4. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Bréf til blaðsins. COVID-19 og nýgengi krabbameina á Íslandi árið 2020

Árlega greinast um 1700 krabbameinstilfelli á Íslandi. Þann 28. febrúar 2020 var fyrsta tilfellið af COVID-19 staðfest á Íslandi og hættustig almannavarna virkjað. Þann 11. mars 2020 skilgreindi Alþjóðaheilbrigðisstofnunin COVID-19 sem heimsfaraldur. Þetta óvenjulega ástand hefur haft margvíslegar afleiðingar, þeirra á meðal eru áhrif samkomu- og ferðatakmarkana á nýgreiningar krabbameina. Ýmsar þjóðir hafa greint frá fækkun krabbameinsgreininga á árinu 2020.1-4 Mikilvægt er að við fylgjumst einnig með áhrifum faraldursins og aðgerðum gegn honum á íslenskt samfélag og drögum lærdóm af því fyrir framtíðina.

Skráning krabbameina

Krabbameinsskrá Íslands var notuð til að kanna mælanleg áhrif kórónuveirufaraldursins á nýgreiningar krabbameina á Íslandi. Það var gert með því að bera nýgengi ársins 2020 saman við meðaltal nýgengis þriggja ára þar á undan (2017-2019).

Skráning krabbameina byggist aðallega á niðurstöðum vefjarannsókna og er skráningin gerð samkvæmt kóðunarkerfi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Vefjarannsóknasvörin berast mánaðarlega til skrárinnar og eru borin saman við fyrri upplýsingar. Þegar öll vafaatriði hafa verið yfirfarin er nýskráningum bætt inn í hina eiginlegu krabbameinsskrá. Vistunarskrá heilbrigðisstofnana og dánarmeinaskrá eru einnig notaðar til að skrá þau fáu mein sem ekki eru greind á grundvelli vefjarannsóknar. Þessi greining tekur um 8 mánuði og þá fyrst er nýgengi ársins tilbúið til birtingar. Því er í þessari samantekt sleppt þeirri viðbót sem kemur frá Vistunar- og dánarmeinaskrá (2% skráðra meina), bæði fyrir árið 2020 og fyrir tímabilið 2017-2019. Þannig er um nánast sambærilegar upplýsingar að ræða fyrir árið 2020 og samanburðartímabilið.

COVID-19 og nýgengi krabbameina

Í töflu I eru talin upp atriði varðandi COVID-19 á Íslandi og aðgerðir stjórnvalda til takmörkunar útbreiðslu faraldursins sem líkleg eru til að hafa einna mest áhrif á samskipti fólks við heilbrigðiskerfið. Rauðmerkt eru atriði sem ætla má að hafi tengst mestri skerðingu á starfsemi og nýtingu heilbrigðisþjónustunnar. Þetta gildir um fyrstu bylgju faraldursins en þá var jafnframt mest um alvarleg veikindi og ótti almennings við afleiðingar smits eflaust mestur. Valkvæð starfsemi stöðvaðist að mestu leyti eftir að neyðarstig almannavarna var virkjað og þann 22. mars gaf Embætti landlæknis út fyrirmæli um að valkvæðar skurðaðgerðir yrðu ekki framkvæmdar frá 23. mars til 3. maí. Starfsemi sjálfstætt starfandi sérfræðilækna og göngudeilda sjúkrahúsa byggðist að miklu leyti á fjarþjónustu á þessu tímabili.5 Á tímabilinu sem merkt er með grænum lit var mjög lítið um smit og hugsanlega hafa þá ýmsir farið til læknis sem höfðu frestað því í fyrstu bylgjunni. Skipuleg skimun fyrir krabbameinum í brjóstum og leghálsi hófst einnig á ný snemma á græna tímabilinu.

Mynd 1. Nýgengi* krabbameina á Íslandi af 100.000 íbúum árið 2020 og tímabilið 2017-2019.

*Undanskildar eru greiningar sem byggja á Vistunar- og dánarmeinaskrá.

Á X-ás eru litamerkt tiltekin tímabil til samræmis við aðgerðir stjórnvalda sem talin eru upp í töflu I.

Mynd 1 sýnir að nýgengi krabbameinsgreininga af 100.000 íbúum var um 17% lægra í mars, apríl og maí 2020 miðað við næstu þrjú árin á undan. Í júní var nýgengið aftur á móti orðið hærra en á samanburðartímabilinu og hélst sú staða óbreytt út árið 2020.

Mynd 2. Uppsafnað nýgengi* krabbameina af 100.000 íbúum yfir árið 2020 og tímabilið 2017-2019.

*Undanskildar eru greiningar sem byggja á Vistunars- og dánarmeinaskrá.

Á mynd 2 sést hvernig uppsafnað nýgengi krabbameina var heldur lægra um mitt árið 2020 en á viðmiðunartímabilinu, en náði svo fyrra nýgengi á síðasta ársfjórðungi 2020 er það var 495 af 100.000, miðað við 489 af 100.000 íbúum árin 2017-2019.

Áhrif samfélagsaðgerða

Á Íslandi varð um 17% lækkun á nýgengi krabbameina í mars, apríl og maí um leið og mjög miklar samkomutakmarkanir voru á landinu í fyrstu bylgju COVID-19-heimsfaraldursins. Á þessu tímabili beindi til dæmis heilsugæslan þeim upplýsingum til fólks að hafa samband í gegnum síma eða netið en ekki koma beint á heilsugæslustöð. Lækkun á nýgengi var mest áberandi fyrir krabbamein í húð, brjóstum og ristli. Þarna ber þó að hafa varann á því að á Íslandi greinast aðeins 142 krabbamein á mánuði að meðal-tali og í svo lágum tölum gætir mjög áhrifa tilviljanasveifla. Tilviljunarsveiflur verða enn meira ráðandi þegar skoðuð eru einstök krabbamein og því þarf að taka slíkum niðurstöðum með sérstökum fyrirvara þó að þær geti gefið vísbendingar um stöðu mála. Einnig væri útilokað að merkja fækkun sjaldgæfra meina hjá svo lítilli þjóð.

Þó að tilviljanasveiflur gætu mögulega skýrt ofanskráða lækkun nýgengis má reikna með því að færri hafi leitað til heilbrigðisþjónustunnar vegna faraldursins og þar með færri farið til dæmis í ristilspeglun. Einnig var gert hlé á lýðgrunduðum brjósta- og leghálskrabbameinsskimunum á Norðurlandi frá 10. mars og lá skimunin niðri á öllu landinu frá 24. mars til 4. maí 2020. Áhyggjuefnið varðandi tímabundna fækkun greindra krabbameina í ristli og brjóstum er að slík mein kunni að greinast síðar og þá mögulega á alvarlegri stigum en ef þau hefðu greinst fyrr.

Mikilvægi þess að halda faraldrinum niðri

Samantekið má segja að í samanburði við meðaltal áranna 2017-2019 varð lækkun á nýgengi greindra krabbameina á Íslandi í mars, apríl og maí 2020 og má telja líklegt að það hafi verið vegna farsóttarinnar. En vegna aukinnar greiningarvirkni seinni hluta ársins 2020 var uppsafnað nýgengi greindra krabbameina hið sama árið 2020 og meðaltal áranna 2017-2019. Líklegast getum við þakkað það skynsamlegum viðbrögðum stjórnvalda og góðri þátttöku almennings í þeim aðgerðum að faraldrinum var haldið í skefjum. Þar með var samfélaginu gert kleift að bjóða þegnum sínum upp á þá nauðsynlegu heilbrigðisþjónustu sem þarf til að greina krabbamein tímanlega.

Að lokum viljum við nefna að Norrænu krabbameinsskrárnar hafa fengið styrk frá samtökum Norrænu krabbameinsfélaganna til að kanna áhrif COVID-19-faraldursins á nýgreiningar krabbameina á Norðurlöndunum, ásamt því að skoða áhrif sýkingarinnar á meðferð og horfur krabbameinssjúkra. Það verður áhugavert að sjá hvernig við Íslendingar munum koma út í þeim samanburði.

Heimildir

 

1. Dinmohamed AG, Visser O, Verhoeven RHA, et al. Fewer cancer diagnoses during the COVID-19 epidemic in the Netherlands. Lancet Oncol 2020; 21: 750-1.
https://doi.org/10.1016/S1470-2045(20)30265-5
 
2. Maringe C, Spicer J, Morris M, et al. The impact of the COVID-19 pandemic on cancer deaths due to delays in diagnosis in England, UK: a national, population-based, modelling study. Lancet Oncol 2020; 21: 1023-34.
https://doi.org/10.1016/S1470-2045(20)30388-0
 
3. Kaufman HW, Chen Z, Niles J, et al. Changes in the number of US patients with newly identified cancer before and during the coronavirus disease 2019 (COVID-19) pandemic. JAMA Netw Open 2020; 3: e2017267.
https://doi.org/10.1001/jamanetworkopen.2020.17267
PMid:32749465 PMCid:PMC7403918
 
4. Skovlund CW, Friis S, Dehlendorff C, et al. Hidden morbidities: drop in cancer diagnoses during the COVID-19 pandemic in Denmark. Letter to the Editor. Acta Oncol 2021; 60: 20-3.
https://doi.org/10.1080/0284186X.2020.1858235
PMid:33287604
 
5. Elínardóttir SH, Sigurjónsdóttir BB, Guðfinnsdóttir GK, et al. Starfsemi heilbrigðisþjónustu á tímum COVID-19. Talnabrunnur. Fréttabréf landlæknis um heilbrigðisupplýsingar 2020; 14.
 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica