01. tbl. 112. árg. 2026
Umræða og fréttir
Mistúlkanir á reglugerð ógna fagþekkingu á Íslandi
Íslensk heilbrigðisþjónusta hefur lengi notið góðs af læknum sem sækja sérmenntun til Bandaríkjanna. Þar hefur sérnámið oft boðið upp á undirgreinar sem ekki eru kenndar á Íslandi. Þrátt fyrir þetta hafa útskrifaðir sérfræðingar frá Bandaríkjunum undanfarið fengið synjanir eða langvarandi tafir á starfsleyfi og óttast margir að mistúlkun á reglugerð frá 2023 af hálfu embættis landlæknis geti skert faglega þjónustu hér á landi.
Til að öðlast íslenskt sérfræðileyfi samkvæmt reglugerðinni, þarf að liggja fyrir íslensk marklýsing í þeirri sérgrein sem sótt er um. Ef hún er ekki fyrir hendi, skal kennslu-/framhaldsmenntunarráð votta útskrift að utan. Vandinn er þó sá að margar undirsérgreinar, til dæmis blóð- og krabbameinslækningar, hjartalyflækningar og húðmeinafræði, eru ekki kenndar hér á landi og því engar íslenskar marklýsingar til. Þetta hefur leitt til þess að umsóknir lækna sem lokið hafa erfiðu og viðurkenndu sérnámi verða fyrir töfum eða er hafnað, þrátt fyrir að gögn þeirra séu metin fullnægjandi af sérfræðinefndum. Þrír læknar, með mismunandi sérfræðimenntun sem ekki er kennd á Íslandi, fengu sérfræðileyfi sín samþykkt daginn eftir að umfjöllun birtist í fjölmiðlum.
Þórunn Halldóra Þórðardóttir, sem lokið hefur sérnámi í lyf-, blóð- og krabbameinslækningum, lýsir 11 mánaða bið eftir íslensku sérfræðileyfi í lyflækningum og svo neitun á sérfræðileyfi í blóð-og krabbameinslækningum þrátt fyrir að kennsluráð hefði mælt með því. „Samkvæmt reglugerð ætti það að vera nóg. Samt fékk ég neitun,“ segir hún. Leyfið barst aðeins hálfum sólarhring eftir umfjöllun fjölmiðla. Að hennar mati er vandinn bæði skortur á skýrum verklagsreglum og óljós túlkun á reglugerðinni. Embætti landlæknis hafi vísað í skort á marklýsingu og fullyrt að Boards-próf væri ígildi sérfræðileyfis, sem er ekki rétt og er hvorki nefnt í reglugerð né almennt krafist við leyfisveitingar. „Í mínu tilfelli útskrifaðist ég í lok júní með fullt og ótakmarkað sérfræðileyfi en Boards-prófið þreytti ég í nóvember. Það er eingöngu haldið einu sinni á ári og nokkurra mánaða bið eftir niðurstöðu,“ segir hún.
Skortur á svörum og óvissa um ferlið
Hjartalyflæknirinn Inga Hlíf Melvinsdóttir lýsir sambærilegri reynslu: „Ég fékk ekki einu sinni staðfestingu á að umsóknin væri móttekin.“ Hún hafði tekið Boards-prófið ári fyrr, sent öll gögn en fékk þó ekki samþykki fyrr en eftir fjölmiðlaumfjöllunina. Að hennar mati er helsti vandinn samskiptaleysi og ófyrirsjáanleiki. Umsækjendur viti ekki hvort gögn vanti, hvort mál sé í vinnslu eða hvort þau þurfi að grípa til utanaðkomandi aðstoðar. „Hvernig verður þetta fyrir næstu umsækjendur, þurfa þau að fara í fjölmiðla líka?“ spyr hún.
Áhrif á framtíð íslenskrar heilbrigðisþjónustu
Jónas Aðalsteinn Aðalsteinsson, sem sérhæfði sig í húðlækningum og húðmeinafræði í Bandaríkjunum, segir að hann hafi fyrir fram búist við átökum vegna skorts á marklýsingum. Í Bandaríkjunum sé útskriftarvottorð sjúkrahússins staðfesting á sérfræðiþekkingu, en prógrammið verður samt sem áður að vera vottað af ACGME. Útskrift sé ekki talin fullnægjandi vegna skorts á íslenskum viðmiðum. Hann bendir á að í áratugi hafi íslensk heilbrigðisþjónusta notið góðs af læknum sem menntaðir voru í Bandaríkjunum. „Þetta hefur verið sterk hefð og margir af okkar leiðandi sérfræðingum komu þaðan. Nú virðist þessi hefð vera að deyja út,“ segir hann og bendir á að aukið flækjustig og óvissa dragi úr hvata til að fara út í nám.
Fordæmi til framtíðar?
Í öllum tilvikum virðist vera ósamræmi milli túlkunar Embættis landlæknis og þess sem bæði kennsluráð og þeir sem unnu að reglugerðinni skilja sem markmið hennar: að tryggja gæði sérnáms, án þess að útiloka umsækjendur úr löndum utan EES. Þremenningarnir vona að nú liggi fyrir fordæmi um afgreiðslu sam-bærilegra umsókna til framtíðar. Ef ekki tekst að skýra ferlið, laga reglugerðina eða bæta samskipti, gætu fleiri sérfræðingar ákveðið að vera áfram erlendis. Afleiðing þess verður að íslensk heilbrigðisþjónusta stendur eftir án mikilvægrar þekkingar í fögum sem hún kennir ekki sjálf og þar með án þeirra sem vildu koma heim.
