02. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Bréf til blaðsins. Er réttlætanlegt að leggja skatt á sjúklinga?

Stór þáttur í að halda Íslandi hátt á listum yfir bestu heilbrigðiskerfi heims er aðgengi sjúklinga að læknum, ekki síst sérgreinalæknum utan stofnana. Árlega leitar stór hluti þjóðarinnar til sérgreinalækna – um 270.000 sjúklingar. Þeir eru á öllum aldri, börn, táningar, ungir sem og aldnir. Þeir kljást við ýmiss konar sjúkdóma, allt frá bráðum veikindum upp í langvinna og ólæknandi sjúkdóma. Þetta er sá sjúklingahópur sem ekki getur fengið lausn sinna mála á heilsugæslu.

Þessi fjölbreytti hópur, sem leitar yfir 500.000 sinnum á ári til sérfræðilækna, á það sameiginlegt að bera langtum hærri byrðar fjárhagslega en eðlilegt mætti teljast. Á liðnum árum hefur sífellt vaxandi hluti kostnaðar við læknisheimsóknir til sérgreinalækna verið greiddur úr vasa sjúklings.

Ástæðan er sú að ekki hefur verið samið við sérgreinalækna á stofum né hafa endurgreiðslur til þeirra, einingaverð, verið leiðrétt síðan í janúar 2020. Lögbundin sjúkratrygging landsmanna verður því sífellt rýrari og fylgir hvorki neyslu- né launavísitölu, en laun eru yfir 70% kostnaðar við heilbrigðisþjónustu. Þetta sýnir myndin sem fylgir greininni glögglega.

Íslenska ríkið ver um 8 milljörðum í sjúkratryggingar vegna sérfræðilækninga á sjálfstætt reknum stofum. Þetta eru undir 3% af heildarkostnaði í heilbrigðiskerfinu sem kostar nærri 400 milljarða. Sérgreinaþjónustan er umfangsmikil – fleiri leita til sérgreinalækna árlega en til lækna heilsugæslunnar og Landspítala samanlagt

Á tímum samningsleysis hafa sérgreinalæknar hækkað gjaldskrár í takt við vaxandi kostnað en greiðslur ekkert breyst frá Sjúkratryggingum Íslands. Skv. könnun Öryrkjabandalags Íslands árið 2020 má gera ráð fyrir því að þessi kostnaður samsvari að minnsta kosti tveggja milljarða álögum á sjúklinga. Þessi hækkun kemur verst við aldraða, börn og öryrkja, þá hópa sem eiga að njóta mests skjóls í kerfi sem Íslendingar vilja búa við og kennt er við norræna velferð.

Ríkið hefur sparað sér geysimikið fé á liðnum árum með því að rýra sjúkratryggingu landsmanna. Hér hafa ekki einu sinni verið nefndar þær fjárhæðir sem sjúklingar greiða þegar þeir þurfa á til dæmis liðskiptaaðgerðum, augasteinaaðgerðum eða efnaskiptaaðgerðum að halda, og þurfa að greiða að fullu úr eigin vasa. Sú upphæð nemur á annan milljarð króna árlega til viðbótar því sem sjúklingar hafa reitt fram vegna hinnar götóttu sjúkratryggingar.

Er sjúklingum mismunað eftir þjónustustigi?

Heilsugæslan er fyrsti viðkomustaðurinn í heilbrigðiskerfinu og á að vera notendum aðgengileg. Fyrir komu á heilsugæslu greiða sjúklingar einungis um 5% af heildarkostnaðinum á meðan sjúklingar sem þurfa að leita til sérfræðilækna greiða margfalt hærri hlutdeild í kostnaðinum. Á árum áður greiddu sjúklingar um 30% – en nú síðustu ár hefur þetta hlutfall vaxið í 50% (og jafnvel mun meira) vegna langvarandi samningsleysis.

Örorkulífeyrisþegi með lágar bætur og alvarlega sjúkdóma sem þarfnast mikillar þjónustu og sérfræðiþekkingar lækna, sjúkraþjálfara eða sálfræðinga skal hins vegar greiða 50% reikningsins eða meira úr eigin vasa. Varla getur það talist eðlilegt að þeir sem veikari eru niðurgreiði þjónustu þeirra sem teljast frískari.

Til að bæta gráu ofan á svart hefur hið opinbera ákveðið að veikja sjúkratryggingar ennþá frekar með því að hækka greiðsluþak sjúkratryggðra um 10% nú um áramótin. Þetta kemur verst niður á þeim sem eru á örorku og hafa minnst á milli handa.

Þessi mismunun er í raun lítið annað en dulin skattheimta sem engin lagastoð er fyrir. Þvert á móti ber ríkinu að tryggja sjúkratryggðum þjónustu á viðráðanlegu verði, ekki bara í heilsugæslu heldur einnig hjá öðrum sérfræðilæknum. Slíkt fyrirkomulag er meira að segja bundið í lög.

Hvert skal stefna?

Við hljótum að vilja snúa af þessari braut og rétta hlut sjúklinga sem þurfa á þjónustu sérgreinalækna að halda. Annars er hætt við því að þessar byrðar aukist ennþá frekar og að tvöfalt heilbrigðiskerfi verði varanlega fest í sessi. Það er ekki vilji sérgreinalækna og er ekki yfirlýstur vilji ráðamanna. Vilji landsmanna í þessum efnum er skýr.

Það er fyrir löngu kominn tími til að fara að lögum og laga sjúkratryggingar landsmanna að nútímanum. Núverandi heilbrigðisráðherra hefur lýst vilja til að ljúka samningi við sérgreinalækna, nú er lag að hefja þá vinnu svo að þessi styrka stoð okkar heilbrigðiskerfis megi áfram dafna og þróast.

Það væri okkur Íslendingum til mikilla heilla.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica