09. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Þegar ég verð stór. Valgerður Þorsteinsdóttir

Læknablaðið hefur beðið nokkra lipra penna í læknastétt að senda blaðinu hugleiðingar sínar í dagsins önn.

Klukkan er tuttugu mínútur yfir sjö að staðartíma. Sól og tuttugu og ein gráða. Ég knúsa og kyssi tvær hágrátandi litlar hnátur og hraða mér á lestarstöðina. Mín bíður tólf klukkustunda næturvakt á bráðamóttökunni í Malmö.

Þegar ég kem á minn stað á bráðamóttökunni, „övervaket“, sem samanstendur af sex monitor plássum og þremur einangrunarrýmum, sé ég strax að dagurinn hefur verið annasamur. Nóttin líður hratt og það er stöðugt flæði sjúklinga. Brjóstverkir, mæði, hjartsláttartruflanir, alvarlegar sýkingar, brottfallseinkenni og lyfjaeitranir eru algengustu komuástæður. Konsult frá svæfingu, hjarta, tauga og smit eru til taks auk reyndari kollega á bráðamóttökunni og bráðalyflækningadeildinni. Klukkan níu um morguninn hef ég klárað allar nótur og kominn tími til að fara heim að sofa.

Ég geng hægt út af spítalanum og tek eftir því hvað ég er svöng. Höfuðverkur, ógleði og þreyta. Hugsanirnar löngu orðnar móðukenndar og óskýrar. Ég ákveð að setjast á kaffihús og fá mér morgunmat. Stelpan sem afgreiðir mig er glaðleg, brosir og spjallar á meðan hún býr til kaffi með hjarta í mjólkinni. Ég sest niður og byrja að fara yfir í huganum allt sem ég gerði um nóttina. Fer yfir greiningu og meðferð í huganum. Fer að velta mér upp úr tilfelli um nóttina þar sem greiningin var óljós, byrja að efast um greininguna mína og verð að lokum viss um að ég hljóti að hafa gert stór mistök. Horfi á stelpuna sem er glöð og áhyggjulaus að afgreiða kaffi og velti fyrir mér hvort það ætti ekki vel við mig að vinna á kaffihúsi.

Helginni eyði ég að mestu úti á leikvelli og úti í garði í góðu verði. Kúka-bleyjur, prakkarastrik, frekjuköst, þrif og eldamennska. Hugurinn hvarflar annað slagið til sjúklinganna sem ég hitti á næturvöktunum í vikunni og alltaf finn ég fyrir óþægilegri tilfinningu í maganum. Ég hitti nokkra kvenkyns kollega á laugardagskvöldi og yfir kokteilum ræðum við vinnuna, þrifafyrirtæki, mismunandi matkassa með kvöldmat sem er einfalt að laga, barnapíur og reynslu af au-pairum.

Á mánudagsmorgni byrja ég á nýrri deild. Í lok dagsins sest ég niður og fer yfir sjúkraskrár allra sjúklinganna sem ég hitti á næturvöktunum. Allt hefur gengið vel. Næstu þrjár vikurnar ber ég ábyrgð á sjö sjúklinga teymi á lungnadeildinni. Það er góður andi á deildinni og góður sérfræðingur. Í lok vikunnar hef ég náð góðum tengslum við sjúklinga og aðstandendur. Fundið tilganginn með starfinu aftur.

Ég var nítján ára þegar ég ákvað að verða læknir. Ég hafði ákveðna hugmynd um læknisstarfið. Rómantíska hugmynd um að hjálpa fólki en ekki raunsæja mynd af starfinu. Læknanámið og starfið hefur breytt mér sem persónu og haft margvísleg áhrif á mitt líf. Gefið mér margt en einnig á tímabilum verið mér erfitt og valdið miklu álagi, á stundum andlegu álagi og á stundum andlegum og líkamlegum einkennum vegna vinnuálags.

Nú nýlega birtust niðurstöður könnunar sem Félag ungra sænskra lækna stóð fyrir í sænska læknablaðinu. Þar kemur fram að næstum einn af hverjum þremur ungum læknum í Svíþjóð metur það nokkuð eða mjög trúlegt að innan fimm ára muni þeir skipta um starfsvettvang. Algengustu uppgefnu ástæður voru launakjör, vinnuumhverfi, mikið vinnuálag, mikil ábyrgð og litlir möguleikar á að hafa áhrif á vinnutíma og aðstæður í vinnunni.

Ég veit ekki til þess að svipuð könnun hafi verið framkvæmd á Íslandi. En það er ekki ólíklegt að hlutföllin séu svipuð, að um 1/3 ungra lækna eigi erfitt með að höndla ábyrgð og álag sem fylgir starfinu, þó að ég eigi erfitt með að trúa að svo stór hluti íslenskra kollega hafi hugsað sér að skipta um starfsvettvang.

Við eigum fjölmarga duglega, drífandi lækna sem eiga ekki í sömu erfiðleikum og ég, og kannski nokkrir aðrir, að efast um eigin getu og dómgreind, hafa áhyggjur þegar heim er komið og eiga í talsverðum erfiðleikum með að finna jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Það er mín tilgáta að þeir sem sækjast eftir stöðu yfirlækna og aukinni ábyrgð tilheyri ekki þessum hópi sem finnst starf hins almenna læknis svo krefjandi. Einhverjir yfirlæknar eiga því erfitt með að sjá ástæður þess að starfs-umhverfið þurfi að breytast, starfsumhverfi sem er sniðið að þeim sem eiga auðvelt með að höndla álag og ábyrgð. Við getum haldið áfram á sömu braut en þá tökum við þá áhættu að missa hluta vel menntaðra lækna í önnur störf og í sjúkraleyfi vegna álagstengdra sjúkdóma.

Ég hef brennandi löngun til að verða framúrskarandi góður læknir. Ég vona að við getum hjálpast að við að búa til gott starfsumhverfi svo að „aumingjar“ eins og ég geti átt möguleika á farsælum starfsferli innan heilbrigðiskerfisins á Íslandi.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica