02. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Sérgreinin: Að vera eða ekki vera heimilislæknir. Ásthildur Erlingsdóttir

Sérfræðilæknar svara: - Hvernig varð sérgrein þeirra fyrir valinu? Hvar lærðu þeir? Hvaða ráð gefa þeir ungum læknum?

Þegar ég útskrifaðist úr læknadeild árið 2008 lá leiðin norður á Akureyri þar sem ég tók kandídatsárið, bæði á Heilsugæslunni á Akureyri og SAK. Við vorum nokkur úr árganginum sem fórum þessa leið og árið varð eftirminnilegt og skemmtilegt, frábær vinnuandi á báðum stöðum og maður fékk mikil tækifæri til að spreyta sig á fjölbreyttum verkefnum undir góðri handleiðslu. Ég byrjaði árið á Heilsugæslunni. Það var sumar og ég fékk það verkefni að leysa af tvo reynda heimilislækna með öllu því sem því fylgir. Mér fannst það sannast sagna yfirþyrmandi. Hafði áður unnið í fríum á bæklun og slysó, geðdeildum og Vogi. Að sitja núna ein inni í herbergi með skjólstæðingi og hafa nokkrar mínútur til að átta mig á vanda hans og koma í farveg. Vanda sem ég hafði oftar en ekki lítið lært um í læknadeild. Vörtur, útbrot, stoðkerfisverki sem ekki voru tilkomnir vegna hálkuslyss, óútskýrð einkenni sem viðkomandi hafði glímt við árum saman og ég sá við stutta yfirferð sjúkrasögu að höfðu jafnvel verið rannsökuð ítarlega og endurtekið síðustu 20 ár, ferðavottorð, örorkuvottorð, tilvísanir í endurhæfingu, slæmar draumfarir, slakar samfarir og svo framvegis. Ég varð guðslifandi fegin þegar ég komst í skjól á spítalanum þar sem verkefnin voru yfirleitt afmarkaðri og alltaf fleiri en ég sem komu að meðferð sjúklinganna.

Þrátt fyrir þessa upplifun hafði fræi verið sáð. Bæði sá ég starf heimilislæknisins sem áskorun en ég fann líka þarna einhvern kjarna læknisfræðinnar sem ég dróst að. Ég eignaðist mitt fyrsta barn skömmu eftir að kandídatsárinu lauk og þá kom einnig inn í ákvörðunartökuna sá praktíski þáttur að sérnám í heimilislækningum bauð upp á stöðuga ráðningu til nokkurra ára í senn. Svo fór að ég sótti um og komst inn í sérnámið hér heima. Ég var í ár á Heilsugæslunni í Garðabæ og tók barna-, kvenna-, geð- og bráðamóttökuhlutann hér heima. Stefnan var samt alltaf að klára sérnámið erlendis og ég fékk stöðu í Uppsölum í Svíþjóð. Til að eiga fyrir flutningum fjölskyldunnar réð ég mig í hálft ár á Höfn í Hornafirði, sem reyndist ómetanleg reynsla og er einn skemmtilegasti kafli minnar starfsævi hingað til.

Ástæða þess að ég valdi að fara erlendis hluta sérnámsins var einfaldlega til að víkka sjóndeildarhringinn. Ég fékk allan klínískan tíma metinn inn í sérnámið úti en til að geta sótt um sænskt sérfræðileyfi þurfti að klára skyldukúrsana þeirra, sem lengdi námið nokkuð fyrir mig. Ég komst að því að námið hér heima stenst fyllilega samanburð við það úti en það að kynnast því að starfa í öðru kerfi en maður elst upp við veitir dýrmæta innsýn. Það veitir manni líka aukið sjálfstraust til að meta kosti og galla hvors fyrir sig og tækifæri til að spegla sig sem fagmann í fleiri og ólíkari fyrirmyndum.

Starf heimilislæknis býður upp á val um rekstrarform og búsetu. Greinin er yfirgripsmikil og fjölbreytt og maður er alltaf að læra eitthvað nýtt. Kollegahópurinn er kraftmikill og byggir starf sitt á sameiginlegri sýn og gildum (sjá „Gildi og markmið heimilislækna“ í 10. tbl. Læknablaðsins 2021). Stór hluti starfsins er uppvinnsla eða greining á einkennum sem skjólstæðingur leitar álits á. Það er spennandi vinna og krefst talsverðrar þekkingar, líka á eigin takmörkunum. Maður verður þjálfaður í að fá yfirsýn og greina hismið frá kjarnanum. Skjólstæðingahópurinn er jafn fjölbreyttur og einstaklingarnir í samfélaginu. Maður sinnir fólki á öllum aldri og tekst á við heilsuvernd, tilfallandi veikindi eða fjölþætt langveikindi, oft allt hjá einum og sama skjólstæðingnum. Með tímanum öðlast maður þekkingu á viðhorfi og aðstæðum hvers skjólstæðings og vonandi traust viðkomandi; heyrir ótrúlegustu sögur og fær innsýn í lífshlaup svo margra. Þó verkefni vinnudagsins séu yfirleitt of mörg og ennþá á stundum yfirþyrmandi, hef ég ekki séð eftir vali mínu á sérgrein og treysti mér sannarlega til að mæla með faginu fyrir verðandi lækna.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica