Ávarp

Ávarp

IV. Vísindaþing

Geðlæknafélags Íslands

Hótel Klaustri, Kirkjubæjarklaustri,

28.-30. september 2012

 

Vísindaþing Geðlæknafélagsins er mikilvægur hluti af endurmenntun geðlækna og annarra sem koma að málefnum geðsjúkra á íslandi. Þingið er um margt skylt endurmenntunarviku norrænu geðlæknafélaganna sem þó eru haldnar ár hvert og standa í viku. Við hér sinnum þessu á einni helgi. Þetta kallar á að við þurfum að vera dugandi í að sækja fundi innanlands og utan til þess að tryggja að sjúklingar okkar hafi ætíð aðgang að bestu þekkingu á því hvernig má lækna þá. Hér skiptir fjölbreytni miklu, við þurfum að sækja til Norðurlandanna og annarra Evrópuríkja en einnig til Ameríku. Þá þurfum við að deila þessu okkar á meðal og til sjúklinga okkar, jafnframt því sem við kynnum verkefni okkar.  Vísindaþingið er þannig vettvangur okkar til þess að deila því sem við best vitum okkar sjúklingum til framdráttar. Við þurfum að halda þessari þekkingu hátt á lofti þannig að hún verði ráðandi í umræðunni um hvað er best. Á sama tíma þurfum við sýna þolinmæði og umburðarlyndi gagnvart ýmsum öðrum hugmyndum og tryggja það að fjölbreytni og gerjandi hugsun ríki. Staðgóð þekking og vönduð þekkingaröflun verður þannig til. Sjúklingarnir og við njótum þess er fram líður.

Staðgóð þekking er ekki nóg. Við þurfum að koma henni á framfæri þannig að ráðamenn í samfélaginu breyti rétt. Lýsandi dæmi um þetta er að í núverandi fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að hætt verði greiðsluþátttöku í metýlfenídatlyfjum fyrir fullorðna. Röksemdin sem þar kemur fram er þessi „enda eru lyfin einungis ætluð börnum og unglingum samkvæmt klínískum leiðbeiningum“. Þetta er þrátt fyrir það að í klínískum leiðbeiningum er ítarlega fjallað um skammtastærðir þessara lyfja þegar fullorðnir einstaklingar eru meðhöndlaðir.

Þetta dæmi lýsir um margt vanda okkar við að koma bestu upplýsingum á framfæri. Þrátt fyrir að við deilum í okkar hópi um hve margir fullorðnir þurfi á þessum lyfjum að halda er ljóst að ákveðinn hópur þarf á þeim að halda.

Fleiri dæmi má nefna, til dæmis er lúta að örorku- og endurhæfingarmati, sem sjúklingar okkar þurfa endurtekið að fara í gegnum til þess að tryggja viðurværi sitt í veikindum sínum. Þar fáum við mörg hver þá tilfinningu að besta þekking ráði ekki alltaf niðurstöðunni.

Okkar leið til þess að taka á þessum vandamálum er öflun og miðlun þekkingar.  

 

Kristinn Tómasson
Formaður Geðlæknafélags Íslands




Þetta vefsvæði byggir á Eplica