05. tbl 93. árg. 2007

Hugleiðing höfundar. Hvenær drepur maður mann? Þorvaldur Þorsteinsson

p02Hún lifir ennþá góðu lífi goðsögnin um sérfræðinginn sem ekkert kann og veit það ekki á meðan sá ómenntaði stendur álengdar í hógværð sinni og hefur vit á að þegja um það sem hann kann. Hún tekur á sig margvísleg form þessi hugmynd um lítilþægu alþýðuhetjuna sem sér og veit og skilur miklu mun betur heldur en allir þessir menntuðu aular sem til eru kvaddir. Stefið er svipað hvort sem málið snýst um vitlausa stjórnendur eða alþingismenn, aðkomumenn með hugmyndir, útlendinga með gagnslaus próf eða sérfræðinga sem enginn veit hvað eru að gera og allra síst þeir sjálfir.

Læknastéttin hefur löngum gegnt mikilvægu hlutverki í slíkri upphafningu alþýðuvísindanna og verið uppspretta sumra óttalegustu sérfræðingasplattera sem dæmi eru um. Allir virðast eiga sína uppáhalds sögu um banvæn læknamistök, hrapalega fljótfærni og hreina vanþekkingu. Hvað sem því líður þá reynast þær oft töluvert snöggsoðnari umræðurnar um hlutverk þessarar sömu læknastéttar þegar vel hefur til tekist. Þá vill hlutur sjúklingsins hins vegar verða mun meira áberandi enda á ferðinni óvenju viljasterkur einstaklingur sem gefst aldrei upp og hreinlega ákveður að lifa hvað sem hver segir. Þar kemur líka til skjalanna meðferðin sem sjúklingurinn fékk heimullega utan kerfisins og gerði nær örugglega gæfumuninn í þeim tilvikum þegar endirinn er ásættanlegur. Það verður gjarnan hlutskipti læknastéttarinnar í slíkum sögum að vera furðu lostinn áhorfandi sem játar eftir á að hafa aldrei orðið vitni að jafn skjótum bata, ef slíkt tilfelli hefur þá nokkurn tíma læknast yfirleitt. Þá er brosað á hliðarlínunni.

Ég fæ stundum á tilfinninguna að háværustu umræðunni um læknastéttina sé haldið uppi af fólki sem státar af því að hafa aldrei stigið fæti sínum inn á sjúkrastofnun. Að heimildamennirnir hafi ekki hitt lækni um árabil ótilneyddir. Hafi forðast fólk í hvítum sloppum eins og pestina og telja að í því forvarnarstarfi megi finna grunninn að meintu heilbrigði og óhjákvæmilegu langlífi þeirra sjálfra og annarra sem vilja ekki láta nafns síns getið. Sem leiðir hugann að goðsögn sem greinir læknastéttina frá flestum öðrum þegar kemur að klisjunni um menntaða fíflið að sunnan. Það er goðsögn sem á rætur í jarðvegi afneitunarinnar og byggir á því að læknirinn sé í raun fagmaður og viti upp á hár hvað hann er að gera! Hún birtist í ótta þeirra sem álíta það beinlínis hættulegt að fara til læknis af þeirri einföldu ástæðu að hann sé, í krafti sérþekkingar sinnar, vís með að finna eitthvað að hverjum þeim sem asnast inn til hans. Að hann finni eitthvað falið, óvænt og agalegt þegar síst skyldi og að þar með sé fjandinn laus; heilbrigður maður skyndilega orðinn að sjúklingi. Helst með eitthvað ólæknandi sem innifelur óáfrýjanlegan dauðdóm.

Það sem er svo heillandi við þessa goðsögn er sá hluti hennar sem sjaldnast er orðaður beint en liggur einhvern veginn undir allri frásögninni. Nefnilega hugmyndina um lækninn sem einkaspæjara sem lætur sér ekki nægja að uppgötva leyndarmálið heldur ýtir á rauða hnappinn og setur þá fyrst ferlið í gang. Að það sé með öðrum orðum smásmuguleg samviskusemin í lækninum sem valdi því að maður sem kemur heilbrigður til skoðunar fari út sem sjúklingur. Að það sé í raun vitneskjan sem valdi sjúkdómnum. Að meðvitundin skapi veruleikann. Ekki bætir úr skák að hér er sjaldnast ein báran stök fremur en annars staðar í tilverunni. Að minnsta kosti hef ég ekki tölu á þeim sögum sem mér hafa borist til eyrna sem afhjúpa ógnarlanga og yfirgripsmikla sjúkrasögu sem á upphaf sitt í andartaks uppgötvun læknis sem nánast fyrir tilviljun rakst á þetta sem engan hafði grunað að yrði upphafið að sjálfri þrautagöngunni þar sem eitt leiddi af öðru þar til einn góðan veðurdag að listinn var tæmdur og sjúklingurinn látinn. Þetta eru sögur sem spyrja í bassagangi sínum hvort allt þetta ógnarferli hefði nokkurn tíma þurft að eiga sér stað ef lækninum hefði einfaldlega yfirsést eða þá ákveðið að láta sem ekkert væri? Væri hinn látni þá hugsanlega á lífi í dag? Aldrei betri? Eins og allt þetta hrausta, hamingjusama, skynsama og bjartsýna fólk sem þakkar sínum sæla fyrir að hafa aldrei látið plata sig til læknis. Og er fyrir vikið hressara en allt sem hresst er.

En hvort er þá læknirinn þessi sem veit ekki af því hve lítið hann kann eða hinn sem vit hefur á að þegja um það sem hann fann?Þetta vefsvæði byggir á Eplica