Íðorðapistlar 1-130

021-Íðorðanefnd læknadeildar

Læknadeild Háskóla Íslands hefur nú farið að tilmælum háskólaráðs og skipað íðorðanefnd. Á 388. deildarráðsfundi læknadeildar þann 21. nóvember 1990 lagði deildarforseti til "að farið yrði fram á við Læknafélag Íslands að íðorðanefnd Læknafélags Íslands verði jafnframt íðorðanefnd læknadeildar." Þessu skrefi ber að fagna, en nú má skora á alla kennara læknadeildar að þeir leggi nefndinni lið, með því annars vegar að fá henni verkefni til úrlausnar og hins vegar með því að deila með henni hugmyndum sínum og tillögum að íslenskun fræðiorða, hver á sínu sviði.



Penetration

Kvensjúkdómalæknir einn hringdi nýlega og spurði um þýðingu á orðinu penetration. Tilefnið var að viðkomandi þurfti að skrifa lýsingu á leggangnaskoðun hjá konu og gefa vottorð um niðurstöðu sína. Viðkomandi vildi geta sagt á íslensku að hann teldi að "penetration" hefði átt sér stað. Þessi beiðni varð tilefni hugleiðingar af hálfu undirritaðs, en snúum okkur fyrst að fræðiorðinu.

Enska orðið penetration er komið úr latínu, en þar má finna nafnorðið penetratio og sagnorðið penetrare. Enska sagnorðið to penetrate má þýða á ýmsa vegu eftir því hvert samhengið er: að fara, reka, setja, smjúga, stinga eða troða, í eða gegnum; að nísta eða rjúfa; auk þess að vera notað um það að gagntaka eða hrífa. Í Íðorðasafni lækna má finna enska orðið penetration og nokkrar þýðingar þess. Þær sem hér koma til álita eru: innsókn eða gegnþrenging. Hvorug virðist sérlega heppileg í ofangreindu samhengi. Sama máli gegnir um ýmis önnur nafnorð sem hægt er að mynda með því að taka ofangreindar þýðingar á penetrate, gera úr þeim nafnorð og bæta við forskeytunum í- eða inn-. Þó er hugsanlegt að innsetning eða innsmeyging komi til greina og að læknirinn geti vottað að hann telji "að innsetning hafi átt sér stað". Gaman væri að heyra hvernig aðrir hafa leyst þetta vandamál.



Hugleiðing

Þá er komið að hugleiðingunni. Læknar eru oft beðnir um að skoða veika menn og slasaða, eða jafnvel lík látinna manna, til þess að geta gefið vottorð um heilbrigðisástand þeirra, áverka eða sjúklegar breytingar sem máli skipta við rannsókn vegna réttar- eða tryggingamála. Vottorð þeirra fara gjarnan um hendur ýmissa leikmanna sem taka þátt í því að ákvarða um framgang og afgreiðslu mála. Augljóslega eiga læknar að votta það eitt sem þeir sjálfir geta staðfest, en framsetning og uppbygging álitsgerðar skiptir einnig miklu máli.

Gera þarf skýran greinarmun á lýsingu einkenna og ummerkja annars vegar og niðurstöðum og áliti læknisins hins vegar. Æskilegt er að lýsingarnar innihaldi almennt viðurkennd og vel skilgreind fræðiheiti, séu fræðilega nákvæmar, en þó á góðu og einföldu máli. - Nú búast sjálfsagt flestir við því að undirritaður geri þá kröfu að vottorðin séu einfaldlega skrifuð á íslensku og að lögfræðingar og tryggingamenn kaupi sér Íðorðasafn lækna á gamla, góða verðinu! Þeim er vissulega ekki vorkunn, en hætt er við að það leysi ekki allan vanda. - Hins vegar má gera þá kröfu til íslenskra lækna að þeir noti alltaf íslensk fræðiorð þegar því verður við komið og þegar merking er ótvíræð, en að erlend orð séu fyrst og fremst notuð til áréttingar eða útskýringar, til dæmis í sviga. Þá má einnig brýna það fyrir mönnum, einkum þeim sem verið hafa langdvölum í öðrum löndum, að hugsa um efnið á íslensku og skrifa síðan að íslenskum hætti, en láta ekki duga að þýða erlendar lýsingar sem þeir kunna að hafa vanist í sérnámi.

Lýsing fyrrgreinds kvensjúkdómalæknis getur hljóðað á þann veg að meyjarhaft sé rofið og álit hans sé að kynmök hafi farið fram. Lýsingin verður nákvæmari ef tekið er fram hvort rofið í meyjarhaftinu er nýtt eða gamalt, en álit læknisins fær allt aðra áherslu ef hann getur þess í umsögn sinni að meyjarhaft geti einnig rofnað undir öðrum kringumstæðum en við kynmök. Hins vegar finnst undirrituðum það bæði ónákvæmt og óíslenskulegt að votta einungis að "innsmeyging hafi átt sér stað".



Borderline tumor

Meinafræðingur einn lét frá sér heyra á meðan hann var að fást við vefjagreiningu á æxli sem uppfyllti viðurkennd skilmerki um það að vera á mörkum illkynja og góðkynja æxlisvaxtar hvað varðaði meingerð og væntanlega hegðun. Hann vildi nefna slík fyrirbæri jaðaræxli. Undirrituðum líkaði ekki sem best og fannst jaðar fyrst og fremst hafa staðfræðilega tilvísun. Íðorðasafnið hefur ekki lausn á þessu máli, en lýsingarorðið borderline eitt sér er þar þýtt með orðhlutunum: óvissu-, vafa-, jaðar-. Lýst er eftir fleiri tillögum.

FL 1991; 9(8): 4
Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica