Ávarp

Ávarp

Velkomin!

 

Kæru lyflæknar og aðrir þinggestir

Það er mér sérstök ánægja að bjóða ykkur velkomin á XX. vísindaþing Félags íslenskra lyflækna sem að þessu sinni er haldið í ráðstefnu- og tónlistarhúsinu Hörpu í Reykjavík.

Að vanda er kynning vísindarannsókna veigamesti þáttur þingsins og hafa 77 innsend ágrip verið valin til kynningar. Höfundar munu kynna rannsóknir sínar með veggspjaldi og munu jafnframt gera grein fyrir helstu niðurstöðum í stuttu máli. Veitt verða verðlaun fyrir besta ágrip ungs læknis og læknanema. Dagskrá þingsins er annars fjölbreytt og ætti að höfða til flestra lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna sem fást við viðfangsefni lyflækninga í starfi sínu. Meginþema þingsins er staða og framtíð lyflækninga í íslenskri heilbrigðisþjónustu undir yfirskriftinni „lyflækningar á krossgötum“. Á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar á fyrirkomulagi heilbrigðisþjónustunnar í flestum vestrænum samfélögum og hafa þær haft veruleg áhrif á hlutverk og starfsvettvang lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna. Þá hefur mikill niðurskurður fjárveitinga til heilbrigðismála hér á landi leitt til óviðunandi starfsumhverfis og í sumum tilvikum óhóflegs starfsálags. Brýnt er að spyrna fótum við þessari óheillavænlegu þróun og er nauðsynlegt að lyflæknar leggi sín lóð á vogarskálarnar. Þingið er kjörinn vettvangur til að kryfja þetta mikilvæga mál til mergjar og vonast ég eftir líflegri en jafnframt málefnalegri umræðu. Á þessu þingi er bryddað upp á þeirri nýbreytni að hafa sérstök málþing um viðfangsefni hjúkrunar á sviði lyflækninga. Er þetta liður í að gera þingið áhugaverðara fyrir hjúkrunarfræðinga og aðrar fagstéttir.

Margir hafa komið að undirbúningi þessa þings og færi ég þeim öllum bestu þakkir fyrir. Loks vil ég þakka öllum þeim fyrirtækjum sem með stuðningi sínum áttu ríkan þátt í að gera þetta þing að veruleika.

Að lokum vona ég að þingið verði ykkur til gagns og ánægju.

 

Runólfur Pálsson, læknir
Formaður Félags íslenskra lyflækna




Þetta vefsvæði byggir á Eplica