09. tbl. 108. árg. 2022

Fræðigrein

Lifrarskurðaðgerðir á Íslandi 2013-2017. Samanburður við Svíþjóð með tilliti til gæðaskráningar

Liver surgeries in Iceland 2013-2017 – Comparison with Sweden in terms of quality registration

doi 10.17992/lbl.2022.09.705

Ágrip

INNGANGUR
Krabbamein í lifur, gallgangakerfi innan lifrar og gallblöðru ásamt meinvörpum í lifur, eru illvígir sjúkdómar með slæmar horfur. Skurðaðgerð er mikilvægasta meðferðin, sé hún gerð í læknandi tilgangi. Markmið rannsóknarinnar var að kanna skurðmeðferð á sjúklingum með krabbamein í lifur, gallblöðru og gallgöngum eða meinvörp í lifur á Íslandi.

EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR
Listi yfir sjúklinga sem greindust með krabbamein í lifur, gallgöngum, gallblöðru eða meinvörp í lifur á árunum 2013-2017 var fenginn frá Krabbameinskrá. Sjúkraskrár voru notaðar til frekari gagnasöfnunar og voru upplýsingar skráðar í gæðaskráningareyðublöð Heilsugáttar Landspítala. Samanburður var gerður á skráningum í Svíþjóð og á Íslandi.

NIÐURSTÖÐUR
Á rannsóknartímabilinu greindust 108 sjúklingar með frumæxli í lifur og fóru 24 (22%) í skurðaðgerð á lifur. Með meinvörp í lifur greindust 264 sjúklingar og fóru 38 (14%) í skurðaðgerð í læknandi tilgangi. Alls voru 63% af öllum greindum tilfellum tekin fyrir á samráðsfundi á Íslandi, en 93% í Svíþjóð. Alls hlutu 29 sjúklingar (43%) fylgikvilla innan 30 daga frá aðgerð en enginn lést innan 90 daga. Fjöldi hlutabrottnámsaðgerða á lifur vegna frumæxla í lifur eða gallvegakerfi á hverja 100.000 íbúa voru 2-8 á ári á Íslandi á móti 4-13 í Svíþjóð. Sambærilegan mun mátti sjá milli landanna vegna aðgerða á meinvörpum í lifur.

ÁLYKTUN
Árangur skurðaðgerða á lifur á Íslandi virðist sambærilegur við Svíþjóð þegar horft er til fylgikvilla og aðgerðardauða. Hins vegar eru gerðar færri aðgerðir á lifur á Íslandi miðað við höfðatölu og þá sérstaklega á meinvörpum til lifrar og er möguleg skýring að ekki séu allir sjúklingar með meinvörp til lifrar ræddir á samráðsfundi hérlendis.

Greinin barst til blaðsins 20. apríl 2022, samþykkt til birtingar 22. ágúst 2022.

Inngangur

Lifrarfrumukrabbamein (hepatocellular carcinoma, HCC) og krabbamein í gallgöngum innan lifrar (intrahepatic cholangiocarcinoma) teljast til frumæxla í lifur og eru sjaldgæf. Meinvörp til lifrar eru algengari og sjúklingar með meinvörp eru stór hluti þeirra sem fara í skurðaðgerð á lifur.1 Algengast er að meinvörp séu upprunnin frá æxlum í meltingarfærum, þá helst ristli og endaþarmi, en geta auk þess komið frá brjósta- og lungnakrabbameinum ásamt sortuæxlum, svo dæmi séu tekin.1 Meinvörp berast til lifrar með blóði og koma þau yfirleitt fram sem margir hnútar. Um það bil helmingur þeirra sem greinast með ristil- eða endaþarmskrabbamein munu fá meinvörp í lifur og um 25% eru með meinvörp við greiningu (synchronous).2 Krabbamein í gallblöðru (gallbladder carcinoma) flokk-ast í raun ekki með frumæxlum í lifur en skurðmeðferðin er svip-uð, þar sem gallblaðra, ásamt aðliggjandi lifrarvef eru fjarlægð. Ef æxli uppgötvast í vefjagreiningu eftir gallblöðrutöku er enduraðgerð á lifur ennfremur ráðlögð.3

Skurðmeðferð krabbameina í lifur er algengasta meðferðin sem gefur möguleika á lækningu. Talsverð þróun hefur orðið í meðferð æxla í lifur á síðustu áratugum en lifrarskurðaðgerðir á Íslandi eru framkvæmdar á Landspítala. Aðgerðirnar felast aðallega í hlutabrottnámi á lifur en í vissum tilvikum eru gerðar lifrarígræðslur.4 Lifrarígræðslur eru ekki framkvæmdar á Íslandi og sjúklingar sem þurfa slíka aðgerð eru sendir til Svíþjóðar.5 Hlutabrottnám á æxli í lifur er kjörmeðferð við lifrarfrumukrabbameini, þegar portal háþrýstingur er ekki til staðar, sem og við gallvega- og gallblöðrukrabbameini.6 Einnig er hlutabrottnám framkvæmt vegna meinvarpa í lifur.2 Við hlutabrottnám er æxlið ásamt aðlægum heilbrigðum lifrarvef fjarlægt svo fríar skurðbrúnir náist, en mismunandi kröfur eru um fjarlægð frá skurðbrún eftir því hvort um er að ræða frumæxli, gallblöðrukrabbamein eða meinvarp.7,8 Hlutabrottnámi á lifur má skipta í líffærafræðilegt (anatomical resection) og ekki líffærafræðilegt (non-anatomical resection). Það er betri valkostur að fjarlægja heila geira fyrir lifrarfrumu- og gallvegakrabbamein með tilliti til lifunar9 en ólíffærafræðilegar aðgerðir eru ákjósanlegri á meinvörpum.10 Annar meðferðarmöguleiki er hitameðferð, til dæmis radio-frequency ablation (RFA) sem er staðbundin meðferð þar sem sérstakri nál er komið fyrir í æxlinu og það hitað í 50-100°C. Þá aðferð má nota á eitt eða tvö stök lifraræxli ef þau eru minni en 4 cm í þvermál.11 Samráðsfundir eru vettvangur lækna með mismunandi sérhæfingu í ákveðnum sjúkdómum til að ræða einstaka sjúklinga og gefa ráðleggingar varðandi meðferð. Mikilvægt er að allir sem greinast með krabbamein séu ræddir á slíkum fundum svo allir einstaklingar fái jafnt mat og bestu meðferð. Sýnt hefur verið fram á að horfur sjúklinga sem eru teknir fyrir á slíkum fundum eru betri en þeirra sem ekki eru ræddir.12,13 Á Landspítala eru slíkir fundir haldnir vikulega og þar ræddir nýgreindir sjúklingar sem og sjúklingar sem fengið hafa meðferð, krabbameinslyfjameðferð og/eða skurðaðgerð, og sameiginleg ákvörðun tekin um framhald meðferðar.

Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvernig greiningu, meðferð og horfum sjúklinga með krabbamein eða meinvörp í lifur, gallblöðru og gallgöngum innan lifrar var háttað á tímabilinu 2013-2017 með samanburði við sambærilegar upplýsingar frá Svíþjóð, með sérstakri áherslu á skurðmeðferð.

Efniviður og aðferðir

Rannsóknin var afturskyggn þar sem farið var yfir sjúklinga sem greindust með krabbamein í lifur, gallgöngum innan lifrar, gallblöðru eða meinvarp í lifur og gengust undir skurðaðgerð á Landspítala frá 1. janúar 2013 til og með 31. desember 2017. Sjúklingar með gallblöðrukrabbamein voru hafðir með þar sem skurðmeðferðin felst í hlutabrottnámi á lifur ásamt því að gallblaðra er fjarlægð.

Listi yfir sjúklinga sem greindust með krabbamein í lifur, gallgöngum, gallblöðru eða meinvarp í lifur var fenginn hjá Krabbameinsskrá Íslands. Upplýsingar um skurðaðgerð á lifur voru fengnar úr skráningarkerfi Landspítala. Klínískar upplýsingar um greiningu, meðferð og eftirfylgd sjúklinganna fengust úr sjúkraskrárkerfi Landspítala, aðgerðalýsingum og svæfinga-skýrslum ásamt niðurstöðum myndrannsókna, vefjameinafræði og blóðprufum. Breyturnar voru færðar inn í þar til gerð gæðaskráningareyðublöð í Heilsugátt Landspítala sem voru útbúin í tengslum við rannsóknina. Blöðin eru þýðingar á sambærilegum blöðum úr sænsku gæðaskránni.14 Fylgikvillar í og eftir aðgerð voru skráðir og flokkaðir samkvæmt Clavien-Dindo-flokkun.15

Samanburður var gerður við upplýsingar um sjúklinga í Svíþjóð sem undirgengust sambærilegar aðgerðir, við sömu sjúkdómum, með samanburði við útgefnar skýrslur frá sænsku krabbameinsskránni sem eru aðgengilegar á netinu.14

Úr skráningareyðublöðunum voru ópersónugreinanlegar upplýsingar dregnar fram á Microsoft Excel-skjali og forritið R notað til tölfræðiúrvinnslu.16 Kí-kvaðrat-próf eða Fisher-exact-próf var framkvæmt í R til að meta marktækni og voru niðurstöður taldar tölfræðilega marktækar ef p-gildi var undir 0,05.

Tilskilin leyfi voru fengin hjá vísindasiðanefnd (VSN-18-192), framkvæmdastjóra lækninga Landspítala (tilvísunarnúmer 298-16) og hjá Krabbameinsskrá Íslands áður en rannsókn hófst.

Niðurstöður

Þýði

Rannsóknarhópurinn samanstóð í upphafi af 73 sjúklingum með frumæxli í lifur, 25 sjúklingum með krabbamein í gallgöngum innan lifrar, 13 sjúklingum með gallblöðrukrabbamein og 264 sjúklingum með meinvörp í lifur (mynd 1 og 2).

Þrír sjúklingar uppfylltu ekki viðmið rannsóknarhópsins og voru því ekki teknir með í rannsóknina. Einn var með lifrarkímæxli (hepatoblastoma), annar var eingöngu með skráða greiningu á dánarvottorði, án rannsóknarniðurstaðna sem studdu greiningu og sá þriðji með paraganglioma í gallblöðru (mynd 1 og 2).

Mynd 1. Fjöldi sjúklinga sem greindust með krabbamein eða meinvörp í lifur á Íslandi á árunum 2013-2017, flæðiritið sýnir hversu margir fóru í aðgerð. *CRC meinvörp: meinvörp frá ristils- og endaþarmskrabbameinum. **Önnur krabbamein í lifur: Æðasarkmein (angiosarcoma) n=1, óskilgreint sarkmein n=2, blönduð mynd af HCC og iCCA n=2, ósérhæft lifrarkrabbamein n=1.

Af þeim 65 sem greindust með lifrarfrumukrabbamein fóru 15 (23%) í skurðaðgerð á lifur. Alls voru 15 sem greindust með gallvegakrabbamein innan lifrar, þar af fóru 4 (27%) í aðgerð. Enn fremur greindust 12 með gallblöðrukrabbamein, af þeim fóru 5 (42%) í aðgerð. Þannig að ef allur hópurinn er tekinn saman, af þeim voru 108 sem greindust með frumæxli í lifur, gallgöngum innan lifrar eða gallblöðru og uppfylltu skilyrði rannsóknarinnar, fóru 24 (22%) í skurðaðgerð á lifur, þar af voru 15 (63%) með lifrarfrumukrabbamein.

Mynd 2. Fjöldi sjúklinga sem greindust með krabbamein í gallvegum og gallblöðru á Íslandi á árunum 2013-2017, flæðiritið sýnir hversu margir fóru í aðgerð.

Einnig fóru 38 af 264 (14%) þeirra sjúklinga sem greindust með meinvörp í lifur í skurðaðgerð í læknandi tilgangi og voru því skoðaðir sérstaklega (mynd 1). Af þeim var 31 með meinvörp af völdum ristil- eða endaþarmskrabbameins.

Fleiri karlar, eða 61% á móti 39% kvenna, greindust með ofantalda sjúkdóma. Miðgildi aldurs við greiningu var 70 ára en bilið var 18-91 árs (tafla I).

Af þeim 65 sem greindust með lifrarfrumukrabbamein voru 34 (52,3%) með skorpulifur.

Skurðaðgerðir

Alls voru 68 lifrarskurðaðgerðir framkvæmdar á Íslandi á tímabilinu, á 61 einstaklingi. Fimm sjúklingar, með meinvörp í lifur, fóru tvisvar sinnum í aðgerð á tímabilinu og einn þrisvar sinnum. Það gerir um 14 aðgerðir á ári. Af hlutabrottnámsaðgerðunum reyndust 54 (79,4%) róttækar (R0) í meinafræðisvari. Meirihluti sjúklinga, eða 41 (60%), var í ASA-flokki tvö en næstflestir, eða 22 (32%), í ASA-flokki þrjú.

Í heild fengu 29 sjúklingar (42,6%) fylgikvilla innan 30 daga frá aðgerð. Fylgikvillarnir voru flokkaðir samkvæmt Clavien-Dindo-flokkun. Hæsta hlutfall sjúklinga, eða 14 af 29 (48%), reyndist með fylgikvilla í flokki 2, en ítarlegri skiptingu má sjá í töflu II. Enginn lést innan 30 daga né 90 daga eftir aðgerð.

Miðgildi legudaga á spítala eftir aðgerð voru 7 dagar, 20% hundraðsmörkin voru við 6 daga en 80% við 13 daga. Stysta innlögnin var þrír dagar en sú lengsta 106 dagar. Allir nema þrír útskrifuðust heim innan 30 daga, en tveir af þessum þremur voru útskrifaðir á aðrar sjúkrastofnanir á landsbyggðinni og því er ekki vitað hvort þeir voru útskrifaðir heim innan 30 daga.

Samanburður við Svíþjóð

Hlutabrottnámsaðgerðir á lifur vegna frumæxla í lifur eða gallvegakerfi á hverja 100.000 íbúa sem framkvæmdar voru á Íslandi voru færri en í Svíþjóð. Á Íslandi voru framkvæmdar árlega tvær til 8 aðgerðir á hverja 100.000 íbúa, með að meðaltali fjórar aðgerðir árlega, en í Svíþjóð voru árlega framkvæmdar frá fjórum upp í 13 aðgerðir á hverja 100.000 íbúa. Fjöldi aðgerða virðist þó vera að aukast á Íslandi, en það sama á við um Svíþjóð (mynd 3). Ef aðgerðir á meinvörpum í lifur eru skoðaðar sérstaklega má sjá að á Íslandi eru framkvæmdar árlega 1 til 3 aðgerðir á hverja 100.000 íbúa en þær eru tvær til 7 í Svíþjóð (mynd 4). Í Svíþjóð var hlutfall þeirra sem greindust með meinvarp í lifur og fóru í skurðaðgerð á lifur hærra, eða 37% miðað við 15% á Íslandi (p<0,05).

Mynd 3. Fjöldi hlutabrottnámsaðgerða á lifur á hverja 100.000 íbúa á ári vegna frumæxla í lifur eða gallvegakerfi, framkvæmdra í ýmsum hérðuðum í Svíþjóð annars vegar og á Íslandi hins vegar. (SWE: Svíþjóð)

Aðeins tvær hitameðferðir vegna æxlis í lifur voru framkvæmdar á Íslandi á tímabilinu, eða 0,012 á hverja 100.000 íbúa, en fjöldinn í Svíþjóð var um það bil 1-2 á hverja 100.000 íbúa.14

Mynd 4. Fjöldi hlutabrottnámsaðgerða á lifur á hverja 100.000 íbúa á ári vegna meinvarpa í lifur, framkvæmdar í ýmsum héruðum í Svíþjóð annars vegar og Íslandi hins vegar. (SWE: Svíþjóð)

Ekki var tölfræðilega marktækur munur á fylgikvillum eftir skurðaðgerðir á lifur milli Íslandi og Svíþjóðar (tafla II). Miðgildi legudaga á spítala eftir aðgerð var sambærilegt við Svíþjóð. Enginn lést innan 30 daga eftir aðgerð á Íslandi en í Svíþjóð var dánarhlutfallið 1% 30 dögum frá aðgerð.

Niðurstöður sýndu að munur var á hlutfalli fjölda meinvarpa í lifur sem voru meðhöndluð með aðgerð á Íslandi annars vegar og í Svíþjóð hins vegar (mynd 5).

Mynd 5. Hlutfall aðgerða miðað við fjölda meinvarpa í lifur hjá aðgerðarsjúklingum á Ísland og í Svíþjóð.14

Sjá má að í um 40-50% aðgerða sem framkvæmdar voru í Svíþjóð var aðeins um eitt meinvarp að ræða. Á Íslandi var þetta hlutfall lægra, eða um 20-25%. Flestar aðgerðirnar á Íslandi voru á tveimur til þremur æxlum. Einnig má sjá að engin aðgerð var framkvæmd á 6 eða fleiri æxlum á Íslandi en hlutfallið í Svíþjóð er allt að 20% í þeim hópi. Miðað er við fjölda æxla sem sást á myndgreiningu fyrir aðgerð en ekki fjölda æxla í meinafræðisvari, vegna þess að oft eru þau ekki greinanleg eftir lyfjameðferð.

Samráðsfundir

Á tímabilinu voru 63% af öllum tilfellum, með frumæxli í lifur, gallgöngum eða gallblöðru og meinvörpum í lifur, sem fóru í aðgerð, tekin fyrir á samráðsfundum hér á á landi, á meðan hlutfallið var 93% (p<0,0001) allra sjúklinga í Svíþjóð. Hlutfall þeirra sem ræddir voru á slíkum fundum á Íslandi jókst á tímabilinu úr 55% í 75% (mynd 6).

Mynd 6. Hlutfall sjúklinga með frumæxli í lifur, gallvegum eða gallblöðru ásamt meinvörpum í lifur sem fóru í aðgerð og voru ræddir á samráðsfundi eftir árum á Íslandi.

Af þeim 62 sjúklingum sem fóru í skurðaðgerð voru 41 (66%) ræddir á samráðsfundi fyrir aðgerð. Af þeim voru 14 teknir til aðgerðar innan 21 dags, eða 34% á móti 21% í Svíþjóð (p=0,05). Miðgildi daga frá samráðsfundi fram að aðgerð á Íslandi var 31 dagur, miðað við 40 daga í Svíþjóð. Munurinn var ekki marktækur.

Umræða

Yfir 70 sjúklingar greinast með krabbamein í lifur á Íslandi á hverju ári og eru meinvörp algengasta orsökin. Búast má við því að um fimmti hver sjúklingur gangist undir skurðaðgerð og er árangur skurðaðgerðanna hér góður með tilliti til fylgikvilla og aðgerðardauða í samanburði við Svíþjóð.

Þessi rannsókn er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi þar sem þessir mismunandi sjúkdómar, krabbamein í lifur, gallgöngum innan lifrar og gallblöðru, ásamt meinvörpum í lifur, eru skoðaðir saman til að kanna árangur lifrarskurðaðgerða á Íslandi. Flestar fyrri rannsóknir hafa skoðað einstakar krabbameinstegundir en ekki tekið öll krabbamein í lifur.17-19

Ef fjöldi hlutabrottnámsaðgerða á lifur á ári er borinn saman milli Íslands og Svíþjóðar má sjá að mun færri aðgerðir voru framkvæmdar á Íslandi borið saman við þau landsvæði í Svíþjóð sem framkvæma hvað fæstar aðgerðir. Munurinn var enn greinilegri þegar skoðaðar voru sérstaklega aðgerðir á meinvörpum í lifur. Sjá mátti marktæka aukningu á fjölda aðgerða í Svíþjóð eftir árum og það sama mátti sjá á Íslandi á seinni hluta rannsóknartímabilsins, þó fjöldi aðgerða sem er gerður hérlendis sé enn nokkuð undir því lægsta sem gerist í Svíþjóð. Tíðni lifrarfrumu-, gallvega- og gallblöðrukrabbameins er lág á Íslandi miðað við á heimsvísu en er samt sem áður sambærileg við það sem er í Svíþjóð, svo það getur varla skýrt þennan mun.20 Flestar aðgerðanna á Íslandi voru gerðar á meinvörpum í lifur en algengast er að þau komi frá æxlum í ristli og endaþarmi en nýgengi þeirra krabbameina er sambærilegt á Íslandi og í Svíþjóð.20 Í rannsókn Péturs Snæbjörnssonar og félaga kemur fram að krabbamein í ristli- og endaþarmi greinast ekki á lægri stigum á Íslandi en í löndunum í kringum okkur og skýrir það því ekki heldur lága tíðni lifraraðgerða.21 Því liggur einhver önnur ástæða þar að baki. Mögulega eru of fá tilfelli tekin fyrir á samráðsfundi þar sem mat á skurðtæki æxlanna er metið, eða að tilfellin greinist seint og séu þá ekki skurðtæk. Í þessu sambandi væri áhugavert að sjá hversu stór hluti allra þeirra sem greindust með meinvörp í lifur var tekinn fyrir á samráðsfundi við meinvarpsgreiningu.

Einnig er athyglisvert að sjá að á Íslandi var aldrei framkvæmd aðgerð á fleiri en 5 meinvörpum í lifur, en þær voru um 15-20% aðgerða í Svíþjóð. Auk þess voru talsvert færri hitameðferðir framkvæmdar á Íslandi miðað við í Svíþjóð. Möguleg skýring á færri hitameðferðum er að þær eru oft framkvæmdar af röntgenlæknum og því ekki skráðar í aðgerðakerfi Landspítala og koma því ekki fram við þá leit sem gerð var í þessari rannsókn.

Fylgikvillatíðni við hlutabrottnám á lifur hefur lengi verið há en hefur batnað á undanförnum áratugum með bættri skurðtækni og stuðningsmeðferð. Fleiri fengu fylgikvilla yfir flokki 2 á Clavien-Dindo-skalanum eftir aðgerð á Íslandi en í Svíþjóð, eða 43% á móti 35%, en munurinn reyndist ekki marktækur fyrir heildina né einstakar tegundir fylgikvilla. Fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á að tíðni fylgikvilla á Íslandi er hærri en gerist í öðrum löndum en rannsókn á skurðmeðferð lifrarfrumukrabbameina fyrir 1993-2012 sýndi fram á að 59% sjúklinga fengu fylgikvilla yfir 2 á Clavien-Dindo-skalanum.22 Þessi rannsókn virðist því gefa vísbendingar um að einhver lækkun sé að verða á fylgikvillatíðni. Erfitt getur verið að meta fylgikvilla eins og sýkingar í afturskyggnu þýði. Algengt er að sjúklingar séu settir á sýklalyf við hita eftir aðgerðir án þess að það sé klár ástæða fyrir honum, sýklalyf sem jafnvel eru tekin út innan sólarhrings. Í afturskyggnu þýði er þetta tekið með sem fylgikvilli en ætti að koma betur í ljós þegar farið verður að skrá framskyggnt.

Tíðni skorpulifrar í sjúklingum sem gengust undir aðgerð við lifrarfrumukrabbameini er lægri hérlendis, en líklegt er að þetta komi til með að breytast þar sem tíðni skorpulifrar fer vaxandi, en í þessari rannsókn var hlutfallið 52%, en á árunum 1984-1998 var hlutfallið 32% og 46% á árabilinu 1998-2013.17,18

Á Íslandi var hlutfall sjúklinga sem ræddir voru á samráðsfundi eftir greiningu til að ákveða meðferð marktækt lægra en í Svíþjóð. Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að þeir sjúklingar sem teknir eru fyrir á slíkum fundum séu með betri horfur.12,13 Mikilvægt er því að allir sem greinast með krabbamein eða meinvörp séu ræddir á slíkum fundum. Þennan mikla mun má mögulega rekja að hluta til lélegrar fundaskráningar í sjúkraskrárkerfum á Íslandi. Átak var gert í rafrænni skráningu samráðsfunda árið 2017 á kviðarholsskurðdeild Landspítala en ef það ár er tekið sérstaklega fyrir, má sjá að hlutfall sjúklinga sem voru ræddir á samráðsfundum hækkaði um 20% og fór upp í 75% allra sem greindir voru. Það er þó enn of lágt, en markmiðið er að allir sem greinast með krabbamein eða meinvarp í lifur, gallblöðru eða gallgöngum verði ræddir á samráðsfundi. Einnig var skoðað hlutfall þeirra sem fóru í aðgerð og voru ræddir á samráðsfundi, en það voru 66% af heildarfjölda aðgerðarsjúklinga, en ekki var marktækur munur á þeim sem fóru í aðgerð og hópnum í heild sinni.

Einn kostur rannsóknarinnar er að við gagnasöfnunina voru notuð stöðluð skráningarblöð sem byggjast á eyðublöðum gæðaskráningarinnar í Svíþjóð, en það auðveldar samanburð.

Samanburður var gerður við ársskýrslur sænsku krabbameinsskránnar fyrir árabilið 2009-2017. Þetta takmarkaði úrvinnslu að nokkru leyti þar sem aðeins var hægt að gera samanburð á því sem kom fram í sænsku skýrslunum en ekki beinan samanburð á gögnunum. Annar veikleiki er að rannsóknin er afturskyggn og skráning takmarkaðist því að öllu leyti við það sem skráð hafði verið í sjúkraskrá, en oft var skráningu ábótavant. Með uppsetningu gæðaskráningareyðublaðanna í Heilsugátt Landspítala má má hins vegar í framhaldinu skrá tilfelli í rauntíma, sem mun auka nákvæmni skráningarinnar. Einnig var þýði greindra lítið, sérstaklega í tilvikum gallganga- og gallblöðrukrabbameina, sem eru, eins og áður segir, sjaldgæfir sjúkdómar.

Við ályktum að árangur skurðaðgerða á lifur á Íslandi virðist sambærilegur við Svíþjóð þegar horft er til fylgikvilla og aðgerðardauða. Hins vegar eru á Íslandi gerðar talsvert færri aðgerðir á lifur miðað við höfðatölu og þá sérstaklega á meinvörpum til lifrar og er möguleg skýring að ekki séu allir sjúklingar með meinvörp til lifrar ræddir á samráðsfundi hérlendis.

 

Heimildir



1. Manfredi S, Lepage C, Hatem C, et al. Epidemiology and management of liver metastases from colorectal cancer. Ann Surg 2006; 244: 254-9.
https://doi.org/10.1097/01.sla.0000217629.94941.cf
PMid:16858188 PMCid:PMC1602156
 
2. Chow FC-L, Chok KS-H. Colorectal liver metastases: An update on multidisciplinary approach. World J Hepatol 2019; 11: 150-72.
https://doi.org/10.4254/wjh.v11.i2.150
PMid:30820266 PMCid:PMC6393711
 
3. Shirai Y, Sakata J, Wakai T, et al. "Extended" radical cholecystectomy for gallbladder cancer: long-term outcomes, indications and limitations. World J Gastroenterol 2012; 18: 4736-43.
https://doi.org/10.3748/wjg.v18.i34.4736
PMid:23002343 PMCid:PMC3442212
 
4. Bonadio I, Colle I, Geerts A, et al. Liver transplantation for hepatocellular carcinoma comparing the Milan, UCSF, and Asan criteria: long-term follow-up of a Western single institutional experience. Clin Transplantation 2015; 29: 425-33.
https://doi.org/10.1111/ctr.12534
PMid:25808782
 
5. Eggertsdóttir LÓ, Björnsson ES, Bergmann ÓM, et al. Lifrarígræðslur á Íslandi: afturskyggn rannsókn á ábendingum og árangri. Læknablaðið 2016; 102: 19-24.
https://doi.org/10.17992/lbl.2016.01.60
PMid:26734719
 
6. Yu SJ. A concise review of updated guidelines regarding the management of hepatocellular carcinoma around the world: 2010-2016. Clin Mol Hepatol 2016; 22: 7-17.
https://doi.org/10.3350/cmh.2016.22.1.7
PMid:27044761 PMCid:PMC4825164
 
7. Ferrero A, Vigano L, Polastri R, et al. Postoperative liver dysfunction and future remnant liver: where is the limit? Results of a prospective study. World J Surg 2007; 31: 1643-51.
https://doi.org/10.1007/s00268-007-9123-2
PMid:17551779
 
8. Wang Y, Wang ZQ, Wang FH, et al. The Role of Adjuvant Chemotherapy for Colorectal Liver Metastasectomy after Pre-Operative Chemotherapy: Is the Treatment Worthwhile? J Cancer 2017; 8: 1179-86.
https://doi.org/10.7150/jca.18091
PMid:28607592 PMCid:PMC5463432
 
9. Germain T, Favelier S, Cercueil JP, et al. Liver segmentation: practical tips. Diagn Intervent Imag 2014; 95: 1003-16.
https://doi.org/10.1016/j.diii.2013.11.004
PMid:24388431
 
10. Lalmahomed ZS, Ayez N, van der Pool AEM, et al. Anatomical versus nonanatomical resection of colorectal liver metastases: is there a difference in surgical and oncological outcome? World J Surg 2011; 35: 656-61.
https://doi.org/10.1007/s00268-010-0890-9
PMid:21161655 PMCid:PMC3032901
 
11. McDermott S, Gervais DA. Radiofrequency ablation of liver tumors. Sem Intervent Radiol 2013; 30: 49-55.
https://doi.org/10.1055/s-0033-1333653
PMid:24436517 PMCid:PMC3700792
 
12. Du C-Z, Li J, Cai Y, et al. Effect of multidisciplinary team treatment on outcomes of patients with gastrointestinal malignancy. W J Gastroenterol 2011; 17: 2013-8.
https://doi.org/10.3748/wjg.v17.i15.2013
PMid:21528081 PMCid:PMC3082756
 
13. Basta YL, Bolle S, Fockens P, et al. The Value of Multidisciplinary Team Meetings for Patients with Gastrointestinal Malignancies: A Systematic Review. Ann Surg Oncol 2017; 24: 2669-78.
https://doi.org/10.1245/s10434-017-5833-3
PMid:28337661 PMCid:PMC5539280
 
14. Isaksson B, Sandström P, Rizell M, et al. Cancer i lever och gallvägar Årsrapport nationellt kvalitetsregister, 2018. Í: SweLiv Rcvs, Västra sjukvårdsregionen, ritstj. Cancercentrum. se2018.
 
15. Dindo D, Demartines N, Clavien PA. Classification of surgical complications: a new proposal with evaluation in a cohort of 6336 patients and results of a survey. Ann Surg 2004; 240: 205-13.
https://doi.org/10.1097/01.sla.0000133083.54934.ae
PMid:15273542 PMCid:PMC1360123
 
16. Team RC. R: A language and environment for statistical computing. 2017.
 
17. Ragnarsdóttir B, Jónasson JG, Tulinius H, el al. Lifrarfrumukrabbamein á Íslandi. Læknablaðið 2001; 87: 527-31.
 
18. Sigurðsson B. Lifrarfrumukrabbamein á Íslandi 1998-2013. Háskóli Íslands, Reykjavík 2016.
 
19. Baldvinsdóttir B, Hauksson H, Haraldsdóttir KH. Gallblöðrukrabbamein á Íslandi 2004-2013. Læknablaðið 2017; 103: 179-83.
https://doi.org/10.17992/lbl.2017.04.131
PMid:28401874
 
20. Engholm G, Ferlay J, Christensen N, et al. NORDCAN: Cancer Incidence, Mortality, Prevalence and Survival in the Nordic Countries, Version 8.2: 2019. www.ancr.nu - maí 2022.
 
21. Snæbjörnsson P, Jónasson L, Jónsson Þ, et al. Ristilkrabbamein á Íslandi árin 1955-2004. Faraldsfræðileg og meinafræðileg athugun og samanburður á kynjum. Læknablaðið 2009: 95: 423-30.
 
22. Höskuldsdóttir AK, Blöndal S, Jónasson JG, et al. Skurðmeðferð lifrarfrumukrabbameins á Landspítala 1993-2012. Læknablaðið 2017; 103: 475-9.
https://doi.org/10.17992/lbl.2017.11.158
PMid:29083309

 

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica