03. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Læknablaðið í 110 ár. Frumkvöðlar í læknastétt. Í vísindaskuggsjá blaðsins – klínískar rannsóknir á 20. öld. Þórður Harðarson

Fyrri grein um frumkvöðla í íslenskri læknisfræði sem fram hafa komið á síðum Læknablaðsins í gegnum tíðina. Seinni grein Þórðar um þetta efni verður í aprílblaðinu

Allt frá upphafsárum Læknablaðsins hefur það birt viðleitni lækna til að meta árangur starfa sinna, fyrst í smáum stíl, en með tímanum hefur sjóndeildarhringurinn víkkað og á síðustu áratugum hafa oft birst á síðum blaðsins klínískar vísindagreinar, sem gætu talist frambærilegar í miklu víðlesnari fræðaritum lækna. Engum getur dulist, að í hópi íslenskra lækna hafa fyrr og síðar verið margir öflugir frumkvöðlar, boðberar nýrrar þekkingar, hugmynda og úrræða. Þeirra sér víða stað í skuggsjá Læknablaðsins.

Tilgangur þessarar greinar er að veita innsýn í framþróun klínískra rannsókna á Íslandi eins og þær hafa birst á síðum Læknablaðsins á útgáfuferli þess. Auðvitað hafa íslenskar klínískar rannsóknir birst víðar, en líklegast í smærri stíl. Staðnæmst er við 100 ára afmæli blaðsins 2013.

Fyrstu 20 árin

Á fyrstu árum Læknablaðsins voru gerðar nokkrar atrennur að klínískum rannsóknum, þótt þær teljist sjaldan fullburða. Til dæmis gerði Þórður Thoroddsen mat á sóttnæmi holdsveiki árið 1915 í héraði sínu.1 Margri töldu á þeim tíma, að holdsveiki væri erfðasjúkdómur og áhrif sýkla dregin í efa. Þórður sýndi fram á að sjúkdómshættan jókst 5-6 falt, ef sýktur maður dvaldist á viðkomandi býli. Sama ár greindi Þórður frá árangri optochinmeðferðar við lungnabólgu.2 Optochin var fyrirrennari sýklalyfja og gat unnið á streptókokkum in vitro. Þórður birti einnig yfirlit yfir birtingarmynd og framgang spænsku veikinnar 1918-1919 auk fyrri faraldra og hvatti til stóraukinna sóttvarna.3

Þórður Thoroddsen (1856-1939)

Guðmundur Magnússon ritaði allmikið um sullaveiki og árangur skurðaðgerða við henni, til dæmis yfirlit yfir sögu sullaveikinnar á Íslandi, sem birtist í Árbók Háskóla Íslands 1912-1913. Guðmundur birti árið 1919 árangur 50 sullaveikisaðgerða sinna.4 Flestir sjúklinganna fóru heilir heim. Sæmundur Bjarnhéðinsson ritaði um útbreiðslu holdsveiki á Íslandi árið 1922.5 Sjúkdómurinn var tíðastur í Eyjafjarðarsýslu, en útbreiðsla sjúkdómsins fór þó alls staðar hratt minnkandi.

Segja má að fyrsta fullburða kliníska rannsóknin á síðum blaðsins sé grein Árna Árnasonar árið 1923 um berklaveiki í Dalasýslu.5 Þar er tilgangi rannsóknar glögglega lýst, framsetning skipuleg og ályktanir dregnar. Útdráttur á ensku fylgir greininni. Sýkingatíðni fór hægt vaxandi í sýslunni, flestir sýktust ungir og margir létust innan 5 ára frá upphafi einkenna. Árni varði merka doktorsritgerð árið 1935: Apoplexie und ihre Vererbung. Um svipað leyti greindi Guðmundur Hannesson frá hæðarmælingum Íslendinga.7 Meðalhæð karla var um 173,5 cm og voru þeir hávaxnari en samanburðarþjóðir.

Árið 1925 gerði Steingrímur Matthíasson ítarlega grein fyrir árangri skurðaðgerða á Akureyri 1907-1924.8 Flestar aðgerðirnar voru vegna kviðslits, botnlangabólgu og sullaveiki. Dánartala „meiri háttar aðgerða“ var 7,8%. Steingrímur og Matthías Einarsson voru næstu árin ötulir að greina frá skurðreynslu sinni á nýliðnu ári. Þremur árum síðar kynnti Helgi Ingvarsson árangur sökkmælinga hjá berklaveikum, en þær voru þá nýjung.9 Lágt sökk gaf fyrirheit um batnandi horfur. Tveimur árum síðar vakti Helgi Tómasson athygli á mikilvægi blóðþrýstingsmælinga, en greindi ekki frá reynslu sinni, fyrr en með grein árið 1931.10 Fjórðungur skjólstæðinga hans hafði háþrýsting. Helgi veitti því athygli, að starfsþrek manna gat batnað með lækkandi þrýstingi.

Steingrímur Matthíasson (1876-1948)

Árið 1932 framkvæmdi Katrín Thoroddsen mat á tíðni beinkramar hjá ungbörnum, sem komu til skoðunar hjá Ungbarnavernd Líknar. Katrín taldi að helmingur barnanna hefði þann sjúkdóm.11 Níels Dungal mat á svipaðan hátt tíðni C-vítamínsskorts hjá unglingum. Hann taldi að um 15% þeirra byggju við slíkan skort.12 Ólafur Helgason greindi frá heilsufari skólabarna árið 1933.13 Hann taldi að um fjórðung þeirra skorti á um eðlilegan líkamsþroska. Páll Kolka greindi frá hópi Vestmanneyinga sem höfðu fengið merki beri-beri sjúkdóms.14 Páll taldi sjúkdóminn útbreiddan vegna ófullnægjandi mataræðis.14 Sigurður Magnússon kynnti yfirlit um berklasmit og – dauða á ýmsum aldri sama ár. Hann taldi flesta smitast á aldrinum 15-19 ára, en nær allir væru smitaðir á miðjum aldri. Berkladauði á landvísu var um 2%.15

Þessi upptalning ber með sér að íslenskum læknum voru smitsjúkdómar og lýðheilsa ofarlega í huga á þessum tíma. Holdsveiki og sullaveiki voru enn viðfangsefni þeirra, berklar voru vaxandi ógn og fátækt og einhæft mataræði veikti sjúkdómsviðnám manna. Enginn efi er á því að umrædd fræðastörf og skrif lækna í Læknablaðinu vöktu ríka athygli stjórnvalda og leiddu til úrbóta á ýmsum sviðum.

Árin 1934 til 1953

Á þessum árum efldist rannsóknarhugur lækna talsvert, ef marka má vitnisburð Læknablaðsins. Þrjátíu og tveimur klínískum rannsóknum voru gerð skil í blaðinu á tímabilinu, liðlega þremur að meðaltali árlega. Auðvitað er val mitt huglægt og umdeilanlegt. Til dæmis tek ég ekki til umfjöllunar kynningar á einstökum sjúkratilfellum, né rannsóknir á erlendum efnivið. Viðfangsefnin eru nú fjölbreyttari en á fyrra tímabili. Það færist mjög í vöxt að höfundar birti samantekt á ensku í greinarlok og meðferð heimilda verður nútímalegri. Algengara verður að fleiri en einn höfundur sé að greinum.

Níels ritaði meðal annars um berklamerki við krufningar, um beinkröm, bólusetningar við kíghósta og serummeðferð við mislingum. Á þessum tíma var hann raunar þekktur á alþjóðavettvangi vegna varnaðarorða sinna gegn krabbameinsvöldum, reykingum og reyktum mat og var óumdeildur frumkvöðull. Níels birti grein í Læknablaðinu árið 1941 þar sem hann færði sönnur á að beinkröm væri algeng á Íslandi,16 en ýmsir höfðu talið að hún fyndist ekki hérlendis þrátt fyrir fyrrnefnda grein Katrínar Thoroddsen.

Júlíus Sigurjónsson ritaði meðal annars um skjaldkirtilssjúkdóma, bólusetningar við barnaveiki og mænusóttarfaraldra. Merk er grein hans árið 1940 um ungbarnadauða á Íslandi síðustu 100 árin.17 Glöggt kemur fram lækkandi dánartíðni og hagstæður samanburður við nágrannalönd.

Júlíus Sigurjónsson (1907-1988)

Hinn mikilhæfi frumkvöðull Björn Sigurðsson ritaði um nýlega afstaðinn inflúensufaraldur (með Ólafi Bjarnasyni) og stofngreindi hina sjúkdómsvaldandi veiru. Hann greindi coxsackie-veiru sem sjúkdómsvald „stingsóttar“, sem hafði nýlega geisað. Hann var einnig fyrsti höfundur hinnar merku greinar um Akureyrarveikina sem birtist í blaðinu árið 1950.18 Á Akureyri veiktust 465 menn og 128 lömuðust. Sjúkdómsvaldur fannst ekki þrátt fyrir miklar leitartilraunir.

Meðal annarra mikilvægra greina má nefna rannsókn Helga Tómassonar á líkamlegu heilsufari geðsjúkra19 og yfirlitsgrein Magga J. Magnús um holdsveiki á Íslandi. Holdsveikum fór þá mjög fækkandi.20 Loks birtist árið 1943 grein Ólafs Ó. Lárussonar um tréspíraeitrunina í Vestmannaeyjum.

Hefðbundin viðfangsefni lyflækna eru reifuð í 11 greinum og skurðlækna í sjö greinum. Athygli vekur að furðulítið kveður að Landspítalalæknum á þessu tímabili en læknar St. Jósefsspítala rita fjórar greinar.

 

Árin 1954-1973

Á árunum 1954-1973 urðu veruleg umskipti á Læknablaðinu, bæði hvað snerti efnisval, umfang efnis og formgerð. Nýir höfundar létu til sín taka. Á þessu árabili voru kynntar 69 klínískar rannsóknir í blaðinu og þeim hafði þannig fjölgað um rúman helming frá fyrra tímabili. Áherslur á lýðheilsu og ýmsa smitsjúkdóma hafa dvínað, en vaxið á ýmis önnur almenn klínísk verkefni.

Bæði Björn Sigurðsson og Níels Dungal létust á tímabilinu, hinn fyrrnefndi var höfundur mikilvægra ritgerða, einkum um veirusjúkdóma.21,22 Til dæmis var sýnt að bólusetning við inflúensu væri engan veginn örugg til að koma í veg fyrir smit, en hún fækkaði þeim og stuðlaði að vægari sjúkdómsmynd. Þetta er ekki óvænt niðurstaða á COVID-tímum. Júlíus Sigurjónsson ritaði mikilvægt yfirlit um illkynja æxli. Þar var lögð áhersla á háa tíðni meltingaræxla, einkum í maga, en lága tíðni lungnaæxla hér í samanburði við nágrannalönd.23 Krabbamein í lungum var fimmfalt tíðara í Bretlandi en Íslandi.

Nýir frumkvöðlar eru Ólafur Jensson og Ófeigur Ófeigsson. Ólafur starfaði fyrir Krabbameinsfélag Íslands á þessum tíma og lét fyrstur Íslendinga til sín taka í erfðarannsóknum. Hann kortlagði íslenskar fjölskyldur með heilkenni Pelgers og von Willebrands, auk arfgengs sporbaugakyrnis (elliptocytosis hereditaria). Ófeigur vakti heimsathygli fyrir kenningar sínar um kælingu brunasára. Hann birti íslenskum læknum efni sitt árið 1961, auk þess sem hann lýsti rottutilraunum sem hann hafði gert.24

Ófeigur Ófeigsson (1904-1993)

Meðal merkra fræðigreina þessa tímabils er umfjöllun Guðmundar Björnssonar um blindu á Íslandi.25 Hann komst að þeirri niðurstöðu, mörgum til undrunar, að tíðni blindu hér væri hin hæsta í Evrópu, einkum vegna tíðrar gláku hjá rosknu fólki, einkumí dreifbýli. Hann hvatti eindregið til aukinnar árvekni, en það olli því að líkindum að augnþrýstimælingar voru teknar upp í hóprannsókn Hjartaverndar. Guðmundur Jóhannesson færði sterk rök fyrir því að meðferð krabbameins í leghálsi á Íslandi stæðist engan samanburð. Hann hvatti til ýmissa úrbóta, meðal annars í tækjabúnaði.26

  Guðmundur Björnsson (1917-2001)

Læknar Borgarspítala27 og Landspítala28 greindu árin 1969 og 1971 frá árangri meðferðar við bráðri kransæðastíflu. Dánartölur reyndust 29% og 21%. Núna eru sambærilegar tölur um eða innan við 5%. (Í fyrri greininni birtist líklega p-gildi fyrst í Læknablaðinu).

Alfreð Gíslason sýndi fram á að dánartíðni drykkjumanna af völdum slysa og sjálfsvíga væri tíföld á við samanburðarhóp og Esra Pétursson komst að þeirri niðurstöðu að íslenskir læknar væru líklegri en aðrir Íslendingar til að deyja af völdum drykkjusýki eða annarra nautnaefna, flestir létust á sextugsaldri.

Meðal stórtíðinda var upphaf starfsemi Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins (1964) og rannsóknarstöðvar Hjartaverndar (1968). Þessar stofnanir efndu til mikilvægra gagnagrunna, sem síðar gerðu Íslendinga fullgilda þátttakendur á alþjóðlegum rannsóknavettvangi og þess sá stað á síðum Læknablaðsins næstu áratugi.

Heimildir

1. Thoroddsen Þ. Um sóttnæmi holdsveikinnar. Læknablaðið 1915; 1: 20-5.
 
2. Thoroddsen Þ. Optochin við lungnabólgu. Læknablaðið 1916; 2: 33-9.
 
3. Thoroddsen Þ. Inflúenzan fyrr og nú. Læknablaðið 1919; 5: 74-9.
 
4. Magnússon G. Fimmtíu sullaveikissjúklingar. Læknablaðið 1919; 5: 54-72.
 
5. Bjarnhéðinsson S. Útbreiðsla holdsveiki hér á landi. Læknablaðið 1922; 8: 19-23.
 
6. Árnason Á. Berklaveiki í Dalasýslu. Læknablaðið 1923; 9: 113-29.
 
7. Hannesson G. Hæð Íslendinga. Læknablaðið 1923; 9: 129-35.
 
8. Matthíasson S. Handlæknisaðgerðir við Akureyrarspítala 1907-1924. Læknablaðið 1925; 11: 1-6.
 
9. Ingvarsson H. Sökk rauðra blóðkorna hjá sjúklingum með lungnaberkla. Læknablaðið 1927; 13: 161-7.
 
10. Tómasson H. Rannsókn á háþrýstingi. Læknablaðið 1931; 17: 87-91.
 
11. Thoroddsen K. Infantil rachitis í Reykjavík. Læknablaðið 1932; 18: 113-9.
 
12. Dungal N. Um skort á C-fjörvi. Læknablaðið 1932; 18: 145-55.
 
13. Helgason Ó. Skólabörn í Reykjavík. Læknablaðið 1933; 19: 49-58.
 
14. Kolka P. Beriberi í Vestmannaeyjum. Læknablaðið 1933; 19: 81-91.
 
15. Magnússon S. Berklasmitun og berklamanndauði á Íslandi á ýmsum aldri. Læknablaðið 1933; 19: 112-8.
 
16. Dungal N. Um beinkröm á Íslandi. Læknablaðið 1941; 28: 1-12 .
 
17. Sigurjónsson J. Ungbarnadauðinn á Íslandi síðustu 100 árin. Læknablaðið 1940; 26: 97-108.
 
18. Sigurðsson B, Sigurjónsson J, Sigurðsson JH, et al. Akureyrarveikin 1948-49. Læknablaðið 1950; 35: 65-80.
 
19. Tómasson H. Líkamlegir sjúkdómar geðveikra. Læknablaðið 1937; 23: 35-63.
 
20. Magnús MJ. Holdsveiki á Íslandi. Læknablaðið 1938; 24: 33-46.
 
21. Sigurðsson B. Veirusjúkdómar á Íslandi. Læknablaðið 1954; 38: 81-93.
 
22. Sigurjónsson J, Sigurðsson B, Grímsson H. Influensan 1957, Asíuinfluensan og árangur af bólusetningu. Læknablaðið 1960; 44: 55-65.
 
23. Sigurjónsson J. Manndauði af völdum krabbameina og annarra illkynja æxla. Læknablaðið 1954; 38: 129-38.
 
24. Ófeigsson Ó. Um bruna. Læknablaðið 1961; 45: 114-28.
 
25. Björnsson G. Blinda á Íslandi. Læknablaðið 1954; 38: 65-79.
 
26. Jóhannesson G. Krabbamein í leghálsi. Árangur meðferðar 1955-66. Læknablaðið 1968; 54: 189-208.
 
27. Þórðarson Ó, Baldvinsson E. Kransæðastífla. Læknablaðið 1969; 58: 201-18.
 
28. Þorsteinsson SB, Harðarson Þ, Samúelsson S. 151 sjúklingar með kransæðastíflu á lyflækningadeild Landspítalans 1966-68. Læknablaðið 1971; 57: 255-75.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica