11. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Willum Þór í einlægu samtali við lækna á aðalfundi Læknafélagsins

Heilbrigðisráðherra sagði að auka þyrfti fjármagn svo læknar gætu endurheimt krafta sína milli vakta. Hann brást þar við orðum Ólafs Þórs Ævarssonar geðlæknis. Ólafur benti á að hann hefði ekki áður liðsinnt jafnmörgum ungum læknum vegna álags í starfi

Fjöldi lækna reis upp og lýsti áhyggjum sínum af stöðunni innan heilbrigðiskerfisins eftir erindi Willum Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra á aðalfundi Læknafélagsins þann 14. október. Margt kom fram en meginstefið var mönnun, fjármögnun og örmögnun.

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, stýrði fyrsta aðalfundi sínum. Hann fór fram í húsakynnum Læknafélagsins þann 14. október og var vel sóttur. Sex ályktanir um margvísleg málefni sem snerta heilbrigðismál voru samþykktar á fundinum. Mynd/gag

 

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hlustaði á áhyggjur lækna á aðalfundi Læknafélagsins sem haldinn var um miðjan októbermánuð. Hann sagði í lok fundar að hann væri innilega þakklátur fyrir samtalið og skyldi reyna að gera sitt allra besta. Mynd/gag

Ráðherrann sagði í viðbrögðum sínum við fyrirspurnum lækna að spítalinn yrði líklegast innan fjárlaga þessa árs. Það komi þó ekki endilega til af góðu þó að spítalinn hafi líka staðið sig vel. Það mætti mögulega rekja eitthvað af þessu til mönnunar en það væri erfitt að átta sig á nákvæmri stöðu þar. Hann hafi því kallað eftir að mönnunarþörfin yrði greind nánar svo hægt væri að leggja mat á kostnaðinn og hversu mikla fjármuni spítalinn þyrfti. „Þá veit ég betur fyrir hverju ég er að berjast,“ sagði hann.

Læknar brugðust við orðum hans. Sigurveig Pétursdóttir bæklunarlæknir gagnrýndi þau orð og sagði nóg komið af greiningum, eins og sjá má á síðu 479. Þórdís Þorkelsdóttir, formaður Félags almennra lækna, bauð aðstoð við matið. Stella Rún Guðmundsdóttir, umsjónarlæknir með sérnámi á lyflækningasviði og stjórnarmaður í Félagi almennra lækna, benti ráðherranum á þau mistök sem gerð hafi verið þegar greiðslur fyrir aukavaktir hafi verið afnumdar.

„Þú talar um að greina mönnunarþörf. Við höfum gert það á okkar sviði og vitum hver hún er og hvað við þurfum marga á kvöldin. Eftir að þessar greiðslur duttu út getum við ekki mannað þessar vaktir,“ benti hún ráðherranum á. Veikindin séu mikil vegna álags enda dagvaktir undirmannaðar. Hún reyni að tryggja mönnun án þess að geta boðið neitt í staðinn. „Plís, plís mættu,“ biðji hún en starfsfólk segi nei.

„Þessar aukagreiðslur eru einföld leið til að leysa þennan vanda,“ sagði Stella. Erfitt verði að vinda ofan af gremjunni sem ákvörðunin hafi skapað gagnvart spítalanum.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica