03. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Skurðlækningar. Fjölbreytt sérgrein. Bjarni Geir Viðarsson

Hvernig varð sérgrein lækna fyrir valinu? Hvar lærðu þeir? Hvaða ráð gefa þeir ungum læknum?

Ástæðan fyrir því að ég valdi kviðarholsskurðlækningar sem sérgrein er sú að oft á tíðum er hægt að leysa vandamál sjúklinga á einfaldan og skjótan hátt og oft eru þeir komnir út í samfélagið að nokkrum dögum eða vikum liðnum. Ég var þó alls ekki viss um mitt val þegar ég var á kandídatsárinu á Landspítala. Þótti nær allar sérgreinar spennandi og eftir því sem maður varð stærri hluti af teyminu og var treyst fyrir flóknari störfum, óx sjálfstraustið og sérgreinin varð meira spennandi.

Ég ákvað að gefa skurðlækningum tækifæri og hóf störf á skurðdeild Landspítala 2006 og naut þar leiðsagnar Margrétar Oddsdóttur, Höskuldar Kristvinssonar, Þorvaldar Jónssonar auk margra annarra sem reyndust mér vel. Árin á skurðdeildinni urðu tvö áður en ég fékk sérnámsstöðu í Helsingborg í Suður-Svíþjóð og flutti þangað með fjölskylduna í desember 2008. Við tóku spennandi ár þar sem nýtt land, tungumál og nýir siðir biðu. Dvölin í Helsingborg var góð og fylgdi ég þar í fótspor fjölmargra Íslendinga sem hafa stundað sérnám þar. Fjölskyldan eignaðist fjölmarga vini og staðsetning borgarinnar er mjög góð með tilliti til ferðalaga til Íslands og Evrópu. Starfið í Helsingborg var skemmtilegt og fjölbreytt og góðir möguleikar á að tileinka sér þau inngrip sem standa þarf skil á í starfi sínu sem skurðlæknir. Á skurðdeildinni í Helsingborg var á þessum tíma góð blanda af yngri og eldri læknum sem mynduðu skemmtilega heild og starfsandinn var góður.

Hluti af sérnáminu fólst í að kynna sér aðrar sérgreinar og sinna kviðslitsaðgerðum, gallblöðrutökum og minni aðgerðum og var ég um tíma á sjúkrahúsinu í Ängelholm og Lundi til að uppfylla þessar kröfur. Sérfræðiréttindin fékk ég síðan árið 2012 og kaus að vinna áfram í Helsingborg á efra kviðarhols- og bráðateyminu í tæp tvö ár áður en tími var kominn á að söðla um.

Ég sótti um og fékk stöðu á vélinda- og magateyminu á Háskólasjúkrahúsinu í Uppsölum. Fjölskyldan kom sér fyrir í smábænum Alsike milli Uppsala og Stokkhólms, aðeins steinsnar frá Arlanda-flugvelli.

Samhliða vinnunni í Uppsölum gafst mér færi á að taka þátt í þeim rannsóknum sem voru í gangi á teyminu. Þetta varð til þess að ég útskrifaðist með doktorspróf í fylgikvillum efnaskiptaaðgerða frá háskólanum í Uppsölum árið 2020. Doktorsritgerðin var unnin undir handleiðslu Magnusar Sundbom prófessors í efnaskiptaskurðlækningum sem einnig var teymisstjóri minn. Frábær maður sem ég held enn góðu sambandi við.

Starfsemi teymisins var fjölbreytt og sjúklingahópurinn fjölbreyttur frá Uppland og nálægum lénum. Við sinntum öllum aðgerðum á maga og vélinda vegna ill- og góðkynja meina auk þess sem við sinntum efnaskiptaskurðlækningum og flóknari speglunum efri meltingarvegar.

Dvöl okkar í Uppland reyndist mjög góð og eru Uppsalir klárlega borg sem hægt er að mæla með. Háskólabær með kastala og dómkirkju, er hægt að biðja um meira?

Árin í Svíþjóð urðu alls þrettán en þrátt fyrir það reyndist ákvörðunin um að flytja til Íslands einföld. Fjölskyldan var spennt fyrir flutningunum og tilbúin að takast á við nýjar áskoranir. Því varð úr að við sigldum yfir hafið í júní 2021 og ég hóf störf á skurðdeild Landspítala í kjölfarið. Þar sinni ég skurðaðgerðum efri meltingarvegar með áherslu á maga og vélinda auk annarra verkefna.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica