03. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Hugleiðingar læknanema um hinsegin mál. Guðrún Anna Halldórsdóttir og Ívan Árni Róbertsson

Ungur nemur, gamall temur, segir málshátturinn. Með þeim hætti er fyrirkomulagi náms í læknisfræði háttað og gefst afar vel. Við lærum af þeim sem reyndari eru og viljum temja okkur jafn öguð og fagmannleg vinnubrögð. En hvað geta reyndari læknar lært af læknanemum sem eru að stíga sín fyrstu skref?

Guðrún Anna Halldórsdóttir, 3. árs læknanemi og formaður Ástblæs

 

Ívan Árni Róbertsson, 3. árs læknanemi og ritari Ástblæs

Fyrri hluta árs 2021 voru lögð drög að stofnun hinsegin félags læknanema sem ber nafnið „Ástblær“. Við erum hópur nemenda sem höfum áhuga á hinsegin málefnum og metnað fyrir því að gera betur hvað þau varðar. Markmið félagsins er að miðla fræðslu til samnemenda og standa vörð um hinsegin nema sem stunda nám við læknadeild Háskóla Íslands.

Þrátt fyrir gríðarlegar framfarir í átt að skilningsríkara samfélagi hefur ekki tekist að ná fram fullu félagslegu jafnrétti. Með þessum samfélagsbreytingum fylgja áskoranir sem læknastéttin verður að taka þátt í að finna lausn á. Þegar ný og betri meðferð við klínísku vandamáli lítur dagsins ljós, kappkosta læknar að uppfæra þekkingu sína því ótækt er að bjóða sjúklingum upp á úrelta meðferð. Sömu lögmál verða að gilda varðandi samskiptafærni læknis.

Grundvallarhugtök hinseginleikans

Hugtök sem gott er að styðjast við eru þessi: Kyneinkenni, kynvitund, kyntjáning og kynhneigð. Skilningur á þeim getur reynst vel til að öðlast betri innsýn í veruleika hinsegin fólks og hvernig það kýs að skilgreina sig. Kyneinkenni er hugtak sem lýsir líffræðilegum einkennum, þannig nær regnhlífarhugtakið intersex yfir fólk með ódæmigerð kyneinkenni.

Kynvitund snýst um upplifun einstaklings á eigin kyni. Upplifun flestra er í samræmi við úthlutað kyn við fæðingu og kallast það sís. Margir upplifa sig í gagnstæðu kyni og eru þá trans, eða blöndu af hvoru tveggja og eru þá kynsegin. Kyntjáning segir til um hvernig einstaklingur tjáir kynvitund sína, svo sem með hegðun, klæðavali og líkamstjáningu. Kynhneigð segir til um hverjum fólk laðast að. Þessum hugtökum er oft ruglað saman, sem getur leitt til misskilnings.1

Áskoranir í samskiptum

Læknanemar eru að stærstum hluta með jákvætt viðhorf til hinsegin fólks og vilja læra að eiga góð samskipti. Oftar en ekki fær heilbrigðisstarfsfólk litla sem enga fræðslu eða þjálfun í að bera kennsl á þarfir hinsegin fólks í heilbrigðisþjónustu. Rannsóknir hafa sýnt að læknanemum og öðru heilbrigðisstarfólki þykir oft krefjandi að ræða um kynhneigð og kynvitund við sjúklinga sína. Að auki þykir þeim erfiðara að ræða kynheilbrigði og kynhegðun hinsegin fólks en þeirra sem tilheyra ekki þeim hópi. Þetta getur leitt til þess að hinsegin fólk leitar síður heilbrigðisþjónustu af ótta við fordóma eða neikvætt viðhorf.2 Ef ekki tekst að byggja upp traust og gott meðferðarsamband er hætt við því að misst sé af mikilvægum upplýsingum sem geta skipt máli við val á meðferð. Í því felst meðal annars að fá fram óskir sjúklings um hvaða persónufornafn hann notar og virða þá ósk. Einnig er vert að taka fram að margir hafa fyrirfram myndaðar hugmyndir um hinsegin fólk sem geta verið byggðar á staðalímyndum um ákveðna kyntjáningu eða kynhneigð. Sem dæmi eru oft dregnar ályktanir um kynhegðun einstaklings, en öruggast er að spyrja hann út í eigin kynheilsu.3

Rauði þráðurinn

Í raun erum við í þessum pistli að ræða sömu hluti og í samskiptafræði sem kennd er við læknadeild HÍ. Það er að hlusta á sjúklinginn og mæta honum þar sem hann er, án þess að dæma. Við teljum að hægt sé að leiðrétta mismunun heilbrigðiskerfisins með því að búa til umhverfi sem býður alla velkomna og óskum eftir því að læknar séu með okkur í liði að gera umhverfi hinsegin fólks í heilbrigðiskerfinu enn betra.

Heimildir

 

1. Hinsegin frá Ö til A. otila.is/hinsegin-regnhlifin/kynvitund og-kyntjaning/kynvitund / - febrúar 2022.
 
2. McNamara MC, Ng H. Best practices in LGBT care: A guide for primary care physicians. Cleve Clin J Med 2016; 83: 531-41.
https://doi.org/10.3949/ccjm.83a.15148
PMid:27399866
 
3. Wahlen R, Bize R, Wang J, et al. Medical students' knowledge of and attitudes towards LGBT people and their health care needs: Impact of a lecture on LGBT health. PLoS One 2020; 15: e0234743.
https://doi.org/10.1371/journal.pone.0234743
PMid:32609754 PMCid:PMC7329058
 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica