02. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Læknablaðið í 110 ár. Berklarnir og Jónas frá Hriflu helstu viðfangsefnin. Þröstur Haraldsson

110 árgangar þriðja elsta tímarits landsmanna skannaðir

Annar áratugur Læknablaðsins – 1925-1934 – er allur í sama skugganum. Hvíti dauðinn – berklarnir – er yfir og undir og allt um kring. Árleg dauðsföll af völdum berkla fara yfir 200 árið 1925, en árið eftir nær íbúafjöldi landsins í fyrsta sinn 100.000. Árleg tala látinna úr berklum er yfir 200 fram til 1932, en helst þó yfir 100 á ári fram í mitt seinna stríð. Það hefur ekki verið neitt sældarbrauð að vera læknir á þessum árum, engin lyf bitu á berklana og stórkarlalegar skurðaðgerðir – höggningar – dugðu oftast skammt. Það er ekki fyrr en upp úr 1950 sem árangursríkar lyfjameðferðir líta dagsins ljós.

Að sjálfsögðu er mikið fjallað um þessi ósköp í Læknablaðinu. Þannig segir Steingrímur Matthíasson frá því í grein um berklasmitun í ágústhefti ársins 1925 að Akureyrarspítali sé: „að miklu leyti orðinn berklaspítali, eins og flest önnur sjúkrahús á landi voru…“. Sjúkrahúsin í landinu eru þó ófá eins og lesa má í grein eftir Steingrím tveimur árum síðar. Árið 1927 eru þau 29 talsins með tæplega 700 rúm, af þeim voru 650 skipuð allt árið. Og hann nefnir líka að nú séu að rísa ný sjúkrahús á fimm stöðum og þegar þau verði komin í gagnið verði Ísland komið fram úr Danmörku hvað spítalarúm á hverja 1000 íbúa áhrærir og þar með á toppinn í öllum heimi. Enda engin vanþörf á, því hvergi í heimi séu fleiri berklasjúklingar rúmliggjandi að tiltölu en hér á landi. Nánar um ný sjúkrahús hér á eftir.

Fyrstu sjúklingarnir voru lagðir inn á nýbyggðan Landspítala fjórum dögum fyrir jól árið 1930. Arkitekt var Guðjón Samúelsson. Myndina tók Ólafur Magnússon sennilega um 1935-1940. Ljósmyndasafn Reykjavíkur varðveitir myndina.

Fyrir utan berklana er ýmislegt fleira að angra landann og skapa læknum verkefni. Sullaveikin var til umræðu í síðasta pistli og enn er verið að telja sulli í sauðfé árið 1927. Jónas Kristjánsson á Sauðárkróki segir af því tilefni: „Sullaveiki í mönnum og fé er óþrifa-sjúkdómur, sem er ekki samboðinn vaxandi menningu og þrifnaði…“ Hann bætir svo við geitum „sem er í þann veginn að verða útrýmt; og eins ætti lúsin að útrýmast. Það er læknanna að vekja þá öldu…“ Foreldrar íslenskra skólabarna geta vitnað um það að sú alda hefur enn ekki risið nógu hátt, en í þessum skrifum felst raunar skýringin á því hversu lífseigt hundabann var hér á landi.

Það gustaði köldu

Talandi um átök til útrýmingar skæðum sjúkdómum, kallast það nokkuð á við samstöðuna sem allir mæra nú til dags á tímum eldsumbrota og heimilislausra Grindvíkinga. Nema hvað að á þessum dimmu berklaárum var hún ekki ýkja mikil, í það minnsta ekki milli lækna og forystumanna þjóðarinnar. Undir árslok 1929 veitir Jónas nokkur frá Hriflu Sigvalda Kaldalóns embætti héraðslæknis í Keflavík. Þótt Sigvaldi hafnaði þessu starfi í fyrstu var þetta upphafið á frægri deilu sem hlotið hefur nafnið Stóra bomban. Hér er óþarft að rekja þá deilu í smáatriðum en hún stóð í nokkur ár með alls kyns uppákomum sem voru vel tíundaðar í Læknablaðinu. Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt því ritstjóri blaðsins var á þessum árum einmitt sá sem varpaði Stóru bombunni að ráðherra, Helgi Tómasson á Kleppi. Hann var rekinn samstundis og gert að yfirgefa, ekki bara starfið heldur einnig íbúð þar sem fjölskylda hans bjó, samdægurs!

Það kemur líka skýrt fram í skrifum blaðsins að á milli lækna og ríkisvaldsins gustar köldu þessi árin. Á aðalfundi Læknafélags Íslands 1931 segir þannig formaður LÍ, Guðmundur Hannesson, í ræðu um liðið starfsár: „Væri ekki mikilla framkvæmda að vænta, meðan landsstjórnin gerði hvað hún gæti, til þess að hafa skóinn ofan af læknum og virða allar tillögur þeirra að vettugi. Myndi það t.d. einsdæmi í stjórn siðaðra landa, að heilbrigðisstjórnin aftæki að auglýsa nokkurt læknisembætti eða stöður.“

Og í grein eftir Jón Árnason héraðslækni á Kópaskeri segir svo árið 1934: „Það hefur ekki árað til umbóta síðasta áratug mestallan. Forgönguna verða læknar að hafa, en þeir víða hatursmegin við hálfvitlausa landsstjórn. Milli þeirra og fólksins smeygði sér köld og skitin hönd rógs og tortryggni.“

Stöðuveitingar lækna voru upphaf þessarar deilu og hún fékk nokkurt framhaldslíf skömmu eftir þennan aðalfund þegar Jónas skipaði Vilmund Jónsson landlækni og skömmu síðar einnig stjórnarformann nýja Landspítalans. Vilmundur var þá ekki félagi í Læknafélagi Íslands og má sjá í blaðinu að ýmsum velmetnum – reykvískum – læknum fannst þessi upphefð sveitalæknis af Vestfjörðum jafnvel fullmikil. Að sjálfsögðu var embættanefnd LÍ ekki spurð álits á þessum skipunum ráðherra.

… en Landspítali reis

Ekki var þó allt á þessa leið í heilbrigðismálum þjóðarinnar þessi misserin. Téður Landspítali (þá raunar með tveimur essum) reis og var að sjálfsögðu fagnað í Læknablaðinu. Hugmyndin kviknaði raunar meðal lækna á fyrsta læknaþingi sem haldið var árið 1896. Í blaðinu er þessi frétt birt haustið 1925:

„Byrjað er að taka grjót upp á lóð hans og ryðja lóðina og á að fara að grafa þar fyrir kjallara. Er búið að gera samning um það verk, og skal lokið að grafa fyrir byggingunni í miðjum febrúar n. k. Samtímis á að fara að viða að steypuefni til byggingarinnar, svo hægt verði að byrja á steypunni strax að vori, þegar veður hlýnar. Húsameistari ríkisins siglir nú til útlanda, til þess að kynna sér veggjagerð og fleira, sem koma mætti spítalabyggingunni að notum.“

Rúmum fimm árum síðar, 20. desember 1930, eru fyrstu sjúklingarnir lagðir þar inn og um líkt leyti er nýhættur ritstjóri Læknablaðsins, Guðmundur Thoroddsen, skipaður yfirlæknir á lyflæknis- og handlæknisdeild. Á þessum árum, rétt fyrir kreppuna miklu, risu, auk Landspítala, sjúkrahús í Kristnesi, Siglufirði, Seyðisfirði og Vestmannaeyjum, að ógleymdum Nýja Kleppi sem var viðbygging inn við sundin blá. Þar tók ritstjóri blaðsins, Helgi Tómasson, aftur til starfa haustið 1932. Alls voru á þessum sjúkrahúsum um 300 rúm.

Vítamín, hormónar og abort

Þótt hér hafi einkum verið staldrað við skrif sem falla undir liðina „Umræða og fréttir“ þá eru að sjálfsögðu birtar margar greinar af vísindalegum toga. Ný tækni röntgen- og ljóslækninga er að ryðja sér til rúms og dreifast út um landið og einnig var greinilega talsvert að gerast í þeim fræðum sem varða vítamín og hormóna sem þarna eru að því er virðist nýuppgötvaðir. Og Læknablaðið hefur alltaf haft lag á því að halda upp á afmæli, bæði sín eigin og annarra. Í lok þessa tímabils er tvítugsafmæli blaðsins fagnað með útgáfu veglegs afmælisrits í lok árs 1934.

Skömmu fyrir afmælið var sú nýbreytni tekin upp að birta English Summary með stuttum útdrætti höfuðatriða greina á ensku. Á afmælisárinu er þó gengið lengra, því þá eru birtar greinar sem skrifaðar eru að öllu leyti á dönsku, og þær eigi smáar. Í afmælisritinu eru svo birtar einar fjórar greinar á þýsku eftir ritstjórann og samstarfsmenn hans. Ekki borið við að þýða.

Það sem nú er kallað þungunarrof en hét lengi fóstureyðingar og þar áður abort kemur einnig nokkrum sinnum til umræðu og þá einkum sú spurning hvort aflétta eigi því skilyrðislausa banni sem þágildandi lög kváðu á um. Katrín Thoroddsen var afdráttarlaus í stuðningi sínum við það en aðrir læknar drógu heldur úr eða voru alveg á móti. Einn læknir varaði kollegana við því að eiga nokkurt frumkvæði að slíkri breytingu því þeir hefðu hagsmuna að gæta af því að fá vinnu við slíkar aðgerðir. Það leið held ég hartnær hálf öld þar til eitthvað breyttist í þessum efnum hér á landi.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica