0708. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Öldungadeildin. Að vakna. Ari Jóhannesson. - Minningar frá Connecticut

New Britain General Hospital, Connecticut, apríl 1978 Kl. 03.30

Það bregst ekki. Apríl er grimmastur mánaða, sagði frægt skáld fyrir löngu. Ég er ekki sammála – hvað mig varðar á apríl sér ellefu bræður og alla jafnósvífna. Fyrir hálftíma fleygði ég mér á fletið í litlu vaktkompunni, dró gisið tjald fyrir atburði kvöldsins og stillti öndunarmiðstöðina í heilastofni á SVEFN, VINSAMLEGA ÓNÁÐIÐ EKKI! Samt geltir símboðinn núna. Eins og alltaf. Gjammið brýst inn í náðarstundina, ryður draumahólfið og rífur upp varnarlaus augnlokin. Í fyrstu nær rumskandi vitundin aðeins utan um lítið brot af veröldinni: myrkvað herbergi, viftusuð, gamalkunna velgju – og -Bruno Stankiewicz, pólskan innflytjanda á sextugsaldri sem vinnur í Stanley-verksmiðjunni hér í borg. Dag hvern velta þar af færibandi þúsundir verkfæra: hamrar, hallamál, sagir, borar. Harkan skín af smíðatólunum frá Stanley og við fyrstu sýn er eins og sindrið úr stálinu hafi síast inn í andlit Stankiewicz með árunum. En hann var ekki beint stálsleginn þegar ég tók á móti honum í gærkvöldi og veiddi ævi hans upp úr gömlum sjúkraskrám og vitnisburði nágrannakonu sem vinnur á bráðamóttökunni.

Ari Jóhannesson lyflæknir og skáld

Alla virka daga kemur hann heim úr verksmiðjunni, afklæðist snjáðri yfirhöfn, heilsar konu sinni og fer rakleiðis að ísskápnum að sækja sér dós af Miller-bjór. Hvissið þegar hann krækir í álflipann og opnar dósina boðar daglega helgiathöfn síðustu 30 ára: Miller time! Eins og í sjónvarpsauglýsingunni. Sex bjórum síðar dottar Bruno yfir hafnaboltaleik í sjónvarpinu, oftast sjöunda leikhluta. Hann nær aldrei þeim níunda og síðasta. Þar til í gærkvöldi. Þegar kaldsveitt ógleðin lagði af stað upp meltingarveginn var staðan jöfn og þegar blóðgusan kom var Reggie Jackson að tryggja New York Yankees sigurinn gegn Los Angeles Dodgers með höggi sem sendi boltann lengst upp í stúku og aðdáendur hans í sjöunda himin.

Bráðamóttaka, kvöldið áður, kl. 23.10

Þegar ég spyr herra Stankiewicz út í áfengi, kveðst hann stöku sinnum bragða það. Hann fái sér eitt til tvö skot á kránni með félögum sínum við sérstök tækifæri. Sem bjóðist reyndar alltof sjaldan. Þegar hér er komið sögu í framhaldsnámi mínu veit ég að margir í hinum vinnandi stéttum vestanhafs líta ekki á bjór sem áfengi. Ég þynni því spurninguna niður í 4% og fæ grun minn staðfestan. Stankiewicz gefst þó lítið tóm til að endurskoða skakka heimsmynd sína því hinn nýi sannleikur er rétt farinn að gára yfirborðið á pólska jafnaðargeðinu þegar hann kastar aftur upp blóði, rétt áður en meltingarlæknirinn kemur í hús. Sá hefst þegar handa og skömmu síðar blasir sjúkdómsgreiningin við. Æðagúll neðst í vélinda hefur rofnað og úr honum vætlar blóð. Ég rifja í huganum upp glósurnar úr læknanáminu:

Aukinn þrýstingur í „portabláæð” af völdum skorpulifrar veldur æðagúlum í vélinda og/eða maga. Blæðing af völdum þeirra er algeng dánarorsök í þessum sjúklingahópi. Sjúkdómshorfur eru slæmar en skána umtalsvert ef viðkomandi hættir að drekka.

 

Ég virði herra Stankiewicz fyrir mér. Þunna húðina með marblettum á víð og dreif. Framsettan kvið, fullan af vökva. Kringum þrútinn nafla hlykkjast þandar bláæðar. Caput Medusa. Höfuð Medúsu. Ófreskjunnar í grískri goðafræði sem engum eirir. Í stað hárs á höfði hennar vaxa iðandi eiturslöngur og þeim sem horfist í augu við hana breytir hún í stein. Grísk klassík í hálfpólskum verksmiðjubæ í Ameríku. En ég lít ekki undan. Nú býst sérfræðingurinn til þess að sprauta alkóhóli inn í æðagúlinn og freista þess þannig að stöðva blæðinguna. Kaldhæðið, ekki satt, segir Dr. Tom Devers, meltingarlæknir með írskt blóð í æðum og áhugamaður um kráarrölt með námslæknum að loknum vinnudegi. Skömmu síðar hefur blæðingin stöðvast og þriðji blóðpokinn er að tæmast. Áður en Dr. Devers yfirgefur svæðið mælum við okkur mót á Rosie O´Gradys á morgun eftir vinnu og ég lofa að láta félaga mína vita.

Sjúkradeild kl. 03.40

Ég geng hægum, vélrænum skrefum eftir þröngum og illa lýstum gangi, í átt að legudeildinni, frá svefni til vöku, stjarfur á svip, uppvakningsaugun galopin. Herra Stankiewicz liggur á stofu 7 við gluggann. Hann fálmar út í loftið, tinandi augun gljá af hitasótt. Hann umlar eitthvað sem dóttir hans segir að sé tómt rugl. Hlutverk hennar og annarra barna innflytjenda er að túlka fyrir foreldra sína þegar þeir veikjast. Deyr hann? spyr hún. Í svip hennar er ofið hreinskilni æskunnar og æðruleysi erfiðrar lífsbaráttu kynslóðar fram af kynslóð í gamla landinu. Nei, ég held ekki, segi ég, en hann gerir það fyrr en síðar ef hann hættir ekki að drekka. Ég velti mismunagreiningunni fyrir mér. Deleríum tremens kemur varla til greina, til þess er of stutt liðið frá síðasta bjór. Ég hallast helst að ásvelgingu. Að magainnihald hafi ratað ofan í lungu við blóðuppköstin og valdið lungnabólgu. Skömmu síðar staðfestir röntgenmynd grun minn því hvít slæða þekur hluta hægra lungans. Næstu dagar verða erfiðir þessum æðrulausa innflytjanda. Í brekkunni framundan bíða áfengisfráhvarf, Wernickes-heilkenni, sýking og mögulega lifrarbilun og endurtekin blóðuppköst. Samt held ég að hann hafi þetta af. Ég veit ekki af hverju, hef það bara sterkt á tilfinningunni. En ef hann á að deyja, verður það vonandi ekki á minni vakt. Erfið sjúkratilfelli og dauðsföll sínkhúða smám saman viðkvæma sál unglækna. Á þessu stigi er húðin á minni álíka þykk og líknarbelgur og ég er þegar kominn með eitt dauðsfall á vaktinni, takk fyrir.

Nú er prestur mættur á staðinn. Ég dreg mig í hlé og tek til við að sinna öðrum verkefnum. Að þeim loknum held ég áleiðis til svefnkompunnar. Út um glugga sé ég hvar sjúkrabíll kemur upp brekkuna í átt að spítalanum. Blá blikkljósin eru síðustu eldingar óveðursnætur. Á austurhimni bjarmar fyrir blóðugri slikju dagrenningar.

Nokkrum dögum síðar heilsa ég upp á Stankiewicz. Hann situr við rúmið með næringu í æð og súrefni í nös. Dóttir hans er hjá honum og túlkar. Hann segist ekkert hafa játað fyrir prestinum og brosir. Þá veit ég að hann er hólpinn. Í bili að minnsta kosti. Hann er þakklátur fyrir umönnunina á spítalanum og hvað allir eru vinsamlegir við hann. Ég minni hann á að lifrin hafi borið vitni gegn honum og ekki talað neina tæpitungu. Hann er búinn að frétta það og er staðráðinn í að minnka bjórdrykkjuna og jafnvel hætta henni fyrir fullt og allt. Ég kveð hann með handabandi og óska honum góðs bata.

Um haustið frétti ég að Bruno Stankiewicz væri allur. Dánarorsökin var lifrarbilun. Rúmum 40 árum síðar minnist ég hans í hvert sinn sem ég nota Stanley-hamarinn minn og hallamálið.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica