6. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Alþingiskosningar 2021. 1. spurning. Meginþorri flokkanna telur þurfa meira fé til heilbrigðismála

Átta stjórnmálaflokkar svöruðu 9 spurningum Læknablaðsins sem snúa að stefnumarkandi ákvörðunum í heilbrigðisþjónustunni. Svörin verða birt í tölublöðunum fram að Alþingiskosningum 25. september næstkomandi. Svör við þremur spurningum eru í þessu tölublaði

Samfylkingin telur að verja eigi að minnsta kosti 11% af vergri landsframleiðslu til heilbrigðisþjónustunnar hér á landi. Píratar vilja að það verði að jafnaði 11% og Flokkur fólksins að það verði ekki minna en þessi 11%. Vinstri græn segja hins vegar að eðlilegt væri að miða við meðaltalseyðslu Norðurlandanna.

Hvorki Viðreisn né Framsókn telja rétt að miða útgjöld til heilbrigðismála við verga landsframleiðslu heldur þurfi að horfa á þjónustuþörfina. Viðreisn vill meira fé í málaflokkinn en Sjálfstæðisflokkurinn fullyrðir að þegar útgjöldin séu leiðrétt með tilliti til aldurssamsetningar landsmanna, sjáist að Ísland verji ekki lægra, heldur talsvert hærra, hlutfalli til heilbrigðismála en hin Norðurlöndin að Noregi undanskildum. Miðflokkurinn telur að horfa þurfi á þörfina.

 

 

1. SPURNING

Á Íslandi er varið lægra hlutfalli þjóðartekna til heilbrigðismála en á Norðurlöndunum. Heildarhlutfallið var 8,8% af vergri landsframleiðslu árið 2019 samkvæmt OECD. Tæplega 90.000 manns voru á undirskriftalista Kára Stefánssonar 2016 og hvöttu til þess að ríkið setti 11% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál. Við hvaða hlutfall telur framboð þitt rétt að miða?

Flokkur fólksins: Lágmark að verja 11% til heilbrigðismála

Flokkur fólksins telur að útgjöld til heilbrigðismála þurfi að auka verulega. Við viljum tryggja að heilbrigðiskerfið sé fjármagnað að fullu svo koma megi í veg fyrir langa biðlista eftir nauðsynlegum aðgerðum og meðferðum. Eins þarf að tryggja betur fjármögnun hjúkrunarheimila og fjölga hjúkrunar- og dvalarrýmum. Þá þarf að stórefla úrræði fyrir fólk með langvarandi sjúkdóma og aldraða, sem veita fólki möguleika á því að dvelja heima eins lengi og kostur er. Að verja 11% af VLF til heilbrigðismála er lágmarkskrafa af okkar hálfu.

Framsókn: Fjárframlög þurfi að miða við þjónustuþörf

Framsóknarflokkurinn vill að innlend heilbrigðisþjónusta verði áfram í fremstu röð. Útgjöld til heilbrigðismála nema ríflega fjórðungi útgjalda ríkisins. Gæta verður þess að þeir fjármunir sem veittir eru í heilbrigðiskerfið fari á rétta staði út frá íbúaþróun, aldurssamsetningu íbúa, samgöngum og fjarlægðum. Í þingsályktunartillögu sem allur þingflokkur Framsóknarflokksins lagði fram vorið 2017 var komið inn á mikilvægi þessara þátta. Sú þingsályktunartillaga var samþykkt með yfirgnæfandi hluta atkvæða á Alþingi sama vor. Heilbrigðisáætlun fram til ársins 2030 er m.a. byggð á þeirri tillögu. Fjárframlög til heilbrigðismála þurfa frekar að haldast í hendur við þjónustuþörf heldur en hlutfall þjóðartekna.

Miðflokkurinn: Vill öfgalausa nálgun óháð rekstrarformi

Miðflokkurinn styður skynsamar lausnir í heilbrigðismálum og til að unnt sé að fjármagna það eins og við viljum er mikilvægt að auka landsframleiðslu og þá um leið framlög til heilbrigðismála. Íslenskt heilbrigðiskerfi er að mörgu leyti gott og árangur þess góður í alþjóðlegum samanburði. Það hefur á að skipa vel menntuðu og hæfu starfsfólki en ýmislegt mætti þó betur fara. Aðgengi landsmanna að þjónustu er á sumum sviðum misjafnt eftir búsetu, biðlistar eftir tilteknum aðgerðum eru of langir og þörfum fólks fyrir samfellda þjónustu er ekki mætt sem skyldi. Síðast en ekki síst hefur skort skýra stefnu varðandi uppbyggingu íslenska heilbrigðiskerfisins. Skort hefur stefnumarkandi ákvarðanir og forgangsröðun hefur ekki verið skýr í átökum þeirra sem vilja ýmist auka eða draga úr einkarekstri heilbrigðisþjónustunnar. Miðflokkurinn vill öfgalausa nálgun sem fyrst og fremst snýst um að sinna þörfum þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda, óháð rekstrarfyrirkomulagi.

Piratar: 11% að jafnaði gæti verið viðmiðið

Píratar vilja fjárfesta í heilsu þjóðarinnar. Það er ekki aðeins gáfuleg fjárfesting, því heilbrigð þjóð getur gefið af sér, heldur er það grundvallarhlutverk hins opinbera að hlúa að velferð landsmanna. Að miða útgjöld til heilbrigðismála eingöngu við verga landsframleiðslu getur hins vegar fljótlega leitt velferðarþjóðfélag í ógöngur. Verg landsframleiðsla dróst t.d. saman á síðasta ári og samkvæmt því hefðu framlög til heilbrigðismála átt að minnka samhliða, einmitt þegar þörfin var mest á að gefa vel í. Þetta er því ekki fullkominn mælikvarði, en þó ágætis leiðarljós. 11% af vergri landsframleiðslu að meðaltali yfir einhver ár gæti þannig verið skref í átt að því heilbrigðiskerfi sem meirihluti landsmanna kallar eftir. Að því sögðu er ljóst að núverandi fjárframlög eru allt of lág, eins og niðurskurðarkrafan til Landspítalans ber með sér. Heilbrigðisþjónusta á að vera í hæsta gæðaflokki, heilsa þjóðarinnar á að vera í hæsta gæðaflokki og það er hvorki ókeypis né gert með hangandi hendi.

Samfylkingin: Telur að verja eigi að minnsta kosti 11%

Samfylkingin telur að forgangsröðun hjá ríkisstjórnum undanfarinna ára hafi komið harkalega niður á fjármögnun heilbrigðiskerfisins. Í stað uppbyggingar heilbrigðiskerfisins þegar hagur þjóðarbús vænkaðist í kjölfar efnahagshruns hefur innviðaskuldin haldið áfram að hlaðast upp í heilbrigðiskerfinu. Samfylkingin telur almenning á Íslandi eiga skilið jafnt aðgengi að fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem völ er á, óháð efnahag og búsetu, og við eigum ríkan mannauð í starfsfólki heilbrigðiskerfisins, en heilbrigðisstarfsfólki þarf að fjölga, sér í lagi hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum. Það er til mikils að vinna að skýra verkaskiptingu og bæta skipulag í heilbrigðiskerfinu svo tryggja megi hagkvæmustu ráðstöfun fjármuna hverju sinni. En það er bara önnur hliðin á vanda heilbrigðiskerfisins. Hin hliðin er sú að heilbrigðisþjónusta á Íslandi hefur árum saman verið undirfjármögnuð og undirmönnuð og þannig ekki getað uppfyllt væntingar og þarfir almennings.

Samfylkingin telur nauðsynlegt að miða framlag til heilbrigðis-þjónustu við það sem þekkist í nágrannaríkjum okkar þannig að a.m.k. 11% af vergri landsframleiðslu fari til heilbrigðisþjónustu í stað rúmlega 8%. Þessi vanfjármögnun kerfisins, sem blasir við, leiðir til meiri kostnaðar á öðrum sviðum samfélagsins og verri og ótryggari þjónustu. Með því að fjármagna heilbrigðiskerfið með fullnægjandi hætti spörum við talsverða fjármuni annars staðar í kerfinu.

Sjálfstæðisflokkurinn: Verg landsframleiðsla varasamur mælikvarði

Alþjóðlegur samanburður verður að fara fram á réttum forsendum. Hér á landi eru íbúar 65 ára og eldri hlutfallslega færri en í samanburðarríkjum og þjóðin ung, þó hún eldist hratt.

Þegar útgjöldin eru leiðrétt m.t.t. aldurssamsetningar sést að Ísland ver ekki lægra, heldur talsvert hærra, hlutfalli til heilbrigðismála en hin Norðurlöndin að Noregi undanskildum. Þó það sé um margt jákvætt að eiga næsthæsta hlutfallið á Norðurlöndum þá eru útgjöld ein og sér ekki eini mælikvarðinn.

Hlutfall getur t.a.m. verið varasamur mælikvarði til skemmri tíma, enda lækka útgjöld sem hlutfall af VLF gjarnan á tímum hagvaxtar en geta aukist á krepputímum. Í miklum hagvexti geta útgjöld til heilbrigðismála því vaxið þó að hlutfallið af VLF lækki ef vöxtur landsframleiðslu er hraðari en vöxtur útgjalda.

Mestu skiptir að einblína á gæði og árangur af þjónustunni. Hvernig hægt er að hámarka virði hverrar krónu sem lögð er inn í kerfið með hagsmuni notenda efst í huga, frekar en að einblína á hlutfall eyðslu.

  Heilbrigðisútgjöld hins opinbera % af VLF (2019) (án fjárfestinga), % Heilbrigðiskostnaður leiðréttur m.t.t. aldurssamsetningar, %
Noregur 9,0 9,3
Ísland 7,3 9,1
Svíþjóð 9,3 8,3
Danmörk 8,4 7,7
Finnland 7,0 5,8

Viðreisn: Framlagið miðist við vandaða greiningu á þörf

Viðreisn telur ekki rétta nálgun að miða útgjöld til heilbrigðismála við verga landsframleiðslu. Á Íslandi er sveiflukennt hagkerfi, sem treystir á fáa stóra útflutningsatvinnuvegi. Á árinu 2020 féll vísitala landsframleiðslu til dæmis um tæp 8 stig á sama tíma og auka þurfti verulega framlag til heilbrigðismála. Viðreisn telur að verja þurfi meira fé til heilbrigðismála en vill að framlagið miðist við vandaða greiningu á þörf hverju sinni. Slík nálgun er að mati okkar betur til þess fallin að mæta bæði þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir núna og áskorunum framtíðarinnar.

Vinstri græn: Hlutfallið miðist við Norðurlöndin

Á þessu kjörtímabili hefur hlutfall heilbrigðisútgjalda af vergri landsframleiðslu þokast í rétta átt. Í fjárlögum yfirstandandi árs er hlutfallið 9,2% af VLF en meðaltal Norðurlandanna væri eðlilegt hlutfall. Það er mikilvægt að halda áfram að bæta í, og jafnframt að tryggja að greiðsluþátttaka almennings í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu haldi áfram að lækka og nái einnig sömu stöðu og annars staðar á Norðurlöndunum. Hvað það síðarnefnda varðar hefur þegar náðst verulegur árangur á kjörtímabilinu. Árið 2018 nam hlutdeild íbúa Norðurlandaþjóðanna í heilbrigðiskostnaði 15,2% að meðaltali, sem eru nýjustu tölur sem til eru yfir Norðurlandameðaltalið. Greiðsluhlutfall íslenskra heimila af heilbrigðisútgjöldum hefur lækkað úr 18,3% árið 2013 niður í 15,6% árið 2019. Á kjörtímabilinu hefur 700 milljónum nú þegar verið varið í lækkun greiðsluþátttöku sjúklinga auk 800 milljóna á þessu ári. Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2022-2026 má ætla að hlutfallið verði komið niður í 13-14% um árið 2025.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica