Íðorðapistlar 1-130

095-Orðabanki á Netinu

Málræktarþing Íslenskrar málnefndar var haldið laugardaginn 15. nóvember 1997. Þar fór meðal annars fram kynning á Orðabanka Íslenskrar málstöðvar og síðan opnaði menntamálaráðherra bankann inn á Alnetið.

Hugmyndin að íðorðabanka mun fyrst hafa komið fram á árinu 1979. Í reglugerð um Íslenska málnefnd og Íslenska málstöð frá 1987 er kveðið á um undirbúning slíks banka, en skriður komst ekki á framkvæmdir fyrr en á árinu 1995. Fram til þess tíma höfðu íðorð ýmissa orðanefnda þó verið tölvuskráð á Íslenskri málstöð, meðal annarra Íðorðasafn lækna, þannig að gera mætti úr þeim einn íðorðabanka. Nú er hugmyndin orðin að veruleika og netverjar geta fyrst um sinn fengið ókeypis aðgang. Fjórtán orðasöfn voru komin í bankann við opnun hans og kennir þar ýmissa grasa, allt frá bíl- og flugorðasöfnum til orðaskráa í efnafræði og stjörnufræði. Slóðin er þessi: http://www.ismal.hi.is/ob/index.html.



Íðorðasafn lækna á Netinu

Af ýmsum ástæðum náðist ekki að opna aðgang að Íðorðasafni lækna á fyrsta degi bankans, en formlegur samningur um birtingu hefur verið gerður og vonir standa til að safnið verði komið á Netið þegar þessi pistill birtist. Rétt er að vekja athygli á því að heildarendurskoðun safnsins hefur ekki farið fram, og að það Íðorðasafn sem birtist í orðabankanum er fyrst og fremst það sem kom út í litlu heftunum á árunum 1985-1989.

Orðanefnd læknafélaganna skipuleggur nú endurskoðun Íðorðasafnsins og vonast til að eiginleg orðabókarvinna hefjist í upphafi árs 1998. Að henni lokinni er gert ráð fyrir að safnið verði einnig gefið út á formi sem henti einkatölvum, hvort heldur er á sjúkrahúsum, skrifstofum eða heimilum. Einnig má vekja athygli á því að heftin eru enn til sölu á skrifstofu læknafélaganna og fást á gamla góða verðinu kr. 5000. Það er að sjálfsögðu miklu fljótlegra að grípa hefti úr bókahillunni til uppflettingar, en að rekja sig eftir slóð veraldarvefsins fyrir eitt einasta orð. Uppflettingar í Orðabankanum samhliða langri ritvinnslu í tölvu verða þó vonandi nægilega hraðvirkar.



Referral center

Ásbjörn Jónsson, yfirlæknir á röntgendeild Sjúkrahúss Reykjavíkur, sendi nýlega í tölvupósti beiðni um aðstoð við þýðingu á referral center. Tiltækar ensk-amerískar læknisfræðiorðabækur birta ekki þetta hugtak sem sjálfstæða flettu, en hin mikla líf- og læknisfræðiorðabók Wileys lýsir referral þannig: Það að senda sjúkling til annars aðila í heilbrigðiskerfinu, venjulega til sérhæfðrar þjónustu, eða til annarrar stofnunar eða þjónustudeildar. Center er þar meðal annars þannig lýst: Stöð sem þjónar samfélagi eða sérstökum hópi og veitir tiltekna sérhæfða þjónustu. Íðorðasafn lækna birtir þýðingar á center: miðja, miðbik, stöð, miðstöð, en referral finnst þar ekki. Ensk-íslensk orðabók Arnar og Örlygs þýðir referral hins vegar með nafnorðinu tilvísun.

Læknar hafa lengi notað íslenska nafnorðið tilvísun, annars vegar um þann gerning að vísa sjúklingi til annars aðila í heilbrigðiskerfinu, einstaklings eða stofnunar, og hins vegar um þá formlegu beiðni sem fylgir sjúklingi til staðfestingar tilvísuninni og til nánari lýsingar á ástæðum hennar.

Ásbjörn leggur áherslu á þann skilning að "slík deild sé endastöð í þjónustunni". Orðin miðja, miðbik og stöð gefa slíkt tæpast nógu vel til kynna. Fyrir þá sem hafa kynnst handvirkum símstöðvum eða eldri upphitunarkerfum íbúðarhúsa, er miðstöð hins vegar sá staður sem allir þræðir liggja til eða allar leiðslur liggja frá. Að þessu sögðu liggur beint við að gera þá tillögu að referral center verði tilvísunarmiðstöð. Heitið gerir þó ekki endilega ráð fyrir að um "endastöð" sé að ræða, áherslan er á lykilstöðu eða meginaðsetur tiltekinnar þjónustu.



Vinulág

Í 93. pistli var stutt umfjöllun um heiti á philtrum, sem er dældin í miðri efri vör beint undir miðsnesi. Magnús Snædal vakti athygli mína á því að til er heitið vinulág. Hann telur það komið frá Bjarna Pálssyni, lækni, sem skipaður var fyrsti landlæknir Íslendinga árið 1760. Heitið finnst í Íslenskri orðabók Máls og menningar. Vinulág er skáldlegt heiti og fallegt og í samræmi við þá upprunaskýringu á latneska heitinu philtrum, að það sé komið af grísku sögninni philein, að elska.

Lbl 1997; 83: 852

Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica