2. tbl. 107. árg. 2021

Umræða og fréttir

Tveir af tíu glíma við frjókornaofnæmi hér á landi, segir Michael Clausen

Hátt í 50 börn hefja afnæmingu við grasofnæmi nú í ársbyrjun. Þrjú ár tekur að losna við ofnæmi en flestir verða góðir fyrsta sumarið. Michael Clausen barnalæknir segir kókosofnæmi hafa greinst hér á landi eftir að foreldrar hófu að bera kókosolíu á ung börn sín

Allt að 20% fullorðinna hér á landi og 10-15% barna hafa frjókornaofnæmi. Ofnæmi er genatengt. „Erfðir og umhverfi skipta máli,“ segir Michael Clausen barna- og ofnæmislæknir á Barnaspítala Landspítala. Hann hélt tvö erindi á Læknadögum. Annað um hvort hægt sé að lækna ofnæmi og hitt um tilfinningar ónæmiskerfisins.

viðtla

Hátt í 50 börn sækja nú í upphafi árs í fyrsta sinn á Landspítala í afnæmingu ofnæmis gagnvart grasi. „Það þarf að byrja þremur fjórum mánuðum áður en frjókornatímabilið byrjar. Svo við gerum þetta nú í janúar og febrúar,“ segir hann. En er meðferðin dýr?

Michael Clausen barnalæknir segir fæðuvalið orðið svo miklu fjölbreyttara hér á landi en áður og því meira um ofnæmi fyrir fágætri fæðu. Hann segir kókosofnæmi hafa greinst hér eftir að foreldrar hófu að bera kókosolíu á ungabörn sín. Mynd/gag

„Dýr og ekki dýr,“ svarar hann og nefnir 200-250.000 krónur á ári. „Hún er blessunarlega niðurgreidd að verulegum hluta af Sjúkratryggingum Íslands.“ Hann bendir á að draga þurfi kostnað lyfjanna sem voru notuð og skerðinguna á lífsgæðunum frá kostnaðinum. „Þá er hún ódýr,“ segir hann og brosir.

Gefið gras til að lækna ofnæmið

Michael bendir á að menn hafi velt fyrir sér í meira en 100 ár hvort hægt sé að bæta eða lækna ofnæmi. „Aðferðir afnæmingar ofnæmis eru yfir 100 ára gamlar. Þegar best tekst til verða einstaklingarnir algjörlega einkennalausir á sumrin. Það hefur orðið gríðarlega mikil þróun á því sviði. Sérstaklega á undanförnum áratugum.“

Grasofnæmi er algengast bæði hér á landi og á meginlandi Evrópu. Trjáofnæmi hrjáir aðra Norður-Evrópubúa frekar en okkur landsmenn, þá helst birkiofnæmi. „Þar hefur helst verið stunduð afnæming vegna grass, birkis og rykmaura.“ Sprautumeðferð var stunduð mest alla síðustu öld en í tæpa tvo áratugi hefur þessi töflumeðferð komið sterk inn.

„Ein tafla á dag í þrjú ár. Taflan leysist upp í munninum. Þetta er ekki lyf í raun heldur gras sem ofnæmisvakinn hefur verið einangraður úr og einstaklingurinn fær í örlitlum skammti í töflunni. Meðferðin hefur það fram yfir sprautumeðferðina að hún virkar strax fyrsta sumarið en það tók nokkur sumur fyrir sprautumeðferðina,“ segir hann. Þá er hægt að taka töfluna heima fyrir.

Lyf við birkiofnæmi hefur ekki verið skráð á Íslandi en lyfið er gefið í mörgum löndum í kringum okkur. „Afnæmingarmeðferð fyrir frjókornum hefur gengið mjög vel og virkar vel. Það er til mikilla hagsbóta fyrir þá sem það hafa.“

Fæðuofnæmi eykst hér á landi

Michael hefur verið ofnæmis- og barnalæknir á Landspítala í um tvo áratugi. „Praktískt en fyrst og fremst skemmtilegt“ segir hann um valið á sérgreininni. Hann segir ofnæmislækna sjá fleiri og fleiri ofnæmi fyrir fæðu hér á landi.

„Fæðuvalið er orðið miklu fjölbreyttara,“ bendir hann á. „Við borðuðum ekki mikið af hnetum hér áður fyrr og höfðum því helst ofnæmi fyrir jarðhnetum en nú er framboðið meira og möguleikarnir á að næmast fyrir fleiri tegundum. Við greinum kasjúhnetuofnæmi nú til jafns við jarðhnetuofnæmi,“ segir hann.

Hann nefnir einnig ofnæmi fyrir kókoshnetum. „Ég bjóst aldrei við að upplifa kókosofnæmi hér á landi. En það var lenska að bera kókosolíu á börn með exem. Talið er að næmingin geti verið í gegnum húðina og kókosolía menguð af kókosprótínum býður hættunni heim.“ Hann mælir þess vegna gegn því að bera kókosolíu á börn sem hafa exem. „Kókosofnæmi er nýr landnemi hér,“ segir hann. „Foreldrar hafa lært að bera ekki jarðhnetuolíu á börn og kókosolía er eins.“

Michael segir hægt að afnæma gegn dýraofnæmi en útkoman hafi ekki verið eins vel lukkuð og því lítið um meðferðina hér á landi. „ Ávinningurinn svarar ekki kostnaði auk óþæginda sem þetta hefur í för með sér fyrir sjúklinginn“

Ofnæmi getur elst af fólki

Michael segir erfitt að afnæma fyrir fæðu en fæðuofnæmi eldist þó stundum af fólki. „Einstaklingurinn á alltaf séns. Ofnæmi fyrir mjólk, eggjum, hveiti og soya getur elst af börnum. Síður ofnæmi vegna hneta og sjávarfangs. En afnæming vegna fæðu getur gengið brösuglega og ekki hægt að lækna fæðuofnæmi með þeim aðferðum sem við þekkjum. Hægt er að auka magnið sem hver þolir áður en einstaklingurinn fær ofnæmiskast,“ segir hann.

En mælir hann með einhæfri öruggri fæðu fyrir börn upp að vissum aldri? „Nei,“ svarar hann ákveðið. „Það gefur ekki árangur.“ 7-8 mánaða börn mega til að mynda borða fisk og egg. Foreldrar eiga heldur ekki að verja börn sín fyrir sínum ofnæmisvöldum. „Ekki endilega. Börn erfa ekki ofnæmi foreldra sinna heldur eiginleikann að mynda ofnæmi.“ Hann segir að í hvert sinn sem matur sé innbyrtur í fyrsta sinn skoði ónæmiskerfið hann og meti.

Michael segir þróunina í ónæmislækningum hraða. Spennandi hlutir séu að gerast. „Þótt okkur hafi gengið illa með fæðuofnæmi, sem er hamlandi fyrir fólk og óþægilegt, getum við með tilkomu líftæknilyfja mögulega haft betri áhrif og stýrt afnæmingarmeðferðinni. Hugsanlega tekst með auðveldari hætti að lækna fæðuofnæmi með tilkomu líftæknilyfja sem notuð væru samtímis afnæmingunni.

Bóluefnaþróun á annan áratug

Michael hefur unnið með evrópskum vísindahópi, fólki frá Spáni, Ítalíu, Hollandi og Grikklandi, síðustu 12 ár að því að búa til bóluefni gegn fiskofnæmi. „Það hefur því verið ævintýralegt að fylgjast með þróun bóluefna gegn kórónuveirunni. Hópurinn minn hefur í 14 ár unnið að þessu fiskiofnæmisbóluefni og við erum enn á fasa tvö af þremur,“ segir hann. Starfið strandi nú á fjárþörf. Of fáir þjáist af fiskiofnæmi til að féð streymi að.

„Hugsanlega hefðum við átt að einblína á skelfiskofnæmi,“ segir Michael. „Það er bæði algengara og því líklegra að fjársterkir aðilar hefðu veðjað á það með okkur.“

Michael segir að hann hafi aldrei séð fyrir sér að það tækist að framleiða bóluefni gegn SARS-CoV-2 veirunni sem veldur COVID-19 á svo stuttum tíma. „Það er kraftaverki líkast en sýnir hvað hægt er að gera ef allir leggjast á eitt að klára málið.“

Ekki megi gleyma þeim þætti sem lifi innra með okkur og utan á.

„Bakteríur og veirur spila verulega stóra rullu í lífi okkar,“ segir hann. „Þær hafa áhrif á ónæmis- og taugakerfið. Maðurinn og allar þær örverur í honum og á eru ein lífvera og spila saman. Ef maður hugar að heilbrigði þarf að hugsa um alla þessa þætti.“

En er þá einhver þumalputtaregla til þess að forðast ofnæmi? „Borða hollt og hæfilega mikið; vera dugleg að borða grænmeti og sætindi í hófi. Það er gott. Svo þurfum við að stunda hreyfingu.“

 

Ung börn fara hugsanlega á mis við örvun ónæmiskerfisins

„Það er klárt að skoða verður hver áhrif aukins hreinlætis í kjölfar kórónuveirufaraldursins hafa á börn fædd 2020, jafnvel 2021 ef við höldum áfram að spritta, miðað við fyrri ár,“ segir Michael Clausen, barnalæknir á Landspítala.

„Hreinlætiskenningin gengur út á að ónæmiskerfið skorti örvun fyrstu ævimánuðina og því myndi börn frekar ofnæmissjúkdóma. Það munum við örugglega skoða nú í framhaldinu.“ En telur hann að áhrifanna muni gæta? „Það er ekki óhugsandi.“

Tilfinningar tilheyra eðlis- og efnafræði

„Nútímalæknisfærði hefur gleymt þeirri hugsun að hraust sál búi í hraustum líkama og menn aðgreint líkama og sál. Við megum hins vegar ekki aðgreina annað frá hinu,“ segir Michael Clausen ofnæmis- og barnalæknir á Barnaspítala Hringsins.

„Tilfinningar eru rafmagns- og efnafræði í kollinum okkar. Þær eru rafboð um taugar og efnaboð í taugaendum.“ Tilfinningar eru því eðlis- og efnafræði. Það á við ónæmiskerfið líka.

„Þetta er allt sami hluturinn og tengist saman. Það er því ekki hægt að aðskilja líkama og sál.“ Hann segir að læknum finnist oft ónæmisfræði flókin. „Þeir vilja því margir helst ekkert vita af henni en hún er grundvöllur allra nútímavísinda.“

Michael segir margar rannsóknir sýna að börn mæðra sem eru þunglyndar á meðgöngu eða lenda í hremmingum séu líklegri til að fá sjúkdóma tengda ónæmiskerfinu seinna meir. „Við erum að tala um exem og astma, hjarta og æðasjúkdóma.“ Börn sem hafi orðið fyrir illri meðferð í æsku séu líklegri til að vera með mælanlegar bólgur og breytingar í ónæmiskerfi sínu seinna meir.

„Það er hægt að sýna fram á það að álag, streita og vanlíðan sem börnin upplifa og mæður þeirra fóru í gegnum hefur áhrif á ónæmiskerfið,“ segir hann. „Þetta eru tilfinningar. Svo er ónæmiskerfið með tilfinningar?“ Andlegur þáttur er ráðandi um heilbrigði líkamans rétt eins og líkaminn hefur áhrif á andlega heilsu fólks.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica