01. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Læknablaðið í 110 ár. Codex ethicus og íslenzkt læknafélag. Jón Snædal

Úr fyrsta árgangi Læknablaðsins 1915:

Þess hefir áður verið getið hér í blaðinu, að Læknafél. Rvk kaus Guðm. Magnússon, Guðm. Hannesson og Matthías Einarsson í nefnd, til þess að gera tillögur um codex eth. Það hefir orðið lengri dráttur á því en skyldi að nefndin lyki störfum sínum, og stafaði hann að nokkru leyti af því, að skrifað var til Noregs eftir samþykt norska Læknafélagsins,* að nokkru leyti af því, að Guðm. Hannesson var bundinn við þingstörf í sumar.

- Þ. 8. nóv voru tillögur nefndarinnar lagðar fyrir Læknafél. Rvk., ræddar þar og samþyktar með nokkrum breytingum. Eru þær prentaðar hér með breytingum þeim, sem félagið samþykti. Er svo til ætlast, að stéttarbræður vorir athugi þær vandlega, geri þær breytingartillögur, sem þeir hyggja til bóta, og sendi þær formanni Læknafél. Rvk. (Guðm. Magnússyni) innan þriggja mánaða frá útkomu þessa blaðs. Verða þá allar breytingartillögur prentaðar í Lbl., og greiði síðan utanfélagsmenn (læknar úti um landið) skriflega atkvæði um þær, en meðlimir Læknafél. Rvk. á fundi. Afl atkvæða (allra lækna, er atkvæði greiða) ráði úrslitum, og gildi svo reglurnar fyrir alla lækna landsins.

Tillögur Læknafélags Reykjavíkur um codex ethicus.

1. gr. Það er tilgangur með reglum þessum, að efla gott samkomulag og bróðurlega samvinnu meðal lækna. Þær gilda fyrir þá lækna, sem rita undir þær.

2. gr. Í viðurvist sjúklings eða annara en læknis, skal enginn læknir fara niðrandi orðum um stéttarbræður sína, jafnvel þótt ástæða kynni að vera til slíks.

3. gr. Enginn læknir má bjóðast til þess, að taka að sér nein læknisstörf fyrir minna endurgjald en aðrir taka, er gegna þeim störfum.

4. gr. Enginn læknir má nota óþarfa auglýsingar, blaðagreinar eða aðrar ósæmilegar aðferðir, í því skyni að teygja sjúklinga til sín frá öðrum læknum. Þakkarávörp og aðrar gyllingar skulu þeir forðast eftir megni. Ekki skulu þeir heldur gefa í skyn, að þeir þekki betri lyf eða læknisaðferðir, sem öðrum læknum séu ekki kunnar. Læknar skulu alls engan þátt taka í áskorunum frá almenningi viðvíkjandi veitingum embætta, eða því að nýr læknir setjist að í héraðinu.

5. gr. Sé læknir sóttur til sjúklings og komist að því, að hann sé undir hendi annars læknis, eða hafi heimilislækni, þá skal hann að eins gera það, sem hin bráðasta nauðsyn krefur og engan dóm leggja á læknisaðferð þá, sem hinn hefir notað. Hann skal ekki vitja þess sjúklings oftar, nema honum sé kunnugt um, að fyrra lækninum hafi verið tilkynt, að sjúkl. óski að breyta um lækni, eða læknirinn hafi sagt skilið við sjúkl.

10. gr. Ágreiningi um læknamál milli lækna, sem eigi verður jafnaður á annan hátt, skal skjóta til gerðardóms.

Í gerðardómi sitja 5 menn. Einn kýs læknadeild Háskólans, annan Læknafélag Reykjavíkur. Þessir menn eru kosnir til tveggja ára. Landlæknir er hinn þriðji. Hann er formaður dómsins. Þá kýs hver málspartur einn lækni út flokki þeirra, er hafa undirritað reglur þessar.

Allir, sem ritað hafa undir reglur þessar, skulu skyldir að hlýta úrskurði gerðardóms.

 

 

Codex ethicus þá og nú

Guðmundur Hannesson, læknir, prófessor við læknadeild og þingmaður, kynnti í fyrsta árgangi Læknablaðsins árið 1915 tillögur að Codex Ethicus fyrir íslenska lækna. Hann var einn þriggja nefndarmanna sem unnu tillögurnar. Þær voru birtar í blaðinu svo læknar gætu komið með athugasemdir og tillögur til breytinga. Endanlegar reglur voru samþykktar á aðalfundi Læknafélags Íslands árið 1918 sem var fyrsta starfsár félagsins. Tilgangur reglnanna var eins og segir í fyrstu grein „að efla gott samkomulag og bróðurlega samvinnu meðal lækna.” Íslenskir læknar voru ekki einir um þennan skilning enda er vísað í reglur Norska læknafélagsins við tillögugerðina. Í samræmi við tilgang Codex fjalla allar greinarnar um samskipti lækna og samvinnu og hvernig koma megi í veg fyrir samkeppni þeirra á milli. Sjúklinga er ekki getið nema í tengslum við samskipti lækna á milli. Þetta má meðal annars sjá í 2. grein þar sem segir að læknar eigi ekki að fara niðrandi orðum um stéttarbróður í viðurvist sjúklings „jafnvel þótt ástæða kynni að vera til slíks”.

Það er ekki hlaupið að því að fylgja þróun siðareglna LÍ eftir en síðasta útgáfan frá 2021 er sú níunda í röðinni. Þær virðast ekki alltaf hafa verið birtar í Læknablaðinu heldur prentaðar sérstaklega og eru margar lítt aðgengilegar.

Alþjóðasamtök lækna (WMA) voru stofnuð árið 1946 og var strax hafist handa við setningu siðaregla. Fyrst voru almennar leiðbeiningar, Genfarheiti lækna (sem byggði á Hippókratesar-eiðnum), og í kjölfarið Alþjóðasiðareglur lækna. Síðar komu reglur um vísindarannsóknir á mönnum sem nefnist Helsinki-yfirlýsingin og er hún hornsteinn siðareglna á því sviði. Almennu siðareglur WMA hafa verið læknum og læknafélögum til fyrirmyndar við samningu á reglum í hverju landi fyrir sig og svo hefur verið hér á landi.

Árið 1967 fór fram ítarleg endurskoðun og komust þá siðareglur lækna í grófum dráttum í það horf sem þær hafa verið í síðan. Þær voru meðal annars birtar í fyrsta fylgiriti Læknablaðsins árið 1977 sem eingöngu var helgað læknisfræðilegri siðfræði (sjá timarit.is). Þar eru á einum stað öll mikilvægustu siðfræðileg viðmið lækna þess tíma, svo sem Hippókratesar-eiðurinn, Genfarheiti lækna (frá 1948) og Alþjóðasiðareglur lækna (International Code of Medical Ethics frá 1949), bæði á ensku og íslensku. Tekið var fram að Codex Ethicus væri byggður á alþjóðasiða-reglunum. Í formála segir:

„Codex Ethicus er læknum til leiðbeiningar, hvernig þeim beri að gæta „heiðurs og göfugra erfða” stéttarinnar, og almenningi til verndar gegn hvers kyns skottulækningum.” Ennfremur: „Með þessum Codex viðurkennir læknastéttin:

• að hún er bræðralag,

• að hún helgar sig þjónustu við alla menn í baráttu gegn sjúkdómum og verndun heilbrigði.

• að hún gegnir ábyrgðarhlutverki og getur því aðeins vænst vegs og trausts í samfélaginu, að hún geri sér allt far um að vera vaxin þeim siðferðilega vanda, sem þekking, tækni og félagslegt hlutverk leggja henni á herðar.”

Stéttin var þannig enn býsna karllæg (bræðralag) og í fyrsta Codex var orðalagið „bróðurleg samvinna”. Einnig var mikivægt læknum að halda þeim sessi sem þeir höfðu á þeim tíma. Þótt orðalagið „heiðurs og göfugra erfða” sé haft innan gæsalappa var það með og einnig að læknar geti „vænst vegs og trausts í samfélaginu.” Í dag yrði ekki minnst á göfugar erfðir stéttarinnar né að þeir hafi sér-staka vegsemd en hins vegar er traust til lækna jafn mikilvægt í dag og það var áður.

Síðasta útgáfan frá 2021 er einna ítarlegust þótt greinarnar séu ekki fleiri en áður. Orðfærið er meira í ætt við fræðilega siðfræði en í fyrri útgáfum og tengsl við alþjóðasiðareglurnar minni. Nú er bræðralagið horfið og meginábyrgð er gagnvart sjúklingum og samfélagi. Þar segir í formála:

Með samþykki siðareglnanna staðfesta læknar að:

• hlutverk þeirra sé að vernda og virða líf og heilbrigði; lækna og líkna.

• starfinu fylgi fagleg ábyrgð gagnvart skjólstæðingum, samfélagi og samstarfsfólki.

• traust ávinnist með mannvirðingu, góðum læknisháttum og fagmennsku í samræmi við siðareglur lækna.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica