Ágrip erinda

Ágrip erinda

GESTAFYRIRLESTUR

Heildrænt öldrunarmat á bráðasjúkrahúsi er lykill að bættum umönnunarferlum

Pálmi V. Jónsson1,2, 3

1Rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum, 2öldrunarlækningadeild Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands

palmivj@landspitali.is

Eldra fólk sem sækir bráðamóttökur er í aukinni áhættu á óhagstæðri útkomu samanborið við yngra fólk, svo sem andláti, færnitapi, langri sjúkrahúsdvöl, endurinnlögn og hjúkrunarheimilisdvöl. Breytileiki eldra fólks hvað varðar færni og heilsufar er hins vegar mikill. Lykill að framförum er að skilja þennan breytileika.

Nýleg framvirk lýsandi rannsókn á fólki 75 ára og eldra sem metið var með skimtæki InterRAI fyrir bráðamóttökur, meðal annars á Landspítala, sýndi fram á margvíslega spáþætti fyrir óheppilegri niðurstöðu veikinda þeirra: Einbúi (OR=1,75, p=<0,00), umönnunarálag ættingja (OR=1,67, p=0,01), göngulagstruflun (OR=2,15, p=<0,00) og áverki (OR=2,14, p=<0,00) útsettu eldra fólk fyrir langri sjúkrahúsdvöl. Óháð landi, spáði nýlegt ADL-færnitap (persónuleg umhirða) (OR=2,19, p=<0,00) fyrir um þörf fyrir aukna þjónustu, oft hjúkrunarheimilisdvöl. Nýleg heimsókn á bráðamóttöku (OR=1,95, p=<0,00), erfiðleikar við að ganga stiga (OR=1,90, p=<0,00) og sæmilegt eða lélegt sjálfsmat á heilsu (OR=1,91, p=<0,00) spáði fyrir um endurinnlögn á sjúkrahús í náinni framtíð. Áður hafði samnorræn rannsókn á fólki eldra en 75 ára sem lagt var inn á bráðasjúkrahús sýnt sambærilegar niðurstöður.

Í framhaldi af þróun og rannsóknarvinnu eru komin fram þrjú ný InterRAI matstæki: skim- og matstæki fyrir bráðamóttökur (InterRAI ED S og InterRAI ED A) og matstæki fyrir bráðasjúkrahús (InterRAI AC). Með þessum matstækjum má efla teymisvinnu fagstétta, bæta til muna skráningu upplýsinga, velja úr sérstaka áhættuhópa og byggja umönnunarferla sem einstaklingsmiða þjónustuna við þarfir þess einstaklings. Unnið er að breytingum á móttöku eldra fólks á bráðamóttöku Landspítala með nýtingu slíkra matstækja. Stofnun öldrunarteymis á Landspítala sem og endurskipulagning á dagdeild öldrunarlækningadeildar nýtir sér einnig þessa tækni.



E-1          Mat hjúkrunarfræðinga á bráðadeild
Landspítala á eigin hæfni

Dóra Björnsdóttir1, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir1,2, Hrund Sch. Thorsteinsson3

1Bráðadeild Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 3menntadeild Landspítala

dorabj@landspitali.is

Bakgrunnur: Hæfni hjúkrunarfræðinga er einn af lykilþáttum sem hafa áhrif á gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga. Til að tryggja megi gæði þjónustunnar þarf hæfni hjúkrunarfræðinga ávallt að vera í takt við þarfir sjúklinga og þær kröfur sem gerðar eru til hjúkrunarfræðinga á hverjum tíma. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna og lýsa hvernig íslenskir hjúkrunarfræðingar meta hæfni sína.

Markmið: Að afla upplýsinga sem nýta megi við starfsþróun, aðlögun, kennslu og fræðslu.

Aðferðir: Aðferðin var megindleg lýsandi þversniðsathugun sem gerð var í febrúar til apríl 2015. Þátttakendur voru 76 hjúkrunarfræðingar á bráðamóttöku Landspítala, svarhlutfall var 81%. Notað var viðurkennt finnskt mælitæki, Nurse Competence Scale (NCS), og var það þýtt og staðfært fyrir íslenskar aðstæður. Mælitækið er sjálfsmat sem inniheldur 73 spurningar sem skiptast í 7 hæfniþætti, sem mældir voru á VAS skala 0-10. Gögnin voru greind með lýsandi tölfræði og aðhvarfsgreiningu.

Niðurstöður: Marktækur munur var á mati hjúkrunarfræðinga á eigin hæfni eftir starfsaldri í fjórum hæfniþáttum. Voru það hæfniþættirnir kennsluhlutverk (p=0,010), hjúkrunaríhlutanir (p=0,030), starfshlutverk (p=0,048) og heildarhæfni (p=0,040). Oftast voru það hjúkrunarfræðingar með 10-15 ára starfsreynslu sem mátu hæfni sína mesta eða í fjórum hæfniþáttum af sjö, stjórnun í aðstæðum, hjúkrunaríhlutanir, trygging gæða ogstarfshlutverk. Aðeins í einum hæfniþætti, umönnun, voru það þátttakendur með lengstan starfsaldur eða yfir 20 ára starfsreynslu sem mátu hæfni sína mesta.

Ályktanir: Mat hjúkrunarfræðinga á eigin hæfni óx mest á milli 5 og 10 ára starfsaldurs en náði eftir það ákveðnu jafnvægi og fór í sumum tilfellum dalandi. Mismunandi hæfniþættir eru ríkjandi eftir starfsaldri hjúkrunarfræðinga og má draga þá ályktun að starfsþróun þurfi að vera virk allan starfsferilinn og þurfi að taka mið af starfsreynslu. Á þann hátt má hugsanlega draga úr brottfalli hjúkrunarfræðinga úr starfi og auka öryggi í þjónustu bráðamóttökunnar.

 

E-2          Meðferð og líðan sjúklinga með
óskilgreinda brjóstverki á Hjartagátt

Erla Svansdóttir1, Björg Sigurðardóttir2, Hróbjartur Darri Karlsson3, Elísabet Benedikz1, Karl Andersen2

1Gæða- og sýkingarvarnardeild, 2Hjartagátt, 3lyflækningasviði Landpítala

erlasvan@landspitali.is

Bakgrunnur: Óskilgreindir brjóstverkir eru endurteknir verkir sem ekki stafa af kransæðasjúkdómum. Sjúklingar með óskilgreindra brjóstverki skapa talsvert álag á hjartabráðamóttökur, þar sem allt að 50-75% innlagna eru vegna þeirra. Þessi sjúklingahópur fær hins vegar sjaldan viðeigandi meðferð og situr uppi með áframhaldandi verki, lyfjanotkun og skert lífsgæði eftir útskrift.

Markmið: Markmið þessarar rannsóknar er að meta algengi óskilgreindra brjóstverkja á Íslandi og skoða tengsl þeirra við andlega líðan, lyfjanotkun, nýtingu á heilbrigðisþjónustu og kostnað við veitta meðferð.

Aðferð: Öllum sjúklingum á aldrinum 18-65 ára sem koma á Hjartagátt Landspítala vegna brjóstverkja eða óþæginda frá brjósti (október 2015-júní 2016) verður boðin þátttaka í rannsókninni. Þátttaka felst í að svara spurningalistum við innlögn sem meta andlega líðan, líkamleg einkenni, síþreytu og hugarfar sjúklinga. Gögnum um veitta meðferð, notkun á lyfjum og læknisþjónustu, og áætlaðan meðferðarkostnað verður safnað úr sjúkraskrá og gagnaskrám Embættis Landlæknis.

Niðurstöður: Bráðabirgðaniðurstöður meðal fyrstu 100 þátttakendanna sýna að 62% þeirra hafa óskilgreinda brjóstverki. Meðalaldur þátttakenda var 50,5 ár. Meðal sjúklinga með óskilgreinda brjóstverki höfðu 37% (23) verið sendir í lungnamyndatöku, 40% (25) farið í áreynslupróf, 10% (6) farið í þræðingu og 5% (3) farið í hjartaómun. Algengi alvarlegra (10% vs. 0%) og miðlungs þunglyndiseinkenna (41% vs. 34%) var hærra meðal sjúklinga með óskilgreindra brjóstverki, en 49% þeirra og 66% annarra hjartasjúklinga höfðu engin þunglyndiseinkenni (p<0,05). Eins kom fram vísbending um hærra meðalskor á kvíða meðal sjúklinga með óskilgreindra brjóstverkja (M=4,4 (SD 4,7) vs. M=2,7 (SD 3,2), p=0,055), en ekki mældist munur á líkamlegum einkennum.

Ályktanir: Miðað við fyrstu tölur reynist hátt hlutfall sjúklinga sem leita á Hjartagátt vegna brjóstverkja- eða óþæginda frá brjósti hafa óskilgreinda brjóstverki, og meirihluti þeirra var sendur í lungamyndatökur, áreynslupróf eða hjartaþræðingar. Þessi sjúklingahópur hefur jafnframt verri andlega líðan samanborið við aðra sjúklinga með brjóstverki á Hjartagátt. Vísindalegur ávinningur rannsóknarinnar felst í aukinni þekkingu á algengi óskilgreindra brjóstverkja á Íslandi, hvaða meðferð sjúklingar með óskilgreinda brjóstverki hljóta í bráðaþjónustu, og hvaða líkamlegu- og andlegu þættir aðgreina þá frá kransæðasjúklingum. Þróað verður þverfaglegt inngrip út frá niðurstöðum rannsóknarinnar sem ætlað er að veita sjúklingum með óskilgreinda brjóstverki sértæka meðferð og bæta gæði þeirrar þjónustu sem þeim stendur til boða.

 

E-3          Tilvísanir til bráðaþjónustu barna-
og unglingageðdeildar (BUGL)

Bertrand Lauth1,2, Ellen Sif Sævarsdóttir3, Guðrún Bryndís Guðmundsdóttir 2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2barna- og unglingageðdeild Landspítala (BUGL), 3sálfræðideild Háskóla Íslands

bertrand@lsh.is

Bakgrunnur: Fjöldi tilvísana til bráðateymis barna- og unglingageðdeildar hefur aukist mikið undanfarin ár. Fjöldi bráðainnlagna á unglingageðdeild hefur líka aukist mikið. Einnig eru margar heimsóknir og innlagnir á bráðamóttöku Barnaspítala vegna geðrænna erfiðleika. Þessi þróun er frekar ný í barnageðlækningum og sérstaklega áberandi á Íslandi síðan 2010. Klínískar leiðbeiningar vantar til að veita öllum góða og samræmda þjónustu og skilgreina betur þær bráðatilvísanir sem bæri að hafna. Mælt hefur verið með ítarlegri endurskoðun af öllum bráðatilfellum, með stöðluðum aðferðum og skilningi á heildarferlum þeirra.

Markmið: Var að greina tilvísanir 308 barna og unglinga á aldrinum 7-18 ára sem leituðu í bráðaþjónustu BUGL árið 2013.

Aðferð: Rannsóknin var afturvirk um upplýsingar úr sjúkraskrám en gögnin sjálf voru ópersónugreinanleg. Byggt var á fyrri rannsóknum við upplýsingasöfnun og tveir bráðakvarðar notaðir við mat á réttmæti bráðatilfella.

Niðurstöður: Flestir sjúklingar voru á unglingsaldri (85%), meðalaldur var 15 ár og meirihluti voru stúlkur (67%). Tilvísendur voru í flestum tilfellum forsjáraðilar (31%). Algengast var að sjúklingar kæmu vegna þunglyndiseinkenna (71%), sjálfsvígshugleiðinga eða hótana (62%). Sjúklingar áttu margir foreldri með sögu um geðræna erfiðleika (35%) eða foreldri með fyrri og/eða núverandi sögu um áfengis- og/eða vímuefnaneyslu (20%). Um 21% sjúklinga hafði komið einu sinni eða oftar til bráðateymis áður og um 35% fengu bráðainnlögn á BUGL. Algengustu greiningarflokkar voru lyndisraskanir og blandin kvíða- og geðlægðarröskun (57%), athyglis- og ofvirkniraskanir (28%), streitu- og aðlögunarraskanir (26%), kvíða-raskanir (21%) og hegðunarraskanir (12%).

Ályktanir: Niðurstöðurnar varpa ljósi á einkenni og þarfir notenda bráðateymis BUGL og hvort mál teljist sem viðeigandi bráðatilfelli. Einnig hvort ákveðnir þættir voru líklegri en aðrir til að tengjast meðferðartíma, bráðainnlögnum, sjálfsvígstilraunum, sjálfsskaða og sjálfsvígshugleiðingum. BUGL er þriðju línu stofnun og ætti þar af leiðandi sjaldnast að vera fyrsti viðkomustaður inn í geðheilbrigðiskerfið. Rýna þarf í ástæður aukningar í bráðageðþjónustu en erlendis hefur meðal annars verið rætt um skort á grunn- og ítarþjónustu (eða skort á aðgengi), skort á barna- og unglingageðlæknum, langa biðlista, takmarkaðar sjúkratryggingar, vanþekkingu foreldra, stofnana og/eða meðferðaraðila á kerfinu.

 

E-4          Notkun og rekjanleiki neyðarblóðs í blóðskápum
Landspítala á árunum 2013-2015

Anna Margrét Halldórsdóttir1, Björn Harðarson1, Guðrún Svansdóttir1, Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen1

1Blóðbankanum Landspítala

annamha@landspitali.is

Bakgrunnur: Staðsetning neyðarblóðs nálægt sjúklingamóttökum og skurðstofum kemur í veg fyrir óþarfa tafir á blóðinngjöf. Á Landspítala eru þrír blóðskápar sem geyma neyðarblóð; nálægt skurðstofum og kvennadeild á Hringbraut og rannsóknardeild í Fossvogi. Neyðarblóð í skápum Landspítala er ávallt O RhD- (negatíft) rauðkornaþykkni. Þar sem einungis 8,4% íslensku þjóðarinnar eru í O RhD- blóðflokki er nauðsynlegt að O RhD- blóð sé ekki notað nema í neyð. Fordæmi eru fyrir því erlendis að bjóða O RhD+ (pósitíft) rauðkornaþykkni sem neyðarblóð fyrir karlmenn og konur yfir barneignaraldri (50 ára). Konur á barneignaraldri sem eru RhD neikvæðar fá ávallt RhD- blóð þar sem anti-RhD mótefni geta valdið fóstri/nýbura skaða.

Markmið: Að skoða notkun O RhD- neyðarblóðs í blóðskápum Landspítala með tilliti til blóðflokks, aldurs og kyns blóðþega. Sérstaklega var athugað hversu stór hluti O RhD- rauðkornaeininga var gefinn RhD+ sjúklingum. Athugað var hversu oft Blóðbanka voru sendar upplýsingar um afdrif neyðarblóðseininga, það er hvaða sjúklingur fékk blóðið (rekjanleiki).

Aðferð: Afturskyggn leit var gerð í ProSang tölvukerfi Blóðbankans og gögn fengin um notkun O RhD- eininga í blóðskápum Landspítala á árunum 2013-2015. Upplýsinga var leitað um blóðflokk, aldur og kyn blóðþega. Talin voru tilvik þar sem upplýsingar um rekjanleika neyðarblóðs vantaði.

Niðurstöður: Á þriggja ára tímabili (2013-2015) voru 488 O RhD- neyðarblóðseiningar teknar úr blóðskápum Landspítala til nota fyrir sjúklinga, eða að meðaltali 163 á ári. Í 95 tilvikum (19%) skorti rekjanleika en upplýsingar lágu fyrir um afdrif 393 O RhD- neyðarblóðseininga sem voru sannanlega gefnar sjúklingum. Þar af voru 319 rauðkornaeiningar (81%) notaðar fyrir sjúklinga með RhD+ blóðflokk. Af 393 neyðarblóðseiningum var 231 eining gefin karlmönnum en 93 einingar gefnar konum eldri en 50 ára, eða samtals 324 (82%) einingar. Aðeins 19 O RhD- neyðarblóðseiningar (5%) voru gefnar RhD- konum yngri en 50 ára.

Ályktanir: Rekjanleika neyðarblóðs á Landspítala var ábótavant. Meirihluti O RhD- neyðarblóðseininga var gefinn sjúklingum sem uppfylla skilyrði þess að fá O RhD+ neyðarblóð. Mikill minnihluti eininga var gefinn RhD- konum á barneignaraldri. Tilefni er til þess að meta hvort bæta skuli við O RhD+ neyðarblóðseiningum í blóðskápa Landspítala til viðbótar við ORhD- blóð.

 

E-5          Aldraðir karlar og konur á bráðamóttöku
Landspítala: Þarf að vera munur á þjónustu?

Elísabet Guðmundsdóttir1, Helga Rósa Másdóttir2, Hlíf Guðmundsdóttir3, Lovísa Agnes Jónsdottir2, Ingibjörg Sigurþórsdóttir2, Sigrún Sunna Skúladóttir2, Sigrún Helga Lund4,Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir2,5

1Hagdeild Landspítala, 2bráðadeild G2, 3rannsóknastofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum, 4Miðstöð í lýðheilsuvísindum Háskóla Íslands, 5hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

elisabeg@landspitali.is

Bakgrunnur: Aldraðir sem leita bráðamóttöku eru ekki einsleitur hópur og munur gæti verið á þjónustuþörf kvenna miðað við karla auk þess sem aðrir bakgrunnsþættir gætu verið mismunandi. Gögn um komur aldraðra, greind eftir kyni virðst þó skorta í alþjóðlegum rannsóknum.

Markmið: Að skoða breytileika í komum karla og kvenna á bráðamóttökur Landspítala á Hringbraut og í Fossvogi á árunum 2008-2012.

Aðferð: Gagna var aflað úr Vöruhúsi gagna á Landspítala um allar komur einstaklinga, 67 ára og eldri. Upplýsingar um aldur, kyn, komuástæðu (ICD-10), endurkomur og nýtingu göngudeilda voru greindar lýsandi, með kí-kvaðrat prófum og aðhvarfsgreiningu til að kanna sambönd milli breyta.

Niðurstöður: Heildarfjöldi koma aldraðra á bráðamóttökur Landspítala á tímabilinu var 66.141, eða 3,1 komur per einstakling. Karlmenn voru yngri, oftar giftir eða í sambúð en konur sem voru oftar með fleiri sjúkdómsgreiningar (p<0,05). Karlmenn komu oftar vegna hjarta- og æðasjúkdóma (p<0,05) en konur vegna stoðkerfissjúkdóma (p<0,05). Karlmenn höfðu meiri líkur á innlögn á sjúkrahúsið (OR: 1.10; 95% öryggisbil 1.06-1.14), á tilvísun í göngudeildir eða hjúkrunarstýrðar móttökur á Landspítala (OR: 1.08; 95% öryggisbil 1.03-1.13) og einnig á endurteknum komum á bráðamóttökur innan 21 dags (OR: 1.09; 95% öryggisbil 1.02-1.17) en konur lágu að meðaltali lengur á sjúkrahúsinu (10,6 daga >10,0; p<0,05).

Ályktanir: Á 5 ára tímabili kom umtalsverður fjöldi aldraðra endurtekið á bráðamóttöku Landspítala. Algengustu komuástæður karla og kvenna á bráðamóttöku voru mismunandi og gætu skýrt hærra hlutfall innlagna karla og einnig lengri sjúkrahúsdvöl kvenna. Auk þess virðist félagslegur bakgrunnur tengjast mismunandi þjónustu eftir komu á bráðamóttöku. Skimun og skipulag þjónustu sem tæki tillit til breytilegs félagslegs bakgrunns gæti dregið úr endurteknum komum og leitt til bættrar og hagkvæmari þjónustu við aldraða.


E-6          Komur einstaklinga með heilabilun á bráðamóttöku

Jón Snædal1, Margrét Albertsdóttir1

1Öldrunarlækningadeild Landspítala

jsnaedal@landspitali.is

Bakgrunnur: Talið er að um 2000 manns búsettir á höfuðborgarsvæðinu séu með heilabilun. Af þeim er um helmingur á hjúkrunarheimilum en helmingur búsettur heima hjá sér. Af þeim er um ¾ þekktir sem slíkir en ¼ hafa ekki hlotið viðeigandi greiningu. Byggð hefur verið upp þjónustukeðja fyrir þessa einstaklinga. Fyrsti hlekkurinn er minnismóttakan en þar eru á hverjum tíma um 400 manns með heilabilun í eftirliti. Næsti stóri hlekkurinn eru dagþjálfanir þangað sem þeim er beint sem komnir eru af fyrsta stigi heilabilunar

Markmið: Að skoða áhrif dagþjálfunarúrræða á ótímabærar innlagnir á Landspítalann.

Aðferð: Skoðuð var umsetning í dagþjálfunum á árinu 2015 og hversu margir útskrifuðust á Landspítalann, nánast alltaf í gegnum bráðamóttöku. Lagt var mat á hversu margir voru útskrifaðir vegna þess að þjónustukeðjan hefði brugðist, það er hefðu ekki þurft að leggjast inn.

Niðurstöður: Á árinu 2015 voru alls innritaðir 152 einstaklingar í 8 dagþjálfanir. Úr dagþjálfun útskrifuðust 119 einstaklingar en af þeim 36, eða liðlega 30%, á Landspítalann, nánast allir vegna bráðra aðstæðna og komu þá í gegnum bráðamóttöku. Á hjúkrunarheimili útskrifuðust 60 einstaklingar beint.

Ályktanir: Megintilgangur með þjónustukeðju fyrir heilabilaða er að þeir séu leiddir í gegnum erfitt sjúkdómsferli vaxandi heilabilunar uns þeir komast á hjúkrunarheimili. Innlagnir á sjúkrahús er ætíð mikið álag fyrir þessa einstaklinga og sú staðreynd að liðlega 30% útskrifta úr dagþjálfunum er á Landspítalann bendir sterklega til þess að þjónustan bregðist í mörgum tilfellum. Full ástæða er til frekari skoðunar á þessu.

 

E-7          Umferðaröryggi, heilsuskertir ökumenn
og ökuleyfi í Missouri, Bandaríkjunum

Guðmundur Freyr Úlfarsson1,Elizabeth A. Unger1, Thomas M. Meuser2, David B. Carr3

1Umhverfis- og byggingarverkfræðideild, Háskóla Íslands, 2University of Missouri – St. Louis, Gerontology Program, School of Social Work, 3Washington University School of Medicine, Department of Medicine and Neurology

gfu@hi.is

Bakgrunnur: Aldursdreifing margra þjóða er að breytast og hlutfall eldri ökumanna að aukast. Eldra fólk er líklegra til að búa við skerta heilsu sem getur haft áhrif á umferðaröryggi. Það er mikilvægt að skilja betur tengsl heilsuskerðinga og umferðarslysa.

Markmið: Rannsóknin kannaði tilkynningar- og matsferli í Missouri, Bandaríkjunum, þar sem heilbrigðisstarfsfólk, nánir fjölskyldumeðlimir, lögregla og starfsfólk ökuleyfastofa geta tilkynnt um mögulega heilsuskerta ökumenn. Við tekur læknisfræðilegt mat á aksturshæfni og í sumum tilfellum skriflegt eða verklegt ökupróf. Matið getur leitt til takmarkana eða niðurfellingar á ökuleyfi. Kannað var hvort læknar staðfestu tilkynningar frá fjölskyldumeðlimum.

Aðferð: Rannsakendur unnu með gögn sem safnað var um tilkynningar á árunum 2001-2005 í Missouri, Bandaríkjunum. Notuð var lýsandi tölfræði.

Niðurstöður: Tilkynntir ökumenn í Missouri voru 80 ára að meðaltali, reyndust heilsuskertir og voru með mun hærri umferðar-slysatíðni en samanburðarhópur. Af 4099 ökumönnum sem tilkynntir vorur héldu aðeins 144 ökuskírteini sínu í lokin. Í tilkynningum fjölskyldna var í um helmingi tilfella vísað til vitrænnar skerðingar eða heilabilunar, til dæmis Alzheimer sjúkdóms. Innan við helmingur ökumanna skilaði mati frá lækni en þeir sem ekki skiluðu inn mati misstu ökuréttindi. Þegar fjölskyldan nefndi tiltekna sjúkdómsgreiningu þá var tilkynningin staðfest af lækni í nær öllum tilfellum. Þegar um var að ræða óljósari lýsing á vitrænni skerðingu, í tilkynningu fjölskyldunnar, þá fékkst staðfesting frá lækni í 75% tilfella.

Ályktanir: Ferlið í Missouri er talið með því besta í Bandaríkjunum. Þar sem um helmingur skilaði ekki mati læknis og missti þar með ökuréttindi getur einhver hópur fólks hafa hætt akstri of snemma, til dæmis vegna ótta við matsferlið. Tilkynningin getur hafa leitt til sjálfmats ökumanna og fjölskyldna þeirra sem leiddi til þess að sumir ökumenn ákváðu að hætta akstri. Tilkynningar frá fjölskyldu voru mikilvægar og mark á þeim takandi, sérstaklega þegar um var að ræða tilteknar sjúkdómsgreiningar. Þar sem vitræn skerðing var algeng orsök tilkynninga þurftu læknar að prófa vitræna þætti í mati á aksturshæfni til þess að greina mögulega heilabilun. Betra er talið að eyðublöð byggist á krossaspurningum þar sem tilkynnandi er leiddur í gegnum markvissar spurningar í stað þess að byggja fyrst og fremst á frjálsum texta. Sambærilegt ferli er ekki í notkun á Íslandi. Innleiðing slíks ferlis gæti bætt akstursmat heilsuskertra ökumanna og aukið umferðaröryggi.

 

E-8          Sjúklingar með höfuðáverka á gjörgæslu Landspítala. Lýðgrunduð rannsókn á nýgengi, orsökum og langtímahorfum

Guðrún María Jónsdóttir1, Bryndís Snorradóttir1, Sigurbergur Kárason1,2, Ingvar Hákon Ólafsson2,3, Kristbjörn Reynisson4, Sigrún Helga Lund5, Brynjólfur Mogensen2,6, Kristinn Sigvaldason1

1Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3heila- og taugaskurðdeild, 4myndgreiningadeild, Landspítala, 5Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Háskóla Íslands, 6rannsóknastofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum

krisig@landspitali.is

Bakgrunnur: Höfuðáverkar eru alvarlegt lýðuheilsuvandamál vegna fylgikvilla og andláta í kjölfar þeirra. Alvarleiki höfuðáverka er metinn eftir meðvitundarástandi einstaklinga við komu á sjúkrahús (Glascow Coma Scale, GCS) og stýrir sú stigun greiningaraðferðum og meðferð. Þekkt tengsl eru milli meðvitundarástands í upphafi áverka og langtímahorfa.

Markmið: Að rannsaka faraldsfræði höfuðáverka á Íslandi, greina nýgengi, orsakir, dánartíðni og langtíma horfur. Einnig að kanna fylgni við alvarleika áverka með áverkaskori (Injury Severity Score, ISS) og Marshall stigun við GCS og tengja við langtímahorfur sjúklinganna.

Aðferð: Afturskyggn rannsókn á öllum sjúklingum sem lögðust inn á gjörgæsludeild Landspítala vegna höfuðáverka árin 1998 til 2013. Höfuðáverkar voru skilgreindir sem minnkuð meðvitund eða merki um innankúpuáverka eftir utanaðkomandi afl. Gögnum var safnað um orsakir, ástand við komu, aldur, kyn, legutíma og daga í öndunarvél, meðferðir og APACHE II stig. Niðurstöður tölvusneiðmynda samkvæmt Marshall stigun, áverkaskor og afdrif voru könnuð fyrir alla sjúklinga.

Niðurstöður: Heildarfjöldi einstaklinga í rannsóknarþýðinu var 620 en 37 voru útilokaðir vegna áverka sem ekki voru innan kúpu. Alls lögðust 583 inn á gjörgæslu vegna höfuðáverka, 39 einstaklingar/ári að meðaltali (spönn 27-52). Nýgengi höfuðáverka sem kröfðust gjörgæsluinnlagnar lækkaði á rannsóknartímabilinu úr 14/100.000 íbúa/ári í 12/100.000 íbúa/ári. Meirihlutinn voru karlar (72%) og meðalaldurinn 41 (± 24) ár. Á seinni hluta tímabilsins sást aukning í innlögnum eldra fólks, einnig fjölgun innlagðra undir áhrifum áfengis frá 22,2% í 39,7% (p<0,01). Flestir einstaklinganna (41,5%) voru með alvarlegan höfuðáverka (GCS 3-8) og algengasta orsök áverkanna var fall (48,9%) en tíðni höfuðáverka eftir fall jókst frá 43% á fyrri hluta rannsóknartímabilsins í 53% á síðari hluta tímabilsins. Næst algengasta ástæða höfuðáverka voru umferðarslys en þeim fækkaði á tímabilinu úr 35% í 31%. Heildardánartíðnin var 18,2% en lifunin var betri meðal yngri einstaklinga. Frekari niðurstöður eru í vinnslu.

Ályktanir: Höfuðáverkar eru umtalsverður vandi á Íslandi sem kostar mannslíf en einnig fötlun margra einstaklinga með tilheyrandi tapi á lífsgæðum og kostnaði fyrir samfélagið. Borið saman við rannsóknir fyrri ára má sjá fækkun í nýgengi höfuðáverka vegna umferðarslysa, hugsanlega vegna betri vega, öruggari bíla og markvissari forvarna. Hins vegar er aukning í tíðni höfuðáverka hjá eldra fólki eftir fall á jafnsléttu og er það áhyggjuefni.

 

E-9          Lyfjasaga sjúklings tekin af lyfjafræðingum
við innlagnir á Landspítala

Elín Ingibjörg Jacobsen1, Anna Ingibjörg Gunnarsdóttir1,2, Flóra Vuong Nu Dong2, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir3,4

1Sjúkrahúsapóteki, 2lyfjafræðdeild Háskóla Íslands, 3rannsóknarstofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum, 4hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

elinjac@lsh.is

Bakgrunnur: Ítarlegar upplýsingar um lyfjanotkun sjúklings við innlögn á sjúkrahús er mikilvæg. Rannsóknir hafa sýnt að lyfjasaga tekin af lyfjafræðingi inniheldur færri frávik og betri skráningu en ef aðrir heilbrigðisstarfsmenn skrá lyf. Algeng frávik hafa verið að lyfi/lyfjum sjúklings er ekki ávísað. Þjónusta klínískra lyfjafræðinga á Landspítala felst í því að taka lyfjasögu og ná sem réttmætustu upplýsingunum um lyfjanotkun sjúklings. Þessi þjónusta hefur þróast í gegnum tíðina en ekki verið könnuð.

Markmið: Að meta umfang og eðli þjónustu lyfjafræðinga við innlagnir sjúklinga á Landspítala árið 2013.

Aðferð: Gögnum úr sjúkraskrá var aflað um alla sjúklinga á Landspítala sem lyfjafræðingur hafði skráð dagál um frá 1. janúar til 31. desember. Rannsakandi skráði kerfisbundið upplýsingar úr dagál á gagnasöfnunarblað, auk upplýsinga um fjölda lyfja og misræmis í lyfjafyrirmælum. Kyn, aldur, búseta og ICD-greiningar sjúklings var einnig skráð og niðurstöður greindar með lýsandi tölfræði.

Niðurstöður: Árið 2013 sinntu 5 lyfjafræðingar 1664 einstaklingum yfir 18 ára aldri og fjöldi samskipta voru 3801; karlar 52% og meðalaldur 68,5 ár (spönn 18-113). Flestir sjúklingar voru af höfuðborgarsvæðinu (73%). Upplýsingar um lyf komu í 69% tilvika frá sjúklingi sjálfum, þar á eftir af skömmtunarkorti/lyfjarúllu (7%). Í einungis 7% tilvika var hægt að byggja á eigin lyfjum sjúklings. Oftast voru lyfjatengd vandamál vegna þarfar á viðbótarlyfjameðferð (n=173) og skammtastærð (n=97).

Ályktanir: Þjónusta klínískra lyfjafræðinga við sjúklinga sem lögðust inn á Landspítala var töluverð árið 2013. Þjónustan náði jafnt til kvenna og karla en langstærsti hluti sjúklinganna var 60 ára og eldri. Skráning og fyrirmæli um lyf sjúklinga sem leggjast inn á Landspítala fylgja þeim oft í allri sjúkralegunni og eftir útskrift sem undirstrikar mikilvægi þess að gera vel í byrjun.

 

E-10        Gjöf blóðþrýstingshækkandi lyfja í útæðaleggi á Landspítala

Alexander Gabríel Guðfinnsson1, Guðrún María Jónsdóttir2, Hjalti Már Björnsson1,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2svæfinga- og gjörgæsludeild, 3bráðadeild Landspítala

agg19@hi.is

Bakgrunnur: Við meðferð bráðveikra sjúklinga er tafarlaus gjöf blóðþrýstingshækkandi lyfja oft nauðsynleg. Leiðbeiningar mæla almennt með að blóðþrýstingshækkandi innrennslislyf séu gefin í holæðaleggi, en talið hefur verið að gjöf þeirra í útlægar æðar fylgi hætta á vefjadrepi. Þrátt fyrir slíkar leiðbeiningar getur reynst nauðsynlegt að gefa blóðþrýstingshækkandi lyf í útæðaleggi því það er tímafrekara að koma fyrir holæðalegg og slíkt inngrip er ekki á færi allra lækna. Við heimildaleit finnast stakar tilfellalýsingar og rannsóknir á áhættuþáttum vefjadreps við gjafir í útæðaleggi en engar fyrri rannsóknir fundust á algengi þess.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að meta hversu oft blóðþrýstingshækkandi innrennslislyf voru gefin í útæðaleggi á Landspítala og hversu algengt var að slík gjöf ylli vefjadrepi eða öðrum alvarlegum fylgikvillum.

Aðferð: Leitað var í sjúkraskrárkerfum Landspítala að sjúklingum sem höfðu fengið blóðþrýstingshækkandi innrennslislyf á legudeildum Landspítala, öðrum en gjörgæsludeildum, á tímabilinu 2009-2014. Athugað var hvaða lyf var gefið, í hvaða skammti, hversu lengi og íkomuleið metin. Leitað var að skráðum tilvikum þar sem vefjadrep eða aðrir bráðir fylgikvillar komu fram við lyfjagjöfina. Skráð var ástæða innlagnar, ástæða lyfjagjafar og heilsufarssaga. Gögnin voru dulkóðuð og unnið úr þeim í R Studio og Excel.

Niðurstöður: Alls fundust 227 skráð tilvik hjá 110 sjúklingum um gjöf blóðþrýstingshækkandi innrennslislyfs á rannsóknartímabilinu. Þegar búið var að taka út lyfjagjafir undir húð, lyfjagjafir í holæðalegg og tvítekningar skráðra fyrirmæla reyndust tilvikin vera 102 hjá 92 sjúklingum. Dópamín var gefið í 62 tilvikum, ísópróterenól í 36 tilvikum en önnur lyf sjaldnar. Í öllum nema tveimur tilfellum voru lyfin gefin í útæðalegg í handlegg. Engir fylgikvillar og þar með talið vefjadrep vegna gjafar blóðþrýstingshækkandi lyfja í útæðalegg fundust.

Ályktanir: Gjöf dópamíns og ísópróterenól í útæðalegg í handlegg á Landspítala virðist ekki fylgja mikil hætta á staðbundu vefjadrepi. Frekari rannsókna á stærra úrtaki er þörf áður en forsendur fyrir breyttum ráðleggingum liggja fyrir.

 

E-11        Mæling á töf meðferðar við bráða kransæðastíflu (STEMI)

Þorsteinn H. Guðmundsson1, Karl K. Andersen1,2, Ingibjörg J. Guðmundsdóttir1

1Lyflækningasviði Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands

thorsteg@landspitali.is

Bakgrunnur: Skjót meðferð sjúklinga með bráða kransæðastíflu (STEMI) er mikilvæg og dánartíðni eykst eftir því sem tími að víkkun með belg í þræðingu er lengri (belgtími; door to balloon time). Mælt er með að kransæðavíkkun sé gerð innan 60 mínútna frá komu á sjúkrahús þar sem hjartaþræðingar eru framkvæmdar (PPCI, Primary Percutaneous Coronary Intervention-sjúkrahús).

Markmið: Að kanna hvort og hvenær töf er á meðferð sjúklinga með STEMI og þeir flokkaðir í hópa eftir komu-belgtíma. Einnig verða könnuð tengsl komu- belgtíma við alvarlega fylgikvilla í legu, dánartíðni og stærð hjartadreps.

Aðferð: Rannsóknin var afturskyggn og lýsandi. Gerð var leit að sjúklingum með STEMI meðhöndlaðir með kransæðaþræðingu og belgvíkkun á þræðingarstofu Landspítala Hringbraut árin 2014-2015. Þær upplýsingar sem fengnar voru úr gögnum sjúklinga voru komutími sjúklinga á bráðamóttöku/Hjartagátt Landspítala, tímasetning fyrsta hjartalínurits og nálar- og belgtími. Til viðbótar er fyrirhugað að skoða nánar sjúkraskrár og skrá tímasetningu fyrstu einkenna og fyrstu samskipti við heilbrigðisstarfsfólk, hámarkstróponíngildi í legu, alvarlega fylgikvilla í legu (blæðing sem krefst blóðgjafar, slag, hjartabilunarlost), andlát í legu eða innan eins árs.

Niðurstöður: Sjúklingar sem voru með ST-hækkanir eftir komu á sjúkrahús, hjartstopp og fyrstu komu á heilbrigðisstofnun utan Landspítala verða skoðaðir sérstaklega og voru teknir út við fyrstu úrvinnslu. Þá sátu eftir 115 sjúklingar sem úrvinnsla var miðuð við. Aldur sjúklinga var að miðgildi 62 ár. Komu-belgtími sjúklinga með STEMI árin 2014-2015 með fyrstu komu á Landspítala var að miðgildi 73 mínútur (meðaltal 90 mínútur). Fyrir sjúklinga með fyrstu komu á bráðamóttöku í Fossvogi var komu-belgtími að miðgildi 79 mínútur (meðaltal 104 mínútur). Fyrir sjúklinga með fyrstu komu á hjartagátt var komu-belgtími að miðgildi 59 mínútur (meðaltal 60 mínútur).

Ályktanir: Komu-belgtími sjúklinga með STEMI með fyrstu komu á Landspítala reyndist yfir þeim tímamörkum sem mælt er með miðað við PPCI-sjúkrahús. Sjúklingar sem komu beint á Hjartagátt voru líklegri til að fá meðferð innan ráðlagðra tímamarka en sjúklingar sem höfðu viðkomu í Fossvogi. Mikilvægt er að skilgreina frekar hvar tafir verða á meðferð og fræða bæði sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólk.

 

E-12        Árangur endurlífgana eftir hjartastopp vegna hjartasjúkdóma utan spítala á höfuðborgarsvæðinu árin 2008-2014

Guðrún G. Björnsdóttir1, Hrönn Ólafsdóttir2, Hjalti Már Björnsson1,6, Bergur Stefánsson1, Brynjar Þór Friðriksson3, Gestur Þorgeirsson4,6, Brynjólfur Mogensen1,5,6

1Bráðadeild, 2bæklunarskurðdeild Landspítala, 3Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, 4hjartadeild Landspítala, 5rannsóknastofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum, 6

ggbjornsdottir@gmail.com

Bakgrunnur: Á höfuðborgarsvæðinu hefur árangur endurlífgunar vegna hjartastopps utan spítala verið rannsakaður frá 1976. Á árunum 1982 til 2007 sinnti læknir útköllum í neyðarbíl ásamt Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins (SHS) en 2008 var hætt að hafa lækna í sjúkrabílum og útköllum síðan alfarið sinnt af bráðatæknum SHS sem tóku einnig við skráningu. Á sama tíma hafa orðið framfarir í notkun fyrstu hjálpar og sjálfvirk stuðtæki eru nú staðsett víða. Á Landspítala er nú farið að gera hjartaþræðingar við fleiri ábendingum en áður eftir hjartastopp.

Markmið: Að rannsaka meðferð og lifun eftir hjartastopp utan spítala á höfuðborgarsvæðinu á árunum 2008-2014 og bera saman við árin á undan.

Aðferðir: Upplýsingar fengust frá SHS um öll útköll þar sem reynd var endurlífgun eða andlát varð á umræddu tímabili. Gögn voru skráð samkvæmt Utstein staðli. Upplýsingum var safnað úr sjúkraskrárkerfi Landspítala og ef vafi lék á orsök voru gögn fengin úr krufningarskýrslum eða úr dánarvottorðum frá Embætti landlæknis.

Niðurstöður: Upplýsingar fengust um 636 skráð útköll vegna andláta og hjartastoppa fullorðinna og var endurlífgun reynd í 451 tilfelli (71%). Hjá 272 var orsökin líklegur eða staðfestur hjartasjúkdómur og af þeim var endurlífgun reynd hjá 270 (99%). Frekari úrvinnsla var gerð hjá síðasttalda hópnum. Meðalaldur hans var 69,9 ár. Karlar voru í meirihluta eða 212 (78%). Meðalútkallstími var rúmar 7 mínútur. Lifandi á sjúkrahús komust 107 (40%) og útskrifuðust 60 (22%). Heilastarfsemi við útskrift samkvæmt CPC-skala var góð en allir stiguðust 1 til 2 af 5. Af þeim sem voru með stuðanlegan takt á fyrsta riti og náðu lifandi á gjörgæslu eða legudeild útskrifuðust 65%.

Ályktanir: Í síðustu rannsókn, árin 2004-2007, var útkallstími um mínútu styttri og þá komust 50% lifandi á sjúkrahús og 25% útskrifuðust. Ekki er marktækur munur á hlutfalli þeirra sem lifðu til útskriftar milli tímabilanna. Á fyrra tímabili útskrifuðust 70% þeirra sem voru með stuðanlegan fyrsta takt. Endurlífgun var reynd í færri útköllum en fyrir skipulagsbreytingar, sem gæti skýrst með breyttri skráningu en einnig fer hjartastoppum vegna hjartasjúkdóma utan sjúkrahúsa fækkandi á höfuðborgarsvæðinu. Lifun eftir hjartastopp vegna hjartasjúkdóma utan spítala var sambærileg við fyrri tímabil þrátt fyrir skipulagsbreytingar. Lifunin telst góð miðað við sambærilegar rannsóknir erlendis.

 

E-13        Upplýsingagjöf til sjúklinga um lyf við útskrift af Landspítala

Ólafía Kristjánsdóttir, Anna Ingibjörg Gunnarsdóttir1,2, Freyja Jónsdóttir2

1Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 2sjúkrahúsapóteki Landspítala

olafia90@gmail.com

Bakgrunnur: Rannsóknir hafa sýnt að fullnægjandi upplýsingagjöf um lyfjameðferð stuðlar meðal annars að réttri notkun lyfja og eykur þar með líkur á að meðferðarmarkmið náist. Upplýsingaþörf er einstaklingsbundin og hafa heilbrigðisstéttir mismunandi skoðanir á því hverjum beri að veita upplýsingar um lyf til sjúklinga. Það getur leitt til þess að þær verði ófullnægjandi.

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að kanna annars vegar hvort sjúklingar sem útskrifast heim af Landspítalanum telji sig hafa fengið fullnægjandi upplýsingar um lyfjameðferð sína og hins vegar núverandi verklag og viðhorf hjúkrunarfræðinga, lækna og lyfjafræðinga til upplýsingagjafar um lyf til sjúklinga.

Aðferðir: Rannsóknin var gerð á Landspítalanum á tímabilinu janúar til apríl 2015. Notaður var spurningalisti eftir fyrirmynd SIMS (Satisfaction with Information about Medicines Scale), sem lagður var fyrir sjúklinga sem voru að útskrifast heim af 9 deildum Landspítalans. Sambærilegur spurningalisti var sendur rafrænt til allra hjúkrunarfræðinga, lækna og lyfjafræðinga Landspítalans.

Niðurstöður: Svarhlutfall sjúklinga var 75,5% (n=126). Um 75% þeirra taldi sig hafa fengið fullnægjandi upplýsingar um lyfjameðferð sína eftir dvöl á Landspítalanum. Rúmlega 80% sjúklinga sagðist hafa fengið upplýsingar um nafn, ábendingu og notkunarleiðbeiningar lyfja. Rúmlega 40% sagðist hafa fengið upplýsingar um hvernig lyfið virkar og hvert leita megi upplýsinga eftir að heim er komið, og um 20% sjúklinga sagðist fá aðrar upplýsingar varðandi verkun, notkun og öryggi lyfjameðferðarinnar. Svarhlutfall starfsmanna var 13,1% (n=288). Stærsti hluti starfsmanna taldi að læknar ættu að veita sjúklingum upplýsingar um lyf. Að mati starfsmanna reyndust tímaleysi, takmörkuð þekking og skortur á þjálfun helstu hindranir í að veita sjúklingum upplýsingar um lyf.

Ályktanir: Flestir sjúklingar töldu sig fá fullnægjandi upplýsingar um lyfjameðferð sína, en þó er tækifæri til úrbóta sér í lagi varðandi upplýsingagjöf tengdar öryggi, það er upplýsingar varðandi mögulegar aukaverkanir, hvað skuli gera ef skammtur gleymist, hvað beri að forðast á meðan á lyfjameðferð stendur, hvort lyfið hafi áhrif á önnur lyf sem tekin eru og hvar upplýsingar um lyfin sé að finna. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að þörf sé á skýrara verklagi varðandi upplýsingagjöf um lyfjameðferð til sjúklinga.

 

E-14        Erlendir ferðamenn á bráðamóttöku:
Hjúkrunarþarfir og úrræði

Helga Þórey Friðriksdóttir1, Dagný Lóa Sighvatsdóttir1,Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir1,2, Guðbjörg Pálsdóttir1,3, Brynjólfur Mogensen2,4

1Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 2rannsóknarstofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum,3flæðisviði Landspítala, 4læknadeild HÍ

hthf2@hi.is;
dls2@hi.is

Bakgrunnur: Fjöldi erlendra ferðamanna sem heimsækja Ísland hefur tvöfaldast frá árinu 2010. Með fjölgun erlendra ferðamanna til landsins má áætla að álagið á heilbrigðisstofnanir hafi aukist. Íslenskar rannsóknir skortir á komum erlendra ferðamanna á bráðamóttöku, hjúkrunarþörfum þeirra eða úrræðum. Erlendir ferðamenn á Íslandi eru fjölbreyttur hópur á öllum aldri með margvísleg heilsufarsvandamál og þeir þurfa oft þjónustu vegna tungumálaerfiðleika, varúðar vegna mögulegra smitsjúkdóma og fleira.

Markmið: Að kanna sérstaka þjónustu sem veitt var erlendum ferðamönnum er leituðu á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi frá 21. maí til 31. ágúst 2014.

Aðferð: Rannsóknin var afturskyggn þar sem farið var yfir gögn úr sjúkraskrám erlendra ferðamanna sem fengu þjónustu á bráðamóttöku Landspítala frá 21. maí til 31. ágúst 2014. Skráðar voru upplýsingar tengdar sérstakri þjónustu við ferðamenn. Lýsandi greining var gerð á aldri, ástæðu komu, skipulagi ferðar, túlkaþjónustu, einangrun, annarri sértækri þjónustu, rannsóknum, sjúkdómsgreiningu og útskrift/innlögn ásamt öðrum sérstökum úrræðum við útskrift, með tilliti til kyns og aldurs.

Niðurstöður: Alls voru skráðar upplýsingar um sérhæfða þjónustu hjá 520 erlendum ferðamönnum á bráðamóttöku Landspítala á tímabilinu. Af þeim voru 48,9% karlar og 51,2% konur, meðalaldur kvennanna var 46 ár en karlanna 47 ár. Flestir voru á eigin vegum (n=323). Ferðamenn frá skemmtiferðaskipum voru 8,8% af heildarfjöldanum. Fengin var aðstoð túlka í 3,8% tilvika og 10,3% sjúklinga þurftu að fara í einangrun. Þar af voru sjúklingar einangraðir vegna gruns um MÓSA smit í 75,9% tilvika. Röntgenmynd var sú rannsókn sem flestir ferðamannanna fóru í. Leggja þurfti 8,6 % sjúklinganna inn.

Ályktanir: Rannsóknin er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Hún getur gefið vísbendingu um aukna og markvissari þjónustuþörf erlendra ferðamanna.


E-15        Komur erlendra ferðamanna á bráðamóttöku
Landspítala á árunum 2001-2014

Guðbjörg Pálsdóttir1,3,Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir1-3, Brynjólfur Mogensen1,2,4

1Flæðisviði Landspítala, 2rannsóknastofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum, 3hjúkrunarfræðideild HÍ, 4læknadeild HÍ

guggap@lsh.is

Bakgrunnur: Erlendum ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað meira en þrefalt frá árinu 2001 og fór fjöldinn í fyrsta skipti yfir milljón árið 2014. Rannsóknir erlendis hafa gefið vísbendingar um að viðbrögð á ferðamannastöðum geti haft langtíma áhrif á ferðamenn sem lenda í slysum. Ástæða var talin á að kanna komur erlendra ferðamanna, á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi á árunum 2001-2014.

Markmið: Að kanna tengsl og mismunandi áhrif bakgrunnsþátta við útkomur erlendra ferðamanna sem leituðu til bráðamóttöku Landspítala vegna slysa og veikinda árin 2001-2014 í því markmiði að bæta verklag við forvarnir og sértæka heilbrigðisþjónustu ferðamanna.

Aðferð: Allir sem leituðu til bráðamóttöku Landspítala á árunum 2001-2014 og voru með gervikennitölu og erlent heimilisfang, að undanskildum fæðingum voru í úrtaki. Afturskyggn gagnaöflun úr sjúkraskrám erlendra ferðamanna 2001-2014. Bakgrunnsupplýsingar um ferðamenn, skýriþættir veikinda og slysa, auk afdrifa verða greind með viðeigandi lýsandi og greinandi tölfræðiaðferðum.

Niðurstöður: Samkvæmt fyrstu niðurstöðum voru 14.303 einstaklingar með gervikennitölu er leituðu eftir þjónustu á bráðamóttökunni á rannsóknartímabilinu. Mest var aukningin milli ára frá 2009, eða 7-13%. Á þessu 14 ára tímabili komu þó flestir eftir 2009, eða 55%. Flestir komu í júlí og ágúst. Komur karlmanna voru algengari, eða 55,3%. Algengasti aldurinn var 24 ár. Flestar ástæður fyrir komu á bráðamóttöku voru afleiðingar slysa, eða 49,8%, þar á eftir vegna sjúkdóma, eða 46,5%. Á tímabilinu 2001-2008 voru afleiðingar slysa algengari komuástæða en eftir 2009 urðu sjúkdómar algengari. Flest slysin voru flokkuð sem  frítímaslys, eða 30,5%.

Ályktanir: Rannsóknin er fyrst sinnar tegundar hér á landi. Hún getur gefið vísbendingu um helstu ástæður fyrir þjónustuþörf og álagstímum í heilbrigðisþjónustu vegna erlendra ferðamanna. Möguleiki væri á að nýta niðurstöðurnar við þróun viðeigandi þjónustu út frá þörfum erlendra ferðamanna og við skipulag markvissra forvarna út frá greiningu á aðstæðum slysa og veikinda.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica