01. tbl. 109. árg. 2023

Fræðigrein

Algengi og nýgengi mígreni og ávísanir á lyf við mígreni í heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Migraine prevalence, migraine incidence and migraine drug prescriptions in primary care in the capital region of Iceland

doi 10.17992/lbl.2023.01.724

Ágrip

INNGANGUR
Markmið rannsóknarinnar var að skoða nýgengi mígrenis yfir tvö tímabil, 2000-2009 og 2010-2019, hjá einstaklingum á aldrinum 10-79 ára á heilsugæslustöðinni Sólvangi og heilsugæslustöðinni Firði, Hafnarfirði. Einnig að kanna algengi mígrenis í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu 2010-2019 og að skoða lyfjaávísanir sértækra mígrenilyfja auk annarra lyfja sem notuð eru við mígreni.

EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR
Rannsóknin er afturskyggn gagnarannsókn byggð á gögnum úr sjúkraskrárkerfi heilsugæslustöðva höfuðborgarsvæðisins. Rannsóknarþýðið eru einstaklingar á aldrinum 10-79 ára sem fengu sjúkdómsgreininguna mígreni, G43 samkvæmt ICD-10 flokkunarkerfinu.

NIÐURSTÖÐUR
Nýgengi mígrenis á aldrinum 10-79 ára yfir 10 ára tímabil á heilsugæslustöðinni Sólvangi árin 2000-2009 var áætlað 3,4 tilfelli fyrir hver 1000 persónuár. Á heilsugæslustöðinni Sólvangi og heilsugæslustöðinni Firði árin 2010-2019 var nýgengið áætlað 2,9 tilfelli fyrir hver 1000 persónuár. Aukning var á lyfjaávísunum triptan-lyfja, ópíóíða og beta-blokka milli tímabilanna þar sem tveir þriðju einstaklinga fengu lyfjaávísun einhvern tímann yfir tímabilin tvö. Konur voru um þrisvar sinnum líklegri til að greinast með mígreni en karlar, karlar greinast yngri með mígreni en konur. Algengi mígrenis hjá einstaklingum á aldrinum 10-79 ára á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins yfir tímabilið 2010-2019 var 4,4%.

ÁLYKTUN
Algengi mígrenis á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins er einungis þriðjungur af algengi í lýðgrunduðu úrtaki úr forrannsókn Heilsusögu Íslendinga. Aukning lyfjaávísana ópíóíða meðal einstaklinga með mígreni er áhyggjuefni sem þarfnast nánari athugunar.

Greinin barst til blaðsins 12. september 2022, samþykkt til birtingar 14. desember 2022.

Inngangur

Mígreni er skilgreint sem endurtekin höfuðverkjaköst sem standa oftast yfir í 4-72 klukkustundir og er oft mjög hamlandi sjúkdómur.1 Oftast fylgja mígreniköstum ljósfælni/hljóðfælni og ógleði eða uppköst.2 Sumir einstaklingar fá mígreniköst þar sem aðal einkennið er mígreni-ára en höfuðverkurinn sem fylgir er oft á tíðum vægur.3 Mígreni er í öðru sæti á heimsvísu yfir sjúkdóma sem valda færniskerðingu hjá konum.4 Mígreni er algengur sjúkdómur sem hrjáir um 11% mannkyns á heimsvísu og er um þrisvar sinnum algengara hjá konum en körlum, um 14% kvenna og 6% karla eru með mígreni.5 Algengi mígrenis í lýðgrunduðum rannsóknum er mun hærra en algengi mígrenis í rannsóknum í heilsugæslu en erlendar rannsóknir benda til þess að aðeins um helmingur einstaklinga með mígreni hafi fengið mígrenigreiningu hjá heimilislækni.6,7 Ein helsta ástæða lægra algengis í mígrenirannsóknum í heilsugæslu er að margir einstaklingar með mígreni meðhöndla sig sjálfir, til dæmis með lausasölulyfjum eða fæðubótarefnum og leita sér þar af leiðandi ekki greiningar og meðferðar í heilsugæslu.8 Þessir einstaklingar greinast hins vegar með mígreni í lýðgrunduðum faraldsfræðilegum mígrenirannsóknum.

Algengi mígrenis á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins hefur ekki verið skoðað eftir árið 2000. Rannsóknin Mígreni – greining og meðferð í heilsugæslu sem var gerð á tímabilinu 1990-20009 er grunnur núverandi rannsóknar á nýgengi og algengi mígrenis ásamt lyfjaávísunum hjá einstaklingum með mígreni á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Sú rannsókn gaf til kynna 2,3% algengi mígrenis hjá einstaklingum á aldrinum 8-91 árs. Triptan-lyf, ópíóíðar og bólgueyðandi lyf voru mest ávísuðu lyfin hjá einstaklingum með mígreni.

Tilgangur þessarar rannsóknar er að meta nýgengi mígrenis yfir tvö 10 á tímabil frá árunum 2000-2009 og 2010-2019, hjá einstaklingum á aldrinum 10-79 ára á heilsugæslustöðvunum Sólvangi og Firði, Hafnarfirði og að kanna algengi mígrenis hjá einstaklingum á aldrinum 10-79 ára sem leituðu til heilsugæslustöðva höfuðborgarsvæðisins á árabilinu 2010-2019. Ennfremur að skoða lyfjaávísanir sértækra mígrenilyfja og annarra lyfja sem notuð eru við mígreni hjá einstaklingum með mígreni yfir bæði tímabilin á heilsugæslustöðvunum Sólvangi og Firði.

Efniviður og aðferðir

Rannsóknin er afturskyggn gagnarannsókn þar sem unnið var út frá gögnum úr sjúkraskrárkerfi á heilsugæslustöðvunum Sólvangi og Firði ásamt öðrum heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins, sem eru í heildina 19 talsins. Rannsóknartímabilin eru tvö, árin 2000-2009 og 2010-2019. Rannsóknarþýðið eru einstaklingar á aldrinum 10-79 ára sem fengu sjúkdómsgreininguna mígreni, G43 samkvæmt ICD-10, á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins. Gögnin innhéldu upplýsingar um fæðingardag, dánardag ef við átti, kyn, heilsugæslustöð viðkomandi og dagsetningu mígreni-greiningar G43 (skv. ICD-10). Annað gagnasett innihélt upplýsingar um lyfjaávísanir einstaklinga með mígrenigreiningu þar sem fram komu útgáfuár lyfjaávísunar, ATC-flokkur lyfs, styrkleiki, magn og fjöldi afgreiðslna. Kennitölur einstaklinga voru kóðaðar fyrir afhendingu svo gögnin innihéldu engar persónugreinanlegar upplýsingar.

Útiloka þurfti Læknastöðina Uppsali úr rannsókninni vegna skorts á upplýsingum. Einstaklingar sem fengu mígrenigreiningu (G43 skv. ICD-10) á heilsugæslustöðinni Sólvangi fyrir árið 2000 voru útilokaðir þegar nýgengi var reiknað fyrir tímabilið 2000-2009. Á sama hátt voru einstaklingar sem fengu mígrenigreiningu á heilsugæslustöðvunum Sólvangi og Firði fyrir árið 2010 útilokaðir þegar nýgengi á tímabilinu 2010-2019 var reiknað. Ártölin 2009 og 2019 voru notuð við reikning á aldri einstaklinga í þýðinu, eða árið við lok hvers tímabils, árið 2009 fyrir tímabilið 2000-2009 og árið 2019 fyrir tímabilið 2010-2019.

Ástæða fyrir notkun ártals í lok tímabils var vegna greiningardagsetningar sem spannar allt tímabilið og varð því ósamræmi á milli aldurs við greiningar og aldursviðmiðs ef notað var ártal við upphaf eða miðju tímabils við reikning á aldri einstaklinga. Heilsugæslan Sólvangur þjónustaði Hafnarfjörð og Álftanes ein síns liðs til ársins 2006 en þá hóf heilsugæslan Fjörður starfsemi sína og hluti lækna á heilsugæslustöðinni Sólvangi flutti starfsstöð sína yfir á heilsugæslustöðina Fjörð. Því þótti rökrétt að nota gögn bæði frá heilsugæslustöðinni Sólvangi og heilsugæslustöðinni Firði fyrir tímabilið 2010-2019.

Aldursdreifing þýðisins var skoðuð sem hlutfall af aldursdreifingu einstaklinga á aldrinum 10-79 ára skráðra í Hafnar-firði og Álftanesi, póstnúmerum 220, 221 og 225, upptökusvæði heilsugæslustöðvarinnar Sólvangi og heilsugæslustöðvarinnar Firði samkvæmt Hagstofu Íslands.10 Við áætlun á nýgengi mígrenis í einingunni tilfelli fyrir hver 1000 persónuár var ákveðið að hver einstaklingur sem fær mígrenigreiningu yfir tímabilið gefi þann fjölda ára frá upphafi rannsóknartímabils fram að greiningu mígrenis.

Við úrvinnslu lyfjaávísana voru einstaklingar paraðir einu sinni fyrir hvern ATC-kóða. Ef einstaklingur fékk fleiri en eina lyfja-ávísun fyrir sama lyfi/ATC-kóða voru þær lyfjaávísanir útilokaðar. Einstaklingur getur hins vegar hafa fengið lyfjaávísun fyrir fleiri en einu lyfi með mismunandi ATC-kóða og því eru lyfjaávísanir fleiri en mígrenigreiningar. Flokkun ATC-kóða má sjá í töflu I.

Við úrvinnslu á algengi mígrenis var notuð skýrsla Sjúkratrygginga Íslands, Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu. Yfirlit 2018 sem gaf upp fjölda skráðra einstaklinga á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins.11 Gögn Hagstofu Íslands um aldursdreif-ingu og kynjahlutfall allra einstaklinga í póstnúmerum 220 Hafnar-fjörður, 221 Hafnarfjörður og 225 Álftanes fyrir árin 2009 og 2019 voru notuð til að reikna hlutfall mígrenigreininga eftir aldri.10

Rannsóknin hlaut leyfi vísindasiðanefndar (VSN-20-165) og vísindanefndar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Háskóla Íslands. Notast var við RStudio-útgáfu 1.3.1093 og Microsoft Excel útgáfu 16.44;2020 við gagnaúrvinnslu og myndræna framsetningu. Tölfræðileg próf til að kanna marktækni milli meðaltals tveggja breyta voru notuð við úrvinnslu, tvíhliða t-próf þar sem marktektarmörk voru sett sem p-gildi <0,05.

Niðurstöður

Nýgengi mígrenis

Á tímabilinu 2000-2009 fengu 950 einstaklingar á aldrinum 10-79 ára greininguna mígreni (G43 samkvæmt ICD-10) á heilsugæslustöðinni Sólvangi. Meðalaldur þýðisins var 34,8 ár (sf 15,1). Á tímabilinu 2010-2019 fengu 930 einstaklingar á aldrinum 10-79 ára greininguna mígreni á heilsugæslustöðvunum Sólvangi og Firði, 597 einstaklingar á heilsugæslustöðinni Sólvangi og 333 einstaklingar á heilsugæslustöðinni Firði. Meðalaldur þýðisins var 34,1 ár (sf 15,0). Nýgengi mígrenis á aldrinum 10-79 ára yfir 10 ára tímabil, árin 2000-2009, á heilsugæslustöðinni Sólvangi var 3,3%, nýgengi fyrir karla var 1,8% og 4,9% fyrir konur, með kynjahlutfallinu 1:2,7 (kk:kvk). Á tímabilinu 2010-2019 var nýgengi mígrenis á heilsugæslustöðvunum Sólvangi og Firði 2,9%. Nýgengið var 1,4% fyrir karla og 4,4% fyrir konur, með kynjahlutfallinu 1:3,1 (kk:kvk). Í töflu II má sjá fjölda mígrenigreininga eftir tímabilum fyrir heilsugæslustöðina Sólvang og heilsugæslustöðina Fjörð, mannfjölda á upptökusvæðinu, nýgengi mígrenis hjá einstaklingum á aldrinum 10-79 ára ásamt kynjahlutfalli.

Á mynd 1 má sjá aldursdreifingu þýðisins, nýgengishlutfall mígrenigreininga á heilsugæslustöðinni Sólvangi annars vegar og heilsugæslustöðvunum Sólvangi og Firði hins vegar eftir aldursbilum og kyni fyrir bæði tímabilin þar sem kynjahlutfallið var 50%.

Mynd 1. Nýgengishlutfall mígrenigreininga eftir aldursbili og kyni fyrir heilsugæslustöðina Sólvang fyrir tímabilið 2000-2009 (A) og fyrir heilsugæslustöðina Sólvang og heilsugæslustöðina Fjörð fyrir tímabilið 2010-2019 (B).

Meðalaldur við greiningu mígrenis á heilsugæslustöðinni Sólvangi var 26,6 ár (sf 14,8) fyrir karla og 31,5 ár (sf 14,7) fyrir konur. Miðgildi var 21 ár fyrir karla en 30 ár fyrir konur. Meðalaldur við greiningu mígrenis á heilsugæslustöðvunum Sólvangi og Firði fyrir tímabilið 2010-2019 var 26,5 ár (sf 14,8) fyrir karla og 30,6 ár (sf 14,7) fyrir konur. Miðgildi var 21 ár fyrir karla en 28 ár fyrir konur.

Mynd 2. Dreifing á aldri við greiningu mígrenis eftir kyni á heilsugæslustöðinni Sólvangi fyrir tímabilið 2000-2009 (A) og heilsugæslustöðvunum Sólvangi og Firði fyrir tímabilið 2010-2019 (B).

Á mynd 2 má sjá dreifingu aldurs við greiningu eftir kyni fyrir bæði tímabilin. Fyrir tímabilið 2000-2009 var munurinn á meðalaldri milli kynja við greiningu mígrenis 4,9 ár. Fyrir tímabilið 2010-2019 var munurinn á meðalaldri milli kynja við greiningu mígrenis 4,1 ár. Marktækur munur var á meðalaldri milli kynja fyrir bæði tímabilin.

Algengi mígrenis

Á tímabilinu 2010-2019 voru 9653 einstaklingar með greininguna mígreni (G43 samkvæmt ICD-10) á aldrinum 10-79 ára í grunni sjúkraskrárkerfisins á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins, 2294 karlar (24%) og 7359 konur (76%) þar sem kynjahlutfallið var 1:3,2 (kk:kvk). Meðalaldur þýðisins var 39,1 ár (sf 15,9), miðgildi þýðisins var 37 ár. Algengi mígrenis á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins fyrir aldursbilið 10-79 ára var á bilinu 1,4-6,4%. Heildaralgengi mígrenis á öllum heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins var 4,4% (95%-ÖB: 4,0-4,9) fyrir einstaklinga á aldrinum 10-79 ára. Í töflu III má sjá algengi mígrenis á mismunandi heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins fyrir tímabilið 2010-2019 ásamt heildaralgengi allra heilsugæslustöðva höfuðborgarsvæðisins.

Lyfjaávísanir

Lyfjaávísanir sértækra mígrenilyfja og annarra lyfja sem notuð eru við mígreni voru skoðaðar hjá einstaklingum með mígrenigreiningu fyrir heilsugæslustöðina Sólvangi fyrir tímabilið 2000-2009 og allar heilsugæslustöðvar höfuðborgarsvæðisins fyrir tímabilið 2010-2019.

Af 950 einstaklingum með mígrenigreiningu á heilsugæslustöðinni Sólvangi fengu 618 (65%) lyfjaávísun sértækra mígreni-lyfja og/eða annarra lyfja við mígreni á tímabilinu 2000-2009. Meðhöndlun var frá engri lyfjameðferð að meðhöndlun með 6 mismunandi lyfjum á tímabilinu 210-2019. Af 930 einstaklingum með mígrenigreiningu á heilsugæslustöðvunum Sólvangi og Firði fengu 727 (78%) lyfjaávísun á tímabilinu 210-2019. Meðhöndlun var frá engri lyfjameðferð að meðhöndlun með 9 mismunandi lyfjum yfir tímabilið. Af 9653 einstaklingum með mígrenigreiningu á öllum heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins fengu 8079 (84%) lyfjaávísun á tímabilinu 2010-2019. Fjöldi lyfjaávísana sértækra mígrenilyfja og/eða annarra lyfja við mígreni og hlutfall lyfjaávísana fyrir hvern lyfjaflokk sem hlutfall af fjölda mígrenigreininga fyrir hvert tímabil má sjá í töflu IV.

Umræða

Þessi rannsókn sýndi að nýgengi mígrenis á heilsugæslu var 3,3% tímabilið 2000-2009 og 2,9% tímabilið 2010-2019 og að algengi mígrenis var 4,4% á tímabilinu 2010-2019. Talsverð aukning varð á lyfjaávísunum ópíóða milli tímabila hjá einstaklingum með mígreni.

Nýgengi mígrenis á heilsugæslum hefur lítið verið rannsakað en flestar erlendar rannsóknir á lýðgrunduðu nýgengi mígrenis áætla nýgengi í einingunni „tilfelli fyrir hver 1000 persónuár“. Áætlað nýgengi fyrir tímabilið 2000-2009 var 3,4 tilfelli fyrir hver 1000 persónuár og fyrir tímabilið 2010-2019 var áætlað nýgengi 2,9 tilfelli fyrir hver 1000 persónuár í okkar rannsókn. Í rannsókn Becker og fleiri á nýgengi mígrenis á heilsugæslum í Bretlandi á árunum 1994-2001 hjá einstaklingum á aldrinum 0-79 ára var nýgengi mígrenis 3,69 tilfelli fyrir hver 1000 persónuár. Til útskýringar má nefna að ef heilsugæslurnar hefðu á ofangreindum tímabilum haft 10.000 skjólstæðinga, hefðu að jafnaði 34 einstaklingar greinst á ári tímabilið 2000-2009 og 29 einstaklingar á ári tímabilið 2010-2019. Áætlað nýgengi á Íslandi í okkar rannsókn er því svipað því sem kom fram í bresku rannsókninni.12 Engin íslensk rannsókn hefur áður kannað nýgengi mígrenis á heilsugæslu en við höfum áætlað nýgengið í rannsókninni „Mígreni – greining og meðferð í heilsugæslu sem birtist í Læknablaðinu árið 2009. Sú áætlun gefur til kynna 2,3% nýgengi mígrenis hjá einstaklingum á aldrinum 8-91 árs á heilsugæslustöðinni Sólvangi yfir tímabilið 1990-2000,9 sjá töflu V. Nýgengi mígrenis í heilsugæslu hefur lítið verið rannsakað og við höfum ekki fundið aðrar rannsóknir á þessu sviði en fyrrnefnda rannsókn Beckers frá Bretlandi.

Í okkar rannsókn voru konur um þrisvar sinnum líklegri til að greinast með mígreni yfir bæði tímabilin, en kynjahlutfallið var 2,7 á tímabilinu 2000-2009 á heilsugæslustöðinni Sólvangi og 3,1 á tímabilinu 2010-2019 á heilsugæslustöðvunum Sólvangi og Firði. Í bresku rannsókninni var kynjahlutfallið 2,5.12 Kynjahlutfallið er einnig í takt við lýðgrundaðar mígrenirannsóknir á Norðurlöndunum þar sem mígreni er mun algengara hjá konum en körlum.5 Ýmsar tilgátur hafa verið lagðar fram til að skýra þennan mikla mun á milli kynja. Það hefur fyrst og fremst verið tengt við kynhormóna kvenna en einnig geta spilað inn erfðaþættir, munur á útsetningu streituvalda umhverfisins og mismunandi streitu- og verkjasvörun.13

Algengi mígrenis hjá einstaklingum á aldrinum 10-79 ára í heilsugæslum höfuðborgarsvæðisins yfir tímabilið 2010-2019 var 4,4%. Engin rannsókn á lýðgrunduðu algengi mígrenis á Íslandi hefur verið birt en meistararitgerðin „Mígreni með áru í íslensku þýði“ sem var byggð á gögnum úr forrannsókn Heilsusögu Íslendinga var birt sem ágrip árið 2014.14 Í þeirri rannsókn var notaður spurningalisti sem byggði á ICHD-3 (beta-útgáfu).3 Niðurstöður þeirrar rannsóknar sýndu að 12 mánaða algengi mígrenis hjá einstaklingum á aldrinum 21-86 ára var 14,3%, 8,2% hjá körlum og 19,1% hjá konum14 sem er þrefalt hærra algengi en algengi mígrenigreininga í heilsugæslum höfuðborgarsvæðisins. Erlendar rannsóknir á algengi mígrenis í heilsugæslum hafa á sama hátt sýnt töluvert lægra algengi en rannsóknir á lýðgrunduðu úrtaki.15,16 Áætla má að helsta skýringin á þessu sé að stór hluti einstaklinga með mígreni meðhöndli sig sjálfur með lausasölulyfj-um og leiti aldrei á heilsugæslu og fái því ekki greiningu og meðferð þar. Rannsókn var framkvæmd í heilsugæslum í Brasilíu þar sem kannað var hvers vegna sjúklingar með höfuðverk leituðu sér ekki læknisaðstoðar. Þeir sem leituðu til læknis, af ýmsum ástæðum, höfðu oftar spennuhöfuðverk, færri þeirra voru með mígreni með áru og þeir fengu almennt vægari höfuðverkjaköst og köstin voru fátíðari.17 Í danskri lýðgrundaðri þversniðsrannsókn höfðu 50% einstaklinga með mígreni með áru leitað til læknis á móti 62% einstaklinga með mígreni án áru18 en það er öfugt við niðurstöður úr rannsókninni frá Brasilíu.

Notkun triptan-lyfja jókst á rannsóknartímabilinu 2010-2019 og var hlutfall einstaklinga á triptan-lyfjum 57%. Dönsk rannsókn sem náði til allra Dana sýndi að á 25 ára tímabili jókst notkun triptan-lyfja úr 345 í 945 skilgreinda dagsskammta (DDD) á 1000 íbúa á ári og árs algengi triptan-notenda jókst úr 5,17 í 14,57 á 1000 íbúa.19 Til samanburðar var algengi triptan-notkunar í Danmörku 14 á 1000 íbúa árið 201319 en í annarri danskri rannsókn á algengi þrálátra sjúkdóma, sem náði til allra Dana 16 ára og eldri, var aldursstaðlað algengi mígrenigreininga 33 á 1000 íbúa árið 2013.20 Út frá þessum tveimur rannsóknum má áætla að hlutfall einstaklinga á triptan-lyfjum, af þeim sem voru með greint mígreni í Danmörku árið 2013, hafi verið um 42%, sem er lægra en samsvarandi hlutfall á Íslandi.

Erlendar rannsóknir sýna að fyrirbyggjandi lyfjameðferð er vannýtt og einungis hluti einstaklinga með mígreni sem þarf á fyrirbyggjandi lyfjameðferð að halda fær slíka meðferð.21 Aukning á notkun beta-blokka meðal einstaklinga með mígrenigreiningu bendir til aukinnar fyrirbyggjandi lyfjameðferðar hér á landi milli tímabilanna og er það jákvæð þróun. Hlutfall þeirra sem voru með mígreni, 2010-2019, og á beta-blokka var 27%, nýleg rannsókn á 5,6 milljón manns í Þýskalandi sýndi að um 29% sjúklinga fengu ávísað fyrirbyggjandi lyfi að minnsta kosti einu sinni.22 Notkun ýmissa annarra lyfja sem notuð eru til að fyrirbyggja mígreni, til dæmis candesartan, topiramat og amitriptylin, var ekki skoðuð í okkar rannsókn. Ástæðan er sú að flestir sem nota þessi lyf hafa aðrar ábendingar en mígreni og ekki hefði verið mögulegt að staðfesta hverjir hefðu fengið þessi lyf til þess að fyrirbyggja mígreni. Fjöldi lyfjaávísana á ópíóíða í okkar rannsókn er áhyggjuefni og talsverð aukning varð á notkun ópíóíða á milli tímabila. Lyf sem innihéldu kódein (ATC N02AJ06) voru gerð lyfseðilsskyld 1. október 2005, sem hefur áhrif á aukningu lyfjaávísana á parkódín og parkódín forte (flokkað sem ópíóíðar) á rannsóknartímabilinu.23 Notkun ópíóíða getur átt rétt á sér við ýmsum skammvinnum verkjaeinkennum en notkun ópíóíða við mígreni er ekki talin æskileg.24,25 Árið 2014 birti bandaríska taugalæknasambandið leiðbeiningar um notkun ópíóíða við verkjum, þar kom fram að ekki ætti að nota ópíóíða við mígreni nema sem síðasta úrræði.26 Í uppfærðum leiðbeiningum bandaríska höfuðverkjasambandsins 2021 er ekki mælt með að nota ópíóíða við meðferð á mígreni.27 Ópíóíðar eru taldir auka líkur á þróun mígrenis yfir í þrálátt mígreni (chronic migraine) og auka líkur á lyfjahöfuðverk (medication overuse headache) og því er ekki mælt með að einstaklingar með mígreni noti ópíóíða við höfuðverkjum eða við öðrum verkjavanda, notkun annarra lyfja er æskilegri í slíkum tilfellum.28,29

Meðal kosta okkar rannsóknar er að samanburður við eldri íslenska rannsókn er mögulegur á algengi mígrenis og lyfjanotkun milli tímabila þar sem svipaðri aðferðafræði var beitt.9 Meðal takmarkana rannsóknarinnar er að gögnin ná ekki yfir einstaklinga með mígreni sem ekki leituðu á heilsugæslustöðvar og því er ekki hægt að draga ályktanir um algengi mígrenis í samfélaginu út frá okkar rannsókn. Á sama hátt vantar einnig upplýsingar um lyfjanotkun einstaklinga sem ekki leita á heilsugæslu. Einnig gildir um okkar rannsókn að við höfum ekki upplýsingar um mígrenieinkenni, framgang sjúkdómsins og notkun á öðrum fyrirbyggjandi lyfjum en beta-blokkum. Að auki vantar okkur upplýsingar um ábendingu lyfjaávísana og er því erfitt að segja til um hvort ávísun lyfja eins og beta-blokka og ópíóíða sé vegna meðferðar á mígreni eða til meðferðar á öðrum sjúkdómum.

Samantekið sýndi rannsókn okkar að nýgengi mígrenis á heilsugæslu er svipað því sem það er í Bretlandi. Algengi mígrenis á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins var 4,4% sem er einungis um þriðjungur af algengi í lýðgrunduðu úrtaki, þar sem algengi er um 14%. Aukning lyfjaávísana beta-blokka á rannsóknartímabilinu er jákvæð þróun en aukin notkun ópíóíða meðal einstaklinga með mígreni er áhyggjuefni sem þarfnast nánari athugunar.

Þakkir

Deild rafrænnar þjónustu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fær þakkir fyrir að taka gögnin til og gera þau aðgengileg. Við þökkum einnig Tölfræðiaðstoð heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands fyrir aðstoð við úrvinnslu gagna.

Heimildir

1. Ahmed F. Headache disorders: differentiating and managing the common subtypes. Br J Pain 2012; 6: 124-32.
https://doi.org/10.1177/2049463712459691
PMid:26516483 PMCid:PMC4590146
 
2. Lipton RB, Bigal ME. Ten Lessons on the Epidemiology of Migraine. Headache: J Head Face Pain 2007; 47: S2-S9.
https://doi.org/10.1111/j.1526-4610.2007.00671.x
PMid:17425705
 
3. Headache Classification Committee of the International Headache Society (IHS). The International Classification of Headache Disorders, 3rd edition (beta version). Cephalalgia 2013; 33: 629-808.
https://doi.org/10.1177/0333102413485658
PMid:23771276
 
4. Steiner TJ, Stovner LJ, Jensen R, et al. Migraine remains second among the world's causes of disability, and first among young women: findings from GBD2019. J Headache Pain 2020; 21: 137.
https://doi.org/10.1186/s10194-020-01208-0
PMid:33267788 PMCid:PMC7708887
 
5. Stovner L, Hagen K, Jensen R, et al. The global burden of headache: a documentation of headache prevalence and disability worldwide. Cephalalgia 2007; 27: 193-210.
https://doi.org/10.1111/j.1468-2982.2007.01288.x
PMid:17381554
 
6. Lipton RB, Diamond S, Reed M, et al. Migraine diagnosis and treatment: results from the American Migraine Study II. Headache 2001; 41: 638-645.
https://doi.org/10.1046/j.1526-4610.2001.041007646.x
https://doi.org/10.1046/j.1526-4610.2001.041007638.x
PMid:11554951
 
7. Katsarava Z, Mania M, Lampl C, et al. Poor medical care for people with migraine in Europe - evidence from the Eurolight study. J Headache Pain 2018; 19: 10.
https://doi.org/10.1186/s10194-018-0839-1
PMid:29392600 PMCid:PMC5794675
 
8. MacGregor EA. The doctor and the migraine patient: improving compliance. Neurology 1997; 48 (3 Suppl 3): S16-20.
https://doi.org/10.1212/WNL.48.3_Suppl_3.16S
PMid:9071265
 
9. Guðmundsdóttir AM, Sigurðsson EL. Mígreni - greining og meðferð í heilsugæslu. Læknablaðið 2009; 95: 433-8.
 
10. Mannfjöldinn eftir póstnúmerum, kyni og aldri 1998-2020. Hagstofa Íslands - Talnaefni. hagstofa.is.
 
11. Sjúkratryggingar Íslands. Heilsugæslan á Höfuðborgarsvæðinu Yfirlit 2018; 2019.
 
12. Becker C, Brobert GP, Almqvist PM, et al. Migraine incidence, comorbidity and health resource utilization in the UK. Cephalalgia 2008; 28: 57-64.
https://doi.org/10.1111/j.1468-2982.2007.01469.x
PMid:17986274
 
13. Peterlin BL, Gupta S, Ward TN, et al. Sex Matters: Evaluating Sex and Gender in Migraine and Headache Research. Headache 2011; 51: 839-42.
https://doi.org/10.1111/j.1526-4610.2011.01900.x
PMid:21631471 PMCid:PMC3975603
 
14. Arnardóttir SD. Mígreni með áru í íslensku þýði. Meistaraprófsritgerð við heilbrigðisvísindasvið HÍ, 2008. Skemman 2018. http://hdl.handle.net/1946/29863 - desember 2022.
 
15. Jackson JL, Kay C, Scholcoff C, et al. Migraine prophylactic management in neurology and primary care (2006-2015). J Neurol 2018; 265: 3019-21.
https://doi.org/10.1007/s00415-018-9066-6
PMid:30232610
 
16. Latinovic R, Gulliford M, Ridsdale L. Headache and migraine in primary care: consultation, prescription, and referral rates in a large population. J Neurol Neurosurg Psychiatry 2006; 77: 385-7.
https://doi.org/10.1136/jnnp.2005.073221
PMid:16484650 PMCid:PMC2077680
 
17. Oliveira DRV, Leite AA, Rocha-Filho PAS. Which patients with headache do not seek medical attention? Headache 2011; 51: 1279-84.
https://doi.org/10.1111/j.1526-4610.2011.01977.x
PMid:21884083
 
18. Rasmussen BK, Olesen J. Migraine with aura and migraine without aura: an epidemiological study. Cephalalgia 1992; 12: 221-8; discussion 186.
https://doi.org/10.1046/j.1468-2982.1992.1204221.x
PMid:1525797
 
19. Davidsson OB, Olofsson IA, Kogelman LJ, et al. Twenty-five years of triptans - a nationwide population study. Cephalalgia 2021; 41: 894-904.
https://doi.org/10.1177/0333102421991809
PMid:33583217
 
20. Hvidberg MF, Johnsen SP, Davidsen M, et al. A Nationwide Study of Prevalence Rates and Characteristics of 199 Chronic Conditions in Denmark. Pharmacoecon Open 2020; 4: 361-80.
https://doi.org/10.1007/s41669-019-0167-7
PMid:31342402 PMCid:PMC7248158
 
21. Ha H, Gonzalez A. Migraine Headache Prophylaxis. Am Fam Physician 2019; 99: 17-24.
 
22. Roessler T, Zschocke J, Roehrig A, et al. Administrative prevalence and incidence, characteristics and prescription patterns of patients with migraine in Germany: a retrospective claims data analysis. J Headache Pain 2020; 21: 85.
https://doi.org/10.1186/s10194-020-01154-x
PMid:32631274 PMCid:PMC7339552
 
23. Lausasölulyf sem innihalda kódein tekin úr umferð. Embætti landlæknis. landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item16656/$item_att544 - desember 2022.
 
24. Totzeck A, Gaul C. The role of opioids in the treatment of primary headache disorders. Schmerz 2014; 28: 135-140.
https://doi.org/10.1007/s00482-013-1380-4
PMid:24500765
 
25. Tepper SJ. Opioids should not be used in migraine. Headache 2012; 52 Suppl 1: 30-4.
https://doi.org/10.1111/j.1526-4610.2012.02140.x
PMid:22540203
 
26. Franklin GM, American Academy of Neurology. Opioids for chronic noncancer pain: a position paper of the American Academy of Neurology. Neurology 2014; 83: 1277-84.
https://doi.org/10.1212/WNL.0000000000000839
PMid:25267983
 
27. Ailani J, Burch RC, Robbins MS, et al. The American Headache Society Consensus Statement: Update on integrating new migraine treatments into clinical practice. Headache 2021; 61: 1021-39.
https://doi.org/10.1111/head.14153
PMid:34160823
 
28. Bigal ME, Lipton RB. Excessive acute migraine medication use and migraine progression. Neurology 2008; 71: 1821-8.
https://doi.org/10.1212/01.wnl.0000335946.53860.1d
PMid:19029522
 
29. Lipton RB, Buse DC, Friedman BW, et al. Characterizing opioid use in a US population with migraine: Results from the CaMEO study. Neurology 2020; 95: e457-e468.
https://doi.org/10.1212/WNL.0000000000009324
PMid:32527971 PMCid:PMC7455347
 
30. Lyfjastofnun. Lyfjaupplýsingar - Sérlyfjaskrá - ATC flokkun. serlyfjaskra.is/atc - desember 2022.
 

 

 

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica