Ágrip gestafyrirlesara

ÁGRIP GESTAFYRIRLESTRA

G1 Svæfingalækningar við opnar hjartaskurðaðgerðir:  frá RNA til gáttatifs og Harvard til Rúanda

Martin Ingi Sigurðsson, sérfræðilæknir í svæfinga- og gjörgæslulækningum á Landspítala og aðjúnkt við læknadeild Háskóla Íslands

Þrátt fyrir að framfarir í svæfingalækningum hafi á síðastliðnum 80 árum stuðlað að nær hundraðfaldri minnkun á alvarlegustu fylgikvillum svæfinga þekkja fáir til daglegra starfa svæfinga- og gjörgæslulækna. Enn færri þekkja til starfs svæfingalækna sérmenntaðra í svæfingum fyrir opnar hjartaskurðaðgerðir. Þessi undirsérgrein svæfingalækninga hefur tekið stórstígum framförum á síðastliðnum 20 árum, einkum með bættri tækni í ómskoðunum á hjarta.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um þau einstöku tækifæri sem nám og störf í svæfingalækningum og svæfingum við opnar hjartaskurðaðgerðir bjóða upp á. Auk spennandi starfs við að sinna sjúklingum býður fagið uppá ótal rannsóknarmöguleika. Svæfingalæknar vinna náið í samstarfi við aðrar sérgreinar læknisfræðinnar og aðrar heilbrigðisstéttir að því að auka öryggi og rannsaka fylgikvilla og horfur eftir skurðaðgerðir. Að auki býður vinna svæfingalækna við opnar hjartaskurðaðgerðir upp á að taka sýni úr hjartanu í aðgerðinni sem hægt er að nota til að rannsaka sameindalíffræði algengra hjartasjúkdóma.
Einnig mun höfundur fjalla um sjálfboðaliðastörf sín með Team Heart í Rúanda. Í þróunarlöndum er grunnheilbrigðisþjónusta enn af skornum skammti, hvað þá hátækniþjónusta á borð við opnar hjartaskurðaðgerðir. Team Heart hjálparsamtökin ferðast á hverju ári til Rúanda og setja þar upp skurðstofu og gjörgæsludeild. Í kjölfarið framkvæma sjálfboðaliðar samtakanna opnar hjartaskurðaðgerðir á ungu fólki með skemmdar hjartalokur vegna gigtsóttar, sjaldgæfs fylgikvilla ómeðhöndlaðrar streptókokkasýkingar í hálsi. Eitt aðalmarkmiða samtakanna er að flytja hátækniþekkinguna yfir til heimamanna og kenna innlendu fagfólki til að stuðla að framþróun heilbrigðisþjónustu í landinu.


G2 Integrating gaming and science

Bergþór Hauksson

Senior Development Manager for CCP

The term citizen science entered the Oxford English Dictionary in June 2014 so it is a fairly recent concept. In essence it is scientific research conducted, in whole or in part, by amateur (or nonprofessional) scientists and there are already some fairly high profile projects of this nature online such as FoldIt and Zooniverse.
In this talk we will explore Project Discovery which is our name for allowing EVE Online players to contribute to real science through our game. It has been a huge success and has gone through two iterations; classifying human proteins and hunting for exoplanets. The first one even landed the research and one of our virtual spaceships on the front page of Nature Biotechnology.

G3 Heilsa metin til fjár

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor við hagfræðideild HÍ

Hættan við stefnumótun sem grundvölluð er á upplýsingum er sú tilhneiging að meta til fjár það sem er auðmælanlegt, en ná ekki tökum á virði þess sem mestu máli skiptir. Rannsóknir á virði óáþreifanlegra og illmælanlegra gæða eru mikilvægar, en mikilvægið er þó breytilegt eftir málaflokkum. Gildi slíkra mælinga á sviði heilbrigðismála er augljóst. Frekar einfalt er að mæla ákveðin verðmæti, svo sem minni heilbrigðiskostnað til lengri tíma fyrir þá sem ná heilsu og meiri framleiðni vegna aukinnar starfsorku. Þó má gera ráð fyrir að slíkur ávinningur sé oft á tíðum léttvægur í samanburði við aukin heilsutengd lífsgæði einstaklingsins. Það er jú eitt helsta markmiðið með íhlutunum á sviði heilbrigðismála að draga úr þjáningum fólks og auka vellíðan.
Við val á milli meðferða sem margar hverjar eru mjög kostnaðarsamar er oft stuðst við hagkvæmnisgreiningar þar sem borinn er saman kostnaður og ávinningur. Í ljósi takmarkaðs fjármagns eru flestir sammála um að slíkir útreikningar séu mikilvægir. En spurningin sem vaknar er hvort mögulegt sé að taka virði heilsunnar sjálfrar með í reikninginn, enda eru heilsutengd lífsgæði oft veigamesti ávinningurinn sem meðferð hefur í för með sér.
Verðmat á heilsu er umfjöllunarefni erindisins. Fjöl-þjóðlegi rannsóknarhópurinn ConCIV stundar rannsóknir á virði óáþreifanlegra gæða með heilsu í forgrunni. Hópnum er stýrt frá Háskóla Íslands af fyrirlesaranum og í erindinu verður fjallað um rannsóknir hópsins. Mikilvægi slíkra rannsókna felst í því að þessar veigamiklu afurðir heilbrigðisþjónustunnar – heilsutengd lífsgæði – séu ekki undanskildar þegar kostnaðarábatagreiningar eru  gerðar.
Að meta virði heilsu er snúið verkefni á margan hátt, bæði hugmyndafræðilega, siðfræðilega, hagfræðilega og aðferðafræðilega. Um þessa þætti verður fjallað í erindinu.

 

I1 Integrating gaming and science

Bergþór Hauksson Senior Development Manager for CCP

The term citizen science entered the Oxford English Dictionary in June 2014 so it is a fairly recent concept. In essence it is scientific research conducted, in whole or in part, by amateur (or nonprofessional) scientists and there are already some fairly high profile projects of this nature online such as FoldIt and Zooniverse.
In this talk we will explore Project Discovery which is our name for allowing EVE Online players to contribute to real science through our game. It has been a huge success and has gone through two iterations; classifying human proteins and hunting for exoplanets. The first one even landed the research and one of our virtual spaceships on the front page of Nature Biotechnology. 

 

ÁGRIP OPINNA FYRIRLESTRA

O1 Hvað segja vísindin um áhrif mataræðis á geðraskanir barna?

Bryndís Eva Birgisdóttir prófessor við matvæla- og næringarfræðideild,
Bertrand Lauth lektor við læknadeild og MMM teymið

Matur er magnað fyrirbæri. Í hverri máltíð eru þúsundir mismunandi efna sem renna saman við mannslíkamann og fá hann til að bregðast við á mismunandi hátt. Tengslum mataræðis og geðraskana hefur löngum verið haldið fram en á  undanförnum árum hefur rannsóknum á mataræði, bæði sem mögulegri forvörn og sem meðferðarrúrræði fleygt fram. Ekki síst með betri skilningi á hlutverki örveruflóru meltingarvegar, hvernig mataræði getur mögulega mótað samsetningu hennar og virkni ásamt öðrum lífsstílsþáttum og erfðum, sem gera okkur öll einstök. Gott næringarástand er undirstaða vellíðunar og hreysti barna. Þá má ekki gleyma umgjörð máltíða, félagslegum þáttum og matarmenningu. Í erindinu verða skoðaðar vísindarannsóknir á tengslum mataræðis og geðraskana barna, bæði innlendar og erlendar og nýjar framtíðarrannsóknir kynntar til leiks.

 

O2 Áhrif framleiðsluhátta og uppruna matvæla á bakteríur og fæðuöryggi Íslendinga

Karl G. Kristinsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og sýkla- og veirufræðideild Landspítala

Fjölgun mannkyns og vaxandi kjötneysla í þróunarlöndunum kallar á meiri kjötframleiðslu. Til að svara eftirspurn hefur stórum verksmiðjubúgörðum fjölgað á kostnað hefðbundins landbúnaðar. Í Bandaríkjunum eru yfir 99% kjúklinga, 95% svína og 78% nautgripa framleidd á verksmiðjubúgörðum. Til að koma í veg fyrir sjúkdóma og auka framleiðni við þessar aðstæður er sýklalyfjum bætt í fóður dýranna. Meira er nú notað af sýklalyfjum í landbúnaði í Evrópu og Bandaríkjunum en í mönnum. Mörg sýklalyfjanna brotna hægt eða illa niður í umhverfinu, safnast þar fyrir og skapa kjöraðstæður fyrir þróun fjölónæmra sýkla sem berast auðveldlega í dýr, matvæli og menn. Með stóraukinni alþjóðaverslun með matvæli breiðast fjölónæmar bakteríur frá löndum með mikla sýklalyfjanotkun og hátt hlutfall sýklalyfjaónæmra baktería til landa með lágt hlutfall. Á Íslandi er enn stundaður hefðbundinn landbúnaður og svokallaðir verksmiðjubúgarðar eru smáir í sniðum. Ísland hefur algera sérstöðu hvað varðar litla notkun sýklalyfja í landbúnaði og lágt hlutfall sýklalyfjaónæmis í bakteríum frá mönnum og dýrum. Auk þess er fjöldi tegunda smitsjúkdóma í dýrum, og útbreiðsla Campylobacter og Salmonella með því allra lægsta sem þekkist, sem eflaust má þakka landfræðilegri einangrun, lítilli sýklalyfjanotkun í dýrum og takmörkunum á innflutningi dýra og landbúnaðarafurða. Þessari stöðu er ógnað með rýmri tollareglum og niðurstöðu EFTA dómstólsins um innflutning á ferskum kjötvörum. Mikilvægt er að almenningur sé vel upplýstur um stöðuna því sýklalyfjaónæmi er ein mesta ógn við lýðheilsu í dag og engin ný sýklalyf eru í augsýn. Mikilvægt er að varðveita sérstöðu Íslands enda líf og heilsa manna og dýra í húfi.

 

GESTAMÁLSTOFA

M1 Að vita eða ekki vita! Hvenær á að tjá þátttakendum í vísindarannsóknum nýjar upplýsingar um þá sjálfa?

Kristján Erlendsson formaður vísindasiðanefndar Íslands og dósent við læknadeild

Kristján er formaður vísindasiðanefndar Íslands og dósent við læknadeild stýrir vinnustofunni. Að auki munu taka til máls Helga Bragadóttir prófessor við hjúkrunarfræðideild, Henry Alexander Henrysson frá Siðfræðistofnun og aðjúnkt við hugvísinda-, sagnfræði- og heimspekideild og Íris Ólöf Sigurjónsdóttir frá Brakka, samtökum um BRACA.

Fjallað verður um þessa spurningu út frá eftirfarandi punktum. Þar koma fram sumar þeirra siðfræðilegu spurninga sem verið hafa til umræðu síðastliðin ár.

Hvað er (vísinda)rannsókn og hvers vegna taka menn þátt í henni?

Lög um vísindarannóknir á heilbrigðissviði 2014  - „...auka þekkingu á heilbrigði og sjúkdómum“.

Siðfræði/(vísindasiðfræði) breytilegt hugtak eftir löndum, almennum aðstæðum og tíma.

Geta læknar (heilbrigðisstarfsmenn) beitt mismunandi rökum og aðferðum gagnvart einstaklingum eftir því hvort um er að ræða „vísindarannsókn“ eða meðferð?


M2 Samfélag, umhverfi og lýðheilsa – uppfærslan

Fundarstjóri: Helga Arnardóttir fjölmiðlafræðingur

Sífellt fleiri rannsóknir sýna fram á að hægt er að efla heilsu fólks með áhrifaþáttum úr umhverfi. Samfélagsleg þróun spilar stóran þátt í heilsueflingunni þar sem umhverfi hefur áhrif á heilsuhegðun einstaklingsins. Í þessari málstofu skoðum við samspilið á milli umhverfisþátta og einstaklingsins, hvað hefur breyst á undanförnum árum og hvernig hægt er að hafa áhrif á heilsueflingu til framtíðar. Málstofunni stýrir Helga Arnardóttir fjölmiðlafræðingur og áhugamanneskja um heilsu sem hefur nýverið lokið gerð þáttaraðar um geðrækt. Ragna Benedikta Garðarsdóttir mun fjalla um áhrif umhverfis á heilsu og Árelía Eydís Guðmundsdóttir fjallar um málefnið frá hlið einstaklingsins.

Samspil samfélags og heilsu

Ragna Benedikta Garðarsdóttir dósent við sálfræðideild HÍ

Félagssálfræði fjallar meðal annars um hvernig samfélög og umhverfisþættir hafa áhrif á hugsun, hegðun og líðan fólks. Sérþekking Rögnu snýr að eðli og afleiðingum neyslusamfélaga og rannsóknir hennar tengjast sjálfsmynd, lífsgildum og hamingju. (Vísindavefurinn, 1. júní 2018). Erindið mun fyrst og fremst fjalla um takmarkanir þeirrar einstaklingshyggju sem hefur verið ríkjandi stefna í rannsóknum innan sálfræði og annarra faggreina undanfarna áratugi. Auk þess að hafa áhrif á stefnumótun hefur sú hugmyndafræði verið á kostnað þess að rannsaka til hlítar áhrif samfélaga og umhverfis á líðan, hegðun og sjálfsmynd fólks.

Má ekki bjóða þér uppfærslu?

Árelía Eydís Guðmundsdóttir dósent við viðskiptafræðideild HÍ

Sérfræðiþekking Árelíu er á forystu og leiðtogafræðum og á vinnumarkaði. Eftir hana hefur komið út fjöldi greina, pistla auk bóka og bókakafla. Nýjastu bækur eftir hana og fleiri eru: Sterkari í seinni hálfleik sem fjallar um hvernig við getum sem best undirbúið okkur fyrir síðari æviskeið lífsins (2017). Demystifying Leadership in Iceland: An Inquiry Into Cultural, Societal, and Entrepreneurial Uniqueness (2018).




Þetta vefsvæði byggir á Eplica