3. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Dagur í lífi háls-, nef- og eyrnalæknis. Kristján Guðmundsson

Allt einhver allsherjar misskilningur. Kolniðamyrkur og einhver að leika vögguvísu. Skil smám saman að þetta er vekjaratónninn í nýja símanum. Einhver húmoristi austur í Kóreu hefur valið þetta tónskrípi til að vekja mig. Ég rís upp og slekk á kvikindinu. Klukkan er 6:15. Fer að iðrast þess að hafa stungið upp á fundartíma kl. 8. Egg og hafragrautur en engin blöð komin, útburðurinn sofandi og engar minningargreinar, bridgeþættir eða Ferdinand.

Í dag er skrifborðsdagur og engin móttaka. Flest verkefni dagsins vegna samninga sérfræðilækna.

Mættur snemma í Hlíðasmárann til fundar við formann LR og tvo lögfræðinga. Þétt prógram, 8 liðir á dagskrá og fundi skal lokið kl. 9. En fyrst átök við kaffivélina. Alltaf þegar ég kem að kaffivél skal hún þurfa að keyra heavy maintenance program. Hef sterklega á tilfinningunni að fyrsti dreitillinn eftir hreinsun sé ekkert skárri en kælivökvinn úr Chernobyl.

Fundurinn fínn, gaman að vinna með kunnáttufólki.

Síðan taka við símtöl, tölvupóstar og snarl með léttum spenningi fyrir stóra bankamálið. Leigði bankahólf fyrir mörgum árum tengt fasteignakaupum og einhverjum Húsbréfum. Setti sjálfsagt eitthvað fleira í hólfið. Bankinn búinn að skipta um nafn og flytja hólfin og nú enn einn ganginn er ég beðinn um að tæma hólfið. Látinn panta tíma með löngum fyrirvara og fékk stöðugan straum af áminningum um þennan mikilvæga atburð. Las leiðbeiningarnar og sá að aðalinngangurinn væri lokaður og ég ætti að nota bakdyrainngang. OK, gerði það, fann hurð við gám og setti upp grímuna. Sko COVID-grímuna, ekki hina. Hurðin var læst og hvergi mannveru að sjá. Hefði lögreglan komið hefði ég verið tæpur, í hettuúlpu, grímuklæddur með bakpoka og bjánalegar skýringar um að bankinn hefði boðað mig á fund. Svo var opnað, ég leiddur niður í kjallara, látinn kvitta og framvísa lyklunum. Maðurinn kom svo með sinn lykil en það þarf tvo til að opna hvelfinguna, meina hólfið. Það var af minnstu gerð. Maðurinn vék til hliðar og lét mig einan um að handfjatla dýrgripina. Fékk snert af innilokunarkennd, aleinn í hvelfingunni og hvað ef hann lokaði nú stáldyrunum og fleygði lyklinum? Ég harkaði af mér og opnaði. Það flassaði í fjölmörgum synöpsum þegar ég sá að ílátið var galtómt. Mikil vonbrigði, ekki arða af illa fengnu fé, eðalsteinum eða ættargripum. Eins og fágaður diplómat sagði bankamaðurinn að ég hefði síðast opnað hólfið 2012. Ég man ekkert eftir því og heldur ekki af hverju ég var að leigja tómt bankahólf.

Þurfti bolla af góðu kaffi og hrökkbrauð (þetta sem lítur út eins og spónaplata eða ódýrt byggingarefni) til að jafna mig eftir bankahneykslið. Svo kl. 3 var ég í beinni eða þannig, fjarfundur hjá Embætti landlæknis um lágmarksskráningu á heilsugæslustöðvum og læknastofum. Hvað er skráð, hvers vegna og hvað er svo gert við upplýsingarnar? Þetta er skráð: „Hjúskaparstaða samkvæmt þjóðskrá á þeim tímapunkti sem samskiptin fara fram. Nauðsynlegt er að geyma þessar upplýsingar með samskiptunum vegna þess að hjúskaparstaða getur breyst.“ Og kóðar fyrir hverja hjúskaparstöðu. Það þarf ekki að spyrja sjúklinga, sjúkraskrárkerfin fletta þessu upp en er engu að síður atriði sem á að fara inn fyrir hverja komu. Ekki viss um að sjúklingar viti um upplýsingagjöfina og hvað gert er við þessar upplýsingar. Hefur verið birt samantekt eða niðurstaða? Þetta er angi af stærra máli og snýr að greiningum og aðgerðum sem eru viðkvæmar. Þurfa þær að vera persónugreinanlegar eða dugar samantekt? Þarf samþykki sjúklings? Brýtur skráning og innsending í bága við lög um persónuvernd? Það er ekki tekið á þeim brotum með neinum silkihönskum, hámarkssekt upp á 2,4 milljarða. Umgangist með gát.

Næst í stöðunni er kvöldmaturinn. Það er góð hvíld frá amstrinu. Skrapp í fiskbúðina og fékk mér ýsuflak. Maður fer í hringi með eldamennskuna, austurlenskt, indverskt og alls konar, en með góðan fisk er einfaldleikinn vanmetinn, hafa hitann hóflegan og taka eldunartímann alvarlega. Karamelliseraður laukur tekur 45 mín en er fyrirhafnarinnar virði. Fiskurinn látinn malla í smjöri yfir vægum hita. Kartöflur, salt og pipar, punktur.

Ég man ekki hvort ég gerði eitthvað frásagnarvert eftir kvöldmat. Fór allavega frekar snemma í háttinn, las eins og venjulega og stillti vekjarann í nýja símanum á 6:30. Framundan heill dagur á stofu og viss tilhlökkun að komast í umhverfi sem er manni tamt. Ég hef ákveðið að halda vögguvísuvekjaranum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica