03. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Bréf til blaðsins. Athugasemdir vegna lögfræðipistils um hvíldartíma. Björn Gunnarsson

Í nýjasta tölublaði Læknablaðsins fjallar Dögg Pálsdóttir framkvæmdastjóri og lögfræðingur LÍ um hvíldartíma og er það ánægjuefni þó að hún hafi sleppt því að fjalla um mikilvæg atriði.1 Brot á reglum um hvíldartíma lækna er alvarlegt mál og því mikilvægt að umfjöllun um þetta sé tæpitungulaus. Hún bendir á að í grein 4.6.8 í kjarasamningi LÍ er vísað til samnings aðila vinnumarkaðarins og opinberra aðila frá árinu 1997 um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma og telst sá samningur hluti kjarasamnings LÍ.2 Í leiðbeiningum varðandi þennan samning segir að helstu meginreglur um vinnutíma séu eftirfarandi:

  • Dagleg samfelld lágmarkshvíld er 11 stundir á hverju 24 klst. tímabili
  • Óheimilt er að skipuleggja vinnu þannig að vinnutími fari umfram 13 stundir
  • Veittur skal einn hvíldardagur í viku í beinu framhaldi af daglegri lágmarkshvíld, það er 35 klst. samfelld hvíld
  • Hámarksvinnutími er 48 virkar vinnustundir á viku að meðaltali
  • Veita skal samsvarandi hvíld síðar ef dagleg eða vikuleg lágmarkshvíld hefur verið skert
  • Frítökuréttur skapast þegar dagleg lágmarkshvíld er skert

Dögg vitnar í þessar leiðbeiningar, en bætir texta aftan við aðra grein (sjá skáletrað):

  • Óheimilt er að skipuleggja vinnu þannig að fyrirsjáanlegt sé að vinnutími fari umfram 13 stundir á hverju 24 klst. tímabili nema um skipuleg vaktaskipti sé að ræða

Þessi viðbót er í leiðbeiningunum, en hér er textinn slitinn úr samhengi og því sem meira máli skiptir sleppt. Leyfileg frávik frá daglegri lágmarkshvíld eru nefnilega þrennskonar:

5.1 Vaktaskipti

Vegna skipulegra vaktaskipta er heimilt með kjarasamningi að stytta samfellda lágmarkshvíld starfsmanna í allt að 8 klst. Þetta á t.d. við þegar starfsmaður skiptir af morgunvakt yfir á næturvakt samkvæmt skipulagi vaktskrár.

5.2 Sérstakar aðstæður

Við sérstakar aðstæður er heimilt að stytta samfellda lágmarkshvíld í allt að 8 klst. og lengja vinnulotu í allt að 16 klst., þ.e.a.s við ófyrirsjáanleg atvik þegar bjarga þarf verðmætum. Ennfremur þegar almannaheill krefjast þess og/eða halda þarf uppi nauðsynlegri heilbrigðis- eða öryggisþjónustu.

5.3 Truflun á starfsemi vegna ytri aðstæðna

Ef truflun verður á starfsemi vegna ytri aðstæðna, svo sem vegna veðurs eða annarra náttúruafla, slysa, orkuskorts, bilana í vélum eða öðrum búnaði eða annarra slíkra ófyrirséðra atvika, má víkja frá ákvæðum um daglega lágmarkshvíld að því marki sem nauðsynlegt er til að koma í veg fyrir verulegt tjón þar til regluleg starfsemi hefur komist á að nýju. Um er að ræða tilvik sem ekki verða séð fyrir. Rétt er að kalla annan starfsmann til vinnu til að leysa þann starfsmann af sem ekki hefur náð tilskilinni hvíld, sé þess nokkur kostur.

Kjarni málsins er sá að það má við vaktaskipti og sérstakar aðstæður stytta samfellda lágmarkshvíld lækna í allt að 8 klst. á sólarhring, reiknað frá byrjun vinnudags, en þar liggja mörkin nema um ófyrirséðar ytri aðstæður sé að ræða. Þetta byggir á IX. kafla laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.3 Það er því með öllu óheimilt að skipuleggja vinnu þannig að vinnutími fari umfram 16 stundir. Þegar vinna er skipulögð þarf því að meta líkur á að þetta geti gerst. Það var nýlega gert á sjúkrahúsinu sem ég starfa við og í ljós kom að samfelldur vinnutími var að lágmarki 24 klst. í átta af hverjum tíu vöktum svæfinga- og gjörgæslulækna. En þrátt fyrir þetta er skipulag vinnutíma óbreytt og ekki stendur til að breyta því. Myndi þetta líðast hjá öðrum starfsstéttum, til dæmis flugmönnum eða rútubílstjórum? Það gefur auga leið að þarna er vikið frá ákvæðum um daglega lágmarkshvíld af ráðnum hug en ekki vegna ófyrirséðra ytri aðstæðna. LÍ hefur látið þetta líðast, en vonandi breytist það einhvern tíma.

Heimildir


1. Pálsdóttir D. Lögfræði 50. pistill: Um hvíldartíma. Læknablaðið 2024; 110: 96.

2. Samráðsnefnd um vinnutíma. Skipulag vinnutíma: leiðbeiningar samráðsnefndar um vinnutíma frá 16. febrúar 2001. lifeindafraedingur.is/wp-content/uploads/2016/07/Skipulag_vinnutima_2002-2.pdf - febrúar 2024.

3. Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. 1980 nr. 46 28. maí. althingi.is/lagas/139a/1980046.html - febrúar 2024.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica