3. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Mynd ársins og myndasería teknar á Landspítala. Þorkell Þorkelsson verðlaunaður

Blaðaljósmyndarafélagið verðlaunar Þorkel Þorkelsson, ljósmyndara á Landspítala

„Ég sá ekki í gegnum vélina fyrir plastpokanum utan um hana og öryggisbúnaðinum,“ segir Þorkell Þorkelsson, ljósmyndari á Landspítala. Ljósmynd hans var valin mynd ársins 2020 og myndir frá kvöldvakt á deildum A6 og A7 í Fossvogi voru valdar myndasería ársins af Blaðaljósmyndarafélaginu. Myndin hér með fréttinni er hans uppáhalds úr seríunni.

„Maður varð bara að giska og ég er sérlega ánægður með þessa,“ segir þessi þrautreyndi ljósmyndari sem hefur haft ljósmyndun sem aðalstarf allt frá árinu 1983. Hann lýsir andrúmsloftinu þegar hann tók myndirnar í heimsfaraldrinum sem nú geisar.

Þorkell Þorkelsson, ljósmyndari á Landspítala, valdi þessa mynd sem sína uppáhalds úr 8 mynda seríu sem var valin sú besta af Blaðaljósmyndarafélaginu. Hann átti einnig mynd ársins 2020. - Læknablaðið hefur birt fjölmargar myndir úr vél Þorkels, og ævinlega átt gott samstarf við hann. Blaðið sendir honum bestu óskir í tilefni þessara vel forþéntu verðlauna. Mynd/Þorkell

„Þetta er alvörumál. Mér fannst fólkið bratt og taka ástandinu af æðruleysi. Mér fannst áberandi hvað margar konur vinna í þessu. Það vakti aðdáun hvað heilbrigðisstéttirnar stóðu sig vel. Hvort sem það voru læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar eða það fólk sem vann við að sótthreinsa. Stemmningin var góð en ég skynjaði alvöru þunga í andrúmsloftinu.“

Þorkell hefur áður unnið til verðlauna sem fréttaljósmyndari og segir alltaf gaman fá viðurkenningu fyrir störf sín. „Mér þykir vænt um það og starfið sem við vinnum á spítalanum,“ segir hann og er hæverskur. „Ég er gamall skarfur í faginu og veit að maður á ekki að uppveðrast yfir neinu.“ Hann sé í samkeppni við sjálfan sig.

„Ég vil að öll verkefni, sama hvers eðlis þau eru, séu gefandi og gef því allt í þau sem ég get. Maður þarf alltaf að vanda sig, sama hvort það er fundur eða dramatík. Ég hef ánægju af því að gera hlutina vel.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica