4. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Lífið í Uppsölum í Svíþjóð. Birgitta Birgisdóttir

Fyrir 27 árum lá leið fjölskyldunnar þangað sem við ætluðum aldrei að fara til að fullnema það sem ég ætlaði aldrei að verða – svæfingalæknir.

Við enduðum í Uppsölum í Svíþjóð þar sem ég stundaði sérnám í svæfingum og gjörgæslu á einu af stærstu háskólasjúkrahúsum landsins. Ætlunin var að fókusera á sérnámið, flýta sér að klára og flytja aftur heim eins fljótt og hægt væri, eða bara taka ”Íslendinginn á þetta”!

Svæfing og gjörgæsla er ung sérgrein og það var mikil hvatning að fá að starfa með og kynnast einum af helstu frumkvöðlum Svía í greininni. Það var ómetanlegt að heyra lýsingar á framþróun svæfinga sem sérfræðigreinar og hvað þessir frumkvöðlar gerðu til að bæta tækni og svæfingaaðferðir, sem væri sjálfsagt ekki boðlegt í dag.

Sem ungur sérfræðingur vildi ég sjá og reyna meira og fékk tækifæri til að starfa á sjúkraþyrlu spítalans sem gaf möguleika á því að heimsækja flest sjúkrahús í Svíþjóð og sjá landið úr lofti árið um kring. Að fljúga frá Álandseyjum í sólarupprás inn yfir sænska skerjagarðinn til Stokkhólms er í minningunni ómetanleg sjón.

Að sérnámi loknu fékk ég tækifæri til að einbeita mér að svæfingum og deyfingum tengdum kvennadeildinni og í mörg ár sem stjórnandi sem síðan leiddi til þátttöku í stjórn svæfingalækna fyrir ófrískar konur í Svíþjóð og á Norðurlöndunum með tilheyrandi kennslu og þróun.

Síðustu árin hef ég starfað sem framkvæmdastjóri svæfinga á Akademiska háskólasjúkrahúsinu í Uppsölum, í alþjóðlegu umhverfi sem er bæði krefjandi og gefandi. Það er alveg sama hvar maður er, áskoranirnar eru þær sömu. Þrátt fyrir að COVID-19 hafi leikið okkur grátt eins og alla aðra þá hefur okkur tekist hingað til að halda uppi mikilli framleiðni á skurðdeildum spítalans þökk sé reyndu og samheldnu starfsfólki.

Svíþjóð er land möguleikanna þegar kemur að útivist og íþróttum. Lengi framan af nutum við fjölskyldan að renna okkur á svigskíðum en seinna meir fengum við gönguskíða-bakteríuna sem erfitt er að lækna og gerir öllum gott. Að koma úr flatneskjunni í Uppsölum í helsta skíðaland Svía er einstök upplifun sem allir verða að prófa. Í gegnum árin höfum við farið ófáar ferðir í Dalina, þar á meðal til Orsa sem býður upp á frábært gönguskíðaland. Ein besta minning frá ferðum okkar þangað var þegar við höfðum gengið 30 km, orðin þreytt, sveitt og svöng og gengum fram á lítið hús í skóginum þar sem vöfflur og súkkulaði var eldað á hlóðum. Þetta eru í minningunni bestu trakteringar sem við höfum nokkurn tíma fengið. Ekki langt þar frá er Mora þar sem hin fræga Vasa-ganga endar. Að sjálfsögðu höfum við fylgt Svíum og öðrum í spor Gustavs Vasa. Leiðin er 90 km þrekvirki sem allir með áhuga á gönguskíðum ættu að reyna. Fyrir okkur konur finnst síðan 30 km kvennaganga þar sem 10.000 kvensur safnast saman í keppni til að ná fram til Mora, hvattar af mökum og öðrum aðdáendum.

Uppsalir eru vel staðsettir, nálægt Stokkhólmi og alþjóðaflugvellinum Arlanda. Það er tiltölulega stutt til sjávar og fjalla. Umhverfið einkennist af flatlendi og skógi sem erfitt var að sætta sig við í byrjun. Þetta er stúdentaborg sem vaknar til lífs að hausti en leggst í dvala yfir sumarið. Hér hafa margir þekktir Íslendingar alið manninn eins og Snorri Sturluson, Vigdís Finnbogadóttir og hér skrifaði Laxness Ljós heimsins.

Það er öllum hollt að búa erlendis, víkka sjóndeildarhringinn og kynnast menningu annarra þjóða. Í fjarlægð lærir maður að meta landið sitt, náttúruna og heimahaga sína sem er ekki öllum gefið. Það er ekkert sem jafnast á við íslenska náttúru, friðsæld og hreina loftið. Við skulum ekki nefna íslenska sundlaugamenningu sem er eitt af því sem við söknum mest.

Þrátt fyrir bráðum 30 ár í Svíþjóð erum við enn Íslendingar.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica