn og þeim erlendu.

Marktækt færri aðgerðir voru framkvæmdar á sláandi hjarta hjá sjúklingum sem lágu tvær eða fleiri nætur á gjörgæslu. Jafnframt var notkun á vinstri brjóstholsslagæð (LIMA) fátíðari hjá þessum sjúklingum, sem er í samræmi við niðurstöður annarra rannsókna.15 Þetta má sennilega útskýra með þeirri staðreynd að notkun LIMA-græðlings lengir aðgerðartíma og eykur blæðingarhættu og bráðveikir sjúklingar þola síður aðgerð á sláandi hjarta. Loks er líklegt að sjúklingar sem dvelja lengur á gjörgæsludeild séu veikari fyrir aðgerð, sem stýrir ákvörðuninni að nota ekki LIMA-græðling eða gera aðgerðina á sláandi hjarta.

Marktækur munur var á næstum öllum minniháttar og alvarlegum fylgikvillum milli hópanna, en svipuðum niðurstöðum hefur verið lýst erlendis.15-17 Enduraðgerðir vegna blæðingar voru marktækt fleiri hjá sjúklingum sem voru tvær eða fleiri nætur á gjörgæslu samanborið við þá sem lágu þar í eina nótt, en sýnt hefur verið fram á tengsl enduraðgerða vegna blæðingar við lengri gjörgæsludvöl.16 Þrjátíu daga dánartíðni var marktækt hærri hjá þeim sem lágu tvær eða fleiri nætur á gjörgæslu og er í samræmi við fjölda sambærilegra rannsókna erlendis.4,15,17 Einnig reyndist marktækur munur á langtímalifun milli hópanna tveggja og munaði 8% ári frá aðgerð og 15% eftir 5 ár (p<0,0001). Tvær erlendar rannsóknir sýndu sömuleiðis marktækt verri eins árs lifun hjá einstaklingum með lengri gjörgæsludvöl líkt og í okkar rannsókn.18,19 Rannsókn Williams og félaga sýndi einnig marktækan mun eftir 5 og 10 ár.20 Svipaður munur sást fyrir MACCE-fría lifun (p<0,0001) og var það einnig sambærilegt og í öðrum erlendum rannsóknum.21

Helsti styrkleiki þessarar rannsóknar er að margar breytur voru skráðar fyrir hvern sjúkling og er gagnagrunnurinn því mjög ítarlegur. Auk þess lágu upplýsingar um legutíma á sjúkrahúsi fyrir hjá nær öllum sjúklingum og eftirfylgd sjúklinganna með tilliti til lifunar var nánast 100%. Loks er sjúklingahópurinn tiltölulega einsleitur, allir sjúklingar fóru í aðgerð í sömu stofnun og voru meðhöndlaðir af fáum skurðlæknum og gjörgæslulæknum. Rannsóknartímabilið var langt og ljóst að breytingar hafa orðið á aðgerðarábendingum, aðgerðartækni, sjúklingahópi og starfsemi gjörgæsludeildar Landspítala á tímabilinu. Þannig er mögulegt að samsetning sjúkingahópsins með tilliti til áhættuþátta og einnig samsetning áhættuþátta með tilliti til lengdrar dvalar á gjörgæslu hafi breyst á rannsóknartímabilinu. Þetta gæti valdið því að forspárþættir gætu verið ýmist ofmetnir eða vanmetnir. Gildi reiknisins verður því að kanna betur framskyggnt. Helsti veikleiki rannsóknarinnar er afturskyggn hönnun hennar. Sömuleiðis töldum við fjölda sjúklinga ekki nægan til að skipta þýðinu upp til að búa til hönnunar- og prófunarþýði fyrir áhættureikninn, en stefnan er að kanna reikninn framskyggnt.

Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna að fimmti hver sjúklingur þarf gjörgæsludvöl í tvær eða fleiri nætur eftir kransæðahjáveitu á Landspítala. Ýmsir áhættuþættir spá fyrir um lengri gjörgæsludvöl eftir kransæðahjáveitu, sérstaklega undirliggjandi ástand sjúklings, hærra EuroSCORE II og hve brátt aðgerðin fer fram. Á Íslandi eru ekki til svokallaðar hágæsludeildir sem eru millistig milli gjörgæsludeildar og almennrar legudeildar, en þar liggja sjúklingar sem þurfa mikla umönnun og eftirlit en þarfnast ekki fullrar gjörgæslumeðferðar. Ef slíkur möguleiki væri til staðar á Landspítala gæti það hugsanlega létt á gjörgæsludeildinni og aukið möguleika á valaðgerðum eins og kransæðahjáveituaðgerðum. Með betri skilningi á áhættuþáttum lengdrar gjörgæsludvalar vonumst við til þess að unnt verði að skipuleggja valaðgerðir betur til að hámarka nýtingu gjörgæsluplássa, og draga úr frestun valaðgerða sem krefjast gjörgæsluinnlagna.

 

Þakkir

Þakkir fá læknar á hjarta- og lungnaskurðdeild og gjörgæsludeild Landspítala. Rannsóknin var styrkt af Vísindasjóði Landspítala og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.

 

Heimildir

1. Kárason S. Tólf gjörgæslurúm á Landspítala - dugar það til? Læknablaðið 2018; 104: 333.
https://doi.org/10.17992/lbl.2018.0708.191

PMid:29972133

 
2. Azarfarin R, Ashouri N, Totonchi Z, Bakhshandeh H, Yaghoubi A. Factors influencing prolonged ICU stay after open heart surgery. Res Cardiovasc Med 2014; 3: e20159.
https://doi.org/10.5812/cardiovascmed.20159

PMid:25785249 PMCid:PMC4347792

 
 
3. Legare JF, Hirsch GM, Buth KJ, MacDougall C, Sullivan JA. Preoperative prediction of prolonged mechanical ventilation following coronary artery bypass grafting. Eur J Cardiothorac Surg 2001; 20: 930-6.
https://doi.org/10.1016/S1010-7940(01)00940-X
 
 
4. Weintraub WS, Jones EL, Craver J, Guyton R, Cohen C. Determinants of prolonged length of hospital stay after coronary bypass surgery. Circulation 1989; 80: 276-84.
https://doi.org/10.1161/01.CIR.80.2.276

PMid:2787709

 
 
5. Lazar HL, Fitzgerald CA, Ahmad T, Bao Y, Colton T, Shapira OM, et al. Early discharge after coronary artery bypass graft surgery: are patients really going home earlier? J Thorac Cardiovasc Surg 2001; 121: 943-50.
https://doi.org/10.1067/mtc.2001.113751

PMid:11326238

 
 
6. Cohn WE, Sellke FW, Sirois C, Lisbon A, Johnson RG. Surgical ICU recidivism after cardiac operations. Chest 1999; 116: 688-92.
https://doi.org/10.1378/chest.116.3.688

PMid:10492272

 
 
7. Ettema RGA, Peelen LM, Schuurmans MJ, Nierich AP, Kalkman CJ, Moons KGM. Prediction Models for Prolonged Intensive Care Unit Stay After Cardiac Surgery. Circulation 2010; 122: 682-9.
https://doi.org/10.1161/CIRCULATIONAHA.109.926808

PMid:20679549

 
 
8. De Maria R, Mazzoni M, Parolini M, Gregori D, Bortone F, Arena V, et al. Predictive value of EuroSCORE on long term outcome in cardiac surgery patients: a single institution study. Heart 2005; 91: 779-84.
https://doi.org/10.1136/hrt.2004.037135

PMid:15894777 PMCid:PMC1768917

 
 
9. Lawrence DR, Valencia O, Smith EE, Murday A, Treasure T. Parsonnet score is a good predictor of the duration of intensive care unit stay following cardiac surgery. Heart 2000; 83: 429-32.
https://doi.org/10.1136/heart.83.4.429

PMid:10722544 PMCid:PMC1729388

 
 
10. Campeau L. Letter: Grading of angina pectoris. Circulation 1976; 54: 522-3.
https://doi.org/10.1161/circ.54.3.947585

PMid:947585

 
 
11. Criteria Committee of the New York Heart Association. Nomenclature and Criteria for Diagnosis of Diseases of the Heart and Great Vessels. 9th ed. Little, Brown, Boston 1994.  
 
12. EuroSCORE Study Group. EuroSCORE II calculator 2011. euroscore.org/calc.html - nóvember 2019.  
 
13. Hughes M, MacKirdy FN, Norrie J, Grant IS. Outcome of long-stay intensive care patients. Intensive Care Med 2001; 27: 779-82.
https://doi.org/10.1007/s001340100896

PMid:11398708

 
 
14. Gruenberg DA, Shelton W, Rose SL, Rutter AE, Socaris S, McGee G. Factors Influencing Length of Stay in the Intensive Care Unit. Am J Crit Care 2006; 15: 502-9.  
 
15. Herman C, Karolak W, Yip AM, Buth KJ, Hassan A, Legare JF. Predicting prolonged intensive care unit length of stay in patients undergoing coronary artery bypass surgery--development of an entirely preoperative scorecard. Interact Cardiovasc Thorac Surg 2009; 9: 654-8.
https://doi.org/10.1510/icvts.2008.199521

PMid:19640868

 
 
16. Ngufor C, Murphree D, Upadhyaya S, Madde N, Pathak J, Carter R, et al. Predicting Prolonged Stay in the ICU Attributable to Bleeding in Patients Offered Plasma Transfusion. AMIA Annu Symp Proc 2017 2016: 954-63.  
 
17. Yu PJ, Cassiere HA, Fishbein J, Esposito RA, Hartman AR. Outcomes of Patients With Prolonged Intensive Care Unit Length of Stay After Cardiac Surgery. J Cardiothorac Vasc Anesth 2016; 30: 1550-4.
https://doi.org/10.1053/j.jvca.2016.03.145

PMid:27498267

 
 
18. Laupland KB, Kirkpatrick AW, Kortbeek JB, Zuege DJ. Long-term mortality outcome associated with prolonged admission to the ICU. Chest 2006; 129: 954-9.
https://doi.org/10.1378/chest.129.4.954

PMid:16608944

 
 
19. Steenbergen S, Rijkenberg S, Adonis T, Kroeze G, van Stijn I, Endeman H. Long-term treated intensive care patients outcomes: the one-year mortality rate, quality of life, health care use and long-term complications as reported by general practitioners. BMC Anesthesiol 2015; 15: 142.
https://doi.org/10.1186/s12871-015-0121-x

PMid:26459381 PMCid:PMC4604105

 
 
20. Williams TA, Ho KM, Dobb GJ, Finn JC, Knuiman M, Webb SA. Effect of length of stay in intensive care unit on hospital and long-term mortality of critically ill adult patients. Brit J Anaesth 2010; 104: 459-64.
https://doi.org/10.1093/bja/aeq025

PMid:20185517

 
 
21. Diab MS, Bilkhu R, Soppa G, Edsell M, Fletcher N, Heiberg J, et al. The influence of prolonged intensive care stay on quality of life, recovery, and clinical outcomes following cardiac surgery: A prospective cohort study. J Thorac Cardiovasc Surg 2018; 156: 1906-15.e3.
https://doi.org/10.1016/j.jtcvs.2018.05.076

PMid:30336918

 
 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica