01. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Uppáhaldsbókin mín. Erat maður alls vesall. Sigurður Guðmundsson skrifar

Áttu þér uppáhaldsbók, sem hefur fylgt þér lengst, þú hefur lesið oftast eða haft mest áhrif á þig?

Hvaða bók hefur haft afgerandi og mest áhrif á líf mitt? Ég hafði satt að segja ekki velt bókum sérstaklega fyrir mér sem afgerandi áhrifavaldi á lífshlaupið umfram svo margt annað. Áhrifin hafa ekki síður komið frá fólki, þar með talið og ekki síst nánustu fjölskyldu, kollegum, fallegum og stórbrotnum stöðum, landslagi, listaverkum, leikverkum, músík.

En bækur? Ég hef orðið fyrir áhrifum af mörgum bókum; er hæfilega áhrifagjarn, les mikið, og hef alltaf gert frá því ég byrjaði að stauta. Hver er „bókin eina“? Er hún meðal bóka æskunnar, allt frá Bláu bókunum og Tom Swift, til Íslendingasagna eða Þjóðsagna Jóns Árnasonar, sem eru grimmilega góðar og létu stundum hárin rísa á litlum hnakka. Ég bý að þeim enn, alltaf verið svolítið svag fyrir „þjóðlegum fróðleik“.

Kannski eru það skólaárin, þegar bara voru lesnar „góðar bókmenntir“ sem sumir vondir menn kalla gáfumannabækur, eða árin í Bandaríkjunum, en þá opnaðist nýr heimur, bæði menntunarlega og menningarlega.

Ár okkar hjóna í Malawi fyrir um 15 árum var líka þroskaár, en þá las ég mikið um Afríku, um viðhorf þarlendra rithöfunda til lífsgátunnar og um skelfilegt framferði nýlenduveldanna.

Ekki má heldur gleyma stórum doðröntum læknadeildar, ekki síst anatómíu Grays og internal medicín Cecíls sem engan mann létu ósnortinn, bý að þeim ævilangt.

Svo eru allar hinar bækurnar eftir aðskiljanlega höfunda, vonda og góða, suma mjög góða. Þetta eru skáldsögur, einstaka ævisaga, smásögur, og loks glæpasögur, einkum íslenskar sem verða betri og betri. Glæpasögur eru stórkostlegt bókmenntaform, og verðugar meiri athygli og viðurkenningar en þær fá. Allt þetta og margt fleira situr í mér, hefur mótað þroska, hugsun, viðbrögð, viðmót og sjálfsagt karakter.

Ein er þó bók sem hefur fylgt mér lengi, hún er mín biblía. Hún var færð á skinn á seinni hluta 13. aldar, en samin að einhverju leyti öldum fyrr og er líklega verk margra höfunda. Þetta eru auðvitað Hávamál sem allir Íslendingar þekkja og vitna oft til í fínum ræðum og í minningargreinum. Hávamál eru mál hins háa, Óðins, mikill bálkur kvæða enn með erindi til okkar sem nú lifum. Þau eru safn hollráða og heilræða, kenna samskipti, mannasiði og almennt siðferði, stundum með smávænisýki (maður á að passa sig á gestgjafanum).

Heimspeki Hávamála er handleiðsla til betra lífs. Áhersla er á að eiga vini og fara að finna oft. Einnig að vera snotur, heimskir menn eiga ekki uppá pallborðið. Hávamál segja frá áhrifum aðstæðna og umhverfis á heilsu (Erat maður alls vesall/þótt hann sé illa heill/sumur er af sonum sæll/sumur af frændum/sumur af fé ærnu/sumur af verkum vel), þekking sem nú er rannsóknarefni. Mörg hollráðin eru bundin stað og tíma, sem við getum leitt hjá okkur, önnur ekki, og eru sígild. Þau lúta mörg að síbreytilegri og fjölbreyttri mannlegri hegðun, háttvísi, góðri breytni og hafa að geyma mörg ráð og boð sem finna má í mörgum trúarbrögðum. Þau eru samt ekki trúarrit, í þeim er meiri húmor en svo.

Um Hávamál má segja margt, en þau hafa verið mér ákveðið leiðarljós. Á hljóðum stundum er gott að setjast með Hávamál, þau gera okkur að betri mönnum.

Ég skora á Gerði Gröndal lyflækni að rifja upp sína uppáhaldsbók og segja lesendum blaðsins frá henni.

 

Afhvarf mikit

er til ills vinar,

þótt á brautu búi,

en til góðs vinar

liggja gagnvegir,

þótt hann sé firr farinn.

 

Eldr er beztr

með ýta sonum

ok sólar sýn,

heillyndi sitt,

ef maðr hafa náir,

án við löst at lifa.

 

Vits er þörf

þeim er víða ratar.

Dælt er heima hvað.

Að augabragði verður

sá er ekki kann

og með snotrum situr.

 

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

Hávamál – Nokkur erindi úr Gestaþætti Hávamála, — þeim eldgamla fjársjóði okkar sem enn stenst tímans góðu tönn. Hann ber vitni um margt, til dæmis klassíska núvitund og auðmýkt sem manneskjunni er í blóð borin.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica