05. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Sjá ekki að aðstaðan verði bætt í bráð, það er mat Höllu Þorvaldsdóttur

„Við höfum ekki heyrt neitt frekar frá heilbrigðisráðuneytinu,“
segir Halla Þorvaldsdóttir framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins

Frétt Læknablaðsins um að Krabbameinsfélagið hefði boðið 450 milljónir króna framlag yrði ráðist strax í uppbyggingu nýrrar dagdeildar vakti athygli. Málið var rætt á Alþingi. Heilbrigðisráðherra sagði þar framtakið virðingarvert. Hann sagðist vona að hægt yrði að nýta boðið en að það þyrfti að gera í samhengi við aðra uppbyggingu Landspítala.

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, hvetur yfirvöld til að bregðast við. „Aðstaða krabbameinssjúkra á Landspítala er óviðunandi.“ Undir það taka yfirlæknar deildarinnar. Mynd/gag

Halla segir að félagið hafi átt fund með nýjum forstjóra Landspítala sem hafi verið bæði skilningsríkur og meðvitaður um vandann. Ákvarðanir um húsnæðismál séu hins vegar ekki í höndum Landspítala heldur stýrihóps um Hringbrautarverkefnið NLSH ohf., Nýjan Landspítala.

Halla bendir á að aðalfundarsamþykkt félagsins gildi í eitt ár, en aðalfundurinn var í lok maí í fyrra. „Það er ekkert sem bendir til að þiggja eigi boðið.“ Því sé ekki útlit fyrir að breytingar verði á aðstöðu krabbameinssjúkra á meðan beðið er eftir að yfirvöld skilgreini hlutverk spítalans, þörf fyrir húsnæði út frá því og ástandsmeti allar byggingar.

„Það er auðvitað skynsamlegt að vita hvert stefnir en ég get ekki ímyndað mér annað en allur þessi ferill taki langan tíma. Ég spyr: Hvar eiga sjúklingar að fá þjónustu á meðan og hvernig á að vinna að bættri þjónustu?“ Enginn geti svarað því. „Vandinn er núna,“ segir Halla.

Krabbameinsleit forðað hundruð kvenna frá dauða

Yfir 450 konum var forðað frá ótímabærum dauða á árunum 1972-2020 með leghálskrabbameinsleit. Þetta kom fram í máli Laufeyjar Tryggvadóttur, framkvæmdastjóra Rannsóknar- og skráningarseturs Krabbameinsfélagsins, á Læknadögum.

Tölurnar eru miðaðar við andlát vegna leghálskrabbameins á árunum 1967-1971 og frá Krabbameinsfélaginu. „Þetta er klárlega vanmat því tölurnar voru á uppleið í löndum þar sem ekki var skimun,“ sagði hún í pontu.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica