11. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Lögfræði 34. pistill. Börn sem aðstandendur

Erlendar rannsóknir hafa leitt í ljós að áföll í bernsku, eins og það að missa foreldri, geta haft afdrifarík áhrif á barnið til langframa. Allur stuðningur við börn sem lenda í þessari stöðu er því mikilvægur og nauðsynlegur, hefur almenn forvarnaráhrif, dregur úr kostnaði og líkum á langtímaáhrifum og stuðlar að virkri og farsælli samfélagsþátttöku þeirra til framtíðar.

Fram til þessa hefur hér á landi lítið verið hugað að þessum hópi barna. Þó var gerð rannsókn á stöðu þessara barna að frumkvæði Jóns Bjarnasonar fv. alþingismanns og ráðherra, undir forystu Sigrúnar Júlíusdóttur með stuðningi Ólafar Nordal dómsmálaráðherra. Árangur rannsóknarinnar er þrjár skýrslur þar sem fram koma ýmsar brotalamir í heilbrigðis-, skóla og félagsþjónustu á upplýsingum og stuðningi við þessi börn. Þau eru oft afskipt í veikindum foreldris og þurfa jafnvel að þola kunnáttuleysi og klaufaskap í viðmóti hinna fullorðnu.

Hagstofan hefur birt tölur yfir fjölda barna sem missa foreldri ár hvert. Frá 2009-2018 misstu árlega um 100 börn foreldri sitt, fæst árið 2015 þegar 89 börn misstu foreldri en flest árið 2010, 133 börn. Alls misstu 1007 börn foreldri yfir tímabilið, 525 drengir og 482 stúlkur. Alls létust 649 foreldrar barna á tímabilinu, 448 feður og 201 móðir. Flest foreldranna létust af völdum illkynja æxlis, tæplega 40%. Næstalgengast var að foreldri létist vegna ytri orsaka og eitrana, í tæplega 34% tilvika. Meirihluti foreldra sem létust af þessum ástæðum létust af völdum sjálfsvígs og vísvitandi sjálfsskaða. Þegar dánarorsakir eru skoðaðar eftir kyni og aldri eru ytri orsakir langalgengasta dánarorsök ungra foreldra, 29 ára og yngri. Meðal foreldra eldri en 49 ára voru illkynja æxli algengasta dánarorsökin.

Í júní 2019 samþykkti Alþingi lög um breytingu á ýmsum lögum vegna réttar barna sem aðstandenda nr. 50/2019. Með lögunum eru gerðar breytingar á lögum um réttindi sjúklinga, lögum um heilbrigðisstarfsmenn, barnalögum og lögum um öll skólastigin, það er lögum um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, til að tryggja að börnum sem missa foreldri vegna sjúkdóms eða andláts, sé tryggður viðunandi stuðningur og ráðgjöf í þessum kringumstæðum. Með lagabreytingunum er einnig leitast við að tryggja að ákveðnir verkferlar fari af stað hjá tilgreindum aðilum við andlát foreldris þannig að börn í þessari stöðu verði upplýst um lagalega og félagslega stöðu sína og fái þá þjónustu og þann stuðning sem hin nýju lagaákvæði eiga að tryggja þeim.

Þessi nýsamþykktu lagaákvæði leggja því nýjar skyldur á lækna og aðra heilbrigðisstarfsmenn, sem mikilvægt er að þeir þekki og framfylgi. Samkvæmt nýrri 27. gr. a í lögum um réttindi sjúklinga á:

  1. heilbrigðisstarfsmaður, sem kemur beint að meðferð sjúklings, svo sem læknir, hjúkrunarfræðingur eða félagsráðgjafi, að huga að rétti barns sem er aðstandandi foreldris sem glímir við alvarleg veikindi eða foreldris sem andast.
  2. læknir og aðrir heilbrigðisstarfsmenn skulu kanna hvort sjúklingur með geðsjúkdóma, fíknisjúkdóma eða illvíga líkamlega sjúkdóma eigi barn undir lögaldri. Reynist svo vera skal svo fljótt og unnt er ræða við sjúklinginn um rétt og stöðu barnsins vegna veikinda foreldrisins. Heilbrigðisstarfsmaðurinn, að gættri trúnaðar- og þagnarskyldu, skal hafa samráð við heilsugæsluna þar sem barnið á lögheimili um að bjóða barninu og þeim sem annast það í veikindum foreldris samtal. Ef við á skal heilbrigðisstarfsmaðurinn í samráði við heilsugæslu, félagsmálanefnd sveitarfélagsins og foreldri eða forsjáraðila hafa frumkvæði að samvinnu við skóla barnsins.
  3. læknir, sem gefur út dánarvottorð, skal kanna hvort hinn látni hafi átt barn undir lögaldri. Reynist svo vera skal læknirinn, eins fljótt og unnt er, tilkynna andlát foreldrisins til heilsugæslunnar þar sem barn á lögheimili. Að fenginni slíkri tilkynningu á heilbrigðisstarfsmaður heilsugæslu að bjóða barninu og þeim sem það annast samtal. Ef við á skal einnig, í samráði við félagsmálanefnd sveitarfélagsins og eftirlifandi foreldri eða forsjáraðila, að hafa frumkvæði að samvinnu við skóla barnsins. Mjög mikilvægt er að læknar sem rita dánarvottorð tileinki sér þetta nýmæli í lögunum.
  4. í samtali við barn skal gætt að aldri þess og þroska og hugað að því að aðstoða það við að fá aðgang að viðeigandi úrræðum og veita því upplýsingar um lagalega stöðu þess, s.s. rétt þess til umgengni samkvæmt barnalögum og hvaða félagsleg úrræði eru til staðar.

Í nýrri málsgrein sem bæst hefur við 13. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn eru skyldurnar áréttaðar með því að segja að heilbrigðisstarfsmaður skuli sérstaklega huga að rétti og stöðu barna sem aðstandenda og vísað til framangreindrar 27. gr. a.

Þess er vænst að þær frumkvæðisskyldur heilbrigðisstarfsmanna, þar á meðal lækna, sem felast í þessum nýju lagaákvæðum muni tryggja börnum sem missa foreldri vegna sjúkdóms eða skyndilegs andláts nauðsynlegan stuðning og ráðgjöf og að betur verði virtur réttur þeirra til umgengni við nána vandamenn hins látna foreldris eða aðra nákomna. Allir hljóta að vera sammála um að það er mikilvægt að hlúa að þessum börnum og tryggja að þau fái viðeigandi aðstoð til að vinna úr því áfalli sem foreldramissir er.

Heimildir

1. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna réttar barna sem aðstandenda, 255. mál, þskj. 273 á 149. löggjafarþingi. althingi.is/altext/149/s/0273.html - september 2019.
 
2. Skýrslurnar voru gefnar út 2015-2018 í ritröð Rannsóknastofnunar í barna- og fjölskylduvernd.  
 
3. Hagstofan, frétt 29. apríl 2019. hagstofa.is/utgafur/frettasafn/mannfjoldi/born-sem-missa-foreldri/ - september 2019.  


Þetta vefsvæði byggir á Eplica