09. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Ferðalag Öldungadeildar LÍ að Kirkjubæjarklaustri

Öldungadeild Læknafélags Íslands efndi til hópferðar austur í Skaftafellssýslu á slóðir þeirra Sveins Pálssonar læknis og sr. Jóns Steingrímssonar eldprests dagana 9. til 11. júní. Pétur Gunnarsson rithöfundur var nýbúinn að flytja erindi í félaginu um eldklerkinn svo að menn fóru uppnumdir af fróðleik í þessa ferð og bjuggust við einhverjum stórmerkjum.

Hópmynd sem Jóhanna Þórhallsdóttir tók á hlaðinu á Seglbúðum í Landbroti.

Þrjátíuogtveir ferðalangar söfnuðust saman í Hlíðasmáranum í morgunsárið í úrhellisrigningu og suðvestanroki. Heitið var að venju á heilagan Þorlák Þórhallsson til góðs veðurs og haldið af stað í austurátt. Hinn helgi biskup daufheyrðist við öllum okkar bænum því að veðrið fór síversnandi eftir því sem á daginn leið. Þaulreyndur bílstjórinn hafði aldrei ekið yfir Hellisheiði í annarri eins rigningu.

Fyrsta alvörustoppið var í hellunum við Ægissíðu rétt utan við Hellu. Friðrik Erlingsson rithöfundur var leiðsögumaður hópsins og lét rigninguna engin áhrif hafa, enda best að vera neðanjarðar þegar þannig stendur á. Hann reyndi allt hvað hann gat til að selja hópnum þá hugmynd að Keltar hefðu verið fyrstir íbúa á þessu landi. Einhverjir lögðu trúnað á slík ævintýri en fjölmennur hópur Landnámuaðdáenda undir forystu formannsins gaf lítið fyrir þessar kenningar.

Næst var ekið að Keldum svo að formaðurinn gæti montað sig af Þórði kakala frænda sínum og Steinvöru systur hans. Kirkjan var skoðuð undir styrkri stjórn Drífu Hjartardóttur fyrrum alþingismanns. Þaðan var haldið á Breiðabólsstað þar sem formaðurinn hélt tölu um Tómas Sæmundsson langalangömmubróður sinn, Fjölnismenn og minningarsteininn í kirkjugarðinum. Minnst var Björns Þorvaldssonar sem veginn var á staðnum í upphafi 13du aldar.

Áfram rigndi og enn haldið í austurátt allt að Hótel Laka þar sem búist var til næturdvalar. Helga Ögmundsdóttir sagði jarðfræðisögur á leiðinni enda af nógu að taka en regnið byrgði mönnum allt útsýni.

Næsta dag höfðu áheitin á heilagan Þorlák skilað sér því að sólin skein á heiðskírum himni. Lilja Magnúsdóttir kynningarfulltrúi fyrir Skaftárhrepp leiddi okkur um hreppinn í fortíð og nútíð á vefsíðu sinni. Kirkjan var skoðuð og ferðalangar reyndu að hverfa í huganum aftur til Móðuharðinda og ímynda sér hávaðann, öskufallið og alla eymdina sem fylgdu þessum hamförum. Legsteinn Jóns í kirkjugarðinum var skoðaður og allir hugsuðu hlýlega til þessa ótrúlega hæfileikamanns sem uppskar ekki í lifanda lífi þá umbun þjóðar sinnar sem hann átti skilið. En þannig er þessu varið með svo ótal marga.

Þennan dag voru þau Sigurður Árnason læknir og bóndi að Seglbúðum og kona hans Helga Erlendsdóttir leiðsögu- og sögumenn um svæðið. Og þótt margir læknaöldungar séu ferðavanir og hafi séð margt, hafði enginn fyrr gengið á brú yfir beljandi Hverfisfljót. Þau buðu hópnum uppá hressingu að óðalssetri sínu og fór sú veisla prúðmannlega fram í alla staði.

Næsta dag var haldið heim á leið og enn lék veðrið við hópinn. Farið var í fótspor Justins Biebers og Fjaðrárgljúfur skoðuð. Komið var við í Reyniskirkjugarði í Mýrdal og legsteinn Sveins Pálssonar heimsóttur. Formaðurinn las kvæði Gríms Thomsen um læknisvitjanir Sveins yfir jökulsár á hestinum Kópi. Ferðalangar hugsuðu hlýlega til Sveins og læknisstarfa hans en ekki síður til náttúrufræðirannsókna hans. Helga Ögmundsdóttir gerði stuttlega grein fyrir þeim.

Á heimleiðinni var gerður stuttur stans í sumarhöll þeirra Gísla Einars-sonar og Sigrúnar Benediktsdóttur í Fljótshlíðinni. Þau sögðust telja að Gunnar á Hlíðarenda hefði staðið við eldhúsgluggann í bústaðnum þeirra og litið yfir hlíðina þegar hann ákvað skyndilega að fara ekki í útlegð til annarra landa heldur bjóða örlögunum byrginn. Allir vita hvernig það fór. Rútan renndi í hlað í Hlíðasmára um miðaftan klukkan 1800. Menn voru glaðir í bragði og mun fróðari um þá Svein og Jón en áður. Hópurinn þakkaði heilögum Þorláki fyrir veðurblíðuna og hélt síðan hver til síns heima.


 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica