2. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Ferð öldungadeildar LÍ á Snæfellsnes 22.-24. ágúst 2020. Kristófer Þorleifsson

Haldið var af stað frá Hlíðasmára 8, kl. 9:30 árdegis, og stefnan sett vestur á Snæfellsnes. Alls voru í förinni 34 auk bílstjóra. Fararstjórar Kristófer Þorleifssson og Óttar Guðmundsson. Vegna sóttvarnareglna voru öllum boðnar andlitsgrímur, hanskar og spritt.

Haldið var af stað frá Hlíðasmára 8, kl. 9:30 árdegis, og stefnan sett vestur á Snæfellsnes. Alls voru í förinni 34 auk bílstjóra. Fararstjórar Kristófer Þorleifssson og Óttar Guðmundsson. Vegna sóttvarnareglna voru öllum boðnar andlitsgrímur, hanskar og spritt. Ekið var upp í Borgarnes þar sem áð var í skamma stund, en síðan ekið áfram vestur. Við Vegamót kom Sæmundur Kristjánsson fyrrverandi hafnarvörður við landshöfnina í Rifi til móts við hópinn og var leiðsögumaður okkar fyrsta daginn. Fyrsti viðkomustaður var Staðastaður (Staður á Ölduhrygg) og var kirkjan skoðuð undir leiðsögn Ragnhildar Sigurðardóttur (svæðislóðs og sögufylgju) framkvæmdastjóra Svæðisgarðs Snæfellsness, sem jafnframt sagði sögu kirkjunnar og ýmissa kirkjugripa.

Sagnaritarinn Ari fróði Þorgilsson er talinn hafa búið á Staðastað á 12. öld. Fjórir prestar frá Staðastað urðu biskupar (Marteinn Einarsson, Halldór Brynjólfsson, Gísli Magnússon og Pétur Pétursson). Af síðari tíma prestum má nefna Kjartan Kjartansson sem var prestur á árunum 1922-1938 og einnig hugvitsmaður og viðgerðarmaður og er talin ein fyrirmyndin að séra Jóni prímusi í Kristnihaldi undir Jökli og Þorgrím V. Sigurðsson sem var prestur á Staðastað 1944-1973. Þorgrímur var skólamaður mikill og jafnvígur á flestar greinar og var hann síðastur íslenskra kennimanna til að halda heimaskóla að gömlum sið og búa unglinga undir framhaldsnám. Eftirmaður sr. Þorgríms var sr. Rögnvaldur Finnbogason frá 1973-1995 og síðan sr. Guðjón Skarphéðinsson frá 1996 til 2014.

Mynd 1 Hópmynd sem tekin var við Langaholt í Staðarsveit. Mynd/Hörður Þorleifsson

Í kirkjugarðinum á Staðastað er svokallaður Franski reitur þar sem grafnir eru tæplega 40 Frakkar er drukknuðu þegar 6 franskar skútur fórust úti fyrir Staðarsveit og með þeim yfir hundrað skipverjar, árið 1870. Ýmsir þekktir menn koma einnig við sögu Staðastaðar. Jóhann Jónsson skáld var fæddur á Staðastað og einnig Ragnar Kjartansson myndhöggvari. Minnisvarði um Ara fróða eftir Ragnar var reistur á Staðastað 1981. Steinkirkja er á Staðastað og var reist á árunum 1942-1945. Í henni eru meðal annars listaverk eftir Tryggva Ólafsson og Leif Breiðfjörð.

Mynd 2. Í kirkjunni á Staðastað. Mynd/Guðmundur Viggósson

Frá Staðastað var síðan haldið að Búðum og Búðakirkja skoðuð. Þar fræddi okkur um kirkjuna Dagbjört Dúna Rúnarsdóttir sögufylgja og sagnaþulur og söng að lokum sálm Kolbeins Tumasonar „Heyr himnasmiður“ við lag Þorkels Sigurbjörnssonar. Eftir kirkjuferðina var nesti snætt undir kirkjuveggnum, heimabakaðar kleinur og flatbrauð með hangiketi og fleira. Þessu var rennt niður með kaffi og síðan var boðið upp á rautt og hvítt og bjór.

Mynd 3. Kirkjan á Búðum. Myndir á þessari blaðsíðu/Guðmundur Viggósson

Ekið var síðan áfram út í Breiðuvík og áð að bænum Litla-Kambi og þar skoðuð glæsileg málverkasýning þeirra feðgina Baltasar Samper og Mireyju. Að því loknu var ekið á Arnarstapa, höfnin skoðuð og styttan af Bárði Snæfellsáss. Um klofið á Bárði fer stríður straumur Japana sem telja það bæta kynorku sína.

Mynd 4. Á Arnarstapa.

Ekið var að Hellnum og að minnismerki Guðríðar Þorbjarnardóttur. Síðan ekið fyrir Nes og niður að Djúpalónssandi og áfram að Gufuskálum, gegnum Hellissand, Rif og Ólafsvík og þaðan suður yfir Fróðárheiði og komið í Langaholt kl. 19. Þar kvöddum við Sæmund Kristjánsson og þökkuðum honum góða leiðsögn og fræðslu með lófataki. Þá nutum við leiðsagnar fararstjóranna og fengum mikinn fróðleik frá Óttari, bæði úr Eyrbyggju og Sturlungu. Á Langaholti tók á móti okkur hótelstjórinn og staðarhaldarinn Keli vert og sest var að dýrindis kvöldverði um kl. 20.

Mynd 5. Við höfnina í Stykkishólmi.

Eftir nærandi nætursvefn og góðan morgunverð var haldið af stað á ný og ekið yfir Fróðárheiði og inn Fróðárhrepp, en þar eru merkir staðir úr Eyrbyggju eins og Fróðá og Mávahlíð. Óttar rifjaði upp Fróðárundrin. Haldið var um Búlandshöfða í Grundarfjörð og síðan um Kolgrafarfjörð og Hraunsfjörð í Berserkjahraun. Áð var í Bjarnarhöfn, hákarlasafnið skoðað og kirkjan, sem er með altaristöflu sem máluð er af holllenskum meistara á 12. öld og gefin af hollenskum skipbrotsmönnum sem bjargað var og sýnir hún Jesú Krist sem virðist fylgja eftir með augunum þeim sem á hann horfir. Ekið var því næst í Stykkishólm og dvalið um stund við höfnina þar og síðan ekið um bæinn, sjávarréttarsúpa borðuð á hótelinu og þar á eftir Eldfjallasafnið skoðað. Að því loknu ekið að Helgafelli og síðan inn í Álftafjörð og hlýtt á Óttar ræða um Snorra goða og Guðrúnu Ósvífursdóttur. Ekið síðan suður í Langaholt um Vatnaleið og kvöldverður snæddur. Daginn eftir ekið suður. Heim komu ferðalangar þreyttir og ánægðir.


Mynd 6. Snæfellsjökull að sunnanverðu.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica