01. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Læknablaðið í 110 ár. Úr sögu blaðsins. Ritgleði, metnaður, en umdeilt málfar. Þröstur Haraldsson

110 árgangar þriðja elsta tímarits landsmanna skannaðir

Þegar maður leggst í það að renna í gegnum tíu árganga af Læknablaðinu frá því snemma á síðustu öld er það fyrsta sem blasir við hversu mikið samfélagið og heilbrigðiskerfið hefur breyst. Þegar betur er að gáð er þó ýmislegt sem er svipað þá og nú, 1915 og 2024. Til dæmis hófst útgáfan í miðju stríði, þótt þess verði ekki mikið vart á síðum blaðsins. Tvennt sá ég þó: mikil verðbólga hljóp í lyfjaverð og svo fór Steingrímur Matthíasson (Jochumssonar) læknir á Akureyri í heimsóknir á þýsk sjúkrahús þar sem hann hitti fyrir fórnarlömb stríðsins. Að öðru leyti er allt friðsælt.

Miklar breytingar hafa þó orðið á heilbrigðiskerfinu og stöðu lækna. Árið 1915 voru læknar rétt undir eitthundrað talsins, en dreifðust mun meira en nú á dögum. Í Reykjavík bjuggu og störfuðu 22 læknar, 9 voru utan héraða (ekki embættislæknar) og 15 búsettir erlendis, flestir í Danmörku. En 45 sátu í 47 héruðum um land allt. Þessi síðarnefndi hópur voru opinberir embættislæknar í mismannmörgum héruðum og voru að mörgu leyti í svipaðri stöðu og prestar. Embættunum fylgdu „læknaköll“ (sbr. prestaköll) sem voru mjög misrýr.

Á stöku stað voru sérstakir læknabústaðir en þeir voru fáir. Flestum var úthlutað sveitabýli, í mörgum tilfellum þurftu þeir að búa inni á ábúendum, taka þar við sjúklingum og geyma og höndla með lyf. Launin voru ekki há og í lökustu „brauðunum“ þurftu læknar að stunda búskap til að hafa í sig og á. Til vitjana, jafnt um sumar sem vetur, þurftu þeir að notast við hesta sem ábúendur settu undir þá. Oft voru þetta bölvaðar truntur enda kölluðust greiðslur fyrir ferðakostnaði „truntutaxtar“.

Ritrýni eða ritskoðun?

Þegar útgáfa Læknablaðsins hefst eru liðin örfá ár síðan síminn kom til landsins, en því fór fjarri að hann væri allra gagn eins og nú er. Samvinna og samskipti lækna voru því miklum erfiðleikum bundin og það ýtti mönnum út í að stofna blað og félög. Þeir (konur voru engar í stéttinni) urðu að geta talað saman, átt skoðanaskipti og samstarf í svo til samgöngulausu landi. Læknafélag Reykjavíkur var sex ára og enn áttu eftir að líða þrjú ár þar til Læknafélag Íslands varð til.

Það kom líka snemma í ljós að íslenskir læknar áttu heilmikið erindi hver við annan. Þorkell Jóhannesson – sem lenti í svipuðum blaðalestri og sá sem hér skrifar á 90 ára afmælinu – hefur orð á því hversu mikil ritgleði einkenni skrif læknanna fyrstu ár blaðsins. Þeir skrifa um allt mögulegt og er oftast mikið niðri fyrir. Stundum lentu þeir í deilum og í það minnsta einni lauk með því að ritstjórn lýsti því yfir að nú væri þessum langvinnu skoðanaskiptum lokið. Annar þátttakenda deilunnar brást ókvæða við og hótaði að fara með þessa þöggun fyrir dómstóla en ekki fer neinum sögum af slíkum málarekstri.

Því fer þó fjarri að rifrildi um keisarans skegg væru ráðandi á síðum blaðsins. Þar birtust í hverju tölublaði á fætur öðru vandaðar greinar þar sem íslensk læknareynsla naut sín til fulls. Þær voru ekki ritrýndar með sama hætti og nú tíðkast, en þriggja manna ritstjórn gerði sitt til þess að ritstýra þeim og sníða af þeim skavanka, væru þeir einhverjir. Þessu kunnu stöku höfundar illa og kvörtuðu jafnvel undan „ritskoðun“, en ritstjórar sátu við sinn keip.

Ekki er þörf að sníkja . . .

Þá eins og nú deildu menn um málfar blaðsins. Þar er þó verulegur munur á því fræðigreinar blaðsins voru lengi framan af mjög latínu-, dönsku- og þýskuskotnar, jafnt fyrirsagnir sem meginmál. Þetta er löngu fyrir daga orðanefndar læknafélaganna og í blaðinu má sjá rökstuðning vel metinna lækna fyrir því að erlend tækniheiti eigi fullt erindi inn í blaðið. 

Katrín Thoroddsen

Hér er lítið dæmi, reyndar úr bréfi sem Katrín Thoroddsen, þá nýorðin héraðslæknir í Flatey á Breiðafirði, skrifaði til landlæknis í maí 1924, en birt í 7. tbl. Læknablaðsins sama ár:

„… Eins og eg skýrði frá í seinustu mán.skýrslu (mars) veiktist eg seinni part marsmánaðar af inflúensu og samfara henni pleuropneumoni. En um það leyti var, aldrei þessu vant, nokkuð að gera hér, þannig að eg hafði lítinn tíma til rúmlegu, var þó að mestu við rúmið í 10 daga. Þá fór eg að fá pyæmiskan hita. Prófstunga í 8. eða 9. intercostalrúmi hægra megin sýndi pús og gerði eg því á sama stað thoracotomi í chloræthyldeyfingu (operationin líklega ekki alveg gerð lege artis, en gekk þó vel, með hjálp tveggja spegla). Hvort um lungnaabscess eða lítið, afkapslað empyem hefir verið að ræða, veit eg ekki. Eg lagði inn glerkera og skolaði daglega út með flavicid-upplausn. Þetta hefir gengið ágætlega, og er nú öll útferð hætt fyrir meira en 10 dögum síðan, og sárið gróið. En á skírdag (17.–4.) varð eg að fara út í kalsaveður (til sængurkonu). Þá sló að mér, og um nóttina fékk ég pneumonia crouposa vinstra megin, neðri lobus. Var eg nokkuð veik þangað til á 6. sólarhring, þá kom krisis og síðan hefir mér farið dagbatnandi, og er nú svo að segja jafngóð aftur, en náttúrlega dálítið slöpp enn …“.

En þótt Guðmundur Björnson landlæknir hafi látið blaðinu í té þetta bréf, fullt af erlendum tækniheitum, þá var hann síður en svo ánægður með málfar blaðsins eins og þessi orð hans frá 1916 vitna um:

„Því dæmist rétt vera: Læknablaðið er þjóðarhneysa fyrir þá sök að það eitt af öllum íslenzkum fræðiritum fótumtreður móðurmálið okkar og misþyrmir því á allar lundir, vægðarlaust og samviskulaust. Þetta má ekki svo til ganga. … Já, íslenzkan er „gunstig objekt fyrir konservatívri meðferð“!“

Og landlæknir biður menn að hafa í huga þessar línur úr ljóði Bólu-Hjálmars: „Íslenskan er orða frjósöm móðir; ekki er þörf að sníkja, bræður góðir.“

Pestir koma og fara

En að sjálfsögðu stóðu íslenskir í ströngu, þá sem nú, við að kveða niður allra handa pestir og vanlíðan fólksins í landinu. Á þessum árum er sjúkdómamyndin að breytast allnokkuð. Fornir fjendur á borð við holdsveiki og sull eru á útleið, en nýir óvinir fara mikinn. Berklar eru stærsti vágesturinn og um þá verður fjallað í næsta pistli þessara sögubrota. Krabbamein er komið til sögunnar (eða var lungnatæring – þriðja algengasta dánarorsök á árunum 1912-1915 – annars ekki bara krabbamein í dulargervi?) og enn var lítið hægt að andæfa gegn hjarta- og heilameinum. Þeir gátu þó huggað sig við að sýklarannsóknir Pasteurs voru farnar að bera árangur í tilkomu bólusetninga, til dæmis gegn mislingum eins og blaðið fjallar um árið 1924.

Inn í þetta ástand komu svo af og til pestir og farsóttir sem gátu verið mannskæðar. Taugaveiki, kíghósti, mislingar og inflúensur, svo dæmi séu nefnd. Í bók Gunnars Þórs Bjarnasonar um spænsku veikina 1918-1919 segir að hún hafi verið mannskæðustu hamfarir mannkynssögunnar, kostuðu fleiri mannslíf en báðar heimsstyrjaldir 20. aldar. Hér á landi létust yfir 500 manns, ekki fullljóst nákvæmlega hversu margir, því dánarvottorð urðu stundum útundan í annríki lækna á þessum tíma. Raunar eru umkvartanir út af þeirri tilhneigingu lækna að láta skýrsluhald dragast úr hömlu nokkuð algengar í Læknablaðinu á þessum árum.

Margir góðir pennar

 

Guðmundur Hannesson

Fyrsti áratugur blaðsins er tími Guðmundar Hannessonar umfram aðra. Hann er afar virkur ritstjóri fyrstu sjö árin en heldur áfram að skrifa eftir það um allt milli himins og jarðar. Honum er margt hugleikið: félagsmál lækna, stjórnsýsla heilbrigðismála, framfarir í læknavísindum og margt, margt fleira. Best sést þetta kannski í föstu efni blaðsins sem hann kemur á fót og nefnist Smágreinar og athugasemdir þar sem meðal annars er fylgst með utanlandsferðum, embættisveitingum, jafnvel veikindum lækna. Og ekki má gleyma fastadálkinum Úr útl. læknaritum (skammstafanir eru vinsælar á þessum árum).

Ýmsir aðrir læknar voru tíðir gestir á síðum blaðsins og virkir í athugasemdum eins og það heitir núna. Þar má nefna Gunnlaug Claessen, Magga Júlíus Magnús, Guðmund Björnson (með einu essi) og áðurnefndan Steingrím á Akureyri. Guðmundur Hannesson vék úr ritstjórastóli í lok ársins 1921. Við tók Stefán Jónsson, oft titlaður dósent, en í ársbyrjun 1923 tók Guðmundur Thoroddsen við og gegndi starfinu í sex ár. Meira um þann tíma í næsta pistli eftir mánuð, en það verður ekki annað sagt en að þetta litla blað (brotið var um það bil A5 og blaðsíðu-fjöldinn algengastur 16 síður, auk kápu, hafi farið af stað með miklum spretti og metnaði.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica