03. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Bréf til blaðsins. Á Íslandi þarf að vera til gæðaskrá fyrir þá sem gangast undir efnaskiptaskurðaðgerðir

Algengi offitu hefur aukist hratt á síðustu áratugum og eru nú tæp 30% fullorðinna Íslendinga með offitu. Samfara hefur aukist þörf á meðferð við offitusjúkdómnum. Ný lyf hafa komið til sögunnar á síðastliðnum árum en þau eru dýr og færri uppfylla nýleg skilyrði Sjúkratrygginga Íslands um lyfjaskírteini og greiðsluhlutdeild í samanburði við eldri lyf. Áhugi á efnaskiptaskurðaðgerðum hefur einnig aukist og ef vel tekst til getur slík aðgerð gefið góðan árangur og stuðlað að bættri heilsu til lengri tíma.

Efnaskiptaskurðaðgerðir hafa verið gerðar á Landspítala frá síðustu aldamótum. Frá árinu 2006 hefur meðferðarteymi Landspítala sett það sem skilyrði fyrir aðgerð á vegum hins opinbera að einstaklingur hafi lokið þverfaglegri undirbúningsmeðferð. Meðferðarteymið tók saman árangur aðgerðanna frá 2000-2014 og birtu niðurstöður í 10. tölublaði Læknablaðsins 2016.1 Árangur var góður og sambærilegur við árangur á öðrum háskólasjúkrahúsum. Þrátt fyrir þetta hefur aðgerðum fækkað á Landspítala á síðustu árum vegna skerts aðgengis að skurðstofum. Hefur það orðið til þess að stór hópur einstaklinga hefur leitað á einkaskurðstofur, hérlendis og erlendis, og greitt fyrir aðgerðina úr eigin vasa.

Birtar voru leiðbeiningar um meðferð fullorðinna með offitu á vef Embættis landlæknis í janúar 2020.2 Eru þar skýrar leiðbeiningar um ábendingar og frábendingar fyrir efnaskiptaskurðaðgerð ásamt tilhögun eftirlits. Í dag er þó talsverður munur á undirbúningi og eftirliti einstaklinga sem fara í aðgerð á vegum hins opinbera og á einkastofum. Við höfum áhyggjur af þessu misræmi. Í Svíþjóð er áralöng hefð fyrir gagnaskrám um læknisfræðilega meðferð. Til dæmis er til gagnagrunnur um meðferð einstaklinga með sykursýki (Nationella Diabetes Registret, NDR) og gagnaskrá um alla þá sem gangast undir efnaskiptaskurðaðgerðir þar í landi (Scandinavian Obesity Surgery Registry, SOReg). Gögn úr SOReg hafa gefið miklar grunnupplýsingar um þá sem gangast undir slíka aðgerð og hvernig þeim hefur farnast eftir aðgerðina. Eru þetta mikilvægar upplýsingar og gæðaeftirlit en gefur einnig möguleika á rannsóknarvinnu til að bæta meðferð sjúklinga. Við höfum haft áhuga á að taka upp slíka skráningu á Íslandi en vegna laga um persónuvernd hefur það ekki verið möguleiki. Nú er í undirbúningi í heilbrigðisráðuneyti frumvarp sem heimilar notkun á gæðaskrám en slík skrá er skilgreind sem skipulagt safn persónugreinanlegra og samræmdra heilbrigðisupplýsinga um afmarkaða hópa sjúklinga, með sömu eða skylda sjúkdóma. Gert er ráð fyrir því að gögn í gæðaskrá séu skráð í tengslum við meðferð einstaklinga og að skrárnar séu samþættar klínísku starfi í þeim tilgangi að auka gæði og tryggja öryggi heilbrigðisþjónustu og bæta meðferð einstaklinga. Teljum við þetta frumvarp vera stórt framfaraskref.

Við viljum hvetja alþingismenn til að tryggja framgang frumvarpsins á Alþingi og í framhaldi að við Íslendingar getum sameinast og þar með orðið hluti af sænska gagnagrunninum til gæðaeftirlits (eins og gert hefur verið í Noregi). Að öðrum kosti að sérstakur gagnagrunnur verði til á Íslandi en í slíkum gagnagrunni mætti halda utan um alla þætti offitumeðferðar á Íslandi. Gagnagrunnur er auðvitað gagnslaus ef hann er ekki notaður og þarf samstillt átak heilbrigðisstarfsfólks til að tryggja skráningu í grunninn við hverja efnaskiptaskurðaðgerð sem gerð verður á Íslendingi, hvort sem er á Íslandi eða erlendis.

Heimildir

 

1. Þórarinsdóttir R, Pálmason V, Leifsson BG, et al. Árangur magahjáveituaðgerða á Íslandi 2001-2015. Læknablaðið 2016; 102: 426-32.
https://doi.org/10.17992/lbl.2016.10.100
PMid:27813482
 
2. Klínískar leiðbeiningar um meðferð fullorðinna einstaklinga með offitu. assets.ctfassets.net/8k0h54kbe6bj/4ckVgwgjROdwKpyOlZ49bx/010ccd0bef997f785fb318b7101f90c6/Kliniskarleidbeiningar_um_medferd_fullordinna_einstaklinga_med_offitu_LOK.pdf - febrúar 2024.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica