Umræða fréttir

Fólasín minnkar líkur á fósturskaða

Landlæknisembættið, Manneldisráð Íslands og Miðstöð mæðraverndar, Heilsuverndarstöð Reykjavíkur hvetja allar konur sem undirbúa barneignir eða geta orðið barnshafandi til að taka B-vítamínið fólasín. Rannsóknir hafa leitt í ljós að ef fólasín er tekið í fjórar vikur fyrir meðgöngu og fyrstu 12 vikur sjálfrar meðgöngunnar minnka líkur á alvarlegum fósturgöllum á miðtaugakerfi, það er klofnum hrygg og heilaleysu, um meira en helming. Nú hefur verið gefinn út lítill bæklingur á vegum þessara stofnana um þetta efni sem nefnist Fólasín skiptir máli fyrir konur og verður honum dreift í lyfjaverslunum, heilsugæslustöðvum, framhaldsskólum og víðar.

Fólasín er eitt af B-vítamínunum og oft nefnt fólinsýra eða fólín. Mest er af vítamíninu í grænmeti, ávöxtum og vítamínbættu morgunkorni. Til að fá það magn sem verndar fóstrið gegn hugsanlegum skaða þarf hins vegar að borða mun meira af grænmeti og ávöxtum en gert er hér á landi, eða að minnsta kosti 500 grömm á dag. Það er því talin ástæða fyrir konur að tryggja sig frekar og taka 400 míkrógrömm á dag af fólasíni í tengslum við meðgönguna. Þar sem þessir fósturskaðar verða í byrjun meðgöngu, jafnvel áður en konur vita að þær eru barnshafandi, er mikilvægt að allar konur sem undirbúa barneignir eða geta orðið barnshafandi, taki fólasín eða borði fólasínríkt fæði.

Fréttatilkynning frá landlækni



Þetta vefsvæði byggir á Eplica